Borgfirðingabók - 01.12.2008, Page 196
196 Borgfirðingabók 2008
margar frostnætur. Eftir miðjan september byrjuðu umhleypingar og
kuldaköst sem héldust allt árið út. Varð þá að taka fénað á gjöf um
veturnætur. Haustverk var illt að vinna og haugar stóðu víða óhreyfðir
til vors. Um sólstöðurnar gjörði rigningar og vatnavexti sem héldust
árið út.
Heyannir byrjuðu yfirleitt kringum 20. júlí. Taða hraktist, en úthey
verkuðust vel. Þó settu margir það ár talsvert í súrhey. Garðávextir
náðu ágætlegum vexti þetta ár. En sumstaðar urðu þeir þó til í görðum
sökum ótíðarinnar um haustið.
Heilsufar fólks var yfirleitt gott og skepnuhöld í ágætu lagi.
Allar vörur voru stígandi frá fyrra ári. En flestir munu hafa staðið
efnalega í stað og ekki safnað skuldum að mun.
Árið 1918
Það mun verða mörgum minnistætt, og seint gleymast ýmsir viðburðir
þess.
Sjötta janúar rak hafís að öllu Norðurlandi, að sögn frá langanesi
til Hornstranda. Þann dag var hér alveg voða veður. Tillag fyrir
menn og skepnur að jörð var snjólaus. Auðvitað léttist hún að mun.
Frost var þann dag 20 stig á celsíus. Kuldarnir voru afskaplegir þá
um tíma. 20. janúar komst það upp í 32 stig, og var þá það um þrjá
daga, suma þeirra var bylur. Tóku þá allir hross sem áttu á göngu
hér um Borgarfjörð. Þá daga lagði Hvítá fram undir Sámsstaðagil.
lá hún undir ísum fram að Þorgautsstöðum oft og var gengin hjá
Fróðastöðum. Að sjálfsögðu mundi hana hafa lagt lengra ef snjór
hefði verið á jörðu. Erfitt var að hita upp bæi, og fraus víða slátur
og jarðávextir. Sagt er að Norðlendingar hafi fundið beinagrindur af
fjórum hrossum um vorið er úti urðu á Arnarvatnsheiði, en eitt sást er
álitið er að hafi lifað af á heiðinni.
Um miðgóu kom þíða, svo jörð var marþíð. Urðu menn vongóðir
með að tíð færi að skána. En það stóð ekki lengi sá bati, því frost
kom enn á agablauta jörð rétt fyrir pálma. Kól hana þá afskaplega,
og mun hún þá hafa farið verst fyrir grasvöxtinn um sumarið. Um
sumarmálin kom góður bati er stóð fram í júní. Gras spratt undra
lítið, sem vafalaust var frostinu að kenna um veturinn. Þó varð batinn
til þess að fé varð sleppt og lambahöld urðu góð um vorið. Með júní
kólnaði aftur, og kom kyrkingur í þá litlu nál sem áður var komin.