Borgfirðingabók - 01.12.2008, Page 199
199Borgfirðingabók 2008
víða að ekkert sá móta fyrir akveginum. Varð honum aðeins haldið
af brautum er ferðamenn tróðu. Fjallagirðingar fóru svo í kaf að ekki
sást móta fyrir þeim á sléttum hæðum. Er óhætt að segja þar snjóinn
metra þykkan á jafnlendi.
Í mars síðast komu dálitlir hagar þar sem rifið hafði til um veturinn,
en á annan í páskum rauk hann aftur upp og var norðangarður alla
þá viku. Um síðustu vetrarhelgi kom aftur þíða. Var þá stóði sleppt
sumstaðar og ekki tekið eftir það. Norðankuldar og harðindi héldust
þó lengst af fram undir hvítasunnu, slepptu þó sumir fé nokkru áður
er góð beitilönd höfðu, því jörð var góð er hún kom undan snjónum.
Veðrátta var sæmileg eftir hvítasunnu, en furðu seint spratt jafn
klakalítil og jörð var. Grasvöxtur var lítill um sumarið. Kringum 20.
júlí var byrjað að slá. Brá þá til óþurrka svo nýting var slæm allt
sumarið. Heyafli var því yfirleitt lítill og slæmur, hér þó talsverður að
vöxtum. Settu margir þá í súrhey.
Haustið var afar hryðjusamt en frost voru lítil. oftast ristuþítt í
túnum fram undir jól. Nokkru fyrir þau var fé tekið og farið að hára
því. Var það þá mikið farið að leggja af eftir hausthretin.
Skepnuhöld voru sæmileg þetta ár hér um slóðir. Fáir urðu heylausir
í þessum hrepp, en ógrynni voru gefin af fóðurbæti, rúgmjöli og síld.
Var með því svo að segja haldið lífinu í skepnunum. Var það afar
kostnaðarsamt, þar sem tunnan kostaði 74 kr. og náði hún þá hámarki
sínu. Riðu þau útgjöld baggamuninn á sjálfstæði margra bænda víða
um landið.
Dýrtíðin var afskapleg þetta ár. Sykur varð 4,50 og höggvinn og
4 krónur kg. olía var krónu potturinn. Skippund af kolum kostaði
við 50 kr. Tylft af málsborðum 80 kr. líkt verð var á álnavöru.
Sement komst upp í 50 kr. tunnan þegar hæst steig. Kaupgjald var
óbærilegt. Kaupamenn höfðu um 100 krónur á viku sumstaðar,
kaupakonur 50 kr. Ær voru seldar á 100 um vorið og dilkar lögðu sig
á Reykjavíkurmarkaði á 40-50 kr. Jarðir komust í hámark, en það ár
féll kjöt í verði er fram á vetur kom og sumstaðar varð mjög slæm
sala á því.
Jarðávextir spruttu illa; seint var sett.
Heilsufar var gott. Skepnuhöld allgóð.
Árferði var til sveita eitt hið erfiðara sem lengi hafði þekkst.