Borgfirðingabók - 01.12.2008, Síða 202
202 Borgfirðingabók 2008
frá Hamri stendur við upphaf skáldferils síns og á margar þrautir
óleystar, en hann á þor og hugkvæmni sem eiga eflaust eftir að færa
honum marga sigra…“ (Morgunblaðið 15. júní 1958 bls. 14).
Skemmst er frá því að segja að Sigurður reyndist sannspár;
rithöfundarferill Þorsteins hefur verið afar blómlegur og hafa verk
hans hlotið margskonar viðurkenningar og fjölmargar tilnefningar.
Árið 1996 var hann jafnframt sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku
Fálkaorðu fyrir ritstörf sín.
Fyrirferðamestar í höfundarverki Þorsteins eru ljóðabækur hans,
en út hafa komið 20 ljóðabækur á 47 ára tímabili, sú fyrsta árið 1958
einsog áður greinir og sú síðasta hingað til, Dyr að draumi, árið 2005.
Þrátt fyrir svo langt tímabil hefur þótt góður heildarsvipur á verkum
hans, ljóðheimurinn heilsteyptur en að sama skapi óvenjulegur
í nýjum kveðskap, búinn til úr tungutaki sem á sér rætur í langri
bókmenntahefð Íslendinga sem og vísunum í fornar sögur og ljóð.
(Silja Aðalsteinsdóttir 2006 124-126). Fyrir ljóðabók sína Sæfarinn
sofandi hlaut Þorsteinn Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki
fagurbókmennta árið 1992.
Útgefnar skáldsögur Þorsteins eru þrjár. Sú fyrsta Himinbjargar-
saga eða skógardraumur kom út 1969 og hlaut tilnefningu til
bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1972. Möttull konungur eða
Caterpillar kom út 1974 og Haust í Skírisskógi 1980, en fyrir hana
hlaut Þorsteinn Menningarverðlaun DV í bókmenntum. Allar eiga
sögurnar það sammerkt að efnivið þeirra sækir Þorsteinn í ýmsar áttir
og blandar saman jafnt ævintýraminnum, kveðskap, þjóðsögum og
skírskotunum í samtímann svo eitthvað sé nefnt.
Í Möttli konungi eða Caterpillar er Borgarfjörður sögusviðið
og þar eins og víða nýtir Þorsteinn sér þjóðsagnaarfinn og leitar
til þjóðsagna Jóns Árnasonar. Uppistaða sögunnar er sagan af
hellismanninum Eiríki sem einfættur hljóp undan ofsækjendum sínum
upp á Eiríksjökul. Sögumaðurinn er hinsvegar skáldmælt afturganga
frá tíundu öld sem heima átti á Gilsbakka. Sagan er eintal hennar við
skurðgröfumenn sem vinna við að ræsa fram mýrar. Þorsteinn segir
svo frá; ,,Í sveitina kom merkilegt fólk sem varð sögulegt í augum
barns, til dæmis skurðgröfumenn. Minningar um þá hafa komið við
sögu í skrifum mínum. Það er í Möttli konungi eða Caterpillar, þar
sem ég grauta saman ýmsum endurminningabrotum, fornum sögum
og alls konar draumórum“ (Matthías Viðar Sæmundsson 1985: 177-
178).