Borgfirðingabók - 01.12.2008, Page 203
203Borgfirðingabók 2008
Heimahérað Þorsteins er einnig
viðfangsefni hans í annarri bók,
þó af ólíkum toga sé. Árið 1990
kom út bókin Hallgrímur smali
og húsfreyjan á Bjargi, söguþáttur
úr Borgarfirði. Þar eru einkum
rekin örlög feðginanna Hallgríms
Högnasonar (1799-1834) og
Kristrúnar dóttur hans (1833-
1912). Áður hafði Þorsteinn sent
frá sér tvær bækur með svipuðu
efni: Skuldaskil, þættir úr
íslenzku þjóðlífi, kom út 1963 og
Ætternisstapi og átján vermenn,
þættir, kom út 1987, en sú bók er
að meginhluta byggð á efni sem
Þorsteinn bjó til flutnings og flutt var í ríkisútvarpinu. Að baki þessum
bókum liggur ýtarleg heimildavinna þar sem víða er leitað fanga.
Þorsteinn hefur töluvert fengist við þýðingar, einkum á sögum og
ljóðum handa börnum. Fyrir þýðingu sína á sagna- og vísnasafninu
Gestir í gamla trénu hlaut hann Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs
Reykjavíkur árið 1981.
Á sextugasta aldursári Þorsteins árið 1998 kom ritsafn hans út, en
það hefur að geyma allar ljóðabækur hans til þess tíma, skáldsögurnar
þrjár og sagnaþáttinn um Hallgrím smala og húsfreyjuna á Bjargi. Þá
er þar að finna ýtarlega ritgerð Njarðar P. Njarðvík þar sem hann
fjallar um hvert og eitt ritverk Þorsteins. Þá má einnig geta þess að ári
áður kom út geisladiskurinn Ljóðið ratar til sinna þar sem Þorsteinn
les eigin ljóð.
Það fer kannski vel á því að ljúka þessari stuttu kynningu á
merkilegum og farsælum rithöfundarferli Þorsteins frá Hamri með
því að birta eitt ljóða hans. Það er að sjálfsögðu úr vöndu að ráða
eftir jafn yfirgripsmikinn feril og raun ber vitni. Fyrir valinu að þessu
sinni verður ljóðið, Kveðja úr fyrstu ljóðabók hans (hér tekið úr
áðurnefndu ritsafni, bls. 12) þar sem skáldskapurinn sjálfur er eins
og víðar í ljóðum hans yrkisefnið:
Þorsteinn frá Hamri.