Borgfirðingabók - 01.12.2008, Page 207
207Borgfirðingabók 2008
úti í skógargirðingu. Hlutu þær nú nafnið „Skógardísirnar“ og gengu
undir því nafni alla tíð.
Þetta vor voru þær settar á fjall, en eftir leitir um haustið leið ekki
á löngu uns þær voru komnar á sinn stað. Gerist nú ekkert merkilegt
næsta vetur, en aldrei voru þær ánægðar nema þær væru í sömu
krónni.
Veturinn leið, vorið kom og sauðburður hófst. Einn morguninn var
önnur Skógardísin borin. Hafði hún eignast tvær fallegar gimbrar, og
nokkru seinna sama dag frétti ég að hin væri borin og einnig átt tvær
gimbrar.
Nú höfðu Skógardísirnar nógu öðru að sinna en leita hvor að
annarri, allt snerist um lömbin, sem eðlilegt var.
Sumarið er liðið, komið langt fram á haust, sláturtíð lokið, en
lífgimbrar ganga enn undir mæðrum sínum, þar á meðal allar gimbrar
Skógardísanna.
Einn daginn gerði norðan hret, hvassviðri með snjókomu og
hópaðist flest féð saman við fjárhúsin og var því hleypt inn.
Morguninn eftir hafði veðrið gengið niður. Voru lífgimbrar þá
teknar úr og settar í sínar krær, en fullorðnu ánum hleypt út. Í fyrstu
gekk mikið á, jarmað bæði úti og inni, en hjaðnaði þó smám saman,
eftir að ærnar höfðu verið reknar suður fyrir veg, þar sem talið var að
væri nokkuð örugg girðing. Þó fór það svo að þegar ærnar voru teknar
á hús, vantaði Skógardísirnar. Ástæðulaust var að hafa áhyggjur af
því, enginn vafi lék á hvar þær væri að finna, þær mundu vera komnar
á fornar slóðir, og reyndist það rétt.
Árin liðu hvert af öðru. Skógardísirnar farnar að eldast, en héldu þó
alltaf uppteknum hætti, skiptu sér ekkert hvor af annarri á meðan
lömbin gengu undir þeim, en tóku fljótlega saman, þegar þau höfðu
verið tekin undan.
Svo var það einu sinni sem oftar að vori til að ég fékk mér
göngutúr snemma morguns. Ég var þá eins og einatt á þessum árum
með sundnámskeið og þótti gott að fara út áður en ég byrjaði kennslu
og notaði þann tíma til að huga að ánum um sauðburðinn, enda hafði
ég ekki annan tíma til slíkra verka.
Þegar ég kem niður á Bæjareyrina, er greinilegt að þar er eitthvað