Fréttablaðið - 27.01.2023, Blaðsíða 18

Fréttablaðið - 27.01.2023, Blaðsíða 18
Ég vil helst vera fyrirmynd fyrir hvaða kyn sem er í atvinnurekstri. Ásta Sigríður Fjeldsted, for- stjóri Festi, hlaut í gær viður- kenningu Félags kvenna í atvinnurekstri. Hún segir viðurkenninguna hafa komið sér í opna skjöldu. thordisg@frettabladid.is „Já, það kom mér heldur betur á óvart að fá FKA-viðurkenninguna og ekki dró úr því eftir að ég kynnti mér listann yfir konurnar sem hafa hlotið þessa viðurkenn- ingu í gegnum árin. Það er nett pressa að feta í fótspor þeirra og ef ég get lagt eitthvað af mörkum við að ryðja brautina enn frekar fyrir næstu kynslóðir kvenna, líkt og kvenskörungarnir sem ruddu brautina fyrir mína kynslóð, mun ég fyllast stolti. Annars horfi ég fyrst og fremst á viðurkenninguna sem hvatningu til að halda áfram á þeirri vegferð sem ég er á með stjórn fyrirtækisins og einstöku samstarfsfólki sem mér hefur hlotnast að vinna með – og láta gott af mér leiða.“ Þetta segir Ásta Sigríður Fjeldsted sem í gærkvöldi hlaut viðurkenningu Félags kvenna í atvinnurekstri (FKA). Viðurkenn- ingin er veitt fyrir vel unnin störf í þágu atvinnureksturs kvenna, eða þeim sem hafa verið konum í atvinnulífinu sérstök hvatning. „Ég hef ekki velt því fyrir mér hvort ég sé sérstök fyrirmynd fyrir konur í atvinnurekstri en að sjálfsögðu er ég meðvituð um ábyrgðina sem fylgir því að stýra stóru fyrirtæki. Ég vil helst vera fyrirmynd fyrir hvaða kyn sem er í atvinnurekstri,“ segir Ásta. Meðvituð um hið ómeðvitaða Ásta er innt eftir því hvað hún hafi tileinkað sér í starfi konum til framdráttar og hvatningar. „Ég reyni eftir fremsta megni að vera meðvituð um hið ómeð- vitaða. Ég hélt stutt erindi um þetta efni á Jafnvægisvog FKA 2022 þar sem ég varpaði því fram að ég teldi engan ætla sér vísvitandi að mismuna fólki vegna kyns, þjóðernis, menntunar, aldurs eða trúarbragða. Flest viljum við vera til fyrirmyndar að þessu leyti og veita öllum jöfn tækifæri – sýna í verki að við erum meðvituð um mikilvægi sanngjarnra ákvarðana í þessum efnum. Ákvarðana sem stuðla að fjölbreyttu samfélagi þar sem við höfum öll jafnan rétt og möguleika til að blómstra í lífi og starfi. Ég lít á það sem mína ábyrgð að tryggja að ákvarðanir innan félaga Festi séu ekki litaðar af ómeðvitaðri hlutdrægni og að við horfumst í augu við samsetningu hópsins hjá okkur, tryggjum fjölbreytni þvert á kyn, uppruna, menntun, aldur, kynhneigð og svo framvegis. Þannig tel ég að við munum laða að besta fólkið og ná árangri til lengri tíma.“ Sannur Breiðhyltingur Ásta er fædd og uppalin í Selja- hverfinu í Breiðholti. „Pabbi var skólastjóri í Hóla- brekkuskóla og mamma kennari þar. Landamæri minnar heims- myndar voru Breiðholtsbrautin og Mjóddin svo ég hef því ávallt litið á mig sem sannan Breiðhylting. Bestu vinir mínir og vinkonur eru enn í dag þaðan. Frá unga aldri var ég haldin mikilli útþrá og þráði að upplifa eins mikið af ólíkum löndum og mögulegt væri. Ég fékk fyrst að svala þeim þorsta á 13. árinu þegar ég fór tvisvar í tveggja mánaða vist hjá danskri vinafjölskyldu mömmu og pabba. Komst upp á lagið með dönskuna og þá varð ekki aftur snúið. Að ná tökum á einhverju sem í fyrstu virðist óraunhæft var eitthvað sem ég fann strax að veitti mér sanna lífsfyllingu,“ segir Ásta sem tók ung snúninga á töluverðri ævintýra- mennsku – allt frá því að fara í frekara nám erlendis, í Danmörku og Frakklandi, yfir í bakpokaferða- lag um hálfan hnöttinn þar sem Síberíuhraðlestin var hvað eftir- minnilegust og að vinna nokkur ár í Asíu. „Ég trúi því að maður eigi að elta drauma sína og prófa nýja hluti snemma, áður en maður verður of fastmótaður og hræddur við að taka áhættu.“ Sanngjörn en ákveðin Ásta er vélaverkfræðingur að mennt. Hún tók við starfi forstjóra Festi í september síðastliðnum, eftir að hafa verið framkvæmda- stjóri Krónunnar tvö árin á undan. „Forstjórastarfið er vissulega krefjandi, en um leið gefandi og þannig hafa fyrstu mánuðirnir flogið frá mér. Ég er vissulega enn að kynnast starfinu og móta, en rétt eins og í öðrum stjórnenda- störfum snýst þetta um fólkið sem maður vinnur með alla daga, að veita því rými og stuðning til að ná árangri. Því meiri ábyrgð sem maður tekur á sig, þeim mun mikilvægara er að skilja vel rekstur allra eininga í grunninn en um leið hafa augun á stóru myndinni – og horfa lengra fram í tímann. Ábyrgð gagnvart hluthöfum í skráðu félagi eins og Festi er mikil en ekki síður gagnvart samfélaginu, almenningi sem reiðir sig á okkar þjónustu, bæði hagstætt verð, gæði og umhverfisábyrgð. Hjá Festi starfa um 2.000 manns og ég set velferð þeirra líka í öndvegi í okkar rekstri,“ segir Ásta. En hvernig stjórnandi er Ásta? „Ég vona að ég sé sanngjörn, þó ég sé ákveðin, að ég leyfi sam- starfsfólki mínu að njóta þess árangurs sem það nær og það njóti trausts og sjálfstæðis í störfum sínum, þó svo ég leggi upp úr upp- lýsingagjöf, skipulagi og mælan- legum markmiðum.“ Er engin ofurkona Eftir áralöng störf á erlendum vettvangi segir Ásta helstan mun á atvinnulífinu hér heima og úti vera umhverfið sem sé að mörgu leyti mannlegra á Íslandi. „Úti kynntist ég samkeppni sem gat verið ansi hörð. Lærdómurinn þar, eins og hér, er að góður undir- búningur og fagmennska er lykill að öllum árangri. Það þekkja allir týpuna sem lætur eins og hún hafi ekkert fyrir hlutunum, en skilar öllu af sér upp á tíu, en það liggur alltaf mikil vinna að baki öllum árangri,“ greinir Ásta frá. Hún segir engan lenda í því að verða eitthvað og sjaldnast eða aldrei sé bein lína frá upphafs- punkti að stórkostlegu starfi. „Ég hef sóst eftir hlutverkum, skólum og störfum í gegnum árin og ekki fengið – rétt eins og aðrir. Þau sem vilja ná árangri vinna að því baki brotnu. Það þarf að hafa fyrir hlutunum og grípa tæki- færin og þó svo að hlutirnir gangi ekki alltaf upp eða verði eins og vonast var til – má ekki gefast upp. Svolítið eins og í íþróttum – það er geggjað að vinna en mikilvægt að kunna líka að tapa.“ Mikilvægast sé að hafa gott fólk í kringum sig, bæði á heimavelli og vinnustað. „Að finna að maður hafi stuðning, skilning og fái aðstoð þegar á þarf að halda. Ég hefði ekki sóst eftir því að verða forstjóri ef ég vissi ekki að ég hefði sterkt bakland. En svo er lífið líka stutt og hverfult og mikilvægt að láta slag standa – taka slaginn en vera klár í bylturnar sem geta fylgt,“ segir Ásta. Hún er þriggja barna móðir og nú í fæðingarorlofi með níu vikna syni sínum meðfram því að vera í reglulegu sambandi við stjórn og stjórnendur fyrirtækisins. Hún kveðst þó engin ofurkona. „Það tekur vissulega á stundum, en ég á góða að og börnin heil- brigð. Ég reyni að þiggja alla þá aðstoð sem mér býðst. Án þess væri þetta ekki mögulegt.“ n Að baki árangri liggur alltaf mikil vinna Ásta Sigríður Fjeldsted er forstjóri Festi. Að baki sjást öll þrjú rekstarfélög Festi: Krónan, ELKO og N1. FRÉTTABLAÐIÐ/ ANTON BRINK K A V IT A 4 kynningarblað A L LT 27. janúar 2023 FÖSTUDAGUR

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.