Veiðimaðurinn - 01.08.1984, Qupperneq 46
Harry meö laxinn (íjósm. Þröstur ElliSason).
Við fengum heldur betur að kenna á
straumnum, því hann náði okkur næstum
upp að mitti, og munaði oft litlu, að hann
tæki okkur með sér. Okkur tókst naumlega
að komast yfir í tæka tíð. Við vorum orðnir
heldur kaldir og blautir, er við komumst í
land. Við létum það ekki á okkur fá, heldur
héldum af stað á eftir laxinum, því það
mátti ekki tæpara vera, að hann hefði slitið.
Mér tókst að ná inn megninu af línunni,
sem farið hafði út, þegar við vorum í vand-
ræðunum við hæðina, og ná síðan nokkurn
veginn hliðarátaki á hann.
Eftir u.þ.b. 50 mínútna viðureign voru
farin að fínnast þreytumerki á laxinum.
Eg var farinn að geta dregið hann nær landi
en áður, en samt vorum við ekkert farnir að
sjá í hann.
Við vorum komnir þar, sem áin breikkar
og verður straumminni. Við ákváðum að
reyna að koma laxinum eins nálægt landi
og unnt var, og reyna síðan löndun. Eins
og ég gat um áður höfðum við enn ekki séð,
hve laxinn var stór, svo það var spennandi,
þegar Þröstur óð út í með háfinn, í áttina
til laxins, meðan ég reyndi að koma honum
eins nálægt landi og ég gat. Laxinn var
ekki meira en einn metra frá landi, þegar
Þröstur stakk háfnum út í. Já, þetta ætlaði
að takast. Laxinn lyftist tignarlega upp úr
vatninu. En ekki fór hann ofan í háfínn,
sem datt í sundur við átökin.
Það var eins og laxinn yrði alveg óður,
þegar hann skall aftur í vatnið. Hann rauk
út með ofsahraða, beint upp á eyri úti í
miðri á. Það var óskemmtileg sjón að sjá
laxinn sprikla á eyrinni og berja spóninum
í steinana. Við óttuðumst, að hann sliti
línuna á steinunum. En það var ekkert
við þessu að gera. Það tók því ekki að reyna
að vaða út í til hans, bæði var djúpt þarna
og laxinn hefði líklega verið kominn út í á,
áður en við kæmumst að eyrinni. Við von-
uðum því bara það besta.
Laxinn var fljótur yfir eyrina og út í á
aftur. Það var auðséð, að honum hafði ekki
líkað vistin á eyrinni. Um leið og hann var
kominn út í, tók hann enn einu sinni á rás
niður á. En það var heldur stutt roka, því
það var farið að draga mikið af laxinum, og
stutt í endalokin, enda var hann búinn að
berjast yfir klukkutíma fyrir lífinu.
Endalokin urðu þau, að mér tókst að
draga laxinn upp í lygna vík rétt fyrir
neðan eyrina, sem laxinn hafði farið yfir.
Þar tókst Þresti að ná sporðtaki á laxinum
og vippa honum á land.
Þetta reyndist nýrunnin 12 punda
hrygna.
Við dáðumst mikið að laxinum og döns-
uðum næstum því af gleði. Sérstaklega var
ég ánægður með fyrsta laxinn minn.
En ég var ekki einn um að fá lax þennan
dag. Bræðurnir fengu tvo fallega laxa síðar
um daginn, og var annar 17 pund.
Eg held mér sé óhætt að segja það svona
í lokin, að þetta hafi verið skemmtilegasti
dagur, sem ég hef upplifað, og ég vona
bara, að þeir eigi eftir að verða fleiri.
44
VEIÐIMAÐURINN