FLE blaðið - 01.01.2021, Qupperneq 20
20 FLE BLAÐIÐ JANÚAR 2021
Hjónum ber að veita hvort öðru upplýsingar um efnahag sinn
og afkomu. Þannig eiga hjón að ræða saman um fjármál sín og
taka sameiginlegar ákvarðanir um rekstur heimilisins. Hér er
byggt á samstöðu hjóna, sameiginlegri ábyrgð þeirra og trúnaði
sem ríkir á milli þeirra. Þótt meginreglan sé að hvort hjóna beri
ábyrgð á þeim skuldbindingum sem á því hvíla og að annað
hjóna geti ekki skuldbundið hitt með samningi, skal jafnframt
bent á lögmæta ábyrgð á sköttum hvors annars, sbr. 116. gr.
tekjuskattslaga nr. 90/2003.
SKILNAÐUR AÐ BORÐI OG SÆNG
Hjúskaparlög mynda lagagrundvöll fyrir hjúskap tveggja
einstaklinga. Lögin gilda aðeins um hjónaband, en ekki óvígða
sambúð.
Þegar hjón hafa ákveðið að skilja eru að meginefni tvö atriði
sem þarf að hafa í huga sem næstu skref. Skilnaður að borði og
sæng eða lögskilnaður. Oftast er skilnaður að borði og sæng það
úrræði sem hjón fara í gegnum, en fjallað er um skilnað að borði
og sæng í 33. – 35. gr. hjúskaparlaga. Þar segir m.a. að ef hjón
eru sammála um að óska leyfis um skilnað að borði og sæng
ber þá að veita þeim leyfi slíks skilnaðar. Í 34. gr. laganna kemur
fram að ef annað hjóna telur sig ekki geta haldið áfram hjúskap
á það rétt á skilnaði að borði og sæng. Hinn aðili hjónabands-
ins þarf að sæta þeirri ákvörðun makans og getur þriðji aðili, svo
sem sýslumaður ekki metið kröfuna. Sýslumaður verður að sinna
þeirri kröfu sem fram er komin og veita leyfið að öðrum skilyrð-
um uppfylltum.
Ef hjón eru sammála um skilnað að borði og sæng, má gera ráð
fyrir að samkomulag verði jafnframt milli þeirra um skiptingu
eigna og skulda, með fjárslitasamningi, en slíkur samningur þarf
að liggja fyrir til að leyfi verði veitt. Ef annað hjóna krefst skilnað-
ar, sem ekki er samþykkt af maka, má gera ráð fyrir að krafa um
opinber skipti liggi fyrir, ef ekki næst samkomulag um fjárslita-
samning milli hjónanna.
Skilnaður að borði og sæng er ekki endanlegur og því er sú staða
uppi að ef hjón halda áfram sambúð, umfram stuttan tíma sem
sanngjarnt er að ætla þeim eða taka upp sambúð aftur meðan
tímabil skilnaðar að borði og sæng er enn virkt, falla réttaráhrifin
niður og verður ekki grundvöllur til lögskilnaðar. Þetta kom skýrt
fram í dómi Hæstarréttar Íslands í máli HRD. 46/2008, þar sem
tekist var á um hvort skilyrði til skilnaðar að borði og sæng hefði
fallið niður, þar sem hjónin höfðu tekið upp sambúð að nýju, eftir
að leyfi til skilnaðar að borði og sæng hefði verið leyft.
Höfðu hjónin tekið upp sambúð sem varað hafði í þrjá og hálfan
mánuð og voru þau ekki sammála um hvort um hafi verið að
ræða skammvinna tilraun til að endurvekja samvistir að nýju, eða
hvort leyfisveitingin hafi fallið niður. Dómurinn staðfesti að þessi
tími hefði verið lengri en svo að talist gæti til skammvinnrar til-
raunar til að endurvekja samvistir þeirra. Var því talið að réttar-
áhrif skilnaðar að borði og sæng hefði fallið niður.
Hjón sem hafa fengið leyfi til skilnaðar að borði og sæng og
eru á einu máli um að óska lögskilnaðar, geta fengið hann stað-
festan eftir sex mánuði, frá því leyfi var veitt. Ef ekki er sátt
milli aðila um að óska lögskilnaðar, á hvor maki fyrir sig, rétt á
lögskilnaði þegar ár er liðið frá því leyfi til skilnaðar að borði og
sæng var veitt. Skiptir þannig afstaða hins aðila hjónabandsins
ekki máli. Ef hins vegar um ósamlyndi er að ræða, þ.e. að annar
aðilinn flytur út af heimilinu og sambúðin er með þeim hætti að
ekki er óskað eftir skilnaði að borði og sæng, þá þarf að bíða
í tvö ár áður en möguleiki er að krefjast lögskilnaðar. Hér er
sönnunin hjá þeim sem sækir um skilnað.
Þegar hjón eða annað þeirra, fer fram á skilnað að borði og
sæng, helst gagnkvæm framfærsluskylda milli hjóna. Ef annar
aðilinn krefst framfærslu, er oftast haft sem viðmið hvað við-
komandi getur aflað sjálfur og hvað hinn getur verið aflögufær
um. Hér koma til skoðunar sjónarmið um lengd hjúskapar og
annað sem kann að hafa áhrif á fjárhæðina svo sem hvort sá
sem krefst framfærslu hafi unnið heima í langan tíma og fleira.
Framfærsluskylda fellur oftast niður við lögskilnað, með undan-
tekningum þó.
Lögskilnaður strax
Til þess að hjónaskilnaður gangi í gegn, án undangengins leyfis
til skilnaðar að borði og sæng, eru ekki margir valkostir. Svo
virðist sem löggjafinn hafi ákveðið að setja þröskulda til að gera
fólki erfiðara fyrir að fá strax heimild til lögskilnaðar, án undan-
gengis leyfis til skilnaðar að borði og sæng.
Eins og áður er vikið að, þurfa hjón að bíða í sex mánuði eftir að
leyfi er fengið til skilnaðar að borði og sæng, til að fá lögskilnað,
ef hjónin eru sammála um skilnað. Það tímamark getur orðið
12 mánuðir eða 2 ár, líkt og nefnt var að framan. Það eru þrjú
tilvik sem heimila lögskilnað án undangengis skilnaðar að borði
og sæng, þ.e. tvíkvæni, hjúskaparbrot og líkamsárás eða kyn-
ferðisbrot.
Tvíkvæni
Í tilviki þegar annar makinn hefur gengið tvisvar í hjónaband,
getur sá sem hann giftist fyrst, krafist hjónaskilnaðar sem þá
tekur strax gildi. Sá sem hann giftist síðar hefur hins vegar ekki
þennan skilnaðarrétt, því ef það kemur í ljós að hjónaband var
ekki heimilt verður það ógilt, sbr. 11. gr. hjúskaparlaga sem
segir að eigi má vígja þann sem er í hjúskap.
Hjúskaparbrot
Hjúskaparbrot er sú leið sem mjög oft er valin, þegar ákvörðun
um skilnað liggur fyrir hjá öðru eða báðum aðilum, án þess að
vilja fara í gegnum skilnað að borði og sæng fyrst. Í þeim tilvik-
um fá löggiltir endurskoðendur slík mál oft inn á borð. Þessi
leið hefur oft verið notuð, án þess að um raunverulegt hjúskap-
arbrot er að ræða, heldur til að ljúka lögskilnaði svo hjónin geti
farið hvort sína leið. Annað hjónanna staðfestir hjúskaparbrot
frammi fyrir sýslumanni til að skilnaður gangi hratt í gegn.