Tölvuheimur - 01.08.2003, Page 4
R I T S T J Ó R A S P J A L L
Það er gaman þegar gengur vel hjá Íslendingum í
útlöndum. Í blaðinu er að þessu sinni rætt við nokkra ein-
staklinga sem eru að gera það gott með hugbúnað á
heimsvísu. Svo er á síðum blaðsins vitanlega að finna fasta
liði og áhugavert efni um nýjustu tækni, eins og venjulega.
ÁBERANDI Í NOREGI
Einn þeirra sem verið hefur áberandi um nokkurra ára
skeið er Jón Stephenson von Tetzchner hjá Opera
Software. Hann ætlar að sigra heiminn með því að búa
til Internetvafra sem öllum líkar við og hægt er að nota
á öllum tækjum og tólum með hvaða stýrikerfi sem er.
Opera á í samstarfi við risafyrirtæki um heim allan um
þróun á vafratækni og hefur að sögn Jóns þegar tekist,
fyrstu fyrirtækja, að koma Internetinu í farsíma svo vel
fari. Litið er upp til Jóns og félaga í Noregi, en til marks
um það er að hann var við annan mann frá Opera til-
nefndur sem Netmaður áratugarins þar ytra.
AÐ SLÁ Í GEGN Í BNA
Minna hefur farið fyrir viðmælanda blaðsins sem prýðir
Vaxtarbroddinn á blaðsíðu 58. Reyndar komst hann
aðeins í fréttir fyrir u.þ.b. tveimur árum fyrir að vera
með hugbúnað sem lofaði góðu og gefið hafði góða raun
hér á landi. Fáa hefði grunað að einungis tveimur árum
síðar væri hann fluttur úr landi með reksturinn og farinn
að moka út rándýrum hugbúnaði í útlöndum. Þarna er
á ferðinni Brynjar Karl Sigurðsson og fyrirtækið Sideline
Sports. Fyrirtækið framleiðir hugbúnað fyrir þjálfara í
hópíþróttum og virðist sem þar hafi verið þörf sem alveg
átti eftir að uppfylla. Brynjar selur risastórum íþrótta-
félögum og íþróttaliðum háskóla í Bandaríkjunum
búnaðinn og telur allar líkur á að þeir félagar sem að
fyrirtækinu standa verði margmilljónerar fyrir vikið.
LANDAMÆRALAUS TÖLVULEIKUR
Svo er líka í blaðinu að finna umfjöllun um íslenska hug-
búnaðar- og tölvuleikjafyrirtækið CCP, en í vor hleypti
fyrirtækið af stokkunum gagnvirka Internetleiknum Eve
Online. Forráðamenn fyrirtækisins gera sér vonir um að
fá hátt í hundrað þúsund áskrifendur að leiknum fyrsta
árið frá útgáfu og eru í samstarfi við risastór útgáfu- og
dreifingarfyrirtæki úti í hinum stóra heimi.
Áræðni og frammistaða þessara viðmælenda blaðsins
hlýtur að vera hvatning öllum sem starfa í hugbúnað-
ariðnaði hér á landi. Svo virðist sem upplýsingatækni-
samfélagið sé að skila frá sér fólki sem getur látið að sér
kveða á heimsvísu svo eftir sé tekið. Hver veit hvað fram-
tíðin ber í skauti sér varðandi íslenskt hugvit nái draum-
ar ráðamanna um að hér ríki þekkingarþorp í hug-
búnaðariðnaði að verða að veruleika.
ÓVÆRUVARNIR OG FLOTTAR GRÆJUR
Í Tölvuheimi er jafnframt að finna annað áhugavert efni
frá systurútgáfunni vestan hafs. Við fjöllum um óværu-
varnir og hvernig best er að bregðast við njósnabúnaði og
öðrum smáforritum sem bíræfnir kaupahéðnar nota til að
njósna um okkur. Þá fjöllum við um notendarýni sem
finna má á Netinu og víðar og veltum fyrir okkur hvernig
best er að nýta þannig fróðleik. Svo er að þessu sinni einnig
að finna árvisst efni frá PC World en það er það sem þeir
kalla World Class Awards. Þá velja sérfræðingar systurrits-
ins vestra bestu tæki ársins. Við valið er haft í huga bæði
notagildi, tækniframfarir og skapleg verðlagning.
MUNUR Á VERÐLAGNINGU
Lesendur Tölvuheims mega þó gæta sín á því að þó svo
einhver græja sé á skaplegu verði í Bandaríkjunum getur
hún verið rándýr hér. Vissulega er um tvö markaðssvæði
að ræða og nokkuð aðrar aðstæður þar sem kaupendur
eru fleiri og velta þar af leiðandi meiri. Þá segja mér tals-
menn tölvufyrirtækja hér að 24,5 prósent virðisauka-
skattur komi sem viðbót á verð í Bandaríkjunum og svo
kosti nú sitt að flytja vöruna til landsins og liggja með
dýran lager. Þessar skýringar eru góðra gjalda verðar, en
virðast þó ekki nægja til að skýra hvernig prentari getur
verið tvöfalt dýrari hér en ytra. Kannski er skýringanna
að leita annars staðar.
AÐAL
4 PISTILL RITSTJÓRA
5 NAPSTER RÍS UPP FRÁ
DAUÐUM
5 STÓRAUKINN ÁHUGI Á OPERA
6 GLÆSILEG GAGNAGEYMSLA
OG VINSÆLT NIÐURHAL
6 NORDUNET 2003
7 KYNJAMUNUR Á TÖLVUSNUÐRI
8 EVE ONLINE: SALA OG MARK-
AÐSSETNING Í FULLUM GANGI
10 BESTU GRÆJUR ÁRSINS 2003
19 STEPHEN MANES TALAR UM
STÍFLUGERÐ
20 TUNGUTÆKNI: ÍSLENSKA ER
TÖLVUMÁL FRAMTÍÐAR
25 ÓVÆRUBANAR
31 FYRSTI GÓÐI SÍMAVAFRINN
34 FRUMKVÖÐLAR: MICHAEL
DELL, FYRRI HLUTI
35 ÁLIT ALMENNINGS: ÚTTEKT
Á GAGNRÝNI NOTENDA
39 SPEEDUPMYPC FRÁ LI
UTILITIES
40 MAKKA-NEYÐARLÍNAN:
ÓHÓFLEGA GÓÐAR FARTÖLVUR
43 MEÐ VAÐIÐ FYRIR NEÐAN
SIG: NETSTJÓRINN FJALLAR UM
ÖRYGGISAFRITUN
44 SVONA GERUM VIÐ: ALHLIÐA
TÆKNIHJÁLP FYRIR TÖLVUNOT-
ENDUR
54 NÝJUSTU TÖLVULEIKIRNIR:
ENTER THE MATRIX, TOMB
RAIDER, GTA VICE CITY OG HULK
58 VAXTARBRODDAR - SIDELINE
SPORTS
Óli Kristján Ármannsson - olikr@heimur.is
NÆSTI TÖLVUHEIMUR KEMUR
ÚT UM MIÐJAN SEPTEMBER
Íslenskt hugvit að sigra heiminn
www.heimur.is4 Ágúst Tölvuheimur 2003