Þingtíðindi Alþýðuflokksins - 24.10.1981, Blaðsíða 41
byggðastefna skilar miklum arði í þjóðarbúið, þótt ekki
verði hann ávallt talinn í beinhörðum peningum.
Þingið bendir á þá staðreynd, að byggðastefna hefur
nær eingöngu verið bundin við atvinnumál. Byggðastefna
er þó annað og meira en að dreifa togurum og frysti-
húsum um landið, stundum án sjáanlegs tilgangs. 1
byggðastefnu felst jöfnun á rétti allra íbúa landsins til
að njóta hverskonar þjónustu og menningarlífs, og þá
fyrir sambærilegar greiðslur. — Þar ræður sú skilgreining,
að t. d. sjávarþorp eigi ekki aðeins að vera verstöð, þar
sem íbúar þekkja fátt annað en vinnu og svefn, heldur
menningarlegur mannabústaður, þar sem arðurinn af
vinnu fólksins skilar sér ekki einvörðugu í peningum.
Flokksþingið telur, að núgildandi byggðastefna hafi
verið að þróast í hreina fyrirgreiðslupólitík.
Flokksþingið leggur áherslu á að byggðastefnan er
grein af jafnaðarstefnunni og Alþýðuflokkurinn eigi að
halda uppi virkri og skynsamlegri byggðastefnu. Jafn-
framt hvetur flokksþingið þingflokkinn til að flytja hið
fyrsta frumvarp um ákveðna stefnu í byggðamálum og
fylgja því fast eftir.
39