Fréttir - Eyjafréttir - 01.06.2023, Blaðsíða 24
24 | | 1. júní 2023
Liðin eru 70 ár frá því að vélbát-
urinn Guðrún VE 136 fórst 23.
febrúar 1953. Áhöfnin var búin
að draga netin skammt norðvestur
af Elliðaey um kl. 12.30 og var
að búa sig undir að sigla heim.
Hvasst var með dimmum slyddué-
ljum og allþungur sjór. Skyndi-
lega fékk báturinn á sig tvö brot
með skömmu millibili og lagðist
á hliðina. Níu manna áhöfn var
um borð. Fimm fórust en fjórir
björguðust.
Gúmmíbjörgunarbátur var
geymdur í kassa á stýrishúsinu.
Sveinbirni Hjálmarssyni vélstjóra
tókst að ná í bátinn og blása hann
upp. Hann sagði félögum sínum
að stökkva í björgunarbátinn. Þrír
gegndu því strax. Sveinbjörn gat
haldið bátnum við lunninguna
þar til sjórinn reif bátinn lausan.
Hann náði aftur tökum á bátnum
og hvatti hina skipsfélaga sína
til að fara um borð í bátinn, en
þeir gerðu það ekki. Aftur tók
sjórinn og veðrið bátinn sem var á
hvolfi og rak hratt frá vélbátnum
í veðurofsanum. Þeir sem voru í
gúmmíbátnum gripu spýtur sem
flutu í sjónum og reyndu að róa
aftur að Guðrúnu VE, en höfðu
ekki á móti veðrinu. Vitaskipið
Hermóður sigldi fram hjá gúmmí-
bátnum og reyndu skipbrots-
mennirnir að vekja athygli á sér
en tókst það ekki.
Enginn þeirra hafði séð uppblás-
inn gúmmíbjörgunarbát áður. Þeir
komust að því að báturinn var á
hvolfi og tókst að velta honum
á réttan kjöl og notuðu stígvél
til að ausa bátinn og notuðu föt
til að ná bleytunni og undu þau.
Tveir mannanna voru ósyndir.
Eyjabátur sigldi fram hjá þeim og
þeir reyndu að ná athygli hans, án
árangurs.
Björgunarbátinn bar upp að
Krosssandi fyrir neðan Hallgeirs-
ey í Austur-Landeyjum eftir að
hafa rekið undan vindi og sjó í
hálfa fjórðu klukkustund. Stór
alda kom og hvolfdi bátnum enn
einu sinni og fór hann margar
veltur. Þeir syndu fóru út úr bátn-
um og notuðu vindinn til að snúa
honum á réttan kjöl.
Nú voru þeir komnir upp undir
brimgarðinn við ströndina. Enn
ein holskeflan velti þeim margar
veltur. Gúmmíbáturinn lagðist
saman og hélt skipbrotsmönnun-
um föstum í öllum hamagangin-
um. Þar sem þá bar að landi var
hlið í brimgarðinum og rak þá upp
í fjöru í bátnum á hvolfi. Síðasta
aldan var gríðarlega sterk, kútvelti
þeim og reif þakið af bátnum. Þrír
stóðu í bátnum og stóðu í sjó upp
undir bringspalir. Reynir Böðvars-
son var utanborðs og skorðaði sig
vel í líflínunni. Bátinn rak í um 20
mínútur í nær sléttum sjó og upp
í fjöru. Selur fylgdi þeim allan
tímann.
Mennirnir voru illa til reika
þegar þá bar að landi, berfættir,
berhöfðaðir, sjóblautir, kaldir og
þrekaðir. Auk þess var Svein-
björn meiddur og missti mikið
blóð. Þannig gengu þeir upp að
Hallgeirsey og fengu þar góðar
viðtökur. Jón Björnsson hringdi í
Lárus Ársælsson útgerðarmann og
lét vita af slysinu og hverjir höfðu
bjargast. Þetta var í annað skiptið
sem gúmmíbjörgunarbátur bjarg-
aði íslenskum sjómönnum.
Þeir sem fórust voru Óskar Eyj-
ólfsson skipstjóri, Guðni Rós-
mundsson stýrimaður, Kristinn
Jensen Aðalsteinsson matsveinn,
Sigþór Jón Guðnason háseti
og Elís Hinriksson háseti. Þeir
sem björguðust voru Svein-
björn Hjálmarsson vélstjóri, Jón
Björnsson háseti, Bergþór Reynir
Böðvarsson háseti og Hafsteinn
Júlíusson háseti
Guðrún VE var 49 smálesta
eikarbátur smíðaður í Vestmanna-
eyjum 1943 og þótti hið traustasta
skip. Ársæll Sveinsson útgerðar-
maður keypti bátinn 1949 ásamt
sonum sínum þeim Lárusi og
Sveini.
Arnþór Helgason tók viðtal við
Sveinbjörn Hjálmarsson árið 2000
um slysið og gerði hljóðbókina
Sögur af sjó: 07 - Guðrúnarslysið
1953 (Storytel).
Sjóslys fyrir 60 árum
Nýlega voru liðin 60 ár liðin frá
því að Bergur VE 44 sökk þann 6.
desember 1962. Áhöfnin bjarg-
aðist öll í gúmmíbjörgunarbáti.
Gísli Steingrímsson háseti lýsti
atburðarásinni í Sjómannadags-
blað Vestmannaeyja 1998. Ellefu
voru í áhöfn, þeir Kristinn Pálsson
skipstjóri og útgerðarmaður,
Guðjón Pétursson stýrimaður,
Vigfús Waagfjörð 1. vélstjóri,
Þórhallur Þórarinsson 2. vélstjóri,
Árni Stefánsson matsveinn og
hásetarnir Gísli Steingrímsson,
Gísli Einarsson, Högni Magnús-
son, Elías Baldvinsson, Gunnar
Jónsson og Vigfús Ingólfsson.
Þeir höfðu fengið ágætis kast,
um 800 tunnur, um tíu sjómílur út
af Snæfellsnesi. Síldin var háfuð
um borð og lestin fyllt, nema
steisinn, og restin sett í stíur á
dekkinu. Meðan verið var að háfa
bætti í vind og voru komin 6-7
vindstig. Svo var lagt af stað til
Reykjavíkur til löndunar.
„Ég var uppi í brú og Kristinn
skipstjóri bað mig að taka við
stýrinu á meðan hann meldaði
sig í land. Báturinn var rosalega
þungur og vakur og slagaði eins
og ofdrukkinn maður þó að ég
legði mig allan fram við að halda
strikinu. Hann lagðist borð í
borð og krussaði. Stuttu seinna
tók Kristinn við stýrinu og sagði
mér að fara að borða,“ skrifar
Gísli. Þegar hann kom niður voru
félagar hans að klára að borða,
kokkurinn að vaska upp og vél-
stjórarnir að fara niður í káetu um
lúgu á eldhúsgólfinu. Þá lagðist
báturinn á stjórnborðshliðina og
hallaðist meir og meir í stað þess
að rétta sig af. Gísla varð að orði:
„Ég held að honum sé að hvolfa!"
Þeir fóru út á dekk og sáu að
nótin hafði færst til og var komin
að hluta í sjóinn. Þeir fóru upp
á þak stýrishússins þar sem
gúmmíbjörgunarbáturinn var.
„Þegar ég kom upp á stýrishús
var hallinn á bátnum orðin 70-80
gráður. Ekki leyndi sér lengur að
hverju stefndi. Ljósin slokknuðu
því að sjálfsagt var sjór farinn
að flæða í vélarrúm. Við vorum
þarna í kolsvartamyrkri og kulda
að basla við að ná gúmmíbátn-
um upp úr trékistu sem hann
var geymdur í en hann var þar
fastskorðaður. Eftir að mér og
tveim öðrum hafði mistekist að ná
gúmmíbátnum úr kassanum bar
að Elías Baldvinsson sem kippti
einn upp bátnum. Við hinir lágum
á rekkverkinu eða héngum á
radarfætinum, allir nema Kristinn
skipstjóri sem var að senda út
neyðarkall,“ segir Gísli. Gúmmí-
báturinn var að blásast upp þegar
Kristinn kom upp á stýrishúsið.
Hann lagðist á rekkverkið sem
gaf sig svo Kristinn fór í sjóinn.
Hinir komust í björgunarbátinn
og drógu Kristinn úr sjónum. Svo
lagðist Bergur alveg á hliðina og
munaði sáralitlu að afturmastrið
lenti á gúmmíbátnum. Góðu heilli
hafði brotnað ofan af mastrinu
við löndunarkrana á Siglufirði
sumarið áður, annars hefði það
getað sprengt björgunarbátinn og
sökkt honum.
Skipverjarnir kveiktu á neyðar-
blysum til að vekja athygli á
sér. Vistin um borð var köld en
fljótlega sáu þeir eina tíu báta
sem sigldu í átt til þeirra með
100 – 200 metra millibili. Halkion
VE náði fyrstur til þeirra og voru
skipbrotsmennirnir teknir þar um
borð. Fengu þeir þurr föt og nóg
af heitu kaffi. „Móttökurnar á
Halkion voru frábærar og léttirinn
við björgunina ógleymanlegur,“
skrifar Gísli. Hann lýkur grein-
inni á þessum orðum:
„Þegar ég hugsaði um þennan
atburð eftir á fannst mér þetta
svo óraunverulegt, það hafði skeð
svo hratt. Ekki liðu meira en 3-5
mínútur frá því Bergur lagðist
á hliðina þangað til hann hvarf
í djúpið. Þá var aðalvélin enn í
gangi og Fúsi sagði: „Flott vél!" Í
Nokkur sjóslys og skiptapar Eyjabáta
fyrir 50, 60 og 70 árum
Bergur VE 44.
GUÐNI EINARSSON
gudnieinars@gmail.com