Gripla - 2023, Blaðsíða 43
SÆ LA OG ÓHEIÐARLEIKI Í HÁVAMÁLUM 41
eru sennilega góðir dómar, lof er þá hrós, ódælla þýðir erfiðara en oftast er
engin skýring höfð með seinni sæluvísu. Við getum kallað þetta hefðbundna
túlkun orðanna. En hinn hefðbundni skortur á skýringum er markverður
af tveimur ástæðum. Annars vegar má leiða rök að því að vísurnar geymi
mikilvægan lykil að siðfræði og þekkingarfræði Hávamála, sem áður er
getið. Hins vegar einkennist túlkunarsagan sjálf af miklum ágreiningi
og ráðaleysi frammi fyrir túlkunum sem virðast oft bæði réttar og
fjarstæðukenndar. Ég vil því taka nokkur dæmi úr þessari áhugaverðu sögu.
Textafræðingurinn Karl Müllenhoff (1887, 255) lét þau orð falla að
sæluvísurnar pössuðu ekki vel inn í samhengið á milli 7. og 10. vísu.7 Hann
nefndi reyndar enga sérstaka ástæðu eða rök. Eiríkur Magnússon vísar í
orð Müllenhoffs og skilur þau greinilega sem svo að vísurnar hljóti að vera
síðari tíma viðbót.8 Hann segir þetta vera fráleitt en hefur þó ýmislegt
við þær að athuga. Hann hélt því einarðlega fram að í línu 8.4 hefði ritari
Konungsbókar gert mistök og skrifað við þar sem átti að standa vit.9
Eiríkur útskýrði ekki nákvæmlega hvað hann taldi ama að línum 8.4–6
án þessarar breytingar enda hefur kenning hans ekki þótt sannfærandi.10
Þó má leiða af leiðréttingu Eiríks að hann hefur talið eðlilegra að hafa
nafnorð á þessum stað. Vel má vera að Eiríki hafi annars þótt fyrri og
seinni helmingur 8. vísu passa illa saman því að það virðist vera samdóma
álit margra. Guðmundur Finnbogason lýsti þessu meinta misræmi afar vel:
Ef „lof“ merkir hér hrós og „líknstafir“ milda dóma, eins og menn
hafa hingað til haldið, þá verða bæði erindin hin versta lokleysa,
því að lof og mildir dómar eru einmitt þeir hlutir, er maður verður
að eiga „annars brjóstum í“, eða alls ekki, þar sem enginn mun í
alvöru halda, að Hávamál telji þann sælan, sem nóg á af sjálfshóli og
mildum dómum sjálfs sín um sjálfan sig!11
7 Karl Müllenhoff, Deutsche Altertumskunde, 5. bindi (Berlín: Weidmannsche Büchhandlung,
1887), 255.
8 Eiríkur Magnússon, „Second Meeting of the Cambridge Philological Society, Lent Easter,
and Michaelmas Term, 1887,“ Proceedings of the Cambridge Philological Society 16/18 (1887),
11, nmgr. 1.
9 Sama grein, 11. Líka Eiríkur Magnússon, „First Meeting of the Cambridge Philological
Society, Michaelmas Term, 1884,“ Proceedings of the Cambridge Philological Society 9 (1884),
25.
10 David Evans, Hávamál (London: Viking Society for Northern Research, 1986), 79.
11 Guðmundur Finnbogason, „Nokkrar athugasemdir við Hávamál,“ Skírnir 103 (1929), 105.