Gripla - 2023, Blaðsíða 297
Gripla XXXIV (2023): 295–346
ÞÓ RUNN SIGURÐARDÓTTIR
RÆNINGJARÍMUR SÉRA GUÐMUNDAR
ERLENDSSONAR Í FELLI OG ERLENDAR
FRÉTTABALLÖÐUR
ræningjarímur séra Guðmundar Erlendssonar (um 1595−1670) í Felli
fjalla um voðaverk sem framin voru á ákveðnum stöðum á Íslandi á árinu
1627 þegar sjóræningjar herjuðu á landið, drápu fólk eða limlestu og numu
aðra á brott.1 Aðrar eins hamfarir af manna völdum hafa ekki orðið í landinu
enda hefur hið svokallaða Tyrkjarán lagst þungt á þjóðarsálina.2 Fljótlega
eftir atburðina fóru að birtast í handritum greinargerðir, kvæði og frásagnir,
bæði eftir menn sem höfðu verið sjónarvottar að atburðunum eða orðið
fyrir skaða af hendi ræningjanna og þá sem fundu sig knúna til að fjalla um
atburðina þótt þeir hafi ekki beinlínis snert líf þeirra. Þetta má einnig sjá af
ýmsum örnefnum sem minna á atburðina, þjóðsögum, kveðskap, bænum,
sálmum og meira að segja nýlegum skáldsögum og menningarviðburðum
sem haldnir hafa verið til minningar um Tyrkjaránið á okkar tímum.3
Séra Guðmundur Erlendsson varð ekki fyrir árásum eða ránum sjó-
ræningjanna enda höfðu þeir ekki viðkomu í þeim landshluta þar sem hann
bjó. Árið 1627 var Guðmundur prestur í Glæsibæ í Eyjafirði, liðlega þrí-
tugur að aldri.4 Þó er augljóst að samtímalýsingar og fréttir af atburðunum
hafa haft djúpstæð áhrif á hann. Í mansöng fyrstu Ræningjarímu kallar
hann rímurnar „harmabréf.“ Aftar í kvæðinu kallar hann þær „annál“ og
1 Guðmundur Erlendsson, „Ræningjarímur,“ Tyrkjaránið á Íslandi 1627, útg. Jón Þorkelsson
(Reykjavík: Sögufélag, 1906−1909), 465−496.
2 Þorsteinn Helgason hefur fjallað um Tyrkjaránið sem sameiginlegt minni þjóðarinnar, sjá
„Minning og saga í ljósi Tyrkjaránsins,“ (Doktorsritgerð, Háskóli Íslands, 2013). Hann
hefur einnig fjallað um frásagnirnar sem sameiginlega meðferð vegna áfalls, sjá Þorsteinn
Helgason, „Historical Narrative as Collective Therapy: the Case of the Turkish Raid in
Iceland,“ Scandinavian Journal of History 22/4 (1997): 275−289.
3 Í Tyrkjaráninu á Íslandi 1627 eru prentaðar ýmsar samtímaheimildir um ránin og eftirmála
þeirra.
4 Sveinn Níelsson, Prestatal og prófasta á Íslandi II, 2. útgáfa (Reykjavík: Hið íslenzka bók-
menntafélag, 1950), 278.