Stuðlaberg - 01.11.2021, Side 3

Stuðlaberg - 01.11.2021, Side 3
STUÐLABERG 2/2021 3 Rétturinn til að yrkja Til lesenda Árið 1952 skrifaði Sigfús Daðason, skáld og ritstjóri, merkilega grein sem hann birti í Tímariti Máls og menningar. Greinin, sem ber heitið Til varnar skáldskapnum, fjallar um óhefðbundin ljóð, sem þá voru sem óðast að ryðja sér til rúms og höfðu vakið miklar deilur í samfélaginu. Sigfús skoðar efnið frá ýmsum hliðum og veltir einkum fyrir sér hvað sé ljóð og hvað ekki og hvenær ljóð sé einhvers virði – hvað skilji á milli góðra ljóða og slæmra. Niðurstaða höfundarins er í raun sú að ekki sé hugsanleg nein endanleg formúla fyrir því hvernig ljóð eigi að vera. Um þetta hefur áður verið fjallað hér á þessari síðu og niðurstaðan orðið sú sama og hjá Sigfúsi. Það er á engan hátt forsvaranlegt að setja fólki einhverjar skorður hvað varðar efnismeðferð eða form ljóðs – svo fremi sem þess er gætt að skaða ekki annað fólk eða ganga á rétt þess. Í stjórnarskrá okkar, hvað sem um hana má segja, er tryggður skýlaus réttur fólks til að yrkja nákvæmlega eins og andinn innblæs því. Þarna gildir það sama og um tungumálið. Mjög stór hluti íslensku þjóðarinnar talar vandað mál og leggur sig fram um að tala „rétt“ samkvæmt þeirri hefð sem skapast hefur gegnum tíðina. Við erum stolt af tungumálinu og viljum ekki að neitt af því glatist. En ef einhver bregður út af því þá er þar enginn refsirammi til. Fólk má einfald- lega tala eins og því sýnist – svo fremi sem það skaðar ekki náungann. Því er þetta rætt hér að Stuðlaberg er helgað einni ákveðinni gerð ljóða, hefðbundna forminu eins og það var við upphaf Íslands byggðar og hefur haldist í aðalatriðum óbreytt fram á þennan dag. Hefðbundna ljóðið er hluti af íslenskri tungu og menningu, það er perla sem við eigum og leikum okkur með bæði á hátíðum og hversdags. Stuðla- setningarreglurnar eru samofnar íslenskri ljóðlist frá upphafi og þær eru menningarleg gersemi sem okkur ber að varðveita. Eins og oft hefur komið hér fram er þó langt frá því að við sem stöndum að Stuðlabergi lítum óhefðbundin ljóð einhverju hornauga. Í þeim hluta flórunnar eru margar dýrmætar perlur. Í fyrrnefndri grein Sigfúsar Daðasonar, þar sem hann ræðir um það hvað skuli kallast ljóð og hvað ekki, segir svo: „Vel má vera að í framtíðinni verði litið á rímuð ljóð og órímuð sem tvö jafnrétthá form.“ (Hefð var fyrir því, og er jafnvel enn, að kalla hefðbundin ljóð „rímuð ljóð“ til aðgreiningar frá óhefð- bundnum ljóðum. Þetta er svolítið misvísandi því að mörg hefðbundin ljóð eru órímuð. Það er stuðlunin sem gerir muninn.) Til er fólk sem finnst að hefðbundið ljóð- form trufli það við lesturinn og ljóðstafir og rím séu til trafala þegar kemur að því að njóta ljóðsins – aðrir sjá ljóð sem form og finnst fallegast af öllu þegar vel stuðlað og fallega formað ljóð ber smekklega framsett efni. Þessi mismunandi afstaða kallast smekkur og hann er að líkindum bæði áunninn og meðfæddur – en þetta er einstaklingsbundið og það hygg ég að við séum farin að skilja. Sumir vilja svona ljóð, aðrir annars konar ljóð – og hvorir hafa til síns máls nokkuð. Ég held að við höfum náð að gera þessa framtíðarsýn Sigfúsar Daðasonar að veruleika. Í blaðinu er viðtal við Pál Valsson, bókmennta- fræðing, þar sem hann sér ástæðu til að fagna því að margir fari vel með hið hefðbundna form, – „sem betur fer,“ segir hann, „því við viljum hafa alla bragflóruna lifandi.“ Ljóðið er marg- slungið og þar eiga sem flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þannig á það að vera og auðvitað eru öll þessi bragform jafnrétthá. Um það á ekki að þurfa að deila lengur.  RIA. SIGURÐUR KRISTJÁNSSONKRISTJÁN RUNÓLFSSON

x

Stuðlaberg

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Stuðlaberg
https://timarit.is/publication/1892

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.