Stuðlaberg - 01.11.2021, Qupperneq 22
22 STUÐLABERG 2/2021
Annars ber hæst hinn góða hug sem okkur
hefur verið sýndur allt frá upphafi af gestum
setursins og ekki síður öllum þeim skáldum
og listafólki sem hafa komið fram hjá okkur,
oftast fyrir ánægjuna eina og góðan málstað.
Eitthvað að lokum?
Ég vil hvetja lesendur til að líta inn hjá okkur
þegar þeir eiga leið um Siglufjörð og hika ekki
við að hringja í forstöðumann ef það er utan
opnunartíma setursins. Við tökum einnig
glöð á móti hópum allt árið um kring með
ljóðalestri, fræðslu, kveðskap, söng, gaman-
sögum og gleði. Hægt er að fylgjast með
fréttum af starfseminni á fésbókarsíðu okkar
og þar er mikið af myndböndum sem sýna
dæmi um lifandi viðburði sem eru á setrinu.
RIA
Hringhend dróttkveða
Rím í íslenskum kveðskap er með
ýmsu móti. Í Stuðlabergi hefur nokkrum
sinnum verið fjallað um dróttkveðuna,
hún útskýrð og tekin dæmi. Dróttkveða
er forn bragarháttur, afar fallegur þegar
vel tekst og rím er þar þversetis (þ.e.
rímorð eru innan sömu braglínu) en ekki
endarím.
Eitt þekktasta rímform í íslenskum
kveðskap, þegar ekki er um að ræða
skyldubundið rím, er hringhenduformið.
Þá ríma saman orð í áhersluatkvæði í
2. kveðu. Hagyrðingar hafa öldum saman
leikið sér að þessu formi og hringhendur
eru fleiri en tölu verður á komið.
En nú hefur það gerst að sá snjalli
hagyrðingur, Helgi Zimsen, hefur slegið
þessu tvennu saman og ort hringhenda
dróttkveðu. Vísan hér að neðan er hár-
rétt gerð dróttkveða – en auk þess með
innrími eins og hringhendan og það í
gegnum allar átta línurnar.
Geri aðrir betur:
Kuldagjólan gaular
geisar ólánskveisa.
Frost nú bólin frystir
frestast rólið gesta.
Neðar sól fer niður
naum við pólinn auma.
Menn á skjól þá minni,
mætust jól sem kæta.
Bænasálmur
Aðeins bið eg góður Guð og faðir
gefi’að sefist hnefar, þref og efi,
dróttir hætti’að þrátta’af þrótt og sættist,
þekka rekka’að blekking ekki hrekki,
bölið fúla bæli’er sálir tælir,
búi hjúum trú er núið þrúgar,
gumar saman geymi himins ljóma;
glóð í óð til hróðurs bróður þjóða.
Davíð Þór Jónsson.
Við leiði Fjalla-Eyvindar
Á Hrafnsfjarðareyri er leiði lágt,
þar litast ég um og spyr.
Eru ekki þeir sem eiga bágt
útlægir, jafnt og fyrr?
Það svarar mér enginn og allt er hljótt,
nema aldan sem kveður sinn brag.
Hún söng líka Eyvind að síðustu rótt
í svefn eftir langan dag.
Indriði Aðalsteinsson.
Úr rímum af Oddi sterka
Bauga tróðan blíð og hljóð
brosir rjóð og þakkar óð.
Að yrkja ljóð og faðma fljóð
á fornan móð er skemmtan góð.
Örn Arnarson.