Stuðlaberg - 01.11.2021, Side 28
28 STUÐLABERG 2/2021
Týndur fannst en fundinn hvarf
Í minningu Hjartar Hjálmarssonar á Flateyri
Til er vísa sem flogið hefur um landið vítt
og breitt í alls kyns útgáfum og kennd ýmsum
höfundum. Rétt er vísan þannig:
Týndur fannst, en fundinn hvarf,
að fundnum týndur leita þarf,
týnist þá, en fundinn fer
að finna þann sem týndur er.
Þetta snilldarverk er eftir Hjört Hjálmars-
son á Flateyri. Tilefnið var það að tveir smiðir
voru að vinna verk en þeim mun hafa gengið
heldur illa að halda sig á staðnum og leituðu
þá gjarna hvor að öðrum. Vísan er talin ort
um 1935–1940 á Sólbakka við Önundarfjörð.
Hjörtur Hjálmarsson var fæddur 1905 á
Þorljótsstöðum í Vesturdal í Skagafirði. For-
eldrar hans voru Hjálmar Stefán Þorláksson
og Kristín Þorsteinsdóttir. Þau skildu þegar
Hjörtur var tveggja ára og ólst hann upp hjá
móður sinni, framan af á ýmsum bæjum í
Skagafirði og á Sauðárkróki en 1920 fluttust
þau til Hafnarfjarðar.
Hjörtur lauk prófi frá Flensborgarskóla árið
1922 og útskrifaðist sem kennari frá Kennara-
skólanum vorið 1926. Hann starfaði í nokkur
ár sem farkennari í Reykhólasveit en árið 1931
fékk hann kennarastöðu á Flateyri, þar sem
hann bjó upp frá því. Skólastjóri var hann á
Flat eyri frá 1959 til 1970. Hjörtur var mikil-
virkur í félagslífi staðarins alla tíð. Hann sat
meðal annars í stjórn Sparisjóðs Önundar-
fjarðar og var sparisjóðsstjóri um skeið, hann
gegndi bæði starfi hreppstjóra og oddvita
um tíma, var sýslunefndarmaður, í stjórn og
stjórnar formaður Kaupfélags Önfirðinga og sat
á Alþingi sem varamaður fyrir Alþýðuflokkinn
auk fjölda annarra starfa. Hjörtur var gerður að
heiðursborgara Flateyrarhrepps árið 1975.
Árið 1934 kvæntist hann Aðalheiði Rögnu
Sveinsdóttur, sem lengi var organisti og
söngkennari á Flateyri, og eignuðust þau tvo
syni, Emil Ragnar, kennara og skólastjóra og
Grétar Snæ starfsmannastjóra.
Hjörtur lést árið 1993.
Hjörtur var mikilvirkur hagyrðingur. Eftir
hann liggur fjöldi lausavísna og kvæða. Flest
af því voru tækifærisljóð, ort í erli dagsins til
að gleðja samferðafólkið. Eftirfarandi vísa
heitir Til Steina og mun vera ort um jólin:
Hækka sól á himni fer,
hýrnar um ból og nafir,
himna sjóli sendi þér
sínar jólagjafir.
Og þegar hópur fólks hafði ritað nöfn sín
í gestabók á heimili Hjartar setti hann vísu
neðan við nöfnin:
Eins og blær um laufþök líður,
leikur sef og bjarkir við
hljómar æsku ómur þýður
yfir mjúkan strengjaklið.
Hjörtur var einn af þeim sem ortu fyrir
Spegilinn. Kvæði hans birtust þar undir dul-
nefninu Grímur. Árið 1947 myndaði Stefán
Jóhann Stefánsson, formaður Alþýðuflokks-
ins, minnihlutastjórn sem var kölluð Stefanía.
Þá birtist í blaðinu langt kvæði eftir Grím.
Það endar á þessu erindi:
Segl upp hóf hann
og hrækti í lófann.
Strengja kló kann
karskur sjómann.
Við Eystein hló hann,
úr híði dró hann.
Stjórn til bjó hann
Stefán Jóhann.
Séra Sveinn Víkingur orti margrómaðar
vísnagátur sem komu út hjá Kvöldvöku-
útgáfunni í þremur heftum á árunum 1968 til
1970. Hjörtur tók sig til og réði allar gáturnar