Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 23.10.2023, Blaðsíða 15
Framkvæmdafréttir nr. 727
5. tbl. 31. árg.
15
Stálsmíði fyrir stórbrýr, svo sem á Ölfusá og Þjórsá
á síðasta áratug 19. aldar, sem telja má fyrstu
nútímabrýrnar, fór fram erlendis, oft í Bretlandi eða
Danmörku, eftir útboð. Brú á Blöndu var smíðuð í
Noregi. Íslenskir verkstjórar og verkamenn sáu yfirleitt
um að hlaða stöpla undir brýrnar ásamt samsetningu
og frágang á brúnum sjálfum. Sumir þeirra fóru milli
landshluta til að taka þátt í brúarsmíði þannig að viss
reynsla fluttist á milli verka. Fastir vinnuflokkar voru
ekki til en einstaka smiðir höfðu nánast fulla atvinnu
af smíði brúa og réðu síðan til sín starfsmenn af
viðkomandi svæði í hvert sinn. Engir vinnuflokkar voru
starfandi á vegum ríkis eða sveitarfélaga (landssjóðs
og sýslusjóða).
Sama tilhögun var viðhöfð um vegavinnu. Fastir
verkstjórar eða vinnuflokkar voru ekki starfandi
kringum aldamótin, heldur var samið við misjafnlega
verkfróða menn um einstök verkefni og þeir réðu til sín
fólk úr nærsveitum. Ungir menn sóttust eftir að komast
í vegavinnu, enda þóttu launin góð. Guðjón Backmann,
sem lengstum bjó í Borgarnesi, er sennilega fyrsti
vegaverkstjórinn sem var ráðinn til landsverkfræðings
til að taka að sér verkstjórn við vegagerð, en það var
árið 1907. Vegaverkstjórum fór síðan hægt fjölgandi
þar til skipað var í embætti vegamálastjóra 1917,
þá fór þeim ört fjölgandi og bar hver um sig ábyrgð
á einstökum héruðum um allt land. Þegar fyrsti
vegamálastjórinn, Geir G. Zoëga, lauk störfum árið
1955 voru starfandi á fjórða tug vegaverkstjóra hjá
Vegagerðinni. Brúarvinnuflokkar voru mun færri.
Brúalögin 1919
Árið 1919 voru sett sérstök brúalög á Alþingi sem
tóku gildi ári síðar. Hætt var að veita fé til einstakra
brúa á fjárlögum eða samkvæmt ályktun þingsins og
kostnaður þá settur á fjáraukalög. Með þessum nýju
lögum gat landsstjórnin látið byggja allar þær brýr sem
talin var nauðsyn á, bæði á þjóðvegum og sýsluvegum.
Gerð var áætlun um smíði 70 brúa á næstu 20-
30 árum, úr járni eða járnbentri steinsteypu. Tekin
voru lán til að fjármagna verkefnið. Vegamálastjóri
(embættið varð til 1917) og landsstjórnin ákváðu
framkvæmdaröðina. Með þessu gat vegamálastjóri
farið að halda úti föstum flokki starfsmanna, einkum
smiðum sem voru vanir brúarsmíðum og unnu bæði
sumar og vetur. Þess má geta að Geir G. Zoëga
vegamálastjóri samdi frumvarp til brúalaganna! Þessir
fastráðnu brúasmiðir réðu svo til sín flokk manna
við einstakar framkvæmdir, oft úr nágrannasveitum.
Einnig var algengt að námsmenn réðu sig í brúarvinnu
á sumrin árum saman, oft hjá sama brúarsmiðnum.
Þannig urðu til nokkuð fastir flokkar kringum hvern
brúarsmið. Það má því segja að saga brúarvinnuflokka
Vegagerðarinnar sé nú orðin ríflega 100 ára löng.
↖
Brúarvinnuflokkur.
↓
Hvítá í Borgarfirði, brú 106 m, vígð 1928.