Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 23.10.2023, Blaðsíða 20

Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 23.10.2023, Blaðsíða 20
20 Framkvæmdafréttir nr. 727 5. tbl. 31. árg. Múlakvísl á Mýrdalssandi 2011 Á Múlakvísl austan við Vík í Mýrdal var byggð ný 130 metra löng brú árið 1990. Malarefni hafði með árunum smám saman safnast upp í farveginum undir brúnni, svo stutt var upp í stálbitana undir henni. Að morgni laugardagsins 9. júlí 2011 kom skyndilega mikið hlaup í ána. Ekki er ljóst hvort það varð vegna lítils goss undir jöklinum eða vegna jarðhita sem hafði safnað upp bræðsluvatni undir jöklinum, sem hljóp svo undan honum sem er ef til vill líklegri skýring. Hlaupið var stórt, eins og sjá má á myndum sem teknar voru meðan á því stóð. Hlaupið hreinsaði brúna á Múlakvísl nánast í heilu lagi ofan af stöplunum og hún lagðist upp að austurbakkanum. Strax var farið að hanna bráðabirgðabrú og teikningar voru tilbúnar síðdegis á hlaupdeginum. Ekki var ljóst í byrjun hvað tæki langan tíma að koma henni upp og koma umferð á að nýju, enda ekki vitað hvort von væri á fleiri hlaupum. En ljóst var að rof á umferð um Hringveginn á þessum stað myndi fljótt hafa mikil samfélagsleg áhrif. Hlaupið kom á aðal ferðamannatímanum og mikið var þrýst á um að flýta verkinu eins og kostur væri. Fljótlega voru skipulagðir flutningar á fólki og bílum yfir ána með stórum trukkum og margir nýttu sér það. Brúarvinnuflokkanir tveir, í Vík og á Hvammstanga, voru strax kallaðir út þótt flestir starfsmenn væru í sumarleyfi, og þeir fóru fyrst í að flytja tæki og efni á staðinn. Efni í brúna var allt til á lager, meðal annars stálbitar af ýmsum lengdum undan eldri brúm, en það hefur alltaf verið reynt að eiga efni hjá Vegagerðinni í 200-300 metra langa brú til að grípa til í svona tilfellum. Það voru reknir niður fjórir 10 til 12 metra langir tréstaurar undir hverja undirstöðu eða stauraok sem voru alls 10, og unnið allan sólarhringinn. Og aðrir starfsmenn unnu hvíldarlítið að öðrum undirbúningi. Stálbitarnir voru síðan settir upp nokkuð jafnóðum og niðurrekstrinum vatt fram og brúardekkið, sem smíðað var í einingum, híft á bitana. Í lokin var gengið frá brúargólfinu og vegrið sett á kantana. Brúin var alls 156 metra löng og í 9 höfum. Smíðin á sjálfri brúnni tók ekki nema 4 sólarhringa eða 96 klukkustundir, frá því að fyrsti staurinn var rekinn niður á mánudagskvöldi og þar til smíðinni lauk á föstudegi. Síðan var ánni veitt undir brúna og gengið frá vegtengingum. Umferð var svo hleypt á um hádegi á laugardegi, einni viku frá því að flóðið ruddist fram og Hringvegurinn rofnaði. Það voru brúarflokkarnir í Vík og á Hvammstanga sem sáu um sjálfa brúarsmíðina en aðrir sáu um hönnun, skipulag, vatnaveitingar og vegagerð. Alls komu um 40 manns að öllu verkinu. Þessi brú þjónaði hlutverki sínu í rúm 3 ár því ný brú var ekki vígð fyrr en 6. ágúst 2014. Nýja brúin er 162 metra löng og var byggð af verktakafyrirtækinu Eykt hf. → Reknir voru niður langir tréstaurar fyrir bráðabirgðabrúna yfir Múlakvísl. ↓ Malarefni hafði safnast upp í farveginum undir brúnni yfir Múlakvísl.

x

Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar
https://timarit.is/publication/1142

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.