Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 23.10.2023, Blaðsíða 11
Framkvæmdafréttir nr. 727
5. tbl. 31. árg.
11
„Sundabraut er eitthvert stærsta einstaka
samgönguverkefni sem við höfum tekist á hendur
og þar eru bæði miklir hagsmunir og fjármunir í húfi.
Þótt við höfum lagt áherslu á að kynna fyrirhugaðar
framkvæmdir vel í nærumhverfinu og á þeim
svæðum sem verða fyrir hvað mestum áhrifum af
Sundabraut má segja að framkvæmdin varði alla
landsmenn, enda góðar tengingar við og innan
höfuðborgarsvæðisins allra hagur. Þess vegna höfum
við reynt að vekja sem mesta athygli á verkefninu
og lagt okkur fram um að draga fram sem flest
sjónarmið í umhverfismatsferlinu,“ segir Helga Jóna, en
matsáætlunin er í raun verklýsing fyrir yfirstandandi og
komandi umhverfismatsferli.
„Í matsáætlun er gerð grein fyrir þeim valkostum
sem eru til skoðunar og fjallað um þá umhverfisþætti
sem stendur til að meta. Það er ekki hægt að
útiloka að okkur hafi yfirsést einhverjir valkostir eða
umhverfisþættir sem vert er að taka til skoðunar í
ferlinu. Þess vegna höfum við hvatt íbúa, hagaðila
og aðra áhugasama til að skila inn umsögnum um
matsáætlunina,“ greinir Helga Jóna frá.
En hver skyldu svo næstu skref í þessu ferli vera?
„Umhverfismatsferlið heldur áfram og við bindum vonir
við að það klárist næsta sumar. Vinna við frumhönnun
veglínu og helstu mannvirkja stendur yfir og ætti að
ljúka í kringum áramót. Sama máli gegnir um gerð
viðskiptaáætlunar fyrir verkefnið. Í nóvember og
desember ætlum við að ráðast í rannsóknarboranir
í fyrirhuguðu vegstæði, bæði á landi og í sjó. Á
einhverjum tímapunkti þarf síðan að velja á milli þeirra
valkosta sem koma til greina þannig að við getum
hafið útboðsferli samvinnuverkefnisins næsta haust,“
upplýsir Helga Jóna.
Sundabraut er búin að vera í umræðunni síðan 1975
eða svo. Er mikið til af gögnum sem hægt er nota í
þessu ferli sem nú stendur yfir?
„Við græðum heilmikið á fyrri vinnu við frumdrög
og mat á umhverfisáhrifum. Þar er búið að skerpa
á valkostum og umhverfisþáttum, útiloka sumt og
opna á annað. Það styrkir líka stöðu verkefnisins að
Sundabraut hafi verið á aðalskipulagi Reykjavíkur
um áratuga skeið. Áður en við byrjum að framkvæma
þurfum við eftir sem áður að klára útboðsferli, for- og
verkhönnun, deiliskipulagsvinnu og fá öll tilskilin leyfi.
Ekkert af þessu verður hrist fram úr erminni enda afar
mikilvægt að vanda til verka þegar svo umfangsmikil
framkvæmd er annars vegar,“ segir Helga Jóna að
lokum.