Goðasteinn - 01.09.2010, Blaðsíða 114
112
Goðasteinn 2010
kirkjum líta eins út, frekar en nokkrar aðrar byggingar frá þessum tíma. Mis-
munandi útfærslur þeirra má rekja til staðbundinna áhrifa sem geta jafnt verið
menningarbundin sem náttúruleg, líkt og áður hefur verið vikið að.
Kirkjugerðirnar tvær eru sem fyrr segir í grunninn mjög ólíkar, að líkindum
vegna mismunandi trúarlegs uppruna með vísan til þess að hér er um að ræða
byggingar til slíkra iðkana. Þær hljóta jafnframt að eiga rætur að rekja til mis-
munandi byggingahefða sem landnemarnir fluttu með sér eða íbúarnir kynnt-
ust með öðrum hætti. Færa má þess vegna rök fyrir því að uppruna torfkirkn-
anna megi rekja til kristni sem virðist hafa haft rætur sínar í írsk-skoskri eða
keltneskri menningu en uppruna timburkirkjanna til engilsaxnesk-skandinav-
ískrar kristni. Þessi túlkun samræmist vel viðteknum kenningum um að áhrifa
kristni meðal víkingaþjóða megi rekja til bæði til Skandinavíu, Bretlandseyja
og miðhluta Evrópu en ekki eingöngu engilsaxnesks trúboðs.
Þeirrar tilhneigingar hefur gætt hjá fræðimönnum að afneita flestum þeim
einkennum sem kunna að benda til keltneskra eða annarra áhrifa en norrænna
á meðal Íslendinga á víkingaöld. Niðurstöður erfðagreininga hafa ekki verið
skoðaðar í því ljósi, né heldur rómönsku myntirnar eða kumlin á Íslandi. Því
er ennfremur gagnrýnislaust haldið fram að torfkirkjurnar sé í raun norræn-
ar stafkirkjur í íslenskum búningi.27 Torfbyggingar sem byggðar voru á Bret-
landseyjum með sömu tækni og hér var gert eru þar hins vegar ekki álitnar eiga
neitt sérstaklega sameiginlegt með stafverksbyggingum.28
Lokaorð
Með því að styðjast við samspil sögulegra heimilda og fornleifa, samhliða
því að horfa á fortíðina sem síbreytilega mósaík í einskonar kviksjá, gefst kost-
ur á að skoða uppruna og útbreiðslu kristni fyrir kristnitöku, sem og áhrif henn-
ar á kristnitökuferlið, með víðtækari hætti en hingað til hefur verið gert.
Kristnitaka Íslendinga virðist í fljótu bragði hafa verið einföld, eins og henni
er lýst í rituðum heimildum. Fornleifarnar gefa annað til kynna. Fræðimenn
eru einnig margir hverjir sammála í dag um að íslensku miðaldaheimildirnar
hafi verið skráðar í ákveðnum tilgangi og því ber að túlka þær sem einfaldaða
sýn kristinna manna í áhrifastöðum á þessar umfangsmiklu breytingar sem
kristnitakan var í norrænum samfélögum. Líklegt má jafnvel telja að höfundar
ritheimilda miðalda hafi álitið að norrænn átrúnaður hafi verið álíka einsleit-
ur og kristnin var á þeim tímapunkti í þeirra augum. Þeir hafa þannig getað
27 Sjá t.d. Hörður Ágústsson 1982, bls. 181; Hjörleifur Stefánsson 1997, bls. 27.
28 Walker, B. 2006.