Goðasteinn - 01.09.2010, Blaðsíða 162
160
Goðasteinn 2010
en svo, að slíkrar eignar væri hvergi getið, hefði hún verið til, og þá sérstaklega
þar sem eignarétturinn var ekki viðurkenndur í verki af nágrannabyggðinni.
Þá bera þessir dómar allir það með sér, að þeir eru hlutdrægir yfirgangs-
dómar. Í þeim kemur ekkert fram um hvað mótaðilinn að málinu þ.e. bændurnir
undir Eyjafjöllum, höfðu fram að færa, sínum málstað til stuðnings.
Lögréttudómurinn viðurkennir að konungsjarðirnar undir Eyjafjöllum eigi
beitarrétt á Goðalandi, sem þær skuli halda, en það bendir sterklega til þess, að
það hafi verið afréttarland Eyfellinga.
Nú eru yfirleitt ekki til neinar skriflegar heimildir um, hvernig afréttirnir
í landinu skiptust á byggðirnar í upphafi, enda hefur það sennilega gerst að
mestu áður en ritöld hófst. En algengt mun það hafa verið, að byggðin sem næst
lá, notaði afréttinn og væri jafnframt eigandi hans. Nú hafa beitilönd nokkurra
jarða í eystri hluta Eyjafjallasveitar legið næstum því að gróðurlendi Goðalands
á Fimmvörðuhálsi, á fyrstu öldum byggðar í landinu, þegar jöklar voru minni
en síðar varð og gróður náði hærra til fjalla en nú er.
Í Landnámu segir: „Jörundr goði, sonr Hrafns ins heimska, byggði fyrir
vestan Fljót, þar er nú heitir á Svertingsstöðum. Hann reisti þar hof mikit. Bjórr
lá ónuminn fyrir austan Fljót milli Krossár ok Jöldusteins. Þat land fór Jör-
undr eldi ok lagði til hofs.“ Megin hlutinn af því landi sem Jörundur lagði
hofinu þarna til, voru afréttarlöndin Stakkholt og Goðaland. Jörundur var son-
ur Hrafns ins heimska landnámsmanns á Rauðafelli inu eystra í eystri hluta
Eyjafjallasveitar, sonur hans var Úlfur aurgoði, hann flutti frá Svertingsstöðum
að Dal undir Eyjafjöllum, sonur hans var Runólfur goði í Dal, hann var mik-
ils metinn sveitarhöfðingi þegar kristni var lögtekin í landinu. Það hefur þá
sennilega komið í hlut hans að ráðstafa eignum hofsins, þegar það var lagt nið-
ur. Ekki verður betur séð, en að hann hafi lagt Stakkholt undir sína eigin jörð,
því að Dalur og aðrar jarðir, sem úr honum hafa byggst, eiga þar afrétt og hafa
átt svo lengi sem elstu heimildir greina frá, ásamt Syðstu-Mörk, en hún var hálf
eign Dalskirkju. Aðrar jarðir hafa ekki átt afréttarréttindi á Stakkholti.
Líklegt er að frændur Jörundar goða í eystri hluta Eyjafjallasveitar og aðrir
bændur þar, hafi verið goðorðs menn hans og afkomenda hans, þeirra Úlfs
aurgoða og Runólfs, og þeir hafi því átt hlut í eignum hofsins þegar það var lagt
niður. Og kannske verið búnir að nota það sem afrétt, frá því að Jörundur var
að alast upp á Rauðafelli.
Fram kemur í Kirkjulækjardómnum um Goðaland að það eru bændur undir
Eyjafjöllum fyrir austan vatn (Holtsós) sem sr. Erasmus er í máli við, það eru
því afar miklar líkur fyrir því, að jarðirnar í eystri hluta Eyjafjallasveitar hafi