Helgarpósturinn


Helgarpósturinn - 22.12.1983, Qupperneq 7

Helgarpósturinn - 22.12.1983, Qupperneq 7
Laddi eftir Egil Helgason teikning Ingólfur Margeirsson Nú um jólahelgina verður frumsýnt nýtt íslenskt leikrit í sjónvarpinu. Það heitir Hver er? Þetta leikverk er kveikjan að þeirri nærmynd sem hér fer á eftir. Aðalleikarinn heitir nefnilega Þórhallur Sigurðsson. Þórhallur hvað? Þessi litli í Þjóðleikhúsinu? Nei, hinn. Sá sem allir þekkja undir nafninu Laddi. En hann hefur svosem leikið áður og það ekki sjald- an. Nei, en þetta er svolítið öðruvísi. Hann á ekkert að sprella, hann á að vera alvarlegur. Þetta er alvöruleikrit. Ha? Hann Laddi!!! En hann er bara sprelligosi og grínkall! Trúður! Ertu ekki að rugla saman jólaleikritinu og áramótaskaupinu? Nei, nei, það segja margir að hann sé meiriháttar talent, fæddur kvikmyndaleikari... Laddi stendur sumsé berskjaldaður fyrir framan þjóðina á mánudaginn og biður fólk að gleyma þeirri spaugaraímynd sem loðir svo fast við hann — að minnsta kosti í bili. Á sama tíma fer hann vítt og breitt og treður upp í hinum ýmsu gervum sínum — rullum Þórðar húsvarðar, Eiríks Fjalars, Björgúlfs og ekki síst Súpermanns. Eða var það Súper-Laddi? Súperleikari? Nærmyndin er af Þórhalli Sigurðssyni, þekktasta skemmtikrafti á Fróni síð- asta áratuginn. NÆRMYND Laddi? Hvurslags nafn er það eigin- lega? Jú. Sem kornabarn, hérumbil ómálga, var snáðinn að berjast við að segja sitt stóra nafn. Sú heiðar- lega tilraun tókst ekki betur en svo að útúr munni hans valt ó- nefnið Laddiddi. Það var auðvitað alltof langt og óþjált f annst skyldu- liðinu, en Laddi — það hijómaði hins vegar prýðilega, alténd þótti það ágætt nafn á svona lítinn grallaraspóa. Síðan hefur Þórhallur Sigurðs- son oftar en ekki þurft að gegna nafninu Laddi. Við byrjum á upphafinu, sem er 20asta janúar 1947 suðrí Hafnar- firði. Þar fæðist drengurinn, sem ekki var enn búinn að fá Ladda- nafnið, sonur hjónanna Sigurðar Haraldssonar austan úr Rangár- þingi og Unu Huldar Guðmunds- dóttur, sem er af vestfirskum upp- runa. Hann var kominn í heiminn yngstur fjögurra bræðra, þann elsta þekkja flestir undir nafninu Halli. Laddi er Gaflari í húð og hár, en það hlutskipti átti þó ekki eftir að liggja fyrir allri fjölskyldunni. Sigurður, sem oft er kenndur við Kirkjubæ, sleit samvistum við konu sína og flutti austur á Rang- árvelli og gerðist þar hrossabóndi og ágætur hagyrðingur að því er sagt er. Leiðir þeirra Ladda og föðurins hafa því ekki legið mikið saman í lífinu, ogþá ekki fyrr en hin síðustu ár. A skemmtun á Þingvöllum fyrir nokkrum árum riðu þeir til dæmis á vettvang Sigurður og bræðurnir Halli og Laddi. Sigurður reið fyrir, hnar- reistur í hnakknum, en á eftir komu bræðurnir — öfugir í hnakknum og héldu í taglið. „Nei, við erum ekki eins góðir hesta- menn og hann,“ segir Laddi. En þeim mun nákomnari varð þessi ungi Hafnfirðingur móður sinni, sem vann fyrir honum og öðrum bróður með ýmislegri verkamannavinnu. „Ég held að Laddi fjalli miklu meira um sig og sitt tilfinningalíf en flestir gera sér grein fyrir," segir Bjarni Dagur Jónsson, auglýsingateiknari og vinur Ladda um langt árabil. „Mér finnst til dæmis áberandi hvað hann syngur oft um mömmur í textum sínum — ,,ég og mamma“, „hún mamma mín...“ og svo fram- vegis. Ég held líka að Laddi eigi ekkert sérstaklega góðar minn- ingar frá árunum í Hafnarfirði, að minnsta kosti talar hann ekki oft um þau.“ En grínkarlinn, spaugar- inn.var hann alltaf til staðar? „Mamma sagði oft að ég yrði dansari," segir Laddi. „Ég var með ýmis tilþrif í þá áttina. En hins vegar var ég mjög feiminn og þjáðist talsvert fyrir það á tímabili. Það hefur blessunarlega skólast eitthvað af mér með árunum." „Ég ólst upp í Miðey í Austur- Landeyjum hjá afa okkar og ömmu, sem ég kalla reyndar pabba og mömmu, og þangað kom Laddi alltaf í sveit á sumrin," sagði Haraldur Sigurðsson, Halli bróðir. „Það var alltaf greinilegt að hann hafði þennan hæfileika til að bregða sér í allra kvikinda líki. Amma okkar tók eftir þessu og sagði að þessi drengur ætti að verða leikari og ekkert annað. Þá var hann bara pínupeð. Á þessum árum í sveitinni vorum við allir í rokkinu, Presley, Tommy Steele og öllum þessum gæjum sem þá voru hvað vinsælastir. Við sung- um og hermdum eftir þessum náungum og sprelluðum mikið saman, þótt aldursmunurinn á okkur væri talsverður. Ég var kominn undir fermingu en hann var þetta sjö-átta-níu ára. Svo hætti hann að koma austur eins og gengur og við áttum ekki samleið aftur fyrr en nokkuð mörgum ár- 'um síðar, og þá fyrir hálfgerða til- viljun." I Hafnarfirði lýkur Laddi skyld- unni, eins og það er kallað, og læt- ur þar við sitja á hinni rykugu braut bóknámsins. Menn eru líka mismunandi lengi að finna sitt upplag og í leit að því slæmist hann inn í Iðnskólann í Hafnar- firði og ætlar að læra trésmíði. Það er heldur ekki alveg óviðeig- andi, því tengdafaðir hans er líka trésmiður og tekur hann í læri inn á verkstæðið til sín. „Ég fór lang- leiðina með að klára trésmíða- námið," segir Laddi, „en svo hætti ég áður en ég fékk nokkur rétt- indi. Mér fannst það satt að segja ansi leiðinlegt." Tengdafaðirinn var væntanlega ekki ánægður með það, en eiginkonan unga al- sæl með makann, ef dæma má af ummælum kunningjanna. Sigur- rós Marteinsdóttir heitir hún og þau voru sextán og sautján þegar þau kynntust. Þáu gíftust árið 1967 og um leið var fyrsti sonurinn, Marteinn, ' vatni ausinn. -Tveir strákar hafa síðar bæst í hópinn, ívar Örn og svo glænýr smástrák- ur, Þórhallur í höfuðið á föðurnum — „en það má alls ekki kalla hann Ladda," segir móðirin ábúðarfull. * þessum árum var bítlið í fullum gangi og aliir strákar með bein í nefinu að berja húðir eða plokka strengi í bílskúrum. Laddi: „Ég var eitthvað að fikta við að spila á gítar og kunningi minn var ekki seinn á sér að tilkynna ein- hverjum hljómsveitargæjum í Reykjavík að hann þekkti alveg frábæran gítarleikara. Þá kunni ég ekki eitt einasta grip. Ég fór á æfingu með hljómsveitinni og þar var mér rétt bók með 2000 gítar- gripum og sagt að koma aftur eftir viku. Ég mætti á tilsettum tíma og var þá búinn að læra þrjú grip. Það gekk auðvitað ekki, en samt var ég ekki alveg á þeim buxun- um að gefast upp og spurði hvort ég mætti ekki prófa að spila á trommur. Það var allt í lagi með það og næstu árin trommaði ég og söng með hljómsveitinni Föxum." Það var svo eitt kvöldið að ung- ur sölumaður hjá Sambandinu kemur á æfingu hjá Föxunum og hefur frétt að það vanti söngvara. Halli: „Kunningi minn spurði hvort ég væri ekki til í að koma á æfingu hjá hljómsveit sem væri að byrja að æfa suðrí Kópavogi. Ég sló til og þegar ég kom suðreftir var ég ekki lítið undrandi að sjá engan annan en Ladda sitja bak við trommurnar, ég hafði ekki haft nokkurn grun um að hann væri þarna. Uppúr þessu fórum við að kynnast aftur.“ > g byrja hjá Sjónvarpinu haustið 1968 og kom því til leiðar að Laddi var ráðinn þangað líka árið 1970," segir Halli. „Þá var hann búinn að vera í hinum og þessum hljómsveitum í Reykjavík og hafði verið að vinna eitthvað í Kassa- gerðinni líka. Það var frískt fólk sem vann hjá Sjónvarpinu og vinnan skapandi og mér fannst að hann myndi passa ágætlega inn í andrúmsloftið. Það var líka eins og við manninn mælt að við vor- um strax byrjaðir með sama böl- vaða fíflaskapinn og í gamla daga og uppfrá því fóru þær að gerast allar þessar tilviljanir sem ýttu okkur að lokum útí skemmti- bransann." Sagan segir að sjónvarpsmenn hafi fyrst orðið varir við hæfileika þeirra bræðra þegar þeir heyrðu á léttúðarfullt tal þeirra í gegnum kallkerfið. „Ég og fleiri tókum fljótt eftir því að þarna fór maður með óvenjulega hæfileika til að koma öllum í kringum sig í gott skap," segir Andrés Indriðason dagskrár- gerðarmaður, sem sagt er að hafi „uppgötvað" þá bræðurna. „Ég var þá að byrja með fígúrur í barnatímanum sem hétu Glámur og Skrámur og fékk þá bræðurna til að ljá þeim raddir, sem þeir gerðu mjög skemmtilega." „Það var strax mjög áberandi hvað Laddi hafði góð tök á sjón- varpinu," segir Bjarni Dagur Jons- son. „Ég varð vitni að því þegar hann fór að leika í myndakross- gátunni hjá Andrési Indriðasyni og þá gat engum dulist hvað hann var fljótur að átta sig á því sem þurfti að gera fyrir framan myndavélarnar. Hann þurfti held- ur ekki að þjást af sviðsskrekk, all- ir í kring voru kunningjar hans og stúdíóið næstum hans annað heimili." Eins og sjónvarpsáhorfendur kannski muna rak hver skemmti- þátturinn annan á þessum árum, enda mikið af ungu og frísku fólki sem vann hjá Sjónvarpinu á þeim tíma, hvað sem síðar hefur orðið. Halli og Laddi voru þar sjaldnast víðs fjarri — hver man ekki eftir Ladda í hlutverki Saxa læknis og Alfredós hins ítalska? Framhaldið Framhald. á næstu síðu HELGARPÓSTURINN 7

x

Helgarpósturinn

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.