Helgarpósturinn - 16.02.1984, Blaðsíða 6

Helgarpósturinn - 16.02.1984, Blaðsíða 6
INNLEND YFIRSYN • Bókaklúbbarnir hafa reynst hrein viðbót í bók- sölunni, en ekki skert við- skipti bókaverslananna Bókaklúbbarnir, kostir og gallar eftir Sigmund Erni Rúnarsson íslendingar geta nú eignast bækur með nýstárlegum hætti. Ekki er lengur nauðsyn- legt að sækja lesefnið í bókaverslanir, held- ur má allteins sitja heima og búast við því innum bréfalúguna. Bókaklúbbarnir gera þessi þægindi möguleg. Almenna bókafélagið var brautryðjandi á þessu sviði. Það stofnaði fyrsta íslenska bókaklúbbinn fyrir áratug. Á síðustu árum hefur svo hvert forlagið af öðru slegist í hóp- inn. Bókaklúbbar eru nú þrír; fyrir utan AB er það klúbbur Arnar og Örlygs, svo og Veraldar sem er sameiginlegur klúbbur for- laganna Iðunnar, Vöku, Stebergs og Fjölva. Fjórði klúbburinn er í uppsiglingu, sem Svart á hvítu er aðýta úr vör. Fleiri forlög eiga ugglaust sömú leið fyrir höndum á allra næstu árum. Bókaklúbbar forlaga eru ekki séríslenskt fyrirbæri. Þeir hafa tíðkast í nágrannalönd- um okkar um áratugaskeið. íslensku klúbb- arnir eru stofnaðir af sömu ástæðu og er- lendis, vegna sýnilegs samdráttar í hinu hefðbundna bóksölukerfi umboðsmanna. Bókaútgefendur eru fyrir margt löngu orðnir uppgefnir á jólavertíðinni og lang- þreyttir á þeim gjafasölublæ sem einkennt hefur uppstillingu bókmetis í bókaverslun- um. Bækur á íslandi hafa fyrst og fremst ver- ið gjafavara. Bækur hafa nær ekkert verið keyptar nema fyrir jól ellegar aðra þá al- manaksviðburði sem kalla á gjafir til náung- ans. Menn hafa vart keypt bækur fyrir sjálfa sig. Það er inn á þann markað sem bóka- klúbbarnir vilja nú ráðast. Klúbbarnir eru ný söluleið til að auðvelda mönnum að kaupa í eigið bókasafn. Þannan markað manna heilla þeir með sértiiboðum bóka sem þeir geta selt á mjög lágu verði vegna stórra upp- laga hvers titils, aukinheldur sem milliliðirn- ir — bóksalarnir — hverfa í þessu dæmi og þar með lækkar kostnaðurinn enn meira. Bókaklúbbar í nágrannalöndum okkar hafa reynst hrein viðbót á bóksölu almennt. Þeir hafa ekki tekið viðskiptavini frá bóka- verslununum. Hér er enda um tvo allólíka hópa að ræða sem höfðað er til. Annars veg- ar svala bókaverslanirnar þörfum þeirra sem kaupa bækur til gjafa, en hinsvegar þjóna klúbbarnir þeim sem höndla lesefni til eigin nota. í niðurstöðum könnunar sem gerð var um þetta efni í Noregi fyrir skömmu, kom í ljós að samdráttur í bóksölu bókaverslana varð vart eða ekki greinanleg- ur með tilkomu hinna fjölmörgu klúbba sem þar hafa verið stofnaðir. Ekki er þó allt sem sýnist í þessu efni uppi á íslandi. Hérlendis hafa myndast tvær meginstefnur í tilhögun bókaklúbba. Annarsvegar er það sú stefna Veraldar að selja klúbbbækur sínar jafnframt í bóka- verslunum, en þar mun dýrari en í klúbbn- um. Á fagmáli heitir þetta opinn klúbbur. Hinsvegar ríkir sú stefna hjá klúbbum AB og Arnar og Örlygs að nýjar bækur þeirra eru ekki fáanlegar um leið í verslunum. Það eru lokaðir klúbbar. Slegið hefur í brýnu milli bókaklúbbs Veraldar og íslenskra bóksala vegna þessa opna fyrirkomulags. Bóksalar sætta sig öngvan veginn við það hlutskipti að vera að selja bækur Veraldar á allt að helmingi hærra verði en klúbbmeðlimirnir fá sama lesefni fyrir. Þeir sætta sig við einhvern verðmismun en ekki svona mikinn, sem þeim finnst reyndar vera siðlaust: „Verald- armenn eru með þessu móti að stimpla okk- ur bóksala vonda okurkarla. Þeir vilja geta sýnt fram á þennan verðmismun svart á hvítu svo þeir geti kitlað verðskyn kúnn- anna sinna. Þetta er aumt og siðlaust auglýs- ingatrikk," segir Lárus Blöndal, bóksali til þrjátíu ára við Skólavörðustíg. Bóksalar hafa af þessum sökum afráðið að endursenda Veröld allar útgáfubækur klúbbsins, neita að selja þær á því verði sem hann leggur til að þeir geri útfrá heildsöluverðinu. „Það verð- ur ekki sæst á þessa viðskiptaháttu," segir Lárus. Ólafur Ragnarsson, stjórnarformaður Veraldarklúbbsins, ásakar á móti: „Á sínum tíma voru settar reglur um samskipti bóka- klúbba og bóksala þar sem meðal annars var kveðið á um að mismunur á verði bókar sem boðin er í klúbbi og verslun mætti ekki vera meiri en þrjátíu prósent. Þessar reglur hafa reynst vita gagnslausar. Bóksalar skuld- bundu sig til að hafa þessar klúbbbækur á boðstólum þrátt fyrir verðmismuninn, en við þann lið reglnanna hafa þeir engan veg- inn staðið. Þess eru fjölmörg dæmi að bók- salar hafi hundsað klúbbbækurnar og ails ekki haft þær frammi í búðunum vegna þessa verðmismunar þeim í óhag. Að tala um siðleysi kemur því úr hörðustu átt.“ Hvorugur gefur eftir. Þar með er allt útlit fyrir að bóksalar loki klúbbi Veraldar, því þegar þeir neita að selja bækur hans segir það sig sjálft að bækur Veraldar verður hvergi hægt að fá nema hjá klúbbnum. Það er rétt eins og hjá hinum klúbbunum. I raun- inni eru þá allir bókaklúbbar landsins orðnir lokaðir. „Þetta tvöfalda kerfi hjá bókaklúbbunum gengur ekki,“ segir Oliver Steinn, formaður forleggjara og bóksali. „Að mínu mati eiga allir bókaklúbbar að vera lokaðir; af því hlýst aldrei neitt nema tortryggni á milli út- gefenda og seljenda þegar klúbbarnir eru að bjóða bækur sínar á hálfvirði miðað við það sem þeir gera bóksölunum að selja sama efni á. Bókaverð er jú ákveðið af forlögunum sjálfum og eftir því verða bóksalarnir að gjöra svo vel að fara við álagningu sína.“ En hvað segja menn um bókaklúbbana al- mennt: Oliver Steinn bóksali telur mjög eðli- legt að forlög reyni allar leiðir til að losna við sínar afurðir, en þær leiðir verði þá líka að vera eðlilegar. Anton Kjærnested hjá klúbbi AB tekur í sama streng, en leggur jafnframt áherslu á að klúbbarnir megi með engu móti styggja bóksalana. Og því er svo Örlygur hjá klúbbi Arnar og Örlygs sammála, en hann segir: „Ég ætla svo sannarlega að vona að ekkert komi í veg fyrir að bóksalar selji fyrir okkur bókina áfram sem gjafavöru. Hins- vegar má búast við því að bókaklúbbarnir auki mjög bókakaup þeirra sem eru að versla fyrir sjálfa sig, en sá þáttur bókaversl- unar hefur hingað til verið mjög lítill hjá bók- sölunum. Þannig held ég að klúbbarnir verði hrein viðbót í bókaviðskiptunum.“ En hvað segja þeir sem skrifa bækurnar. Njörður P. Njarðvík nefnir bæði kosti og galla klúbbanna: „Ég óttast það að klúbbarn- ir verði til þess að fækka titlum bóka með þessum stóru upplögum hverrar bókar sem þeir láta frá sér. Ég hef einnig efasemdir um þátt íslenskra fagurbókmennta í útgáfu klúbbanna. Mér sýnist hann óverulegur, ég sé til dæmis engin íslensk nútímaljóð eða smásögur. Svo eru þetta lokaðir klúbbar sem gera það að verkum að allir ná ekki til bókanna og því má búast við minni umfjöll- un og skrifum um þær. Kostir klúbbanna eru aftur á móti þeir að dreifing útgáfunnar yfir árið verður jafnari og eins sýnist mér þessir klúbbar ná til hóps fólks sem hingað til hefur ekki sýnt mikinn áhuga á bókakaupum." ERLEND YFIRSYN / efstu þrepum metorðastigans standa menn sem eru ófœrir um breytingar Óldungaveldid í Kreml festir sjálft sig í sessi Kommúnistaflokkur Sovétríkjanna er í forustukreppu. Lát Júrí Andrópoffs sýnir veikleika öldungaveldisins, sem þar ríkir. Hann fellur frá tæplega sjötugur, og bana- legan tók sex mánuði af þeim fimmtán, sem hann hafði flokksforustuna með höndum. í stað Andrópoffs velst til aðalritara mið- stjórnar Kommúnistaflokks Sovétríkjanna Konstantín Tsjernenko. Hann er 72 ára gam- all og var frá störfum langa hríð á öndverðu síðasta ári vegna vanheilsu. Ellimörkin voru bersýnileg, þegar hann mælti éftir fyrirrenn- ara sinn og tók á móti útfarargestum. Fyrir hálfu þriðja misseri hafnaði forustu- sveit flokksins Tsjernenko, þegar valinn var eftirmaður Leóníds Bresnéffs. Fyrir valinu varð Andrópoff, sem hafði mun skemur ver- ið einn af riturum miðstjórnar, en getið sér orð fyrir röggsemi í forstöðu leyniþjónust- unnar og öryggislögreglunnar KGB. Fyrstu mánuðina í forustuhlutverki fyrir kommún- istaflokknum sýndi Andrópoff tilhlaup til til- þrifa á ýmsum sviðum, en banvænn sjúk- dómur meinaði honum brátt að fylgja þeim eftir. Eftir á er sýnt, að þeir sem úrslitum ráða í forustu Kommúnistaflokks Sovétríkjanna hafa ákveðið að Tsjernenko skyldi taka við af Andrópoff, þegar fullljóst var orðið að hinn síðarnefndi lá fyrir dauðanum. Þetta má glöggt marka af framsetningu í lokakafla nýrrar sögu Kommúnistaflokks Sovétríkj- anna, sem kom út viku áður en lát Andró- poffs var kunngert. Þá þegar vakti athygli í Moskvu, hve Tsjernenko er þar gert hátt undir höfði. í frá- sögn af fundi fullskipaðrar miðstjórnar kommúnistaflokksins í júní síðastliðnum, er ræða Tsjernenko lögð að jöfnu við fram- söguræðu Andrópoffs sem það innlegg sem „ákvarðaði veigamestu stefnumál og mark- mið“ flokksins við ríkjandi aðstæður. Saga Kommúnistaflokks Sovétríkjanna er gefin út af miðstjórn hans, og sú útgáfa sem nú liggur fyrir var samþykkt til prentunar 15. desember í vetur. Hefur þá verið ljóst orðið, að hverju dró með heilsu Andrópoffs. i sovéska flokksræðiskerfinu hefur allt til- hneigingu til að hjakka í sama farinu, nema til komi ötul forganga flokksforingjans um að bregðast við vandamálum og breyttum aðstæðum. Síðustu ár Bresnéffs, eftir að heilsu hans tók að hraka til muna, var flokk- urinn í rauninni forustulaus. Þá kom mjög í hlut Tsjernenko að vera staðgengill og full- trúi mannsins sem hóf hann til valda með sér. Endasleppur valdaferill Andrópoffs verð- ur til þess að framlengja tímabil stöðnunar frammi fyrir óleystum vandamálum í iðnaði jafnt og Iandbúnaði. Enginn endir er sjáan- legur á stríðinu í Afghanistan, þar sem sov- étherinn hefur hitt fyrir þjóð sem er enn harðari af sér í hernaði en Rússar. Sambúð Sovétríkjanna og Bandaríkjanna er herfileg, svo nærri stappar sambandsleysi milli tveggja voldugustu ríkja heims. Af þeim sök- um vofir yfir nýtt kalt stríð og magnaðri áfangi í vígbúnaðarkapphlaupinu en nokkru sinni fyrr. Við þessar aðstæður velst til forustu fyrir Kommúnistaflokki Sovétríkjanna maður þremur árum eldri en fyrirrennari hans, sem dó frá öllum forustuverkefnum óloknum. Gangur lífsins og það sem vitað er um heilsu- far Tsjernenko boðar, að hæglega geti eins farið á ný, að enn sé tjaldað til einnar nætur á æðsta valdastóli. íhaldssamt öldungaveldi í Kreml hefur ákveðið að hætta á að svo fari, heldur en hefja til valda einhvern þeirra yngri manna, sem bætt var í þrettán manna hóp stjórn- málanefndar miðstjórnarinnar á valdaskeiði Andrópoffs. Val á einhverjum þeirra hefði borið vott um vilja til að taka á þeim málum, sem baka Sovétríkjunum vandkvæði heima fyrir og setja þau í háska út á við. En öldungunum hrýs hugur við slíku. Þá er hætt við að tekið hefði að losna um mann eins og Ústinoff landvarnaráðherra, sem gegnt hefur valdastöðum í Kreml frá því 1941, þegar hann varð kommissar her- gagnaframleiðslu á dögum Stalíns. Svipuðu máli gegnir um Gromiko utanríkisráðherra, sem gegnt hefur ábyrgðarstöðum í sovéskri utanríkisþjónustu frá því í lok heimsstyrjald- arinnar síðari. Þessir menn eru báðir komnir vel á áttræðisaldur, og sama máli gegnir um Tíkhonoff forsætisráðher.ra. eftir Magnús Torfa Óiafsson Löng seta þessara manna í æðstu embætt- um við þær aðstæður, að flokksforinginn fær lítt aðhafst vegna elli eða vanheilsu, hef- ur gert þeim fært að safna í eigin hendur völdum og áhrifum umfram það sem sovét- kerfið býður uppá að öllu eðlilegu. Ungur og röskur flokksforingi gæti hæglega raskað öllum þeim þægilegu valdatengslum, sem tekist hafa á tiltölulega sviptingalitlu tímabili í sovésku flokksforustunni áratugina tvo sem liðnir eru frá því Krústjoff var steypt af stóli. En fleira kemur til en vilji rótgróinna valdsmanna til að halda hópinn og verja í sameiningu forræði sitt fyrir flokki og ríki. Ihaldssemin í sovéska valdakerfinu, and- spyrna og tregða gagnvart öllum meirihátt- ar breytingum og nýjungum, stafar af því fyrst og fremst, að forustukreppan í flokkn- um er endurspeglun kerfiskreppu í þjóðfé- laginu í heild. Miðstýringarkerfið í atvinnu- lífi og á öðrum sviðum þjóðlífsins hefur gengið sér til húðar. Þyngslalegt skrifræði hefur engin tök á að bregðast við kröfum örrar tækniþróunar, með þeim afleiðingum að tæknistig í nýjum greinum og framleiðni í atvinnulífinu í heild hjakkar langt á eftir for- usturíkjum í Vestur-Evrópu, Norður- Ameríku og Austur-Asíu. Vandinn sem að Sovétríkjunum steðjar er þess eðlis, að ekki er unnt að ráða fram úr honum nema með meiriháttar kerfisbreyt- ingum, en sovéska valdakerfið er einmitt til þess sniðið að breytingar geti ekki gerst nema þær komi ofan af æðsta valdatindi. Kommúnistaflokkurinn hefur sett sér að drottna yfir öllum sviðum þjóðlífsins með valdboði, og innan hans er metorðastiginn þannig lagaður, að menn ná þar helst ekki upp í efstu þrep fyrr en þeir eru komnir að fótum fram og ófærir um að koma fram þeim breytingum og nýjungum, sem ef til vill vaka fyrir þeim. Eftir kjör Tsjernenko í stöðu flokksforingja blasir þetta ófremdarástand við öllum sem sjá vilja, bæði heima fyrir og erlendis. 6 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.