Helgarpósturinn - 07.02.1985, Blaðsíða 6
INNLEND YFIRSYN
Gjá hefur myndast milli
andstæðra fylkinga Al-
þýðubandalagsins. Breikki hún,
gæti Svavar Gestsson fallið
ofaní hana.
Svavar og hyldýpið
Nú er harkalega tekist á um stefnuna í
verkalýðsmálum í flokki verkalýðsbaráttu
og sósíalisma, Alþýðubandalaginu. Ágrein-
ingurinn í flokknum kom upp á yfirborðið á
sunnudaginn var við söguleg stjórnarskipti í
verkalýðsmálaráði, þar sem fíestir áhrifa-
mestu verkalýðsleiðtogar Alþýðubandalags-
ins hurfu úr stjórn.
Bjarnfríður Leósdóttir verkalýðsforingi frá
Akranesi var kosin formaður ráðsins en
Baldur Óskarsson, formannsefni uppstilling-
arnefndar, féll. Atkvæði féllu 41—27, Bjarn-
fríði í vil.
Úrslitin í formannskjörinu komu á óvart,
en fleira kom til. Fyrir fundinn var ljóst, að
Ásmundur Stefánsson, forseti ASÍ, Haraldur
Steinþórsson, framkvæmdastjóri BSRB og
Guðmundur J. Guðmundsson, gáfu ekki kost
á sér í stjórnarkjörinu. Þar að auki melduðu
fjórir sig út af lista uppstillingarnefndar eftir
að úrslitin í formannskjörinu lágu fyrir.
Þeirra á meðal var Guðmundur Þ. Jónsson,
formaður Landssamtaka iðnverkafólks.
„Niðurstaða fundarins var stórslys," segir
Þröstur Ólafsson, fráfarandi formaður í
verkalýðsmálaráði Abl. í samtali við Helgar-
póstinn. ,,Þessi niðurstaða bendir til mikils
skoðanaágreinings innan flokksins um þessi
mál. Það verður torvelt að leysa hann en
hann er ekki óyfirstíganlegur."
Slysið felst í því að áhrifamennirnir hverfa
úr stjórninni, mennirnir sem móta „hina fag-
legu baráttu verkalýðshreyfingarinnar" frá
degi til dags og við tekur fólk sem hefur ekki,
með fáeinum undantekningum, látið mikið
að sér kveða í stefnumótun hreyfingarinnar
hingað til, hvað sem síðar verður.
Um nokkurt skeið, sérstaklega eftir verk-
föll bókagerðarmanna og BSRB í haust, hef-
ur gætt vaxandi skoðanaágreinings í Al-
þýðubandalaginu um stefnuna í málefnum
verkalýðshreyfingarinnar. Menn hafa eink-
um deilt um starfsaðferðir hreyfingarinnar
og stjórnunarmál — hvernig „reka skuli
kjarabaráttuna" og að hve miklu leyti stofn-
anir flokksins, eins og verkalýðsmálaráð,
eigi að leggja línurnar fyrir sína menn í
áhrifastöðum hreyfingarinnar. Inn í þessar
deilur blandast svo persónuleg átök helstu
forystumanna Alþýðubandalagsins innan og
utan verkalýðshreyfingarinnar, einkanlega
þeirra Svavars Gestssonar, formanns flokks-
ins og Ásmundar Stefánssonar.
Segja má að tvenns konar sjónarmið hafi
togast á í Alþýðubandalaginu að undanförnu
um heppilegustu leiðirnar í verkalýðs-
baráttu undir núverandi ríkisstjórn. Annars
vegar harðar aðgerðir í stíl við verkfall BSRB
í haust og hins vegar samráðs- og skatta-
lækkunarleiðina sem aldrei var farin. „Menn
greinir á um þær leiðir sem farnar voru í síð-
ustu kjarasamningum," segir Þröstur Ólafs-
son.
„Ég stakk upp á Bjarnfríði sem formanni,
að vel athuguðu máli," segir Margrét Pála
Ólafsdóttir, formaður Fóstrufélagsins, sem
náði jafnframt kjöri í stjórn verkalýðsmála-
ráðsins á sunnudaginn. „Ég tel að verkalýðs-
málapólitík flokksins hafi verið allt of veik að
undanförnu og ekki í þeim dúr sem almennt
félagsfólk kýs. Við erum líka mörg óánægð
með það fyrirkomulag að í verkalýðsmála-
ráð flokksins skuli raðast forystumenn
stærstu verkalýðsfélaganna, jafn bundnir og
þeir eru stundarbaráttu félaga sinna. Við telj-
um ekki að verkalýðspólitík flokksins eigi að
lifa eftir einni stefnu í dag og annarri á morg-
un. Það verður að marka skýra stefnu."
Talsmenn harðrar mótspyrnu gegn kjara-
skerðingunni síðustu ár telja hlut sinn hafa
verið fyrir borð borinn í flokknum og vilja að
forysta hans taki afdráttarlausari afstöðu í
verkalýðsbaráttunni. „Flokkurinn stóð mitt
á milli í verkfallinu og gat sig hvergi hrært,"
segir Margrét Pála. „Þessi flokkur sem kenn-
ir sig við verkalýðsbaráttu var ófær um að
taka hreina afstöðu um leiðir í verkfallinu!
Hvað hefði gerst hefði flokkurinn verið í
stjórn?" Hún segir titringinn í flokknum stafa
af sárindum forystumanna og að hér þurfi
ekki að vera um ósættanlegar andstæður að
eftir Hallgrím Thorsteinsson
ræða. Hún segir að breytingarnar núna séu
fyrsti vísirinn að því að stækkandi „óánægju-
brot kvenna og fiskvinnslufólks" láti meira
að sér kveða í kjarabaráttunni á næstunni.
„Núverandi verkalýðskerfi er tímaskekkja
og þeir sem ekki þekkja sinn vitjunartíma nú
verða undir. Ég vona bara að menn sjái að
sér og sætti sig við lýðræðislegar niðurstöð-
ur.“
„Ágreiningurinn stendur um það," segir
Þröstur Ólafsson, „hvort menn telja skipta
máli, niðurstöðurnar sem fást, eða aðferð-
irnar sem notaðar eru í baráttunni." Þröstur
er einn öflugasti talsmaður þeirra alþýðu-
bandalagsmanna, sem telja stórstyrjöld á
vinnumarkaðnum ekki til þess fallna að skila
viðunandi niðurstöðu, hvorki kjaralega né
efnahagslega. Meðan núverandi ríkisstjórn
sé við völd, sé óskynsamlegt að beita hörð-
um aðgerðum, þar sem árangur þeirra geti
svo auðveldlega verið tekinn til baka.
Svavar Gestsson, formaður Alþýðubanda-
lagsins, á við ærinn vanda að glíma og síð-
ustu átök í flokknum hafa veikt stöðu hans til
muna. Hugmyndir hans um endurnýjunarregl-
ur í verkalýðshreyfingunni hafa vægast sagt
fallið í grýttan jarðveg meðal verkalýðsfor-
ingja flokksins. Hann þarfnast þeirra líklega
meira nú orðið en þeir þarfnast hans, sér-
staklega ef hugmyndir um nýsköpunarstjórn
í náinni framtíð eiga að geta kallast eitthvað
annað en óskhyggja örfárra manna. Ráð-
herraefni Alþýðubandalagsins þurfa verka-
lýðsforingjana til að nota „sem skiptimynt
fyrir ráðherrastóla í nýsköpunarstjórn", eins
og einn alþýðubandalagsmaður orðaði það
við Helgarpóstinn. Gjá hefur myndast í
flokknum og farið breikkandi. Gert er ráð
fyrir að Svavar standi með Bjarnfríði Leós-
dóttur frekar en ekki, en jafnframt getur
hann vart styggt verkalýðsforingjana enn
frekar. Hann stendur klofvega yfir gjánni.
Breikki hún enn þarf hann að stökkva yfir á
aðra hvora brúnina. Annars fellur hann.
Þriðji kosturinn er að brúa gjána, en teikn-
ingar að slíkri brú virðast ekki liggja fyrir
sem stendur.
ERLEND YFIRSÝN
Frá því Beaverbrook Iávarður var kunnast-
ur blaðakónga, hefur Lundúnablaðið Daily
Express, flaggskipið í blaðaflota hans, verið
alræmt fyrir ósvífni og óáreiðanleika.Beav-
erbrook réði að því ritfærustu penna sem fal-
ir voru, til að bera meinlokur sínar og hrekki
á borð fyrir milljónir breskra lesenda.
í samræmi við þessa göslarahefð var sú
frásögn blaðsins um daginn, að sovéska
skeytið sem kom niður í Norður-Finnlandi
28. desember hefði í rauninni verið stýri-
flaug, og stefnt á Hamborg, vegna þess að
stýritölva hefði í misgripum verið mötuð á
forskrift ætlaðri til notkunar á stríðstímum.
Það fylgdi sögunni, að sovétmenn hefðu
skotið skeytið niður, en jafnframt látið
Bandaríkjamenn vita á neyðarlínunni milli
Kremlar og Hvíta hússins hverskyns væri,
mistök en ekki leifurárás.
Frásögn Daily Express var umsvifalaust
borin til baka af öllum aðilum, og hefur nú
verið hrakin með brakinu sem Finnar fisk-
uðu upp úr Inarivatni. Tilbúningurinn var þó
ekki þar með úr sögunni. í vitnisburði fyrir
utanríkismálanefnd Öldungadeildar Banda-
ríkjaþings í síðustu viku, greip sjálfur Caspar
Weinberger landvarnaráðherra til þess
bragðs að veifa heldur röngu tré en öngu,
þegar þingmenn þrengdu að honum í orða-
skiptum varðandi stjörnustríðsáform þeirra
Reagans forseta. Claiborne Pell frá Rhode Is-
land spurði ráðherra, hvort ekki væri til lítils
að ausa fé í geimvarnir við eldflaugum, þar
sem landið væri eftir sem áður jafn ber-
skjaldað fyrir árás með flugskeytum hlið-
stæðum Cruise, sem fylgja yfirborði jarðar.
Weinberger hélt nú síður. Hann svaraði:
„Sovétmenn sýndu í verki fyrir nokkrum
dögum varnir sínar við stýriflaugum, þegar
þeir skutu niður villuráfandi flaug sína, sem
komin var að minnsta kosti innyfir Finn-
land." Og í orðaskiptum við Larry Pressler
frá Suður-Dakóta bætti ráðherrann um bet-
ur: „Sovétmenn hafa þegar sýnt í verki eina
aðferðina, með því að skjóta niður stýri-
flaugina sína, sem þeir misstu með einhverj-
um hætti frá sér og var komin áleiðis innyfir
Noreg og Finnland."
Weinberger fór þarna með svo staðlausa
stafi, að Burch talsmaður hans varð að bera
ummælin til baka við fréttamenn samdæg-
urs, og í þessari viku varð ráðherra sjálfur að
biðjast afsökunar á fleipri sínu.
ettir Magnús Torfa Ólafsson
Weinberger landvarna-
ráðherra reyndi að slá
ryki í augu öldungadeild-
armanna.
Andfætlingum geðjast ekki
að tóninum frá Washington
Málflutningur af því tagi sem þarna var
viðhafður, hefur sífellt verið að skreppa upp
úr æðstu mönnum Bandaríkjanna síðan
Ronald Reagan settist að í Hvíta húsinu og
kom Weinberger fornvini sínum fyrir í
Pentagon. Tal þeirra um möguleika á kjarn-
orkuvopnaviðskiptum, sem dragist á lang-
inn, og þörf Bandaríkjanna á hernaðarmætti
til að heyja slíkt stríð til sigurs, ber annað
tvéggja vott geigvænlegu skilningsleysi á
umræðuefninu eða viðleitni til að telja
bandarískum almenningi trú um að vopna-
væðingin, sem er meginmarkmið forsetans
og landvarnaráðherra hans, fái veitt Banda-
ríkjamönnum á ný yfirburði á við þá sem
þau nutu, meðan engir aðrir réðu yfir kjarn-
orkuvopnum. Af sama tagi eru stór orð
Reagans um að gera kjarnorkuvopn öll með
tölu „máttlaus og úrelt" með stjörnustríðs-
áætlun sinni. Svo talar sá einn sem á lafhægt
með að leggja trúnað á þrjá ómögulega hluti
fyrir morgunmat, svo notuð séu orð kynja-
verunnar í Lísu í Undralandi. Bandaríkjafor-
seta virðist svo farið, ef um er að ræða mál-
efni sem hann telur auðvelda sér að halda yf-
irburðataki á bandarísku almenningsáliti.
Áhrifin á umheiminn eru allt önnur. Þess
er tekið að gæta, að glannalegar yfirlýsingar
bandarískra áhrifamanna til heimabrúks eru
farnar að grafa undan trausti á Bandaríkjun-
um með öðrum þjóðum. Bæði innan Atlants-
hafsbandalagsins og á Kyrrahafi stefnir í
árekstra milli Bandaríkjastjórnar og banda-
manna hennar vegna afstöðu til kjarnorku-
vopna.
Verkamannaflokkurinn á Nýja Sjálandi
vann stórsigur í síðustu þingkosningum, þar
sem hann gerði að áberandi kosningamáli
fyrirheit um að bægja frá nýsjálenskum
höfnum öllum farkostum með kjarnorkutól
innanborðs, hvort heldur vopn eða aflvélar.
Nýsjálendingar eru hvekktir á geislun um-
hverfis sig, fyrst frá kjarnorkusprengingum
Bandaríkjamanna í Bikini og Eniwetok, síð-
ar Frakka á Muroroa.
David Lange, forsætisráðherra Nýja Sjá-
lands, hefur lagt sig fram um að haga málum
svo, að ekki kæmi til illinda við Bandaríkin
út af stefnu nýju stjórnarinnar um hafnbann
á skip með kjarnorku innanborðs. Kvað
hann stjórn sína fúsa til fullrar þátttöku í
ANZUS, 34 ára gömlu gagnkvæmu varnar-
bandalagi lands síns við Ástralíu og Banda-
ríkin. Aðeins yrði farið fram á, að herskip sem
kæmu í höfn á Nýja Sjálandi yrðu laus við
kjarnorkuvopnabúnað.
Bandaríkjastjórn ákvað aftur á móti að
sýna fyllstu hörku og greip fyrsta tækifæri til
að láta skerast í odda. Fyrir hálfum mánuði
var tilkynnt í Washington, að eitt af banda-
rískum herskipum í flotaæfingu ANZUS,
„Haferni", myndi Ieita hafnar á Nýja Sjálandi,
og ekki yrði nein yfirlýsing gefin um að það
væri ekki með kjarnorkuvopn meðferðis.
Lange svaraði, að upp á þau býti væru nýsjá-
lenskar hafnir skipinu lokaðar. Bandaríkja-
stjórn aflýsti þá flotaæfingunni, og talsmað-
ur forsetans gaf í skyn að til athugunar væri
að grípa til refsiaðgerða gagnvart Nýja Sjá-
landi.
Framan af deilunni reyndi Bob Hawke,
forsætisráðherra Ástralíu, að fá Lange til að
taka til greina þá afstöðu Bandaríkjastjórnar
að játa aldrei né neita, hvar hún hefur kjarn-
orkuvopn. En Hawke stjórnar verkamanna-
flokksstjórn eins og Lange, og þegar Reagan
tók að yggla sig gagnvart nágrannalandi fyr-
ir að vilja ekki sætta sig við að bandalag við
Bandaríkin þýði skilyrðislausa undirgefni
undir bandarískar ákvarðanir í öllu sem
meðferð kjarnorkuvopna varðar, sneri Bob
Hawke við blaðinu. Hann er í Washington
þegar þetta er ritað, og áströlsk blöð fullyrða
að hann muni tjá Reagan, að Ástralíustjórn
sé hætt við að aðstoða Bandaríkjaher við til-
raun með langdrægu MX-eldflaugina. Þar að
auki segist Ástralíustjórn láta flota sinn taka
þátt í „Haferninum" með Nýsjálendingum,
þótt Bandaríkin skerist úr leik.
I Atlantshafsbandalaginu er það stjórn
Grikklands sem gerir sig líklega til að hafa
hönd í bagga hverju fram vindur um banda-
rískar kjarnorkuvopnastöðvar þar í landi.
Papandreou forsætisráðherra hefur skýrt frá
því, að stjórn sín hafi synjað beiðni Banda-
ríkjastjórnar um endurnýjun kjarnavopna
sem komu til Grikklands fyrir þrem áratug-
um. Jafnframt lætur Papandreou það boð út
ganga, að framtíð bandarískra kjarnorku-
vopnastöðva í Grikklandi velti á, að ljóst sé
að ekki strandi á bandarískri afstöðu, að
áform um að gera Balkanskaga kjarnorku-
vopnalaust svæði nái fram að ganga.
6 HELGARPÓSTURINN