Helgarpósturinn - 11.09.1986, Blaðsíða 2

Helgarpósturinn - 11.09.1986, Blaðsíða 2
UNDIR SÖLINNI Górillur ganga aldrei með bindi... eftir Egil Helgason Helgarpósturinn getur státað af því að fyrr í sumar lét hann þess getið, einn tveggja stór- blaða, að hingað til lands hefði á vormánuð- um komið góður gestur, sem því miður hlaut ekki þá athygli sem hann svo sannarlega verðskuldaði. Ég ætla að dyggir lesendur Helgarpóstsins kannist við nafnið Michael J. Kami, en sá merkismaður er af brasilísku bergi brotinn, en telst eiga heimilisfang í Ameríku þær stopulu stundir þegar hann er ekki á ferð og flugi um heiminn að leggja kapítalistum lífsreglurnar um bættan rekstur og meiri gróða. Kami kvað njóta slíks álits meðal helstu auðmanna að stórfyrirtæki á borð við KókaKóla og IBM telja sig ekki geta án ráðgjafar hans verið, enda hefur hún bor- ið svo ríkulegan ávöxt að bæði þessi fyrir- tæki hafa stóraukið umsvif sín hin síðari ár — og voru þau þó ekkert smáræði fyrir. . . En Kami vill vera sjálfs sín herra, heims- maður á eigin vegum, prívatmaður. Þótt al- þjóðafyrirtæki keppist við að bjóða honum hálaunaðar forstjórastöður er svar hans ein- att afdráttarlaust nei; hann kýs sér heldur hið vandasama hlutskipti boðandans, hugsuðar- ins, hugmyndafræðingsins. Og heyrir hún nú blessunarlega grárri forneskju til sú tíð þegar kommúnistar og nótar þeirra töldu sig hafa handhafarétt á allri boðun, hugsun og hug- myndafræði. Núorðið skal kapítalisminn líka reistur á bjargi traustrar hugmyndafræði — og er það vel... Það var í júníbyrjun að Michael J. Kami sá sér loks fært að koma hingað til fslands í boði Stjórnunarfélagsins, félags sem réttilega ber höfuð og herðar yfir önnur hérlend félög. Þær hundraðogtíu sálir sem sóttu fyrirlestur Kamis á veitingahúsi af betra taginu voru ekkert að setja það fyrir sig þótt inngangs- eyririnn væri hérumbil tólfþúsund krónur; það fé var reitt af hendi með glöðu geði, enda skildu þátttakendur að þessi lítilfjör- lega upphæð getur skilað sér þúsundfalt í bættum rekstri og meiri gróða. Þeir fjöl- mörgu starfsmenn hins opinbera sem sóttu erindi Kamis voru heldur ekkert að horfa í aurinn, enda hafa þeir vonandi getað fært hinar hollu ráðleggingar inná viðeigandi kostnaðarreikninga. Eða hvað sagði ekki einn þátttakandinn í viðtali við Morgunblaðið: ,,Ég er kominn hingað til að fá hugmyndir og lyfta mér upp úr rigningarsuddanum." Fremur en aðrir gestir hefur téður þátttak- andi tæpast gengið vonsvikinn útí rigningar- suddann aftur, því hugmyndir Kamis reynd- ust nýstárlegar, jafnvel byltingarkenndar, og þá sérstaklega vangaveltur hans um kaup- sýslumann nútímans og framtíðarinnar. Kami lýsti þeirri skoðun sinni að ungi, sett- legi viðskiptafræðingurinn með snyrtilega bindishnútinn sé orðinn úreltur og einskis nýtur. í staðinn, sagði Kami, þurfa nútíma fyrirtæki á svokölluðum górillum að halda. Nei, Kami vill ekki opna dýragarðana uppá gátt og hleypa skynlausum skepnum á at- vinnureksturinn, heldur eru górillurnar hans „ungir, hugmyndaríkir, atorkusamir og óhefðbundnir menn. Þeir láta ekki að stjórn, mæta seint til vinnu, eru í burtu tvo klukku- tíma í hádeginu, gleyma að heilsa forstjóran- um og ganga aldrei með bindi.“ Svo mælti Kami og það mátti heyra saum- nál detta í fundarsalnum. Og Kami hélt áfram, ómyrkur í máli, eins- og hans er von og vísa: „Vel á minnst, bindi. Ég sé að hér eru allir með einhverskonar hálstau. Það er hlægilegt hvað þið stjórnend- ur eruð enn rótfastir í hefðum 19du aldarinn- ar.“ Ekki höfum við óyggjandi heimildir fyrir því að þessi orð Kamis hafi haft þau áhrif á fundargesti að þeir hafi unnvörpum leyst af sér bindí og slaufur og kastað slíkum klæðis- plöggum endanlega fyrir róða. Þar hljóta líkt og víðar að gilda viss tregðulögmál — fram- tíðin verður jú ekki fullskapa í einni andrá. Hitt er víst að boðskapur hans féll ekki í grýttan jarðveg, því fyrir satt er haft að þeg- ar upp var staðið „virtust áhorfendur sælir og glaðir að hafa eytt dagstund með Michael J. Karni". Eru þá slétt og felld snyrtimenni að líða undir lok — þeir sem hafa lúslesið þá frægu bók „Dress for Success" — og górillurnar að taka yfir? Megum við kannski eiga von á því að framvegis gangi stjórnendur fyrirtækja um órakaðir með úfið hár, sorgarrendur und- ir nöglum, í slitnum gallabuxum og snjáðum leðurjökkum, láti ekki birta af sér giftingar- myndir í Morgunblaðinu, mæti timbraðir til vinnu, noti óheflað orðbragð, fari ekki í lax og spili ekki golf, hunsi félagsskap á borð við Lions, JC og Frimúrararegluna — verði sum- sé á alla lund óreglumenn til orðs og æðis, at- orkusamir, hugmyndaríkir og óhefðbundnir óreglumenn? Og hvar ætlum við þá að finna þann fjölda af górillum sem gæti borið kyndil íslensks at- hafnalífs inní framtíðina? Varla í viðskipta- eða lögfræðideildum Há- skólans, því þar ganga menn upp til hópa með bindi, heilsa prófessornum og mæta á réttum tíma. Þeir gætu kannski reynt að bjóða í okkur blaðamennina — við erum, satt best að segja, býsna óheflaðir margir hverjir.. . HAUKUR I HORNI 2 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.