Helgarpósturinn - 02.10.1986, Qupperneq 4
INNLEND OG ERLEND YFIRSYN
eftir Magnús Torfa Ólafsson
Leiðtogarnir taka samninga-
umleitanir í eigin hendur
Reykjavíkurfundurinn er
áfangi að heimsókn
Gorbatsjoffs til
Bandaríkjanna.
Á hálfri annarri viku eftir aö Eduard
Shevardnadse, utanríkisráðherra Sovétríkj-
anna, kom til Bandaríkjanna að sitja Alls-
herjarþing Sameinuðu þjóðanna, átti hann
sex fundi með bandarískum starfsbróður sín-
um, George Shuitz, flesta í lengra lagi. Þar að
auki gekk sovéski utanríkisráðherrann á
fund Ronalds Reagans forseta og afhenti
honum svar æðsta manns sovétstjórnarinn-
ar, Mikhails Gorbatsjoffs, við bréfi Banda-
ríkjaforseta frá miðju sumri.
I því bréfi setti Reagan fram afstöðu
Bandaríkjastjórnar til viðfangsefnanna sem
hæst ber í samskiptum risaveldanna. Hvor-
ugt bréfið hefur enn verið birt, en ljóst er að
þessi bréfaskipti og viðræður utanrikisráð-
herranna undanfarna daga eru undanfari og
tilefni þess fundar Reagans og Gorbatsjoffs,
sem fyrir dyrum stendur á Islandi.
Það sem forustumönnum stórveldanna
hefur farið á milli er bersýnilega ástæðan til
þess að þeir hafa, öllum á óvænt, ákveðið að
hittast í Reykjavík og ræðast við augliti til
auglitis. En jafnframt er ljóst af fundarstað og
tíma, að enn er ekki leystur ágreiningur ríkj-
anna tveggja til ráðstafana sem á dagskrá
eru til að takmarka vopnabúnað og hemja
þar með vígbúnaðarkapphlaupið sem þau
heyja sín í milli.
Hefði svo verið, væri samkomulag um
grundvallaratriði í sjónmáli, hefðu leiðtog-
arnir ekki lagt leið sína til íslands, heldur
komið saman til fundar í Washington. í Genf
í fyrra ákváðu þeir að næsti fundur yrði hald-
inn í Bandaríkjunum, og að honum afstöðn-
um er gert ráð fyrir að Reagan komi í heim-
sókn til Sovétríkjanna.
Aldrei þessu vant hefur lítið sem ekkert sí-
ast út af fundalotu utanríkisráðherranna
Shultz og Shevardnadse í Washington og
New York. Nokkuð af árangrinum er komið
í Ijós, þar sem eru skipti á mönnum sem sátu
í haldi, Bandaríkjamaðurinn Daniloff í
Moskvu og sovétmaðurinn Sakharoff í New
York, báðir sakaðir um að hafa tekið við
leyniskjölum. Frá upphafi var ljóst að banda-
ríska alríkislögreglan tók til leyniskjölin sem
kunningi Sakharoffs afhenti honum, og ekki
er að efa að sovéska leynilögreglan hefur
leitt Daniloff í gildru til að fá átyllu til að
handtaka hann.
Nú eru báðir farnir til síns heima, og þá er
rutt úr vegi hindrun fyrir að samningaum-
leitanir risaveldanna um samskipti þeirra á
öðrum sviðum geti haldið áfram af fullum
krafti. Þar er einkum um þrjú svið að ræða.
í fyrsta lagi er rætt um verulega fækkun
langdrægra kjarnorkuvopna beggja ríkja,
sem þau hafa heima hjá sér eða i kafbátum
á siglingu um heimshöfin. í öðru lagi er fjall-
að um skammdrægari vopn, sér í lagi þau
sem komið hefur verið fyrir í Evrópu og unnt
væri að beita í átökum sem ekki næðu út fyr-
ir álfuna. í þriðja lagi er svo verið að leita
leiða til að finna sameiginlega afstöðu til
rannsókna á ráðum til að verjast úti í geimn-
um kjarnorkueldflaugaskotum andstæðings-
ins, áður en þau komast í mark, svo og smíði
slíkra tóla, beri rannsóknirnar árangur.
Það sem vitað er um tillögur ríkisstjórn-
anna sýnir, að báðar hafa teygt sig nokkuð
áleiðis til að nálgast afstöðu hins viðræðuað-
ilans. En samsetning vopnabúra þeirra er
svo mismunandi, að mikill vandi er að finna
meðalhóf í fækkun vopna og hömlum á
smíði og uppsetningu nýrra, sem samkomu-
lag er um að gangi jafnt yfir bæði, þannig að
það ógnarjafnvægi sem bæði viðurkenna að
nú ríki þeirra í milli raskist ekki. Ógnarjafn-
vægið felst í því, að hvorki Bandarikin né
Sovétríkin geta gert sér von um að sigra hitt
með skyndiárás, nema eiga víst að verða fyr-
ir gereyðingarárás á móti.
Sovétríkin reiða sig fyrst og fremst á öfl-
ugustu eldflaugar sem smíðaðar hafa verið.
Þær geta borið allt að tvo tugi kjarnorku-
sprengja, sem beina má hverri að sínu skot-
marki, af svo mikilli nákvæmni að Banda-
ríkjamenn fullyrða að þær geti eyðilagt sínar
langdrægu eldflaugar í skotbyrgjum. Aftur á
móti hafa Bandaríkin yfirburði í fjölda og
búnaði kjarnorkukafbáta sem bera kjarn-
orkueldflaugar. Þar að auki eru Bandaríkja-
menn taldir eiga mun hægara með að fylgjast
með ferðum sovéskra kafbáta en Sovétmenn
með ferðum þeirra bandarísku. Það felur í
sér að sovésku kafbátunum er meiri hætta
búin í vopnaviðskiptum.
Meðaldræg kjarnorkuvopn eru þéttust í
Evrópu, þar sem Sovétmenn hafa 270 eld-
flaugar af gerðinni SS-20 með 810 kjarnorku-
sprengjum, og Bandaríkjamenn eru í óða
önn að koma fyrir Pershingeldflaugum og
Cruise flugskeytum, sem eiga að verða til
samans 572 þegar uppsetningaráætluninni
lýkur. Fregnir herma að upp á síðkastið hafi
einna mest miðað til samkomulags um það
viðfangsefni, að fækka þessum meðaldrægu
vopnum. Fréttamenn í Washington höfðu
fyrir skömmu eftir embættismönnum þar, að
eygja mætti samkomulag sem fæli í sér fækk-
un niður í 100 sprengjur af þessu tagi hjá
hvorum aðila. Aftur á móti væri enn ófengið
samþykki Sovétmanna við bandarískri kröfu
um að fækkað verði í sama hlutfalli SS-20
eldflaugum í Asíuhluta Sovétríkjanna.
Frá öndverðu hefur Gorbatsjoff tekið þá af-
stöðu, að skilyrði fyrir fækkun sovéskra
kjarnorkuvopna sé að Reagan hverfi frá því
að koma upp eldflaugavörnum, sem geri
Bandaríkin óhult fyrir árás með slíkum
vopnum. Slíka geimvarnaáætlun líta Sovét-
menn á sem tilraun til að ná úrslitayfirburð-
um yfir sig, þar sem ógnarjafnvægið væri þá
úr sögunni.
Það lítið frést hefur úr bréfunum, sem leið-
togunum hafa farið á milli, bendir til að þar
sé einkum fjallað um þetta mál. Fyrir liggur
að Reagan hefur boðist til að framlengja nú-
gildandi samning, sem takmarkar smíði og
uppsetningu geimvopna gegn eldflaugum af
hálfu risaveldanna beggja, í allt að sjö og
hálft ár. Á skotspónum er hermt að svar
Gorbatsjoffs sé tilboð um að endurskoða
samninginn og framlengja hann breyttan
ekki skemur en í 15 ár. Nú getur hvort ríkið
um sig sagt samningnum upp með skömm-
um fyrirvara.
Þarna er um flókin mál að ræða, og allt
bendir til að í báðum ríkisstjórnum sem hlut
eiga að máli séu uppi ólík sjónarmið um hve
Iangt eigi að ganga í tilslökunum til að ná
samkomulagi. Aðdragandi fundar Gorbat-
sjoffs og Reagans í Reykjavík bendir til, að
þeim hafi þótt mál komin á það stig, að nauð-
syn bæri til að þeir kæmu saman til að reyna
á þann hátt að ryðja úr vegi hindrunum fyrir
árangri í takmörkun vopnabirgða og vígbún-
aðar, sem erfitt yrði að vinna bug á með orð-
sendingaskiptum og fyrir milligöngu ann-
arra.
Því er þess ekki að vænta, að Reykjavíkur-
fundur æðstu manna risaveldanna verði til
þess að Bandaríkin og Sovétrikin komist að
formlegu samkomulagi um vígbúnaðar-
hömlur. En ef vel tekst til getur hann orðið
markvert skref á brautinni að því marki.
4 HELGARPÓSTURINN