Morgunblaðið - 16.05.1981, Blaðsíða 36

Morgunblaðið - 16.05.1981, Blaðsíða 36
36 MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 16. MAÍ 1981 Minning: Sveinn Gunnlaugsson fyrrv. skólastjóri Sveinn Gunnlaugsson, fyrrver- andi skólastjóri i Flateyri, andað- ist í Reykjavík 3. þ.m., 91 árs að aldri. Minningarnar hrannast upp i huga mér. Það var uppi fótur og fit hjá barnaskólakrökkunum á Flateyri dag einn að morgni haustið 1930. Nýi skólastjórinn hafði komið um nóttina með strandferðaskipinu. Við, sem yngst vorum, létum strax sérstaklega til okkar taka. Við buðum fram okkar sérstöku lið- veizlu og þóttumst þátttakendur í að koma hlutunum fyrir uppi á lofti í Kjartanshúsinu, þar sem skólastjórafjölskyldan settist að. Til kynna og vináttu var stofnað á augabragði og við vorum orðin félagar skólastjórans. Sveinn Gunnlaugsson kunni að umgang- ast börn. Öllum, sem nutu kennslu Sveins, verður hún ógleymanleg. Hann var í sjón mikilúðlegur eins og breiðfirskur sægarpur, skap- mikill, en ljúfur. Sumar kennslu- stundirnar, einkum í Biblíusögum og Islandssögu, standa mér ljóslif- andi fyrir hugskotssjónum enn í dag. Hann var sjálfur hrifnæmur og kom okkur til að hrífast af því, sem við vorum að fást við. Hann takmarkaði sig ekki við skyldu- námið og neytti allra bragða til að gera nemendur sína að nýtum þjóðfélagsþegnum. Það urðu að vera vandaðar framsöguræður á málfundum og kröfur voru gerðar um skilmerkilegar umræður. Sveinn kunni að segja sögu. Hann hafði frá mörgu að segja af sjálfum sér og af mönnum og málefnum. Frásögnin var meitluð mergjuðu máli og skopskynið frábært. Loftið var stundum magnþrungið. Ógieymanleg er frásögnin af því, þegar hann sat á þingpöllum við umræður á Alþingi um bannlögin 1909. Ljóslifandi stóðu þær fyrir hugskotssjónum okkar kempurnar Björn Jónsson, Hannes Hafstein og Skúli Thor- oddsen. Síðan ég var í barnaskólanum hjá Sveini Gunnlaugssyni hefi ég numið hjá mörgum kennurum og sumum frábærum. En fyrst kemur mér alltaf í hug Sveinn Gunn- laugsson, þegar ég heyri getið kennara af Guðs náð. Skólastjórn- in fór Sveini jafnvel úr hendi. Hann kunni þá list að vera í senn félagi og vinur og beita járnhörð- um aga, þegar þess var þörf. Þegar maður eins og Sveinn Gunnlaugsson kemur í þorp eins og Flateyri til að lifa þar og starfa, hljóta að verða viðbrigði og þáttaskil. Hann átti líka eftir að setja svip sinn á Flateyri. Hann var leiðtogi í menningar- og fé- lagsmálum staðarins. Hann var tilkvaddur til forustu, þegar mikið lá við, hvort sem um var að ræða hátíðasamkomu, leikstarfsemi eða skemmtanir. Hann var skáld og hann var ræðumaður. Sveinn var áhugasamur um allt, sem til framfara horfði fyrir byggðarlag- ið og sérstakur baráttumaður fyrir bindindi og gæslumaður barnastúkunnar var hann um langan aldur. Sveinn kom til Flateyrar á miðjum starfsaldri. Hann hafði lokið kennaraprófi árið 1909. Var hann fyrst eitt ár kennari í Flatey á Breiðafirði, síðan 4 ár á Patreks- firði, þá í Flateyjarhreppi 4 ár og svo skólastjóri í Flatey í 12 ár. Þegar Sveinn flytur til Flateyr- ar verða mikil umskipti í hans lifi. Hann tók ástfóstri við sína nýju heimabyggð sem innfæddur væri. Hann orti fagurt ljóð til Önundar- fjarðar, sem Önfirðingar syngja á fagnaðarsamkomum. Hann var gerður heiðursborgari Flateyrar- hrepps árið 1959, þegar hann lét af skólastjórn. Sveinn var viður- kenndur skólamaður og heiðursfé- lagi Kennarafélags Vestfjarða. Sveinn Gunnlaugsson var ekki einsamall, þegartil Flateyrar kom. Hann kom með fjölskyldu, sem átti eftir að koma við sögu svo um munaði. Eiginkona hans, Sigríður Benediktsdóttir af Reykjahlíðar- ætt stóð við hlið hans. Þessi trausta hæfileikakona kom með sitt mikla framlag til þess að fegra mannlífið í þorpinu. Hún byrjaði strax að kenna okkur söng í barnaskólanum og hélt því áfram um langan aldur. Hún andaðist árið 1957. Dóttirin Ragna hélt uppi merkinu með söng- og tón- listarstarfi sínu, en hún andaðist á sl. ári. Hún var gift Hirti Hjálmarssyni, sem kom til Flat- eyrar í kjölfar kennarafjölskyld- unnar. Hjörtur var kennari og samstarfsmaður Sveins, tók við skólastjórn af honum og á sinn mikla og merka þátt í sögu staðarins. Syni áttu þau einnig Sveinn og Sigríður, tvo. Gunn- laugur, listrænn og hvers manns hugljúfi, fetaði í fótspor föðurins og gerðist kennari, en andaðist langt um aldur fram. Hann var kvæntur Ingileif Guðmundsdóttur frá Flateyri. Hinn sonurinn, Bald- ur, fór einnig kennarabrautina og kippir í kynið. Hann ér kvæntur Erlu Ásgeirsdóttur frá Flateyri. í skjóli þeirra hjóna var Sveinn síðustu árin í Reykjavík. Þá er Eggert Ó. Jóhannsson, læknir í Reykjavík, fóstursonur þeirra Sveins og Sigríðar. Eggert er systursonur Sigríðar og er kvænt- ur Helgu Aradóttur. Það gat ekki farið öðruvísi en slikt fólk sem kennarafjölskyldan setti svip sinn á staðinn. Og enn er það svo. Nú er Emil Hjartarson, dóttursonur Sveins, skólastjóri grunnskólans á Flateyri. Eftir að Sveinn lét af skóla- stjórn var hann um árabil stunda- kennari við barnaskólann. Eftir því sem hann lét meir af störfum og ellin færðist yfir, sótti Sveinn meir á fornar slóðir. Var hann þá oft langdvölum á sumrin í Breiða- fjarðareyjum. Fyrir nokkrum ár- um var ég svo heppinn að hitta hann á þessum slóðum. Það var í Hvallátrum, þar sem Sveinn var þá með sinni seinni konu, Eyja- konunni Önnu Ólafsdóttur frá Hvallátrum, hinni ágætustu konu, sem látin er fyrir nokkrum árum. Einn þessara daga vorum við Sveinn saman í Flatey. Það var sólbjartur dagur með hina fögru fjallasýn um allan Breiðafjörð, eins og bezt verður á kosið. Við höfðum margt að tala um, en ekki var minnzt á stjórnmál. Sveinn hafði sínar ákveðnu stjórnmála- skoðanir, þó aldrei væri hann flokksmaður. Leiðir okkar lágu ekki saman í stjórnmálunum. En það skyggði ekki á heiðríkjuna yfir samfundum okkar þennan ógleymanlega dag. I Flatey var Sveinn á helgri jörð. Þar var hann fæddur 17. maí 1889 af breiðfirsk- um ættum, sonur Gunnlaugs Sveinssonar skipstjóra og konu hans, Guðlaugar Gunnlaugsdótt- ur, sem þar bjuggu. Þar átti Sveinn heima þar til hann fluttist til Flateyrar. Það var unun að ganga með Sveini um þennan sögufræga at- hafna- og menningarstað og hlýða á lýsingu hans og frásagnir. Raun- ar var allur Breiðafjörðurinn sögusviðið. Frásagnir frá liðinni tíð um atburði, sem hann hafði sjálfur verið þátttakandi í, voru fluttar af mælsku og orðgnótt. Hann minntist Eyjamanna, sæ- garpa og bændahöfðingja, sem hann hafði lifað og starfað með. Hann sagði frá mannlífinu í Flat- ey, þegar samtíma voru þar sókn- arpresturinn, Sigurður Einarsson, læknirinn Sigvaldi Kaldalóns og skólastjórinn Sveinn Gunnlaugs- son. Það hlaut að vera dýrðlegt mannlíf. Þennan eftirminnilega dag var Sveinn veitandi og ég þiggjandi, eins og forðum daga. Eg hefi Sveini mikið að þakka, eins og allir hinir fjölmörgu, sem notið hafa handleiðslu hans og upp- fræðslu. Sveinn Gunnlaugsson er nú genginn. Hann markaði spor í ungar sálir. Gifturík áhrif vara. Minningin lifir um hugstæðan persónuleika, mikilhæfan og mæt- an mann. Þorvaldur Garðar Kristjánsson í dag er borinn til grafar á Flateyri í Önundarfirði Sveinn Gunnlaugsson fyrrum skólastjóri. Þar með er lagður til hinstu hvíldar einn af síðustu fulltrúum þeirrar stéttar sem mótaðist á fyrstu árum kennaraskóla á Is- landi. Sveinn Gunnlaugsson var fædd- ur í Flatey á Breiðafirði 17. maí 1889. Hann var af breiðfirskum ættum kominn. Faðir hans var Gunnlaugur skipstjóri Sveinsson og kona hans Guðlaug Gunnlaugs- dóttir. Hermann Jónsson formaður í Flatey sagði, að Gunnlaugur hefði verið tveggja manna maki á sjó. Kristbjörgu, móður Gunnlaugs, var svo lýst, að hún var stór vexti, ekki smáfríð, sköruleg í bragði og garpur til allrar vinnu. Útlit sitt hafði Gunnlaugur frá henni og margt mun Sveinn hafa sótt þangað. I æsku Sveins voru enn þeir þjóðarhagir, að bjargræði breið- firskra eyja var notað og eftirsótt. Skútuöldin var þá enn á blóma- skeiði. Þetta umhverfi og atvinnu- hættir mótaði Svein Gunnlaugs- son í bernsku og æsku. Séra Sigurður Jensson vissi það þegar hann fermdi Svein Gunn- laugsson, að þar var kennaraefni. Prestur var um margt áhrifamað- ur í Flateyjarhreppi og að hans tilhlutan var Sveinn fljótlega eftir fermingu ráðinn til að segja börn- um til þar í eyjunum. Heimilin voru þá fjölmenn og sum barn- mörg. Og þetta fyrsta kennslu- starf Sveins Gunnlaugssonar lík- aði öllum vel, bæði honum sjálfum og þeim er njóta skyldu. Það var því mjög eðlilegt, að hann færi í Kennaraskólann, er hann hafði aldur til. Þaðan lauk hann námi vorið 1909 er hann varð tvítugur. Og eftir það var barnakennslan lífsstarf hans. Fyrsta veturinn kenndi hann í Flatey, en síðan á Patreksfirði í fjögur ár, 1910— 1914. I Breiðafjarðareyjum kenndi hann 1914—1918, en þá tók hann við barnaskólanum í Flatey. Skólastjóri á Flateyri var hann 1930 til 1959, að hann hætti fyrir aldurssakir, en stundakennslu annaðist hann þó lengur. En er hann lét af skólastjórn við sjö- tugsafmælið var hann gerður heiðursborgari Flateyrarhrepps. Sveinn Gunnlaugsson kvæntist 30. september 1910. Kona hans var Sigríður Oddný Benediktsdóttir frá Bakka í Vatnsdal. Benedikt faðir hennar var sonur sr. Sigfús- ar Jónssonar frá Reykjahlíð og Sigríðar dóttur Björns Blöndals sýslumanns. En kona Benedikts og móðir Sigríðar var Kristín Þor- varðardóttir. Þau Sveinn og Sigríður áttu þrjú börn. Þau voru: Ragna, fædd 29. október 1911, d. 2. júní 1980. Gunnlaugur kennari, fæddur 13. september 1913, d. 31. marz 1969. Baldur kennari, f. 4. apríl 1929. Eina dóttur eignaðist Sveinn utan hjónabands, Hrefnu, sem fórst í bílslysi 17 ára gömul 1946. Þegar Kristjana, systir Sigríð- ar, missti mann sinn frá ungum börnum, tóku þau Sveinn son hennar til fósturs. Það er Eggert Jóhannsson læknir. Gunnlaugur, faðir Sveins, og Kristín, móðir Sigríðar, áttu elli- skjól á heimili þeirra og létust hjá þeim á Flateyri i hárri elli. Sigríður Benediktsdóttir dó 6. marz 1957. Sveinn kvæntist aftur 14. júní 1958. Seinni kona hans var Anna Ólafsdóttir frá Hvallátrum á Breiðafirði, dóttir Ólafs Berg- sveinssonar og Ólínu Jónsdóttur konu hans. Anna var fædd 13. maí 1893. Sveinn missti hana 7. júlí 1977. Ég kynntist ekki Sveini Gunn- laugssyni fyrr en hann fluttist til Flateyrar, fertugur að aldri. Heimili hans og fjölskylda skipaði fljótt veglegan sess í önfirsku menningarlífi. Sigríður kona hans stóð brátt framarlega í félagsmál- um kvenna. Ragna dóttir hans giftist Hirti Hjálmarssyni kenn- ara. Hún var lengi söngkennari í barnaskólanum og átti auk þess góðan þátt í félagsmálum. Eftir að mér var komið til að ganga í góðtemplarastúkuna á Flateyri, fann ég vel og reyndi gildi þessa fólks í félagsmálum. Sveinn Gunnlaugsson var flest- um mönnum mælskari. Veit ég ekki til að ég hafi nokkrum kynnst sem léttara var um mál. Mælska hans varð glæsileg af því honum lá kjarngóð málsnilld á tungu. Ekki man ég heidur að nefna neinn sem betur og skemmtilegar sagði sögur. Kom þar til, auk málsnilldar, rík kímnigáfa og djúpur og víðtækur skilningur á mannlegu eðli og mannlífi. Sveinn var ritfær vel og skáld- mæltur. Eftir hann liggur á prenti ýmislegt efni fyrir börn, en það var m.a. þáttur í skólastarfi hans að búa börnum efni til flutnings á leiksviði. Einnig átti hann frá- söguþætti í Breiðfirðingi, en ein- hvern veginn finnst mér minna til um að lesa þá en að heyra Svein sjálfan segja frá eigin brjósti. Er það þó ekki af því að ég kunni neitt að finna að hvernig frá er gengið, þegar þættir þeir eru ritaðir og festir á bók. Sveinn virtist ekki leggja mikla rækt við ljóðgáfu sína, en orti þó nokkur eftirminnileg kvæði. Varð ekki annað séð, en honum væri létt um það. Hann var geðhrifa- maður og mun hafa verið lagið að hrífast og finna til, svo honum væri unaður að tjá sig. Sveinn Gunnlaugsson var fé- lagsmálamaður, en þó var lítt hlaðið á hann stjórnsýslustörfum utan skóla, svo sem oft vill þó verða. Hann sóttist ekki eftir slíku og honum lét það heldur ekki. Hann var maður tilfinninganna og sóttist eftir að rækta hjartað. Hann naut sín betur í frjálsu félagsstarfi en við jagsöm og bindandi nefndarstörf. Stundum hjálpaði hann prestum með því að stíga í stólinn fyrir þá og flytja prédikun. Hann var kirkjunnar maður, var lengi safnaðarfulltrúi og kunni því vel. Langt fram eftir ævi Sveins voru kennaralaun knappari en svo, að nægði til framfærslu fjölskyldu, enda skólatími styttri en síðar varð. Kennarar urðu þá að finna sér atvinnu að sumrinu. Það var ekki fyrr en á efri árum Sveins, sem ástæður leyfðu að verja sumri til námsferða til að víkka sjóndeildarhringinn. Hann fór slíkar ferðir til Danmerkur 1954 og Svíþjóðar og Finnlands 1957. Sú kennarastétt sem kom til starfa á fyrstu tugum aldarinnar, vann mikið menningarstarf. Eng- in stétt mun hafa dugað íslenskri bindindishreyfingu betur og kom þar fram hollusta við heilbrigðar lífsvenjur þeirrar menningar, sem ætlast til að menn láti gott af sér leiða. Sveinn Gunnlaugsson var góður þegn í þeirri stétt. Þegar litið er yfir helstu minn- isatriði úr æviferli Sveins Gunn- laugssonar kemur í ljós, að hann reyndi ýmsa harma og mótlæti ekki síður en aðrir. Hann lifði börn sín önnur en yngri soninn. Svipleg slys og langvinn, þrauta- full sjúkdómsbarátta fór ekki framhjá fólki hans fremur en öðrum. Þó tel ég, að hann hafi verið mikill gæfumaður. Ber þar fyrst til, að hann naut sín vel í lífsstarfi sínu. Hann vissi líka, að sífellt eftirlæti er ekki þroskavæn- legt og mótlætið getur gegnt uppeldishlutverki. Hann var kreddulaus bjartsýnismaður í trúmálum. Á Flateyri byggðu þau Sigríður sér hús í félagi við Rögnu dóttur sína og Hjört tengdason. Sambýlið við þau og samstarfið við Hjört var þeim mikil gæfa. Eftir að Sveinn missti Sigríði, átti hann góða og fagra sambúð við seinni konuna í nálega 19 ár. Og síðustu árin átti hann góða vist á heimili Baldurs sonar síns og Erlu Ásgeirsdóttur, konu hans. Sveinn Gunnlaugsson var alla ævi Breiðfirðingur. Á Flateyri kvaðst hann sakna þess að sjá ekki fallega siglda báta. Hann var barnavinur og virtist fyrirhafn- arlaust að hæna smábörn að sér. Börn skynja hjartað. Stundum var Sveini falið að tilkynna fólki sviplegan ástvina- missi. Það fór honum vel. Það leyndi sér ekki, að hann fann til með þeim sem sárin hlutu. Það þurfti hann ekki að segja. Það fannst. Og samúðin er áhrifamikil á slíkum stundum. í dag er Sveinn Gunnlaugsson kvaddur í Flateyrarkirkju, en hann var mikill hvatamaður að byggingu hennar á sinni tíð. Meira en hálfa öld hefur skólastjórnin á Flateyri verið falin fjölskyldunni, því að nú er skólastjórinn dóttur- sonur Sveins, Emil Hjartarson. Allir, sem þar hafa slitið barns- skóm og ekki eru komnir að ellilaunaaldri, hafa notið kennslu þessara manna. Önfirðingar eiga því margs að minnast. Og það er margt að þakka. Persónulega þakka ég Sveini Gunnlaugssyni marga skemmti- lega stund, eftirminnilega og lær- dómsríka. Mest var þó vert að kynnast honum sjálfum, mannin- um með hlýja hjartað sem skildi samferðafólkið svo vel. H. Kr. Að leiðarlokum vakna margar minningar. Eina minningu á ég, sem fyllti huga minn, þegar ég frétti andlát Sveins Gunnlaugs- sonar sunnudagskvöldið 3. maí sl. Sú minning er frá samfylgd með skólastjóranum á Flateyri, Sveini Gunnlaugssyni, yfir Klofnings- heiði fyrir 40 árum. Ég minnist vorsins og veðurblíðunnar en þó miklu betur þeirrar fagnaðar- reynslu að eiga þessa fe.rð á kvöldstundu yfir háan vestfirzkan fjallveg í samfylgd með Sveini. Hann var svo hvetjandi huga mínum og viljalífi, svo fróður og frásagnargóður og viðmótshlýr við mig. Ég vissi, að hann var einn af bezt metnu mönnum á Vest- fjörðum. Sumir sögðu hann mælskastan og málhagastan mann í Vestfirðingafjórðungi. Það var líklega þess vegna, sem það var skemmtandi og fræðandi löng- um að hlusta á ræður hans. Honum var gefin geta til þess að taka til orða í bundnu máli jafnt og að ræða slétt dægurefni, og ekki síður að semja og flytja djúpt hugsaðar ræður um alvarleg efni, einnig trúmál. Sakir þess þjóðlífsstíls, sem ríkti hér á landi fyrir hálfri öld, fannst þáverandi biskupi yfir ís- landi ekki ástæða til að verða við tilmælum föður míns og heimila, að Sveinn Gunnlaugsson stigi í predikunarstól, af því að hann var ekki guðfræðimenntaður. En þeir létu samt verða af því, félagarnir, að Sveinn flytti predik- un, samda eins og kirkjuræðu, á samkomu í Saurbæ vestur í Döl- um, nú fyrir slétt hálfri öld. Á þessum dögum, þegar 1000 ára kristniboðs er minnst á íslandi, hefðu margir fagnað því að fá að njóta andagiftar snjallyrta Breið- firðingsins í predikun frá stólnum í kirkjunni. Ég er viss um að prestar og biskupar dagsins í dag byðu hann velkominn til þátttöku á málþingi, þótt aldarfar fyrir hálfri öld væri ekki reiðubúið til þess. En það er fleira en málsnilldin, sem er minnisvert af Sveíni Gunnlaugssyni. Hann fæddist í menningarumhverfi á umsvifa- stað 17. maí 1889, í Flatey á Breiðafirði. Foreldrar hans voru Gunnlaugur Sveinsson, skipstjóri

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.