Morgunblaðið - 14.02.1998, Blaðsíða 9

Morgunblaðið - 14.02.1998, Blaðsíða 9
HALLDÓR KELJAN LAXNESS LAUGARDAGUR 14. FEBRÚAR 1998 9 hans í sambandi við hina ókunnu meistara fornsagnanna íslensku. Þótt hann væri sá sem tæki við verðlaununum fyndist honum þau um leið hafa verið veitt lærifeðrum sínum, þeim sem látið hefðu eftir sig bókmenntalegan arf íslands. Það var honum ljóst til hinstu stundar að sagnahefð og menning- ararfur þjóðarinnar var sá trausti grunnur er hann reisti ritstörf sín á. A samkomu í Þjóðleikhúsinu í til- efni af 85 ára afmæli Halldórs Lax- ness voru skáldinu færðar þakkir íyrir ómetanlegt framlag hans til íslenskrar þjóðmenningar. Þá sté hann á fjalir leikhússins og mælti: „Þessari þjóð ber ekki að þakka mér. Eg þakka henni fyrir allt það sem hún hefur gert mér gott, - ég þakka ykkur hjartanlega fyrir mig.“ Á þakkar- og kveðjustundu hvarflar hugur okkar Elínar til fjölskyldu Halldórs, ekki síst til Áuðar sem með einstökum dugnaði sínum og ósérhlífni annaðist rekst- ur heimilisins að Gljúfrasteini sem í senn var athvarf fjölskyldunnar og alþjóðleg menningarmiðstöð. Hún skóp Halldóri aðstæður sem gerðu honum kleift að sinna rit- störfum sínum af aleflí hvort sem hann skrifaði í vinnustofu sinni eða í öðrum herbergjum innan lands eða utan. Við hugsum til dætra Auðar og Halldórs, Sigríðar og Guðnýjar, barna hans, Einars og Maríu, og fjölskyldna þeirra. Þjóð- in hefur misst einn af sínum bestu og merkustu sonum sem fært hefur henni ómetanlegar gjafir en hún má ekki gleyma því að þetta fólk sér nú á bak nákomnum ættingja; eiginmanni, fóður, tengdaföður, afa og langafa. Megi algóður guð styrkja þau á sorgarstundu. í einkar látlausu en áhrifaríku Ijóði í lok minningasögunnar I tún- inu heima yrkir Halldór um tún bernsku sinnar í Laxnesi: A þessu nesi í þessu túni stóð bær. Brúnklukka í mýri? Nei, ekki meir. En altær lind og ilmur af reyr. Og þegar þú deyr þá lifír reyr á þessu nesi við þessa lind í þessu túni þar sem stóð bær: Lind Reyr- Skáldið hefur kvatt foðurtún og er nú „fjarri“ eins og Jón í Brauð- húsum svo vitnað sé til orðalags í síðustu útgáfu höfundar af sam- nefndri sögu. Halldór Laxness hefur lengst af öldinni verið eins konar föður- ímynd samferðamanna sinna. Hann veitti þeim strangt uppeldi, hirti þá, kenndi þeim og leiðbeindi á því skeiði er þörf var á aðhaldi og ögun. Þegar þjóðin fór að fóta sig í nýrri og breyttri veröld veitti hann henni leiðsögn og stuðning með verkum sínum, mótaði og efldi þjóðernis- og sjálfstæðisvitundina. Þannig hafði hann með skrifum sínum og skáldskap meiri áhrif á hugsun og hegðun landsmanna en nokkur annar. Á efri árum sat hann á friðarstóli og leit þjóðin til hans full virðingar og stolt yfir því hvernig hann hafði borið hróður ís- lands vítt um veröld. En hlutverki skáldsins er ekki lokið þótt hann sé sjálfur fjarri. Is- lensk þjóð hefur um áratuga skeið lifað í skáldskap Halldórs Laxness. Verk þessa skáldjöfurs munu verða hverri nýrri kynslóð Islendinga öfl- ugt haldreipi í ókyiTum heimi. Þannig verður hann nærri um ókomin ár. Ólafur Ragnarsson. Svensk Pressfoto HALLDÓR Laxness og Auður Sveinsdóttir Laxness koma til Stokkhólms í desember 1955 til þess að taka við Nóbelsverðlaununum í bókmenntum. LÍTIÐ LAG frá unglingsárunum eftir H. Guðjónsson frá Laxnesi, við Ijóð Jakobs Jóh. Smára: Til hennar. Morgunblaðið HALLDÓR Kiljan Laxness og þýzkir kvikmyndagerðarmenn í fram- leiðsludeild Morgunblaðsins árið 1980. HALLDÓR Laxness og dr. Jakob Benediktsson, sem þýddi nokkrar bóka hans á dönsku. Myndin er tekin á Laxness þingi 1987. Var það hinn ókomni unaður heimsins - SJÁLFSTÆTT FÓLK ÞAÐ var henni mikil fróun þegar syfjan fór á mannskapinn að lokum og menn fóru alment að snýta sér undir nótina, leysa af sér skóna og smeygja sér úr buxunum. Faðir hennar settist einnig á rúmstokkinn fyrir framan hana, snýtti sér, leysti af sér skóna og smeygði sér úr buxunum. Hún hlustaði með eftirvæntíngu á hreyfíngar hans, fanst hann vera óra- tíma að losna við hverja spjör, þóttist ekki örugg fyren hún fyndi hann við hlið sér, hafði aldrei fundið jafnbráðláta né ómótstæðilega þörf til að hjúfra sig uppað honum einsog eftir þessi áflog, réð enn ekki við skjálftann í líkama sínum, tenn- urnar héldu áfram að glamra í munni hennar. Svo buðu mennirnir hver öðrum góða nótt á kristilegan hátt, og það brakaði í rúmunum þegar þeir lögðust fyrir. Rýmdu svolítið til, skarnið mitt, sagði faðir hennar, þetta er svo andskoti mjótt, og hún reyndi að færa sig eins lángt uppað veggn- um og hún komst, svona greyið, snúðu þér nú uppí horn og farðu að kúra. Og svo snéri hún sér uppí horn. En hún gat ómögulega farið að kúra, henni fanst leggja svo mikinn kulda frá þilinu, það var víst þessvegna sem hún skalf, sængurfiðan var altof mjó, og faðir hennar togaði hana næst- um alla ofanaf henni, og hlýjan frá honum vermdi hana ekki nema á bakinu, skjálftakippirnir héldu áfram með millibilum. Mennirnir í kríng sofnuðu von bráðar með digrum hrotum, en hún gat ekki sofnað í kuldanum frá veggnum. Svo leið og beið, og hún vakti, að síðustu opnaði hún augun, það var dregið fyrir gluggana, hálfmyrkt í skálanum, það hlaut að vera lángt yfír miðnætti, og bæði hnén á henni stóðu útundan sænginni, og henni fanst gusta gegnum panelinn í veggnum fyrir ofan hana, pabbi hennar hafði ekki einusinni boðið henni góðar nætur þó hann vissi hvað hún var hrædd. Umhverfis hrutu hinir ókunnu menn í þessu stóra dularfulla húsi heimsins, þess heims sem hún hafði hlakkað svo til að sjá að hún hafði ekki tímt að sofa á næturnar, og nú, þegar hún var komin útí þennan heim, var hún altíeinu orðin hrædd við hann, svo hún gat ekki sofið fyrir ótta hvað fegin sem hún vildi, hún var komin meðal vondra manna sem áttu konur í rauðum hnjáskjólum. Hvernig átti henni að sofnast hér einni, í þessum ótrygga ókennilega heimi? Einni? Nei, nei, nei; hún var ekki ein. Meðan pabbi hennar var hjá henni mundi hún aldrei aldrei verða ein, jafnvel þótt hann gleymdi að bjóða henni góðar nætur, bara að hann lægi hjá henni og lifði, pabbi minn, elsku pabbi minn, þú ert hjá henni Ástu litlu Sóllilju. Og þá vissi hún ekki fyren hún var farin að hugsa um hvíta mjúka staðinn á hálsi hans, milli skeggrótarinnar og háls- líníngarinnar, þann stað sem læknaði allan kvíða, aðeins ef hún fékk að hvíla þar munn sinn. Og afþví allir hrutu; og af- því hún gat ekki sofnað; og af því henni var svo kalt; afþví hún var svo ein, svo hrygg og kvíðafull útí heiminum; - en þó svo hamíngjusöm að eiga hann ennþá við hlið sér, ímynd ör- yggisins, hann sem gat alt og skuldaði ekki neinum; varð aldrei hissa; kunni við öllu svör; konúngur yfír Sumarhúsum; og skáld; - þá byrjaði hún ákaflega hægt að snúa sér við í rúminu, svo hægt að það marraði ekki neitt; svo hægt að ein- ginn skyldi verða þess var að hún hreyfði sig; aðeins ofur-of- urlítið í senn; og svo leið og beið; og svo ofurlítið enn; og hús- ið var hljótt að undanteknum hrotum næturinnar einsog í öðrum heimi, og fuglum sem kvökuðu úti, hátt yfír hinum stóra stað; og á endanum hafði hún snúið sér allri við, snúið sér til hans, nei hún var ekki ein útí heiminum, hún vakti við hans sterka brjóst, hún fikaði til höfuð sitt á koddanum uns varir hennar feingu hvíld undir skeggstæði hans en lokuð augu hennar í skegghýúng hans, - mannsins sem hafði flogist á tómhentur við forynjur landsins sjálfa nóttina sem hún fæddist. Hún hélt í fyrstu að hann svæfi og hefði einskis orðið var. Það leið og beið. Hún heyrði andardrátt hans, og hlustaði einnig á hin dumbu og sterku hjartaslög hans. En smámsam- an fann hún af hreyfíngum hans, altof litlum og varkárum, að hann mundi ekki sofa, hann vakti. Og hún blygðaðist sín, -mundi hann rísa upp og slá hana, gramur af því að hún skyldi hafa vogað að snúa sér fram eftirað hann hafði skipað henni að snúa sér upp, og svo hjúfraði hún sig enn fastara uppað honum í öryggisleysi sínu. Svo leið enn drykklaung stund og hjörtu þeirra slógu ört hvort and spænis öðru, sein- ast hreyfði hún sig ekki meir, en lést sofa með andlitið uppað hálsi hans. Smátt og smátt, næstum án þess hún hefði orðið þess vör, hafði hönd hans nálgast hana, sjálfsagt óviljandi, hann hafði aðeins skift eilítið um stellíngar, það hafði óvart hnepst úr annar hnappurinn á haldinu hennar og í næstu andrá finnur hún hönd hans hlýa og sterka snerta líf sitt. Hún hafði aldrei vitað neitt líkt því. Allur ótti var snögglega vikinn. Skjálftinn sem fór gegnum líkama hennar og sál var alt annarrar tegundar en fyr, það kom eitthvað í munninn á henni einsog ofstækisfull matarlyst þegar maður sest að borðum svángur og þreyttur, nema hvað það voru hreyfíngar hans sem vöktu húngur hennar, ekkert, ekkert mátti framar komast á milli þeirra, og hún greip báðum höndum í líkama hans rígföstu taki í vímu þessarar persónulausu krefjandi sjálfsku, sem hafði í einu vetfángi gert hana óminnuga á alt. Var það hinn ókomni unaður heimsins - PÉTUR GUNNARSSON valdi

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.