Morgunblaðið - 14.02.1998, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 14.02.1998, Blaðsíða 16
16 LAUGARDAGUR 14. FEBRÚAR 1998 + LAUGARDAGUR 14. FEBRÚAR 1998 17 HALLDOR KILJAN LAXNESS HALLDOR KILJAN LAXNESS Heimssaga og stellingar Eftir Matthías Johannessen Heimssaga kotbóndans Matthías: Bent hefur verið á, að setningar sem þú skrifaðir ungur í bréfum til vina þinna, minni á lýsingar á Olafi Kárasyni í Heimsljósi: þú segist þrýsta vitum þínum niður í grasið, niður í jörðina, „þaðan sem ég á smæð mína“, en lýsir svo Ólafi m.a. á þann hátt, að hann hafi lengi legið uppi á kálgarðsveggjum, þrýst and- litinu niður í grasið og grátið djúpum og inni- legum sælugráti andspænis hinu óumræðilega. Reynsla þín verður hans reynsla. Halldór: Inn í allar uppdiktaðar persónur, ekki sízt aðalpersónur, kemur innri og ytri reynsla höfundar sjálfs. Mér dettur ekki í hug að bera á móti því, að bæði Olafur Kára- son og nokkrir tugir af öðrum persónum í sögum mínum séu greinileg endurspeglun sjálfs mín. I því sambandi má ekki láta sér sjást yfir Bjart í Sumarhúsum. Þetta er allt runnið úr sjálfsvitund höfundarins, á þar heima og er óaðskiljanlegt henni. Flaubert sagði um sjálfan sig viðvíkjandi maddömu Bovary, þeirri óviðjafnanlegu persónu úr einu af minnismerkjunum í bókmenntum Frakka á 19. öld: „Madame Bovary - það er ég!“ Þetta get ég einnig sagt um margar af mínum persónum. En það skýrir kannski ekki mjög mikið. Matthías: Að hve miklu leyti kynntistu Bjarti sjálfum, meðan þú varst fyrir austan? Halldór: Ef til vill alls ekki. Ef til vill hef ég bara kynnzt honum í sjálfum mér. Ég hef aldrei kynnzt neinum manni í veruleikanum Trveir kaflar úr bókinni Skeggrœður gegnum tíðina sem væri líkur Bjarti. Ágizkanir manna um það, hvaðan Bjartur sé upprunninn, og sömu- leiðis getgátur um samastað Bjarts er flest hugarburður manna. Bærinn Sumarhús á að hafa verið austur á Jökuldalsheiði og heita þar Veturhús. En það er misskilningur að Vetur- hús á Jökuldalsheiði séu fyrirmynd að umgerð um líf Bjarts í Sjálfstæðu fólki. Ég var al- ókunnugur í Veturhúsum; þó ég færi þar um á skíðum einn vetrardag, kynntist ég aldrei bóndanum sem bjó þar, né sá hann. Aftur á móti var fyrirmyndin, ef nokkur var, að þessu mannlífi í litla bænum, sem Sjálfstætt fólk get- ur um, vestan af fjörðum. Þegar ég var ung- lingur á ferð með vini mínum, séra Halldóri Kolbeins, þar vestur frá, var ég byrjaður að bera áhuga fyrir íslenzka kotbóndanum, og langaði til að skrifa um hann hetjusögu. Þá gaf ég öllum smáum kotum og íbúum þeirra sér- stakar gætur. Ég tók meira að segja upp á því að verða eftir í svona kotum, þegar ég var með séra Halldóri í húsvitjunarferðum. Frumfyrir- myndin að Sumarhúsum var kot, sem hét Sel í Múlasveit. Þar er kveikjan að Sjálfstæðu fólki. En kotin í Jökuldalsheiðinni styrktu þessa mynd mína. Matthías: Einar Benediktsson skáld, er hann fyrirmyndin að sýslumanninum í Para- dísarheimt, eins og sumir halda? Halldór: í Paradísarhéimt kemur fyrir sýslumaður, lítilfjörleg aukapersóna, sem náttúrlega gæti verið Einar Benediktsson, eins og hver annar sýslumaður. En ég hafði engan kunnugleik af Einari Benediktssyni sem sýslumanni, þekkti hann bara sem gamalt skáld í Reykjavlk. Þeir hafa ekki mikið álit á Einari Benediktssyni sem halda að þessi lítil- fjörlega aukapersóna sé hann. Og þegar spurt er um Garðar Hólm get ég svarað: hann er holdi klædd hugleiðing mín um eðli frægðar- innar. Matthías: Það er engin tilviljun að Brekku- kotsannáll ber þetta nafn. Halldór: Nei, það er ekki tilviljun. Þetta nafn er valið í samræmi við íslenzka aðferð að velja annálum heiti, t.a.m. Skarðsárannáll. Hann er ekki bók um Skarðsá, heldur rit, sem hefur orðið til á Skarðsá um veröldina. Matthías: Kristján Karlsson segir að með Islandsklukkunni hafi orðið þáttaskil í starfi þínu: Hann segir að Islandsklukkan eigi rætur í gríska harmleiknum, íslendingasögum, forn- sögum. Hún sé drama. Hún sé flóknara og strangara verk en fyrri sögur þínar. Halldór: Kristján hefur sjónarmið sem ég hafði ekki hugsað út í áður. Þetta er sjálfsagt rétt hjá honum. En þegar byrjað er á skáld- sögu er höfundurinn ekki að hugsa um hvort hann eigi núna að hafa hana eins og grískt drama eða fornsögurnar, eða segi við sjálfan sig: Nú ætla ég að gera einhverja afskaplega geníala þrískiptingu, og því um líkt. En svona eiga bókmenntafræðingar einmitt að hugsa og skrifa um bækur, það er þeirra hlutverk; líta á verkin af sjónarhóli bókmenntafræðinnar. Þá verður bókmenntagagnrýnin líka það sem hún á að vera: sérstök listgrein innan bókmennt- anna. íslandsklukkan er ekki sprottin úr vinnubrögðum sem voru í tízku á uppvaxtar- dögum mínum þegar sálfræðilega skáldsagan og sú þjóðfélagslega sátu í fyrirrúmi. Slík vinnubrögð hneigðust til orðafjölda og lang- dreginna lýsinga. Höfundurinn velti sér upp úr einhverju feiknalegu skrafelsi, sem reyndar stundum gat orðið skemmtilegt; þó oftar hið gagnstæða. Ef fólk hefur ekki tíma til að liggja yfir bókum, er svona stfll til lítils. Menn nenna ekki að bíða eftir því sem höfundarnir ætla að segja. Ef saga vellur öll út í náttúru-, veður- og sálarlífslýsingum, ellegar blaðagreinum og rit- gerðum um allan skrambann, er hætt við að góðfús lesari verði að leggjast á spítala til að komast yfir að lesa þetta. Mig minnir að Snorri hafi í allri Heimskringlu enga sálarlífs- lýsingu, og aðeins eina veðuriýsingu: „Logn var veðurs." Þegar ég skrifaði íslandsklukk- una var ég kominn á þá skoðun, að nauðsyn- legt væri að strika sem mest út, og sá, þegar ég leit í minar gömlu bækur, að þar var víða hægt að strika út heilar og hálfar setningar, stundum aðra hverja setningu, jafnvel heila kapítula. íslandsklukkan er dregin saman í forminu. Óþarfa orðaskak er lagt niður, aldrei sagt hvað maðurinn hugsar, því það verður óendanlegt ef á að lýsa því út í æsar hvað allir hugsa, og hlýtur að enda í óskapnaði sem er andstæður sögu: úr því verður einna helzt „nouveau roman". í íslandsklukkunni reyni ég að segja með sem fæstum orðum, hvernig per- sónan kemur fram í hverju atviki, hvað hún talar og hvernig hún svarar heiminum með hegðan sinni. Ég vona að það hafi ekld orðið til þess að persónurnar í íslandsklukkunni séu lakar dregnar upp en í bókum sem ástunda meiri mærð. Matthías: Jafnvel Heimsljós er af allt öðrum toga spunnið en íslandsklukkan. Er þetta rétt? Halldór: Heimsljós er ljóðræn saga og sums staðar fer hún á kaf í landslagsmynd- um, sálarlífslýsingum og veðurfarsspekúla- sjónum. Matthías: En svo við tökum aftur upp þráð- inn, þar sem fyrr var frá horfið, þá skrifaðir þú íslandsklukkuna á Eyrarbakka og að mestu leyti að næturlagi. Og Eyrbekkingar vildu, að sögn, ekki umgangast þig meira en í hófi. Var það vegna þess að þeir héldu kannski að þú værir að skrifa um þá? Halldór: Ég hef aldrei kvartað yfir Eyr- bekkingum. Ég sinnti þeim að vísu ekki mik- ið, hafði um annað að hugsa i þessu indæla þorpi. Ég var kominn þangað til að vinna. Ég fór austur á Eyrarbakka þegar verið var að reisa Gljúfrastein, svo ég gæti verið í friði fyrir smiðum, sem alltaf voru að spyrja mig ráða. Ég er vondur að byggja hús og það var þýðingarlaust að spyrja mig. Á Eyrarbakka skrifaði ég þá bók, sem heitir Eldur í Kaup- inhafn, í íbúð Guðmundar Daníelssonar sem þá var í Ameríku. Þetta var heldur ósögulegt sumar. Ég vann seinni partinn á daginn og fram yfir miðnætti. Þetta var í júní og júlí. Ég fékk stundum að borða hjá frú Ragnhildi í Háteigi, sem átti húsið. Oft fór ég í langar gönguferðir út með sjó, tíndi söl og þurrkaði þau á bæjarhellunni og tuggði þau meðan ég var að vinna. Eða ég fór í göngu inn til lands- ins, stundum fram undir morgun, aleinn og allir sofandi í Flóanum. Upp úr tíu leit til mín gömul kona úr litlu húsi rétt hjá. Hún hafði þann starfa með höndum að kveikja upp í ofninum. Hún var eins og konan í kvæðinu hjá Davíð Stefánssyni. Hún kynti upp með kolum og ég fór ekki á fætur fyrr en farið var að loga. Þegar ég fór af Eyrarbakka, átti ég eftir einn kolapoka sem ég gaf konunni í verðlaun fyrir góða frammistöðu. Ég hef sjaldan eða aldrei fengið aðrar eins guðbænir fyrir mér og mínum um tíma og eilífð, eins og fyrir þennan kolapoka. Ég ímynda mér að þessar bænir dragi mig langleiðina til himna- ríkis. Að setja sig í stellingar Matthías: Mér er sagt að þú hafir hripað niður orð og orðatiltæki hvar sem þú hefur komið, og notað síðar. Stundum jafnvel sótt söguþráðinn í munnmæli eða frásagnir sem þú hefur heyrt. Að hve miklu leyti vinnurðu sögur þínar með þessum hætti? Halldór: Ég hef oft lagt eyru við orðum og orðatiltækjum, sem mér voru ekki kunn, og fest mér þau í minni. Sum hef ég síðan notað þegar mér hefur fundizt við eiga. En ég hef ekki gert mikið að því að skrifa upp orð sem ég hef heyrt. Þegar ég hef ekki verið alveg viss um að ég myndi rétt á skrifandi stund, hef ég flett upp í orðabókum. Og hafi ég ekki fundið orðin þar, hef ég kvatt til menn, sem ég hef haldið að könnuðust við þau. Ef þeir hafa ekki getað hjálpað mér, hef ég látið orðið eða orða- tiltækið flakka eins og ég mundi það. Við eftir- grennslan fræðimanna hefur sjaldan reynzt að ég hafi munað skakkt. Matthías: Þú hefur einhvern tíma sagt að fólk úti á landsbyggðinni tali, þrátt fyrir allt, ekki betra mál en við sem erum uppalin í Reykjavík. Halldór: Það gerir það sjálfsagt ekki heldur. Ég veit eiginlega ekld hvaðan þessi hugmynd um að tala gott eða vont mál er komin - líklega upphaflega úr kennaraskólanum. Að minnsta kosti höfðu allir barnakennarar mínir strangar kenningar um rétt og rangt mál. Mál sem talað er hér í Reykjavík og er frábrugðið sveitamáli er oft mjög skemmtilegt og sjálfsagt að nota það í bókum þar sem það á við, mér er sama þó það sé kallað slang og skrílmál. Ég hef oft af „listrænum ástæðum" tekið orðskrípi af göt- unni upp í texta mína, engu síður en rammís- lenzkar glósur eftir almenning í strjálbýlinu. Matthías: Þegai- ég las Brekkukotsannál, fannst mér hann væri ekki skáldsaga, heldur sérstök tegund ævisögu. Reyndirðu nokkuð að setja þig í ævisögustellingar, þegar þú skrifað- ir söguna? Halldór: Já, það eru þannig stellingar í bók- inni. Maður verður að setja sig í sérstakar stellingar við hverja bók, eins og leikari verður að vera nýr maður í hverju hlutverki. Matthías: Var Bjartur mótmæli gegn Hamsun? Halldór: Bjartur er að vissu leyti skrifaður sem mótmæli gegn sveitarómantíkinni, sem mér hefur alltaf fundizt leiðinleg nema hjá Jónasi og Steingrími sem sækja hana til Grikkja. En það er varla hægt að kalla sveita- rómantíkina lífsstefnu og því síður þjóðfélags- stefnu. Þegar ég sem ungur maður í Kaup- mannahöfn las Gróður jarðar eftir Knut Hamsun, nýútkomna, fannst mér spurning verksins röng og þar af leiðandi svarið, þó sag- an sé sjálf þar fyrir utan merkileg og að mörgu leysi ágætt verk eins og ég hef áður minnzt á við þig. • Skeggræður gegnum tíðina - Halldór Laxness og Matthías Johannessen - Helgafeil MCMLXXII

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.