Málfríður - 15.03.2006, Blaðsíða 6

Málfríður - 15.03.2006, Blaðsíða 6
 MÁLFRÍÐUR Hinn vísindalegi og kennslufræðilegi grunnur Evrópsku tungumálamöppunnar tengist fyrrnefndri rammaáætlunin og er hún órjúfanlega tengd henni. Tungumálamappan er því ekki tískubóla heldur er hún byggð upp á margra ára þróunarstarfi helstu sérfræðinga innan og utan Evrópu. Kappkostað hefur verið að nýta nýjustu rannsóknir um nám og kennslu í þessu starfi og náin samvinna hefur verið við fjölda skóla og kennara víðsvegar um Evrópu. ETM er kennslufræðilegt tæki sem byggt er á rann­ sóknum um nám og kennslu sem miðar að sem skilvirkustu tungumálanámi. Með ETM er ekki bara verið að leggja áherslu á málfærni (linguistic skills), áhersla er ekki síður lögð á að efla gagnkvæma þekkingu og skilning á menningu þeirra þjóða sem málin tala. Lykilorðið er ekki lengur bara fjöltyngi heldur einnig fjölmenn­ ing. Notkun ETM möppunar stuðlar að því að gera nemendur að ábyrgari og meðvitaðri tungumála­ nemum og tengir saman mál og menningu. Mesta breytingin við að taka upp EMT er að horft er á nám fyrst og fremst frá sjónarhóli nemandans. Hann gegnir stærra og virkara hlutverki en nem­ endur í tungumálaámi gera samkvæmt hefðbund­ inni kennslu. Það má jafnvel kveða svo fast að orði segja að með ETM sé í raun verið að þróa nýtt kenningakerfi (paradigm) í tungumálakennslu (Kohonen, 2004). Nýtt kenningakerfi Þetta nýja kenningakerfi byggist á þremur meg­ instoðum: Nemendasjálfstæði (learner autonomy), vitund nemandans um hvernig hann lærir (learner awareness) og menningarnæmi (cultural aware­ ness). Lítum nánar á þessi hugtök. Nemendasjálfstæði Með þessu hugtaki er átt við að nemandinn tekur ábyrgð á eigin framförum og árangri. Námið er samstarfsverkefni, nemandans, kennarans, foreldr­ anna og samfélagsins. Ekki er litið á tungumálanám sem þekkingarmiðlun sem fer fram með því að þekking kennarans yfirfærist á þekkingu nemand­ ans. Þess í stað er nemandinn þjálfaður í gagnrýnni hugsun um eigið hlutverk sem gerandi í eigin náms­ ferli (Little, 1991). Hann tileinkar sér nýja þekkingu á forsendum fyrri þekkingar sinnar en ekki kenn­ arans. Námsmat fer fram jafnóðum, markmiðið er að nemandinn sýni hvernig hann getur notað tungumálið í raun (authentic assessment). Með ETM fær nemandinn í hendur verkfæri, matsramma (sjá viðauka) bæði til að setja sér mark­ mið og til að meta eigin framfarir og meta hvort hann hefur náð markmiðum sem hann hefur sett í samráði við kennarann. Um langa hríð hefur fræðileg umræða um tungumálakennslu snúist um breytt hlutverk kennarans og kennslubókarinnar án þess að mikið hafi áunnist í þeim efnum (Hafdís Ingvarsdóttir, 2004). Það sem er nýtt á ferðinni hér er að með EMT fá kennarar og nemendur loks í hendur tæki og umgjörð sem hjálpar þeim til að koma til móts við þær hugmyndir. Að þekkja eigin aðferðir Metaþekking (meta­cognitive strategies), þ.e. að vera sér meðvitaður um hvernig maður lærir, er mikilvæg þar sem slík þekking gefur nemandanum tækifæri til að hafa yfirlit yfir, fylgjast með og beina eigin námsferli í ákveðnar áttir og tengist hugtak­ inu „hinn sjálfstæði nemandi“ (the autonomous learner). Metaþekking felur í sér skipulag, eftirlit og mat nemandans á eigin námi (Vandergrift, 1999). Einfaldasta skilgreiningin á hugtakinu námsaðferðir er: að þær séu leiðir sem málnotandinn notar til að skilja texta, skrifaðan eða talaðan og til að tjá sig í töluðu og rituðu máli auk minnisaðferða (Hafdís Ingvarsdóttir, í útgáfu). Rannsóknir benda til að nemendum sem hafa lítið sjálfstraust gagnvart tungumálanámi eða litla námshvöt, oft fer þetta saman, hugkvæmist sjaldnast að beita slíkum aðferðum, séu fastir í fáum eða jafnvel bara einni aðferð (O’Malley og Chamot, 1990; Oxford, 1990). Í EMT er lögð áhersla á að hjálpa nemandanum að íhuga eigin hugsun, skilja hvernig hann ber sig að þegar hann er að læra eitthvað nýtt og um leið fjölga þeim námsaðferðum sem hann notar. Ígrundun er því eitt af þeim hugtökum sem lögð er áhersla á í Evrópsku tungumálamöppunni. Að nemandinn ígrundi eigið nám hvernig hann fór að því að læra tiltekna þætti og hvernig til tókst. Menningarnæmi Eitt höfuðmarkmið ETM er að efla skilning milli þjóða og landa. Kaikkonen (2001) notar myndlík­ inguna „menningarskel“ og heldur því fram að tungumálaneminn sé lokaður inni í menningarskel móðurmálsins og mikilvægur hluti tungumála­ náms sé að hjálpa nemandanum að vaxa út úr skel móðurmálsins og menningar þess svo hann átti sig á mikilvægi margbreytileikans og þroski með sér næmi fyrir menningu annarra en um leið eigin menningu og sérstöðu hennar. Í ferilskránni í ETM möppunni eru gátlistar sem ætlað er að þjóna þessu hlutverki þ.e. beina sjónum bæði að eigin menn­ ingu og kynnum nemandans af menningu annarra.

x

Málfríður

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Málfríður
https://timarit.is/publication/1081

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.