Málfríður - 15.03.2006, Blaðsíða 23

Málfríður - 15.03.2006, Blaðsíða 23
MÁLFRÍÐUR  Aibak Hard var leiðsögumaður okkar í þessari ferð. Ræddi hann margt um samskipti norrænna manna og Inúíta en um þau má lesa margt út úr munnmælasögum frumbyggja. Eftir að lagst hafði verið að bryggju í Qaqortoq var sútunarverksmiðja og saumastofa Great Greenland skoðuð undir leiðsögn starfsmanns í áhrifastöðu innan fyrirtækisins. Var það kona, ákveðin í fram­ göngu og heimsborgaraleg í hátt. Fengu allir að máta pelsa sem kona þessi valdi eftir útliti og pers­ ónuleika hvers og eins. Hafði fólk mjög gaman af þessu. Verksmiðjan sútar skinn af nánast öllum veiði­ dýrum á Grænlandi auk gæra af sauðfé. Veiðimenn fá greitt lágmarksverð við innlögn afurða en uppbót síðar í samræmi við gæðaflokkun og uppboðsverð. Saumaðar eru flíkur og fleira úr sumum skinnun­ um á staðnum, en önnur eru boðin upp fullsútuð í Glostrup í Danmörku. Mikil festa og agi virðist ríkja í starfsemi fyrirtækisins. Vel er fylgst með í tískuheiminum, enda á félagið í harðri samkeppni á heimsmarkaði. Ef til vill gæti sútunariðnaður á Íslandi lært eitthvað af þeim grænlenska? Þegar leið á daginn var boðið uppá kaffemik í heimahúsi. Er það sunnudagskaffi að grænlensk­ um hætti, oft að aflokinni messuferð. Minnti veisla þessi einna helst á töðugjöld í íslenskri sveit á árum áður. Loks var svo bæjarsafnið skoðað. Á því voru mörg tæki og tól er tengjast veiðiskap. En mesta athygli mína vöktu skúlptúrar eftir feðgin sem hófu grænlenska alþýðulist á æðra svið heimslist­ ar. Flestir munir eftir þau eru þó varðveittir utan Grænlands, á virtum listasöfnum austan hafs og vestan. Seljast þeir dýru verði ef þeir komast í hend­ ur listaverkasala. Kl. 19:30 var sameiginlegur kvöldverður fyrir alla. – Dagskráin tæmd. Mánudagur 25. júlí. Kl. 7:30 lögðu strandflutningabátarnir af stað með okkur frá Qaqortoq til Narsarsuaq. Morgunmatur var snæddur um borð. Við lentum í hafís á leiðinni í 17 stiga hita, svokölluðum sumarís sem straumar bera suður með vesturströnd landsins. Í Narsarsuaq komum við okkur fyrir í flýti á hótelinu. Síðan var okkur ekið í rútu að mynni Spítaladalsins en þaðan hófst svo gangan langa gegnum dalinn djúpa upp í fjöllin háu, þar sem innlandsísinn byrjar. Tveir innfæddir fararstjórar voru í för með okkur. Síðasti hluti göngunnar var fremur erfiður. Þurfti fólk að fikra sig áfram eftir skriðum og tæpum fjallastígum. Sums staðar voru kaðlar til þess að lesa sig áfram á. Ekki fóru allir með þennan síðasta og örðugasta hluta leiðarinnar en nokkrir ofurhugar er fóru alla leið komu aftur haltir og skakkir og snúnir um ökkla, alveg eins og söguhetjur Kurt L. Frederiksens. Já, Grænland er ekkert lamb að leika sér við. Spítaladalurinn er kjarri, blómum og grasi vax­ inn. Í honum eru líka mikil tún í sléttum dalbotni, þar sem ár og smálækir liðast um velli. En engan sá ég þar bæinn. Gangan tók lungann úr deginum. Síðan hvíldist fólk og safnaði kröftum fyrir hátíðarkvöldverð í borðsal hótelsins. Veisluföngin voru með hlaðborðssniði: fjölbreyti­ legir alþjóðlegir réttir, mjög bragðgóðir. Einvörðungu tveir réttir voru grænlenskir: hvalkjöt, sem þó var falið í beikonvafningi, og lærissneiðar af lambi. Þær gáfu þeim íslensku ekkert eftir. Undir borðum voru og höfð í frammi skemmti­ atriði frá norrænu þjóðunum, minnst var þó fram­ lag Íslands, enda vorum við bara tvö að heiman. – Góður endir á erfiðum degi. Þriðjudagur 26. júlí. Danirnir, sem lent höfðu í tvíbókuninni, flugu nú til Íslands þar sem þeir skoðuðu Gullfoss, Geysi og Þingvelli. Auk þess fóru þeir í Bláa lónið áður en þeir hurfu til Danmerkur. Var þessi Íslandsferð í og með hugsuð sem sárabót vegna tvíbókunarinnar. Meirihluti þátttakenda varð þó eftir í Narsarsuaq. Fóru sumir í gönguferðir um svæðið og klifu nær­ liggjandi hnjúka en aðrir fóru aftur með bátnum yfir Eiríksfjörð til Qassiarsuk (Brattahlíðar) og gengu þaðan þvert yfir skagann um ruddan slóða til sauð­ fjárbúsins Tasiusaq hinumegin á honum og aftur til baka. Var farið um þrönga dali, ása og fell. Einum bílskrjóð mættum við þarna á vegslóðanum og innfæddum ríðandi á íslenskum hestum. Land var þarna vel gróið og ærnar með boltalömb, en ekki öfundaði ég starfsbræður mína grænlenska af að smala þessar víðáttur. Hins vegar dáðist ég að því hve iðnir grænlenskir sauðfjárbændur eru við túna­ ræktun á misjafnlega góðu landi. Þegar komið var aftur til Qassiarsuq var kom­ inn hnjúkaþeyr af Grænlandsjökli og sjór tekinn að ýfast. Var nú áætluninni með bátnum flýtt en allir gátu þó stokkið um borð í skutinn þar sem bát­ urinn reis og hné við bryggjusporðinn. Landtakan í Narsarsuaq tókst giftusamlega. Kvöldmatur kl. 18:30 á hótelinu og kærkomið frí um kvöldið.

x

Málfríður

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Málfríður
https://timarit.is/publication/1081

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.