Neytendablaðið


Neytendablaðið - 01.06.2015, Blaðsíða 2

Neytendablaðið - 01.06.2015, Blaðsíða 2
 NEYTENDABLAÐIÐ 1. tbl. 61.árg. júní 2015 Útgefandi: Neytendasamtökin, Hverfisgötu 105, 101 Reykjavík Sími: 545 1200 Veffang: www.ns.is Netfang: ns@ns.is Ábyrgðarmaður: Jóhannes Gunnarsson Ritnefnd: Hildigunnur Hafsteinsdóttir, Jóhannes Gunnarsson, Þuríður Hjartardóttir Umsjón með gæðakönnun: Hildur Sif Thorarensen Yfirlestur: Finnur Friðriksson Umbrot og hönnun: Lýðveldið Prentun: Litróf – vistvæn prentsmiðja Forsíðumynd: istockphoto Upplag: 8.700 eintök, blaðið er sent öllum félagsmönnum í Neytendasamtökunum Ársáskrift: Árgjald Neytendasamtakanna er 5.300 krónur og innifalið í því er m.a. Neytendablaðið, 4 tölublöð á ári. Heimilt er að vitna í neytendablaðið í öðrum fjölmiðlum sé heimildar getið. Óheimilt er þó að birta heilar greinar eða töflur án leyfis neytenda- samtakanna. upplýsingar úr neytendablaðinu er óheimilt að nota í auglýsingum og við sölu nema skriflegt leyfi neytendasamtakanna liggi fyrir. Heimasíðan ns.is - aðgangur að læstum síðum: Notendaorð: félagi Lykilorð: bpa06 Leiðari 2 Fréttir frá NS 3 Reynslusögur 4 Frá ECC 5 Að prútta 6 Deilihagkerfið 8 Spjaldtölvur - gæðakönnun 12 Tryggingar 14 BPA 15 Reykmettaðar leiksýningar 18 Bílaleiga 19 Bíleigendur blekktir 20 Google í vondum málum 21 Fasteignarleitin 22 Efni Blaðið er prentað á umhverfisvænan hátt. Gullgæsin krufin Í fyrstu skiptin sem ég fór til London var ég fátækur námsmaður og hafði ekki úr miklum gjaldeyri að moða. Það kom þó ekki mikið að sök því borgin býður upp á alls kyns ókeypis afþreyingu. Þannig gat ég staðið á Trafalgar og horft á Nelson, ráfað um Hyde Park og aðra almenningsgarða, skoðað hallir og aðrar merkar byggingar (alla vega að utan) og heimsótt fullt af lista-, minja-, vísinda- og sögusöfnum. Alveg ókeypis. Ég geri ráð fyrir að öll þessi ókeypis afþreying nýtist íbúunum sjálfum jafnt sem ferðamönnum. Af því að London tók vel á móti mér í þessi skipti hef ég farið þangað aftur, aftur og aftur. Og í einhver skipti m.a.s. með töluverðan gjaldeyri. Í ljósi áhuga míns á deilihagkerfinu, sem ítarlega er fjallað um hér í blaðinu, ákvað ég á dögunum að bjóða „sófavinum“ að gista hjá mér. Fyrstu gestirnir voru ungt par frá Ítalíu. Þau höfðu tileinkað sér þann lífsstíl að ferðast ódýrt og höfðu þannig ferðast um heilu heimsálf- urnar. Þegar þau eldast, og hafa meira handa á milli, reikna ég með að þau haldi áfram að ferðast, en þá kannski með umtalsverðan gjaldeyri með í för. Þar sem íslenska vorveðrið í mars lék nú ekki beint við þessa vini mína var lítið annað í stöðunni en að halda sig sem mest innan- dyra. Ég ráðlagði þeim samt sem áður að skoða borgina úr Hall gríms- kirkjuturni (kostnaður fyrir tvo rúmar 9 evrur miðað við gengi evru á þessum tíma), þau gætu líka kíkt á Þjóðminjasafnið (20 evrur), farið á hvalasýninguna (39 evrur), tekið rútu í Bláa lónið (118 evrur (þar af aðgangur að lóninu 70 evrur)), tekið rútu um Gullna hringinn (127 evrur) eða strætó á Laugarvatn (37 evrur aðra leiðina). Þau supu svo hveljur þegar ég sagði þeim að sennilega yrði aldrei svona „ódýrt“ aftur að ferðast um landið því hugmyndir væru um að selja inn á ferða- manna staði. Ekki mikið um ókeypis afþreyingu sumsé. Svo fór að lokum að „sófavinir“ mínir styttu ferð sína í annan endann, eyddu síðasta deginum í að spila borðspil við okkur fjölskylduna, og eru nú líklega að tjá sig á samfélagsmiðlunum um miður skemmtilega reynslu sína af Íslandi. Því er spáð að hingað komi tvær milljónir ferðamanna árið 2021 og trilljón ferðamenn árið 2040, en það er ekki sama hvaðan gott kemur. Á ferðaþjónustuvef Landbankans segir: „Ísland hefur markvisst verið markaðssett gagnvart fólki á aldrinum 20-65 ára sem býr í þéttbýli og hefur menntun og tekjur yfir meðaltali; fólki með menningarlegan áhuga sem telur sig standa utan hjarðarinnar og nýtur þess að láta koma sér á óvart.“ Á sama stað kemur fram að „meðal-Svisslendingur“ versli fyrir tvöfalt meira en „meðal-Svíinn“ sem eyðir aftur þreföldu á við „meðal-Pólverjann“, sem er þá augljóslega ekki ákjósanlegur gestur. Í skýrslu The Boston Consulting Group, sem gerð var 2013, er svo að finna flokkun ferðamanna. Þar kemur fram að þeir ferðamenn sem við viljum helst höfða til eru „older relaxers“ (sem eru þegar stór hluti ferðamanna hér) og „affluent adventurers“ – enda eyða þessir hópar meiru en aðrir. Bakpokaferðalangar og þeir sem ferðast á ódýran máta (með lággjaldaflugfélögum og gista jafnvel á sófum) eru hins vegar afar neðarlega á þessum lista. Þegar þeir miðaldra, fjáðu ferðamenn sem nú sækja landið heim og eru öflug innspýting fyrir efnahagslífið eru komnir að gullna hliðinu þurfum við að endurnýja ferðamannahópinn. Og hverjir eru þá líklegir til að koma? Það skiptir máli að taka líka vel á móti ungu bakpokaferðalöng- unum, sem eru oft námsmenn og verða einhvern tímann fjáðir og mið- aldra. Hvert skyldu þessir „sófavinir“ mínir fara þá? Og vinir þeirra og ættingjar? Tja, kannski bara til London? Hildigunnur Hafsteinsdóttir NEYTENDABLAÐIÐ // JÚNÍ 2015 // LEIÐArINN2

x

Neytendablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Neytendablaðið
https://timarit.is/publication/904

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.