Morgunblaðið - 14.02.1998, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 14.02.1998, Blaðsíða 20
20 LAUGARDAGUR 14. FEBRÚAR 1998 HALLDÓR KILJAN LAXNESS Svona er að hugsa um bœkur HEIMSLJÖS HANN stalst til að krota með prikinu sínu í moldarflög eða á snjó, en þetta var honum bannað, og sagt hann skrifaði sig til skrattans. Svo hann varð að skrifa á sál sína. Kamarilla húsfreya var hatursmaður bókmenta. Þegar tók að bera á óeðlilegri laungun dreingsins til að grúska í bókstöfum, þá sagði hún honum til varn- aðar söguna af G. Grímssyni Grunnvíkíngi. Hann skrifaði sig ekki Guðmund Grímsson einsog annað fólk, heldur skamstafaði sig og bínefndi til að líkjast höfðíngjunum. Það var voðaleg saga. G. Grímsson Grunnvíkíngur var skáldmennisræfill og skrifaði hund- rað bækur. Hann var vondur maður. Þegar hann var úngur þá vildi hann ekki giftast, heldur eignaðist þrjátíu börn. Hann hataði fólk og skrifaði um það. Hann hafði skrifað fjölda bóka um saklaust fólk sem aldrei hafði gert honum mein. Einginn vildi hafa samneyti við slíkan mann, nema ljótar kellíngar sem hann hafði dæmt á sig í elli sinni. Menn fá í elli sinni það sem þeir dæma á sig. Svona er að hugsa um bækur. EINAR MÁR GUÐMUNDSSON valdi Barðist fyrir viðurkenningu á réttindum köfunda Kveðja frá Bandalagi (slenskra listamanna Bandalag íslenskra listamanna þakkar Halldóri Laxness samfylgd- ina allt frá stofnun samtakanna 1928. Halldór var á löngu tímabili í fremstu víglínu þeirra listamanna sem harðast börðust fyrir viður- kenningu á réttindum höfunda yfir verkum sínum, og öðrum fremur lagði hann til það afl sem þurfti til að þjóðin færi að virða skáld sín og listamenn að verðleikum. Hann settist í sfjórn Bandalagsins sem ritari 1934 og tók þátt í stjómar- störfum með nokkrum hléum allt fram til ársins 1950. Þótt ekki sæti hann í stjóm Bandalagsins eftir það fylgdist hann ávallt af áhuga með baráttu félaga sinna fyrir eflingu listsköpunar í landinu og bættum hag listamanna. Hann lagði þeim lið þegar mikið lá við, síðast 1992 í and- ófi Bandalagsins og Rithöfundasam- bands íslands gegn skattlagningu bóka og áformum um aukna menn- ingarskatta, og var þeim hvatning til þess að skerpa vitund sína um gildi þess að standa uppréttur við sitt verk. íslenskir listamenn drúpa nú höfði og harma dauða höfuðsnillings íslenskrar tungu. Þeir minnast Halldórs með virðingu og þökk fyrir skáldskapinn dýrmæta og liðveisl- una alla. Bandalag íslenskra listamanna sendir frú Auði og öðrum aðstand- endum hlýjustu samúðarkveðjur. Megi gæfa og blessun fylgja þeim öllum. Hjálmar H. Ragnarsson. Forréttindi að r eiga slíkt stór- menni að vini Ég held að ég megi fullyrða að það hafi verið 1936 sem við Helga kynntumst Halldóri persónulega. Það var hjá Erlendi í Unuhúsi, en þangað vorum við farin að venja komur okkar. Vinur okkar Ásgeir Júlíusson teiknari kynnti okkur aft- ur á móti fyrir Erlendi, en hann og Erlendur voru náskyldir. I því sam- bandi langar mig að vitna í bókina „Spilað og spaugað“ sem Guðrún Egilson færði í letur. Þar segir á einum stað: „Stundum litum við inn í Unuhús, en Erlendur og Ásgeir vinur minn voru frændur. Erlendur var óvenjulegur maður. Stundum fannst manni að hann væri varla af þessum heimi. Hann vh’tist aldrei sofa. Hann vann á daginn, tók á móti fólki á kvöldin og las allar næt- ur. Hann var kúltúrmaður fram í fíngurgóma, stakur bindindismaður og þoldi ekkert ljótt og óheflað kringum sig. Það voru einkum lista- menn og menningarpostular sem komu í Unuhús, allt kommar eða hálfkommar. Samt varð maður aldrei var við ofstæki í þessum hóp, heldur sveif víðsýnisandi yfir vötn- unum og menn létu sér ekkert mannlegt óviðkomandi. Ég man sér- staklega eftir einu hörkurifrildi milli Halldórs Laxness og Þórbergs. Þeir voru að rífast um þjóðemishyggju og alþjóðahyggju og ekki man ég hvor hafði betur, en mér þótti skjóta skökku við að það var heims- maðurinn Halldór sem var stífur málsvari hins þjóðlega en Þórberg- ur, hinn týpíski íslenski sveitamað- ur, barðist fyrir ómengaðri alþjóða- hyggju. Alls konar deilur um menn og málefni, stjórnmál og listir voru daglegt brauð í Unuhúsi en allt í góðu. I návist Erlends urðu menn að sýna hófsemd og stillingu.“ I þessu andrúmslofti kynntumst við Halldóri, sem þá þegar hafði vakið mikla athygli hér heima með bókum sínum. Sérstaklega vorum við unga fólkið hrifin af Þú vínviður hreini og Fuglinn í fjörunni (Salka Valka). Þessar bækur bókstaflega lásum við upp til agna. Árið 1936 vorum við Helga 18 ára en Halldór 34 ára, heimsmaður í fasi, sundurgerðar- maður í klæðaburði en fyrst og fremst skemmtilegur og fyndinn og sýndi okkur unga fólkinu alveg sér- lega aðlaðandi framkomu. Svo liðu árin. Við fórum til Ameríku í stríð- inu 1942 og vorum þar í þrjú ár. Er við komum aftur endurnýjuðust kynnin við Halldór. Halldór var þá giftur á ný Auði Sveinsdóttur sem við þekktum frá fyrri tíð. Öll sú saga er svo þekkt að ég hefi engu við að bæta. En mig langar að lok- um að segja smá sögu sem ég sagði Halldóri er við dvöldum vetrarlangt í Vínarborg 1961-62. Þannig var að Markús bróðir minn og vinur hans fóru í síldarvinnu norður í land ein- hvern tíma á árunum milli 1930 og 1940. Það varð minna úr síldinni en vonir stóðu til og þótt þeir kæmu slyppir og snauðir til baka voru þeir í besta skapi og höfðu verið að skemmta sér út allt sumarið að telja einhverjum hálfvita sem þar var með þeim trú um að hann væri efni í stórskáld. Honum þótti lofið gott og rembdist eins og rjúpan við staurinn að yrkja og kom út hinn kostulegasti skáldskapur, sem mikið hefir verið hlegið að í okkar hópi. Þar á meðal þetta: „Jesús er fæddur i Nazaret, þá var ég alveg bet.“ Þetta segi ég sem sagt Halldóri. En mikið fannst mér það fyndið að lesa þetta í einni af bókum Halldórs þai’ sem segir að þetta sé einhver gamall sálmur! Sjálfsagt hefur hann ekki munað hvar hann hafði heyrt þetta og látið það fljóta með. Svona eiga skáld að vera. Það eru mikil forréttindi að hafa átt þetta stórmenni að vini. Rögnvaldur Sigurjónsson. Skapaði heila veröld með orð- snilld sinni „Að nóttu þegar sól er affjalla" „Þegar verið er að skýra frá kristnihaldi undir Jökli má aldrei gleyma jöklinum; amk. ekki leingi í einu.“ - Þessi orð úr skýrslu Umba til biskups koma upp í hugann þeg; ar höfundur þeirra er kvaddur. I Kristnihaldi gnæfir jökullinn yfir sögusviðinu eins og Halldór Kiljan Laxness gnæfir yfir aðra Islend- inga á tuttugustu öld. Neðan jök- ulsins, þar sem landið mætir haf- inu, er ríki fugla. Fuglabjargið er ímynd mannfélagsins, en hugstæð- astur fugla er skáldinu snjótittling- urinn: „Svona fugl er á þýngd við frímerki. Samt fýkur hann ekki þó hann standi útá berángri í fár- viðri.“ - „Hvað sem á dynur, snjó- titlíngurinn lifir af; stórhríðarnar eru ekki fyr um götur geingnar en hann er orðinn sólskríkja.“ Jökullinn og snjótittlingurinn: fjarlæg og mikilfengleg sýn á leið til himins, veikburða en ósigrandi líf af jörðu komið. Milli þessara skauta skapaði Halldór Kiljan Lax- ness heila veröld með orðlist sinni, orðlist sem að fjölbreytni nálgast náttúruna sjálfa. Þeim tilfinningum sem vakna við andlát hans verður best lýst með orðum þeirrar bókar sem hér er leidd til vitnis: „Oft heyrist um ófreska menn að sál þeirra fari úr líkamanum. Það kem- ur ekki fyrir jökulinn. En næst þegar manni verður litið til, þá hef- ur líkaminn farið úr jöklinum og ekkert eftir nema sálin íklædd lofti. ... Að nóttu þegar sól er affjalla verður jökullinn að kyrrlátri skuggamynd sem hvílir í sjálfri sér og andar á menn og skepnur orðinu aldrei sem eftilvill merkir einlægt. Kom dauðans blær.“ Vésteinn Ólason. Að bjarga íslenzkum pjóðararfi um ókomin ár Ósagt skal látið hvort fráfall Halldórs Laxness markar nokkur tímamót. Vandaðir sjónvarpsþættir og samvizkusamleg upprifjun dag- blaða á ferli hans vekja hressilega athygli á honum, en hvort okkar eirðarlausa þjóð man þann fróðleik stundinni lengur eða getur nokkuð af honum lært, það er borin von. Til þess liggja einkum tvær ástæður. I fyrsta lagi er umhverfi og umfjöllunarefni stærstu verka Halldórs á vettvangi sem höfðar aðeins að takmörkuðu leyti til þeirrar kynslóðar sem álítur að heimurinn hafi verið skapaður árið 1968, jafnvel síðar. í öðru lagi þyk- ir æ stækkandi hópi öllu girnilegra að mæna á sjónvarps- og tölvuskjái en stauta sig fram úr þeim bókar- textum sem krefjast íhygli, ein- beitni og helzt drjúgrar ástundun- ar af hálfu lesandans. Þeim sem ekki ólust upp við það að fá nýskrifuð stórvirki Halldórs nær árlega til lestrar á viðkvæm- ustu þroskaárum sínum er líka viss vorkunn. Heildar ritsafn hans er ekki aðeins gífurlegt að fyrirferð, heldur einnig svo margslungið og samið út frá svo sundurleitum sjónarmiðum, að þeim sem ætlaði t.d. að gleypa í sig ritgerðir hans, og þá einkum þær pólitísku, gæti farið svipað og iðraveikum manni sem drykki bleksterkt kaffi oní skyr; hætt við hann fengi kveisu. Menn sem ekki auðnast að hafa nautn af góðri tónlist vita yfirleitt ekki hvers þeir fara á mis; segja má að þeir séu fátækir án þess að vita það, og vonandi þeir hafi þá gaman af vondri tónlist ef hún skyldi fyrirfinnast. En því er þetta nefnt hér, að svipað er þeim farið sem ekki hafa, einhverra hluta vegna, litið við þeim yfirgripsmikla og margslungna ríkidómi sem býr í snilldarverkum Halldórs. Ég man þá tíð, að ýmsir frómir og að sama skapi sjálfumglaðir menn, hrósuðu sér af því að hafa ekki lesið stafkrók eftir þennan höfund. Einatt átti sú afstaða sér flokkspólitískar rætur. Þá fóru þeir sumir hverjir að glugga í hann og jafnvel fjárfesta í einni og einni bók eftir hann, er þeir sannfréttu það einn haustmorgun að maður- inn hafði fengið nóbelsverðlaun. En síðan hefur á ýmsu gengið. Og nú er svo komið, að jafnvel ólíkleg- asta fólk viðurkennir það fyrir al- þjóð að hafa kannski lesið eina og eina bók, máski þó ekki alla. Ætli þeir menn lifi ekki í heimi án tóna. Stundum er að þvi ýjað að ís- lenzk tunga sé stödd i einhverri hættu. Það er sjálfsagt rétt, því að hún hefur alltaf verið það og mun verða svo lengi sem hún er töluð. En hver er hættan? Ekki fyrst og fremst aðrar þjóðtungur, heldur hraðinn í aldarandanum; það gild- ismat að meta allt til fjár eða að- hlátursefnis; það viðhorf stundar- gleðinnar að sagan okkar sé við- fangsefni fræðimanna einvörðungu eðaþá sérvitringa; sú hyskni í tungutaki að vanda ekki málfar sitt. Þessar tilhugsanir geta gert mann ósköp dapran á stundum. En þá er það sem sú hugsun vaknar, sú vonarglæta, að menn nenni að lesa hann Halldór okkar, einkum unglingamir. Ekki endi- lega að gleypa í sig allar bækumar hans eins og sá sem kann sér ekki magamál. Heldur að einhver ein þessara fjölbreyttu bóka hans verði gaumgæfilega lesin, helzt aft- ur og aftur. Það gæti bjargað ís- lenzkum þjóðararfi um ókomin ár. Elías Mar. Viðtal við Plús Ex Það var kvöld. Ég hafði stjáklað smástund fyrir framan ákveðna blokk á Fálkagötu. Ég var heldur snemma á ferðinni sem var ekki mér líkt. En þetta var engin venjuleg heimsókn til venjulegs manns. Ég var að fara að taka undirbúningsviðtal við sjálfan Halldór Laxness út af sjónvarps- þætti sem átti að taka upp seinna í vikunni í þáttaröð vegna sjötíu og sjö ára afmælis skáldsins. Ég kveið mjög fyrir þessu öllu. Það er skemmst frá að segja að Halldór og Auður tóku á móti þessum lafhrædda stúdent af svo mikilli hlýju að hann gleymir því aldrei. Halldór var löngu búinn að fá nóg af átökum um menn og mál- efni og tók það skýrt fram eftir flestar skemmtilegustu sögumar sem hann sagði, að þetta myndi hann ekki segja í viðtalinu. Og það gerði hann ekki. Ef hann mundi ekld nöfn eða ártöl spurði hann Auði sem var að vinna eitthvað í grenndinni, samspil þeirra tveggja var svo eðlilegt og áreynslulaust að ég dáðist að því. Ég dáðist líka að þessu fallega heimili en mest dáð- ist ég þó að Halldóri. Aldrei fyrr eða síðar hef ég talað við jafn heill- andi sjentilmann! Mér er næst að halda að ég hafi flogið fremur en svifið heim eftir þessa heimsókn. Ég hafði áður lesið flestar af bókum Halldórs Kiljan Laxness en ég hafði enga afstöðu til hans sjálfs. Hann var bara goðsögn sem kom mér ekkert við, hélt ég. Ég hélt meira að segja að ég gæti hafnað bæði manninum og verk- unum alfarið ef mér sýndist svo. En þegar ég rifja upp þessa heim- sókn og þegar ég hef verið að horfa á brot úr þessum gömlu sjónvarpsviðtölum, í bráð- skemmtilegum þáttum Halldórs Guðmundssonar og Þorgeirs Gunnarssonar fyrr í þessari viku, þá blasir eitthvað annað við. Það var ekki bara ég sem mændi í hrif- inni andakt á skáldið, við yngra fólkið gerðum það öll, meira og minna. Vegna þess að sú þýðing sem Halldór og verk hans höfðu fyrir okkur var önnur og meiri en skýrð verði með heillandi manni og stórgóðum bókum. Eins og Ástráður Eysteinsson og Eysteinn Þorvaldsson hafa bent á fylgdi Halldór Kiljan Lax- ness kenningum Sigurðar Nordals um að íslendingasögumar væru skáldverk, ekki sagnfræði. Með nútímalegum, alþýðlegum útgáf- um á íslendingasögunum, með greinum um frásagnartækni og sagnalist miðaldabókmenntanna og síðast en ekki síst með Gerplu vildi Halldór virkja sögumar, læra af þeim, gagnrýna þær en fyrst og fremst nota þessa kynngimögnuðu texta sem umræðugrundvöll um menningararf og þjóðemi. Forseti íslands líkti Halldóri við Snorra Sturluson og það var góð samlík- ing. Eins og Snorri gaf okkur nor- rænu goðafræðina í sinni persónu- legu úrvinnslu svo að hún verður aldrei frá henni skilin, þannig er erfitt fyrir þær kynslóðir sem fæddar em eftir stríð að nálgast menningararfinn öðra vísi en túlk- aðan af Halldóri Laxness. Gerpla svipti íslendingasögum- ar saldeysi sínu, ef svo mætti að orði komast. Islandsklukkan verð- ur sannari saga átjándu aldarinn- ar en sagnfræði sömu aldar. Rit- gerð Halldórs um Jónas Hall- grímsson síast inn í skilninginn á ljóðum Jónasar og svona mætti halda áfram. Ég held með öðram orðum að Halldór Kiljan Laxness hafi verið eins konar Plús Ex í þeim hugmyndum um íslenskt þjóðemi sem kynslóðimar sem ólust upp eftir stríð tóku inn meira og minna óafvitandi. Það var ekki hægt að hafna þeim sögum sem orðnar vora okkar og þeim Plús Ex sem tilreiddi þær. Og til þess bar heldur enga nauðsyn því að hver hefði viljað vera án þeirra? Ég kveð Halldór Laxness með innilegu þakklæti fyrir það sem hann gaf okkur og votta Auði Lax- ness og fjölskyldu hans samúð mína. Dagný Kristjánsdóttir. Þakka skemmtunina Mér er í mun að þakka Halldóri Laxness skemmtunina. Hann er tvímælalaust langfyndnasti rithöf- undur sem ég hef lesið. Óteljandi sinnum hef ég hlegið í einrúmi, jafnvel grátið af hlátri, yfir fyndn- inni í bókum hans. Ég þarf líklega ekki að geta þess, hvílíkur höfuð- kostur það er rithöfundi að vera skemmtilegur. Og Halldór varð, svo mörgum áram skipti, alltaf skemmtilegri og skemmtilegri. Mörgum hefur tekist hið gagn- stæða næsta fyrirhafnarlítið. Svo er það dirfskan. Halldór var hugaður og þorði að ganga í ber- högg. Hann var svo djarfur, að hann áræddi oftar en einu sinni að ganga af trúnni og viðurkenna það með stíl. Hitt var þó enn meira, að hann þorði að skrifa á íslensku fyrir þennan stóra heim. Hann skiifaði og skrifaði á þessari annarlegu tungu, þangað til öll veröldin varð að taka við honum og þýða verk hans á tungumál sín. Það afrek verður seint endurtekið. Halldór Guðjónsson frá Laxnesi var slíkur fyrirmaður á íslenskum ritvelli á 20. öld, að enginn hefur komist með tærnar, þar sem hann hafði hælana. Gfsli Jónsson.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.