Morgunblaðið - 06.06.1974, Blaðsíða 5

Morgunblaðið - 06.06.1974, Blaðsíða 5
MORCUNBLAÐIt), FIMMTUDAOUR 6. .IUNI 1974 5 „Þér komið hingað á hátíð- arári og á fagnaðarstund” Ræða forseta tslands í veizlu til heiðurs Ólafi Noregskonungi 5. júní 1974. Herra konungur, Yrtar hátign. ÞAÐ er mér mikiö gleðiefni að bjóða yður innilega velkominn til íslands. Kona min og ég höfum beðiö þess með eftirvæntingu að hafa yður sem gest okkar, siðan við nutum gestrisni yðar og þjóðar yðar fyrir þremur árum, er við fórum í opinbera heimsókn til Noregs. Og að baki okkar stendur öll íslenzka þjóðin og tekur í dag þátt i velkomandakveðjum okkar til Noregskonungs. Fyrir tveimur árum minntist norska þjóðin þess með hátiðahöldum, að þá voru liðin 1100 ár síðan Noregur sameinaðist í eitt riki. Svo sem í framhaldi af þessu minnumst vér Islendingar þess á þessu ári, að liðnar eru ellefu aldir siðan land vort byggðist. Það er engin tilviljun að þessi tvö minningarár, annað í Noregi og hitt á Islandi, reka hvort annað. Fyrir því eru fornar og eindregnar heimildir að þegar Haraldur kongungur hárfagri sameinaði Noreg og gerðist einn konungur yfir öllu landinu, þá kusu ýmsir að flytjast heldur til hinnar fjarlægu og nýfundnu eyjar úti í hafinu en lægja svo metnað sinn að gangast undir nýja valdaskiptingu. Þannig segja fornar sagnir frá landnámi á Islandi og vísast að ekki skeiki miklu. 1 dag bér það hátt í hugum vorum að minnast þess, án þess að fjöl.vrða um söguleg efni, að land vort var numið af fólki frá Noregi, fólki sem kom siglandi á smáskipum sfnum austan yfir voldugt og ókannað haf, sömu leiðina sem þér hafið nú siglt á konungsskipi yðar. Þér komið hingað á hátíöarári og á fagnaðarstund. Þegar vér Islendingar höldum hátíð til þess að minnast vorra fornu feðra, sem stofnuðu til mannlífs i landi voru, er það oss sérstakt og óblandið gleðiefni að taka á móti konungi Noregs sem gesti vorum. Á löngum öldum hafa samskipti þjóða vorra verið mikil og náin, en þó með ýmsu og mismunandi móti eftir því sem gangur sögunnar hefur orðið á hverri tíð. Allt eru það vel þekktar siigulegar staðreyndir. En mér veróur hugsað til nútíðarinnar, vorrar eigin samtíðar og samskipta þjóða vorra nú. Ég fullvissa yður um það, herra konungur, að allar götur síðan íslendingar hófu baráttu sina fyrir þjóðlegri vakningu og endurreisn á síðastliðinni öld og fram á þennan dag, hafa þeir með athygli fylgzt með því sem gerzt hefur með Norðmönnum, sem þeir hafa litið á sem frændur, vini og nágranna. Barátta Norðmanna fyrir fullveldi og sjálfstæði hafði sin áhrif í sjálfstæðisbaráttu vorri. Norsk menning, einkum norskar bókmenntir, voru um skeið mikill áhrifavaldur í islenzku menningarlífi. Og síðast en ekki sízt, til Noregs sóttum vér margar nýjungar í verklegum efnum, þegar vér fórum að hugsa til að lyfta atvinnuvegum vorum á hærra og samtímalegra stig, bæði landbúnaði og fiskveiðum. Ungir tslendingar fóru þá til Noregs til að leita fyrirmynda, og af Norðmönnum sem hingað komu með atvinnutæki sín lærðu Islendingar margar nýjungar. En það sem ég vil öðru fremur nefna við þetta hátiðlega tækifæri, er sá góði hugur sem þjóð yðar og þér sjálfur persónulega hafið sýnt oss Islendingum og ýmsum málefnum vorum á undanförnum árum og áratugum. 1 sjálfstæðisbaráttu vorri áttum vér samhug norsku þjóðarinnar, og margir Norðmenn töluðu þá djarflega máli voru. Og á síðustu tímum eru þess mörg dæmi, að Norðmenn hafa ótilkvaddir rétt oss hjálparhönd, þegar vér höfum tekið oss stór verkefni fyrir hendur, eða þegar vér höfum þurft á liðsinni að halda vegna ófyrirsjáanlegs vanda. Sem dæmi um hið fyrra nefni ég skógræktarmál vor, sem eru mjög aðkallandi nauðsynjamál hér á landi, en margt fleira mætti nefna. Sem dæmi um hið síðara nefni ég það sem öllum er í fersku minni, þegar eldur kom upp í Vestmannaeyjum og olli miklu tjóni og erfiðleikum. Engum öðrum er gleymt þótt þess sé getið, að þá komu Norðmenn til liðs við oss af framúrskarandi drengskap og göfuglyndi, sem muna ber og munað verður. Mér er það sérlega ljúft að biðja yðar hátign að taka við þökkum vorum til grannþjóðar vorrar í Noregi. Ég veit að ég mæli fyrir munn landsmanna minna allra, þegar ég nú læt i ljós virðingu mína fyrir landi yðar og þjóð, afrekum þjóðar yðar á sviði menningar í andlegum og verklegum efnum og á sviði Framhald á hls. 18 Sérstæð vináttubönd og söguleg tengsl Ræða hans hátignar konungsins við hátíðarkvöldverð forseta íslands 5. júní 1974. Herra forseti. Ég þakka hjartanlega vingjarnleg orð í garð lands míns, norsku þjóðarinnar og mín persónulega. Eins og þér nefnduö, herra forseti, er þetta þriðja heimsókn mín til lands yðar og önnur heimsókn sem konungur Noregs. Það ástúðlega andrúmsloft og mikla gestrisni ásamt þeim votti um samhygð og náið samband, sem ég ætíð hefi fundið hér á landi, hefir alltaf glatt mig jafn mikið hverju sinni. Ég tel þessar hlýju móttökur bera einlægan vott um þau sérstæðu vináttubönd og sögulegu tengsl, sem ætíð hafa verið til staðar milli landa vorra og þjóða. Opinber heiinsókn yðar, herra forseti, og konu yðar til Noregs fyrir rúmum þrem árum átti auk þess sinn þátt 1 að efla og styrkja þessi bönd. Það gleður mig að heyra, að yðar álit er eftir komuna til Noregs, að djúp vináttubönd og samstaða sé milli norsku þjóðarinnar og þeirrar islenzku og er það einnig álit mitt við komuna hingað. Mér er það sérstök ánægja, að heimsókn mín skuli eiga sér stað á því ári, er haldið er upp á afmæli 1100 ára byggðar á Islandi. Fyrir norsku þjóðina hefir þessi sögulegi atburður, landnámið, tilfinningalega sérstöðu. Sagnirnar af Ingólfi Arnarsyni og mönnum þeim og konum. er fvlgdu í fótspor hans til að nema hér land og taka sér bólfestu, eru verulegar og sígildur hluti náms okkar í barnaskóla. Þá kemur fram í hug vorn sá hluti sögunnar, sem ber merki hugdirfsku og útþrár. Það var grundvöllurinn að þeirri hefð, sem íslenzkir landnámsmenn fylgdu síðar og I Noregi á okkar tímum færði okkur menn eins og Fridtjof Nansen og Roald Amundsen. Þegar við lítum á Island í dag og þá stórkostlegu þróun, sem hér hefir átt sér stað, eruin við stoltir yfir því, að það voru norskir landnámsmenn, sem lögðu fyrir 1100 árum fyrsta grundvöllinn að þessari sérstæðu og þrekmiklu þjóð. Við Norðmenn finnum fyrir sérstöku þakklæti í garð Islendinga fyrir að hafa fóstrað svo marga og ágæta rithöfunda. Þeir skópu hinar einstæðu fornbókmenntir og norsku konungasögurnar, sem áttu svo ríkan þátt í að endurvekja vora eigin þjóðarhyggju, þjóðarhyggju, sem var mikilsverð forsenda þess að geta endurheimt þjóðerniskennd vora eftir margra alda stjórn framandi afla. Island hefir látið hina miklu bókmenntahefð sína þróast allt fram til vorra daga með höfundum þeim, sem hlotið hafa yfirburða viðurkenningu á alþjóða vettvangi. Það er þó ekki aðeins sameiginlegur arfur og saga, sem binda lönd vor svo nánum böndum. Noregur og Island eru í dag háþróuð velferðarþjóðfélög, sem hafa sömu skoðun á lýðræði, frelsi og manngildi og reyna að uppfylla þær skyldur, sem slíkt leggur okkur á herðar gagnvart fjölskyldu þjóðanna. Bæði löndin hafa skipað sér fastan sess i hinum vestræna heimi, og landfræðileg staða beggja landa vorra hefir lagt grundvöllinn að sameiginlegum áhugamálum í fortíð og nútíð. Bæði íslendingum og Norðmönnum fannst eðlilegt að verða þátttakendur i vestrænu varnarsamstarfi, þegar til þess var stofnað, og leggja i dag aðaláherzlu á tvíþætt hlutverk bandalagsins, bæði sem samtaka til sameiginlegra varna og tækis til að vinna að minnkandi spennu og samvinnu milli austurs og vesturs. Bæði hafa löndin í þessu sambandi stutt eindregið að því að fjallað væri um öryggi og samvinnu í Evrópu og umleitanir um að dregið væri úr herstyrk í Mið-Evrópu, og vonumst við til, að þessar umleitanir hafi í för með sér áþreifanlegan og varanlegan árangur til framdráttar friði og samvinnu í vorum hluta heims. Annað mikilsvert áhugasvæði er okkur sameiginlegt og það er að varðveita auðlindir hafsins, sem umlykur okkur. Bæði löndin telja hafréttarráðstefnuna, sem brátt mun verða haldin I Caracas, hina mikilsverðustu. Noregur og tsland hafa komið á nánu samstarfi við undirbúning að þessari ráðstefnu og mun þessi nána samvinna haldast einnig á ráðstefnunni sjálfri. Þróunin hefir haft það í för með sér, að æ stærri hluti samstarfsins, einnig milli vorra þjóða, á sér nú stað innan vébanda alþjóðlegra stofnana. Við teljum samstarfið hjá Sameinuðu þjóðunum einn af hornsteinum utanríkispólitíkur okkar, þar sem við eigum á mörgum sviðum náið og árangursríkt samstarf. Sama gildir um svæðissamtök eins og Norðurlandaráð, NATO, Evrópuráð og EFTA. Framhaid á bls. 18 Bergstaóasfræti 4a Sími 14350

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.