Morgunblaðið - 17.02.1980, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 17.02.1980, Blaðsíða 20
20 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 17. FEBRÚAR 1980 HHI BhHHI Næturgestur hjá Við skulum kalla hana Nasjúu. Hún er 38 ára, f jögurra barna móðir og barnakennari í Bag- dad, höfuðborg íraks. Mann- inn sinn, hann Ahmed, leit hún ekki augum fyrr en á brúðkaupsdaginn. Hún sá ekkert athugavert við það, — hafði að vísu heyrt eitt og annað um hann áður en hinn stóri dagur rann upp, og treysti fjölskyldu sinni fullkomlega til að gæta hagsmuna sinna í því efni. „Fullorðna fólkið á að sjá um þetta,“ segir hún, „ungu og óþroskuðu fólki er ekki treyst- andi fyrir svo mikilvægum málum. Það kom líka í ljós, að mér var óhætt að treysta fjölskyldu minni í þessu efni, því að ég elskaði hann um leið og ég sá hann,“ bætti hún við. Ahmed er tíu árum eldri en Nasjúa. Hann var eitt sinn orr- ustuflugmaður, en var rekinn úr hernum fyrir að vera kommúnisti. Síðan var hann hafður í fangelsi í tíu ár. Nú er hann hættur að vera kommúnisti, segir hann, hefur engan áhuga á stjórnmálum og vill ekkert um þau ræða. Nasjúa er skrafhreifari og ekki alveg frábit- in því að ræða stjórnarfarið í landinu, og hefur raunar ýmislegt við það að athuga. En svo áttar hún sig og segir: „Ef ég segi eitthvað á móti stjórninni, þá verðum við drepin." Þegar ég spyr hvort hún taki nú ekki fulldjúpt í árinni fullvissar hún mig um að svo sé ekki, en slær svo út í aðra sálma og fer að hæla Saddam Hussein í hástert. Til þess að enginn verði nú drepinn þá er nöfnum breytt í þessari frásögn og myndir ekki birtar af fjölskyld- unni. Þau búa í úthverfi í Bagdad. Húsið er stórt og búið nýtízku þægindum. Sýnilega búa þau við allsnægtir, en á heimilinu er samt ekki einn einasti hlutur, sem gleður auga gestsins frá Vestur- Evrópu. Alls staðar úir og grúir af hinum furðulegasta varningi, þannig að heimilið líkist einna helzt vörulager. Þar eru þrjú sjónvarpstæki, tveir ísskápar — annar í eldhúsinu og hinn í borðstofunni, — á borði í dagstof- unni er staflað upp allskyns raf- magnstækjum, sem greinilega hafa aldrei verið notuð, því að þau eru enn í umbúðunum. Þau eru búin að leita árangurs- laust að mjólk í þrjá daga, en voru svo heppin að komast yfir tölu- verðar birgðir af eggjum fyrir nokkrum dögum. í ljós kemur að aðdrættir allir eru miklum erfið- leikum bundnir. Algengustu vöru- tegundir fást ekki nema með höppum og glöppum, og þegar gæsin gefst er um að gera að grípa hana, og hamstra eins og hægt er. Hér virðist fremur um að kenna skipulagsleysi en vöruvöntun, en blessunin hann Saddam Hussein er búinn að segja að þetta standi til bóta á næstunni. Hingað til hafa þau ekki rekið sig á að ástæða sé til að vantreysta því, sem sá maður segir. Hitt liggur í augum uppi, segja þau að allt tekur þetta sinn tíma, — Saddam Hussein hefur í mörg horn að líta. .4 stofuveggnum hangir mynd af Saddam Hussein, sem er forseti landsins. Þegar ég segist hafa verið í samkvæmi hjá honum í forsetahöllinni og hann hafi heils- að mér með handabandi, verður Nasjúa nánast uppnumin. Hún segist hafa séð hann álengdar nokkrum sinnum, en vonandi eigi hún eftir að upplifa það að fá að tala við hann. Sá möguleiki sé alls ekki fjarlægur, því að Saddam Hussein hvetji almenning óspart til að snúa sér til sín persónulega til að ræða málin. Það var kunningi Ahmeds, sem sagði mér fyrst frá fortíð hans. Þegar ég spurði hann sjálfan hvers vegna hann hefði hætt í hernum, sagði hann: „Það upp- götvaðist að ég var með sjón- skekkju og því óhæfur til að vera flugmaður." „Og á hverju lifirðu þá?“ „Ég fæ peninga frá stjórn- inni,“ var svarið. Nokkrum dögum síðar spurði ég hann svo í návist konu hans, hvort það væri ekki rétt, að hann hefði ekki verið í fangelsi í tíu ár. Kannaðist hann þá við það, en vildi ekkert um það ræða frekar. Þegar ég kom í heimsókn til þessarar fjölskyldu var húsmóðir- in í óða önn að affrysta frystikist- una. Greinilega hafði henni orðið vel ágengt í hamstrinu, því að hestburður af matvælum lá á víð og dreif um eldhúsgólfið. Hún kom á móti mér með útbreiddan faðm- inn, kyssti mig margsinnis á báða vanga, skoðaði mig svo í krók og kring og fór viðurkenningarorðum um útlit mitt. Ég lagði ekki mikið upp úr þessu málskrúði, — Hugs- aði sem svo að þetta væri einhver viðtekin kurteisisvenja í þessu skrýtna landi, en þessi umfjöllun ágerðist frekar en hitt, og ég komst að því að Aröbum þykir sjálfsagt að ræða opinskátt alls konar persónuleg mál, sem við Evrópubúar fjöllum yfirleitt ekki um, nema ef til vill í hljóðskrafi milli nánustu vina. Útlit og atferli cinstaklinga er rætt á umbúða- lausan hátt að þeim viðstöddum, viðkvæm fjölskyldumál sömuleið- is, peningamál, ástamál og allt þar á milli. Arabar eru tilfinningamenn og sveiflukenndir í skapi. Þeir eru örir í lund, og þegar þeir gleðjast eða þeim líkar vel við einhvern virðist ástúðin eiga sér lítil tak- mörk. Þeir virðast vægast sagt kærulausir í umgengni við áþreif- anleg verðmæti og lítið gefnir fyrir að prýða umhverfi sit*. sem sjálfsagt stafar meðal annars af því að fegurðarskyn þeirra sýnist furðulega vanþróað. Þetta kunna að virðast sleggjudómar, þar sem skilningur manneskju, sem ein- ungis hefur dvalizt skamma hríð Nasj uu meðal þessa fólks, geti ekki gefið tilefni til staðhæfinga af þessu tagi, en þessa virðingarleysis fyrir umhverfinu sjást hvarvetna merki. Á þeim heimilum, sem ég kom á, voru hvergi myndir á veggjum, að frátöldum fjölskyldu- myndum og stóru myndinni af „stóra bróður," Saddam Hussein. Þessi áberandi skortur á þeirri skreytingaþörf, sem Vesturlanda- búar eru að líkindum haldnir öðrum fremur, sést glögglega hvar sem litið er. Höfuðborg íraks, Bagdad, er einlit — grábrún. Heilu íbúðarhúsahverfin eru í þessum lit — eða öllu heldur litleysi. Að innan eru hús, a.m.k. þau, sem ég kom í, máluð í þessum sama lit, — þó kom ég inn í eina stofu, sem var með daufum íshús- bláum lit. Það er eins og kappkost- að sé að enginn hlutur skeri sig úr, og ef einhver fyndi upp á því að mála húsið sitt skærum lit yrði sá hinn sami tæplega álitinn með öllum mjalla. Þetta snauða um- hverfi orkar einkennilega illa á mann og verður stöðugt meira þrúgandi sem lengra líður. Það er kannski ekki fráleitt að ætla að eyðimörkin — þessi endalausa víðátta af grábrúnum sandi — eigi sinn þátt í þessu eyðilega yfir- bragði. Margt hefur verið rætt og ritao um misrétti kynjanna í löndum múhammeðstrúarmanna. Tákn um þetta misrétti þótti sú skipun Khomeinis trúarleiðtoga í íran til kvenna í landinu að ganga á ný í kuflinn svarta, sem nefndur er „abaj“, enda þótt flestar hefðu kastað honum a.m.k. yngri kon- urnar. í Bagdad ganga margar konur í þessum kufli á götum úti, einnig ungar stúlkur. Afstaða til trúmála skiptir ekki máli í þessu sambandi, — kuflinn er flík, sem á sér margra alda hefð, enda hefur hún ýmsa augljósa kosti ef tillit er tekið til staðhátta. Hún skýlir líkamanum fyrir brennandi sól- argeislum og sandroki, og er ekki síður hentug þegar svalt er í veðri. Kuflinn er svo efnismikill, að hægðarleikur er fyrir konuna að hafa barn á handleggnum og skýla því þannig um leið. Nasjúa átti „abaj“, en sagðist að mestu hætt að nota hann. Þó kæmi fyrir að hún brygði honum yfir sig, ef þannig viðraði, eða þegar hún færi í mosku, og sagðist hún ekki eiga aðra yfirhöfn. Hún kvaðst alls ekki líta á þessa flík sem neitt merki um kúgun kvenna, en óneitanlega þætti sér hún gamaldags. „Það er misskilningur að halda að konur í írak búi við kúgun. Við höfum á flestum sviðum sama rétt og karlmennirnir og það er stefna ríkisstjórnarinnar að efla þátt- töku kvenna í þjóðlífinu. Flestar konur fara líka að vinna utan heimilis um leið og börnin eru komin af höndum, og eftirspurn eftir vinnuafli er meiri en fram- boðið. Til dæmis er orðið útilokað að fá heimilishjálp, þótt maður hafi vel efni á að borga manneskju fyrir að létta undir með sér. Á undanförnum árum hefur stjórnin tekið í sína þjónustu allt vinnu- fært fólk.“ Kennaralaun Nasjúu eru í kringum 150 denara á mánuði, sem jafngildir um 400 þúsund íslenzkum krónum, en til saman- burðar má geta þess að háttsettur blaðamaður og flokksgæðingur kvaðst hafa um 450 denara á mánuði. Nasjúa kvartaði undan dýrtíðinni og nefndi sem dæmi, að fiskur úr Tígris, á stærð við meðallax úr íslenzkri á, hefði kostað 30 denara. Greinilega var fiskurinn mikill sparimatur og hún sagði að mjög erfitt væri að ná í þetta lostæti. Þegar Nasjúa var að því spurð hvernig henni hefði vegnað á meðan maður hennar sat undir lás og slá, sagði hún: „Það var mjög erfiður tími. Ég þurfti að bera alla ábyrgðina ein, en sem betur fer þurfti ég aldrei að hafa neinar fjárhagsáhyggjur. Fjölskylda mín, sem öll býr hér í nágrenninu, hefur alla tíð séð um að ég hefði allt, sem ég þarf á að halda. Þau keyptu handa mér þetta hús og allt, sem í því er. Ég á þetta allt, — Ahmed á ekkert í þessu. Þetta er allt mín eign.“ Hún sagði þetta heldur kald- ranalega, og yfirleitt talaði hún um mann sinn af takmarkaðri virðingu. „Meira að segja úrið, sem hann er með, — það er frá mínu fólki, bróðir minn færði honum það þegar hann kom úr pílagrímsferð til Mekka." Maðurinn hlustaði á þetta tal hinn rólegasti og gerði engar athugasemdir. Ég vissi að hann lagði stund á viðskipti og hlaut að hafa þokkalegar tekjur, en hún hélt áfram: „Ég sé aldrei eyri af því sem hann vinnur sér inn. Ég kenni og þegar mín lausn nægja ekki fyrir heimilisútgjöldunum fæ ég pen- inga frá fjölskyldu minni. Ég get fengið eins mikla peninga hjá bræðrum mínum og ég þarf á að halda. Annar býr í Kuwait og hann er alltaf að senda mér eitthvað, sem ekki er hægt að kaupa hér, en hinn býr hér í næstu götu. Ahmed hefur ágætis tekjur, en í rauninni er það ég, sem sé fyrir honum, en ekki hann fyrir heimilinu." Eitt sinn þegar Ahmed var ekki nálægur trúði Nasjúa mér fyrir því að hún þráði að geta búið ein með börnum sínum. „Hann drekkur. Hann er út um hvippinn og hvappinn alla daga, í sambandi við vinnuna og ýmislegt annað, en þegar hann kemur loksins heim þá fer hann að drekka. Ég hef svo sem ekkert á móti áfengi í sjálfu sér, en þetta er bara alltof mikið. Hann er þreyt- andi og erfiður þegar hann er drukkinn og auðvitað hefur þetta slæm áhrif á börnin og heimilislíf- ið.“ „En varla fara allir aurarnir hans í áfengi?" „Nei, hann eyðir þessu öllu í hjákonu, sem hann er búinn að standa í sambandi við í nokkur ár. Það er þessi kona, sem er undirrót vandamálsins, og hún er ástæðan fyrir því að ég vil að hann fari.“ „Mundirðu þá skilja við hann?“ „Nei, það kæmi aldrei til greina. Hann mundi þá bara flytja og búa annars staðar þótt við héldum áfram að vera gift að nafninu til.“ „En þætti þér þá ekki betra að losna við hann í eitt skipti fyrir öll? Gæti til dæmis ekki verið að þú vildir sjálf hafa frjálsar hend- ur til að taka upp sambandi við annan mann?“ Nú leit hún á mig, eins og ég færi með hina mestu fjarstæðu, hló svo við og sagði: „Þú skilur þetta ekki. Hann er maðurinn minn og ég gæti aldrei hugsað mér annan mann, þótt ég setlöngu hætt að vera hrifin af honum. Svo ætti ég nú ekki annað eftir en að fara að búa til nýtt vandamál, því að karlmönnum fylgja eintón vandræði. Fjölskylda mín mundi heldur aldrei fallast á að ég fengi mér nýjan mann, og sjálfa langar mig ekkert til þess. Ég hef börnin mín og þau skipta mig öllu máli.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.