Morgunblaðið - 10.04.1980, Page 27
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 10. APRÍL 1980
27
Sighvatur Björgvinsson:
Stjórnleysi tef-
ur þingstörf
Fundum frestað þrí-
vegis á mánudag —
og jafn oft á þriðju-
dag fyrir páskahlé
Formenn þingflokka stjórnar-
andstöðu vóru kallaðir á fund
forsætisráðherra kl. 6.30 á
pálmasunnudag til að ræða verk-
stjórn og málsmeðferð í þinginu
þessa síðustu tvo til þ'rjá daga
fyrir páskahlé, sagði Sighvatur
Björgvinsson, formaður þing-
flokks Alþýðuflokksins, í um-
ræðu utan dagskrár á Alþingi sl.
viku. Við féllumst á að afgreiða
tiltekin mál. en tókum fram, að
söluskattshækkun upp á 11 millj-
arði króna á heilu ári þyrfti
lengri athugunar við, svo og
samráðs að lögum við aðila
vinnumarkaðar. Afgreiðsla þess
fyrir páska kæmi því ekki til
greina af okkar hálfu. Við færð-
um síðan þingflokksfundartíma
okkar til á mánudegi, frá 4
síðdegis til 11 árdegis, til að
greiða fyrir þingstörfum, og höf-
um setið kvöld og næturfundi í
sama skyni í fyrradag og í gær.
En hvern veg flýta stjórnarliðar
fyrir störfum þingsins, spurði Sig-
hvatur Björgvinsson. Á mánudag í
upphafi þings biður einn stjórnar-
flokkanna um fundarhlé, vegna
innbyrðis ósamkomulags að því er
virðist um söluskattsmálið. Síðan
þarf tvívegis að fresta fundi síðar
um daginn vegna þess að fjármála-
ráðherra mátti ekki vera að því að
gegna þingskyldum sínum. I gær
var fundi frestað hvað eftir annað
og þingfundir hófust ekki fyrr en
eftir að venjulegur fundatími var
úti. Borið var við vöntun þingskjala
en vitað var að ástæðan var
ágreiningur í stjórnarliðinu og
algert skipulagsleysi í störfum
þess. Fundahöld stóðu síðan fram
undir 4 um nóttina. Stjórnarand-
staðan sat kvöld- og næturfundina,
til þess að mál mættu ræðast, en í
gærkvöldi og nótt var aðeins 1
ráðherra af 10 viðstaddur umræð-
una að nokkru ráði.
Sighvatur Björgvinsson sagði
sjálfsagt að fjárlög og jafnvel
olíugjald fiskiskipa fengi af-
greiðslu — en hinsvegar fælist
vanvirðing við þingið í því að
krefjast þess, að jafn stórt mál og
söluskattshækkunin er væri af-
greitt án þeirrar umfjöllunar, sem
jafn veigamikið mál þyrfti að fá,
bæði í þingnefnd og þingdeildum,
og raunar í samráði við aðila utan
þings, og á jafn skömmum tíma og
ætlast væri til. Ríkisstjórnin gæti
við engan sakast nema sjálfa sig,
hve málið hefði verið síðbúið, illa
að því staðið á alla lund sem og
hvern veg hefði verið farið með
starfs- og fundatíma þings sl.
mánudag og þriðjudag — vegna
stjórnleysis.
Davíð Aðalsteinsson:
Bændur fái aðild
að Ferðamálaráði
Davíð Aðalsteinsson (F) hefur
lagt fram frumvarp til laga um
aðild bænda að Ferðamálaráði,
enda sé eðlilegt að þeir verði
virkir þátttakendur í mótun
heildarstefnu i ferðamálum. Eins
og nú er skipa 10 fulitrúar
Ferðamálaráð, 7 tilnefndir af
ýmsum aðilum en 3 án tilnefn-
ingar af viðkomandi ráðherra.
Frumvarp Davíðs gerir ráð fyrir
að Stéttarsamband bænda til-
nefni ellefta fulltrúann.
I greinargerð segir m.a.:
Hagsmunir íslenskra bænda eru
samofnir ferðamálum í landinu.
Bændur eru víða landeigendur án-
ingarstaða ferðafólks og hafa oft og
tíðum hagsmuna að gæta í sam-
bandi við veiði í ám og vötnum.
Bændur sjálfir og fulltrúar þeirra
hafa iðulega verið talsmenn um-
hverfis- og náttúruverndar, en eins
og kunnugt er hefur Ferðamálaráð
m.a. það hlutverk á hendi, að þróun
ferðamála verði samhliða náttúru-
og umhverfisvernd.
Sala landbúnaðarafurða er mik-
ilvægur þáttur í ferðamannaþjón-
ustunni. Það er brýnt hagsmunamál
bænda, að landbúnaðarafurða sé
neytt í vaxandi mæli í landinu
sjálfu. Neysla erlendra gesta á þeim
afurðum jafngildir í raun útflutn-
ingi, en án þess að til útflutnings-
bóta komi. Ferðamannavérslun fer
sífellt vaxandi víða um land, m.a.
þar sem verslanamiðstöðvar eru í
höndum samvinnufélaga. í sumum
þéttbýliskjörnum má líkja verslun
ferðamanna við jólaös. Alkunna er,
að bændur hafi um árabil verið í
tengslum við hótelrekstur og má í
því sambandi minna á Hótel Sögu
og Hótel KEA á Akureyri. Ýmis
dæmi fleiri mætti rekja, sem bera
vitni rekstaraðild bænda að þjón-
ustu við ferðamenn.
Að lokum skal þess getið, að
nýlega voru stofnuð Landssamtök
ferðamannabænda. Á einum stað í
samþykktum félagsins segir svo:
„Tilgangi sínum hyggjast samtökin
ná með því að stuðla að góðri
samvinnu milli bænda og þéttbýlis-
búa varðandi aðstöðu fyrir fólk til
byggingar eða afnota sumarbústaða
og greiða fyrir því, að allir hafi
aðgang að landinu til útivistar."
Bændur eiga meginhluta landsins
og er því góð samvinna milli þeirra
og þéttbýlisbúa forsenda þess, að
unnt sé að tryggja öllum lands-
mönnum og þeim, sem sækja landið
heim, aðgang að landinu með þeim
hætti, að sem flestir geti vel við
unað.“
Frá Sigrúnu Gísladóttur, fréttaritara Mbl. i Svíþjóö
Atvinnurekendur
frestuðu
verkbanni
fram á sunnudag
Frá Sigrúnu Gísladóttur. fréttaritara
Mbl. í Svíþjóð, 9. apríl.
ATVINNUREKENDUR í
Svíþjóð frestuðu í dag að setja
verkbann á meðlimi sænska
alþýðusambandsins, en það átti
að koma til framkvæmda í dag.
En atvinnurekendur frestuðu
verkbanni sínu aðeins fram á
sunnudag. Sáttanefnd átti í dag
fundi með fulltrúum atvinnu-
rekenda og sænska alþýðusam-
bandsins og eftir mikinn þrýst-
ing sáttanefndar drógu
atvinnurekendur verkbann sitt
til baka. Hins vegar stendur
yfirvinnubann verkalýðsfélag-
anna ennþá. Það er mál manna
hér í Svíþjóð, að þunglega horfi
með samkomulag og ástandið
hafi ekki verið jafn ískyggilegt
og síðan i verkföllunum árið
1909.
Kjarasamningar í Svíþjóð
hafa verið lausir síðan í nóvem-
ber sl. Meðan enn var óljóst um
stefnu Svía í orkumálum gerðist
þó lítið í samningaviðræðum. Að
lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu
um framtíð kjarnorkuveranna
var því fyrst grundvöllur fyrir
samningagerð og nú eru þau mál
efst á baugi hér í Svíþjóð.
Launþegasamtökin setja fram
kröfur um kauphækkanir sem
nema rúmlega ellefu prósent.
Árið 1979 var gott ár hjá flestum
sænskum iðnfyrirtækjum og
mörg þeirra skiluðu arði til
hluthafanna. Á þeirri forsendu
m.a. telja launþegar að fyrirtæk-
in eigi að geta borgað starfsfólki
sínu hærri laun. Atvinnurekend-
ur eru ekki á sama máli og segja
að þær upphæðir sem greiddar
hafi verið til hluthafa séu alls
ekki nægilegar til þess að standa
undir kauphækkunum.
Myndaðar hafa verið tvær
sáttanefndir, annars vegar fyrir
opinbera starfsmenn og hins
vegár fyrir aðra launþega, sem
eiga að vinna að samningaum-
leitunum í nánu samstarfi við
ríkisstjórnina. Til þessa ráðs var
gripið þar sem viðræður voru
komnar í sjálfheldu. Þetta
breytti þó ekki ákvörðun verka-
lýðsfélaganna um yfirvinnubann
sem tók gildi 27. marz. Stjórnin
ætlar sér ekki að taka beinan
þátt í viðræðum og ákvarðana
um kaup og kjör, því það mundu
launþegasamtökin aldrei sam-
þykkja. En hugmyndin er sú að
stjórnin muni á þeim tíma sem
unnið er að samningum beita sér
fyrir ákvörðunum í efnahags-
málum, sem geti leitt til þess að
launþegasamtökin gefi eftir af
kröfum sínum um beinar kaup-
hækkanir.
í framhaldi af þessti innleiddi
stjórnin nýlega almenna verð-
stöðvun sem gildir til 9. maí en
verður þá tekin til endurskoðun-
ar. Auk verðstöðvunar hefur
stjórnin lofað lægri sköttum,
jafnframt að fyrirtæki verði
skuldbundin til þess að leggja 25
prósent rekstrararðs í ákveðna
sjóði. í staðinn eiga launþegar að
samþykkja óbreytt laun. Þannig
hljóða tillögur stjórnarinnar til
þess að auðvelda kjarasamn-
ingana.
Thorbjörn Falldin, forsætis-
ráðherra, bendir á að þetta séu
engir úrslitakostir. Launþegar
eigi ef til vill eftir að velja aðrar
leiðir. En það sé augljóst að ekki
verði mögulegt að halda verð-
stöðvun ef laun hækki. Fálldin
segir enn fremur að launakröf-
urnar sem lagðar hafa verið
fram, séu langt fyrir ofan það
sem þjóðarbúskapurinn þoli.
Slíkar launahækkanir ógni vel-
ferð og verðbólgan ykist. Að-
gerðir stjórnarinnar væru fyrst
og fremst liður í baráttunni gegn
verðbólgu og atvinnuleysi — og
eigi að auðvelda yfirstandandi
kjarasamninga.
Launþegasamtökin hafa sýnt
litla hrifningu yfir tilboði
stjórnarinnar. Benda á það, að
síðan kjarasamningar runnu út í
nóvember, hefur verðlag hækkað
um 7 prósent. Forsvarsmenn
verkalýðssamtakanna (LO) og
sósíaldemókratar segja að að-
gerðir ríkisstjórnarinnar komi
og of seint og nægi því ekki. Hitt
sé hins vegar jákvætt að stjórnin
hafi loksins komið með tillögur.
Deilan hefur harðnað milli
stærsta verkalýðssambands LO
og atvinnurekenda SAF vegna
núverandi yfirvinnubanns. Mörg
fyrirtæki í t.d. pappírs- og skóg-
ariðnaði hafa orðið fyrir margra
tíma stöðvun í rekstri vegna
bannsins. Mjólkurbúin hafa ekki
getað unnið úr allri mjólk sem
borist hefur og mjólkurdreifing
dregist stórlega saman.
A fundi sínum rétt fyrir páska
ákváðu atvinnurekendur því að
boða verkbann í eina viku frá og
með fimmtudeginum 10. apríl.
Munu um 750 þúsund meðlimir
LO þannig verða útilokaðir frá
vinnu í heila viku. Þess ber að
geta að 1966 og 1977 hótaði SAF
sams konar verkbanni, en í bæði
skiptin tókst að afstýra því á
síðustu stundu.
Ríkissáttanefndin hefur setið
á fundum með deiluaðilum og
hefur óskað eftir að SAF (at-
vinnurekendur) taki til baka
verkbannshótun sína og að LO
hætti við núverandi yfirvinnu-
bann. Báðir aðilar hafa neitað að
gefa eftir og það verður ekki
ljóst fyrr en síðar í dag, fimmtu-
dag, hver lokasvör þeirra verða.
LO gerir þá kröfu að SAF
komi með tilboð um launahækk-
un en SAF hefur ákveðið sagt að
ekki sé grundvöllur fyrir neinum
kauphækkunum að sinni.
Kjósa Danir í
næsta mánuði?
Frá fréltaritara MorgunblaðKÍns i Kaupmannahöfn í Ka-r.
FORSÆTISRÁÐHERRA Dana, Anker Jörgensen,
er aftur kominn í mótbyr. allir stjórnmálaflokk-
ar ræða mögulcika á nýjum kosningum og
sósíaldemókratar eru viö því búnir að kosningar
fari fram í maí — hvaða gagn svo sem það gerir.
I gærmorgun ræddi ríkisstjórnin efnahagsáætl-
unina sem breytingar hafa verið gerðar á, en
aðeins orðalaginu var breytt á fundinum. Seinna
ræddi þingflokkur sósíaldemókrata áætlunina á
þriggja tíma fundi. Jafnframt útskýrði Svend
Auken verkamálaráðherra áætlunina fyrir aðilum
vinnumarkaðarins og loks var öðrum þingflokkum
skýrt frá henni.
Vinstri flokkurinn segir hreinskilnislega að
Anker Jörgensen sé persónuleg hindrun í vegi fyrir
því að samkomulag geti náðst um áætlanir. Poul
Schliiter, leiðtogi Ihaldsflokksins, segir að það sé
ekki á valdi annarra flokka að ákveða hverjir séu í
forsæti flokks eða ríkisstjórnar. íhaldsflokkurinn
hefur einnig tekið afstöðu gegn þeim áætlunum
sem hafa verið lagðar fram.
Samkvæmt áætlunum á að skera niður rauntekj-
ur á næsta ári um fimm af hundraði. Það verður í
aðalatriðum gert með álögum á orku, það er
rafmagnshita, bílagjöld og bensín. Jarðgas verður
eina undantekningin því að frá og með 1982 er gert
ráð fyrir því að það streymi til vissra landshluta.
Auk þess verða ríkisútgjöld skorin niður, aðallega
á sviðum félagsmála og menntamála. Þannig verða
eftirlaun miðuð við tekjur og fullorðinskennsla
verður stórlega skorin niður.
Ef að líkum lætur standa fyrir dyrum langvar-
andi samningaviðræður ef Anker Jörgensen á að
takast að fá meirihlutafylgi við áætlanir sínar.
Verðbréf hafa lækkað í verði vegna fréttanna um
neyðarráðstafanir og flokkarnir ræða möguleik-
ann á nýjum kosningum, ef til vill í næsta mánuði.
— Larsen