Morgunblaðið - 08.07.1981, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 08.07.1981, Blaðsíða 12
12 MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 8. JÚLÍ1981 „ Lí f smenntunin kemur í stökkum44 Séra SÍKurður Pálsson, vigslubiskup á Selfossi. „Prestastéttin hefur verið vaxandi stétt í minni samtíð. Hún hefur orðið að tileinka sér ný viðhorf í samræmi við rás tímans. Staða prestsins hefur breyst mikið frá því sem var, þegar það var nokkurs konar lén að vera prestur. Nú eru gerðar fjölbreyttari kröfur til presta og þeir verða að vera fjölhaefir til að koma til móts við þær kröfur. En annað hvort lifa menn lífinu eins og stein- gervingar eða þá að þeir eru vakandi." Svo fórust séra Sig- urði Pálssyni, vígslubiskupi á Selfossi, orð, er blaðamaður átti við hann tal í Háskóla íslands á dögunum, en þar sat hann Synodus. Séra Sigurður er áttræður í dag. En ekki ber hann það með sér, hvorki í yfirbragði né tilsvörum, að aldurinn hafi fært honum annað en aukinn þroska og skilning á mannlífinu í öllum sínum margbreytileik og æðru- leysi þess sem ekki þarf að hreykja sér hátt. Það er því ekki auðhlaupið að því að fá séra Sigurð til að tíunda veraldlegan afrakstur langrar og merkrar starfsævi. Enda kemur fram seinna að hann hyggst ekki skrifa ævisöguna, segir þær þegar vera orðnar of margar og allar eins. En hvernig halda menn vöku sinni? „Með því að starfa af alhug," segir séra Sigurður með áherslu og bætir við: „Og það er presti engin vorkunn að gera. Hann kynnist öllum stéttum og öllum hliðum lífsins í starfi sínu og er manna best í stakk búinn til þess að halda lifandi tengslum við umhverfi sitt.“ Sr. Sigurður er Snæfellingur, fæddur í Haukatungu í Hnappadalssýslu árið 1901. Ní- tján ára gamall hélt hann til Danmerkur á lýðháskóla. „Og það var fyrsta stóra stökkið á minni lífsbraut," segir hann. „Lífsmenntunin kemur í stökk- um og á þessu eina ári lærði ég hvað mest. En ég var haldinn sterkri heimþrá og hélt því heim til föðurhúsa og var þar næsta árið, en var síðan vetur- inn eftir það á Þingvöllum, hjá séra Guðmundi Einarssyni og bjó mig undir gagnfræðapróf. Síðan lá leiðin suður í Mennta- skólann." Rætt við séra Sigurð Pálsson vígslubiskup á Selfossi áttræðan Hvenær ákvaðstu að verða prestur? „Ég ætlaði alltaf að verða prestur. Frá því ég fyrst man eftir mér stóð'hugur minn til þess. En það hefur ef til vill haft sín áhrif að séra Árni Þórarinsson, sem var okkar klerkur, sá merki maður, hvatti mig til prestsskapar. En í þá daga þurftu menn að leggja að sér til að komast til mennta. Þetta var óttalegt streð, en hafði þó þann kostinn að menn kusu sér sitt hlutskipti sjálfir. Þvinguð skólaganga eins og hún er í dag, er allt of löng og illa skipulögð að mínu mati.“ Séra Sigurður útskrifaðist úr guðfræðideild Háskóla íslands árið 1933 og vígðist prestur til Hraungerðis í Flóa sama ár. Árið 1934 kvæntist hann Stef- aníu Gissurardóttur og eiga þau sjö börn. í Hraungerði bjuggu þau hjón í 23 ár, en þá fluttu þau inn á Selfoss og hafa búið þar síðan að undanskildum fimm árum, þegar sr. Sigurður, þá sjötugur, gerðist prestur Austur-Barðstrendinga. „Það vantaði prest í Reykhólapresta- kall og ég fór,“ segir hann. „Það er mikill munur á þessum tveimur prestaköllum. Reyk- hólaprestakall er mjög víðlent, nær til sem næst allrar A-Barðastrandarsýslu frá Gils- firði vestur að Kerlingafirði og Flatey og það var gaman að vera prestur þar.“ En nú hefur þú, að undan- skildum þessum fimm árum fyrir vestan, alið mestan þinn starfsaldur fyrir austan fja.ll og eiginlega séð Selfoss verða til, ef svo má að orði komast. „Jú, Selfoss óx upp á þeim tíma, sem ég var prestur þar. Þegar ég kom austur voru á Selfossi innan við tíu íbúðarhús, mjólkurbúð og tvær verslanir. Nú eru íbúarnir orðnir hátt á þriðja þúsund og bærinn kom- inn yfir unglingsskeiðið, ef svo má segja. En það er erfitt skeið í lífi bæjar, þegar íbúarnir eru að nálgast annað þúsundið, það er eins og að vera unglingur. Það hefur verið gott að búa á Selfossi, öll þægindi þéttbýlis- ins og alltaf næg viðfangsefni í vaxandi samfélagi. Nú á sér stað mikil skólauppbygging { bænum og ef vel er á haldið, þá dreifir það út menningu." Nú ert þú mikill áhugamaður um gregorískan kirkjusöng, séra Sigurður, og einn af stofn- endum Isleifsreglunnar. „Það er rétt,“ segir hann. „ísleifsreglan var stofnuð í fyrra og snýst um gamalt áhugamál mitt. Ég fékk snemma áhuga á gregorískum kirkjusöng og svo bar svo við að tveir ungir tónlistarmenn, sem báðir eru lærðir í Austurríki, þeir Bragi Ólafsson, organisti í Mosfellssveit, og Helgi Braga- son, organisti í Njarðvíkum, sýndu sama áhuga. Þessir menn, ásamt sr. Krist- jáni Val Ingólfssyni, sem nemur lítúrgik, og organistanum á Selfossi, Glúmi Gylfasyni, lögðu út í að sinna gregorískum söng fyrir alvöru og í fyrra var svo ísleifsreglan, félag áhugamanna um gregorískan söng, stofnuð. Hlutverk hennar er útgáfa og kynning á því er lýtur að þessum söng og að fjölrita messur og tíðasöng. í ísleifsreglunni eru nú um 70 manns og dagana sjötta til níunda júlí stendur ársfundur reglunnar í Skálholti. Þar verð- ur erindaflutningur, tíðasöngur og messað á hverjum degi.“ Tengist gregorískur söngur ekki fremur kaþólskri kirkju en lútherskri? „Gregorískur söngur er fyrsti helgisöngur kirkjunnar, heillar og óskiptrar og ástæðurnar fyrir andstöðu gegn honum tel ég vera tvær,“ segir sr. Sigurð- ur. „í fyrsta lagi það að nútíma tónlist er orðin svo fjarskyld þessum forna söng að hann kann að hljóma framandi í eyrum þeirra sem á hann hlýða og hafa ekki vanist honum, hann hefur t.d. hvorki dúr né moll og í öðru lagi er um að ræða almenna fordóma." „Ég les og sit við skriftir," segir hann aðspurður um Önnur áhugamál sín. „Er að skrifa bók um sögu messunnar frá upphafi og efni hennar lið fyrir lið. Þó að efni bókarinnar höfði kannski fyrst og fremst til presta, á hún ekki að verða neitt sérfræðingarit, heldur læsileg fyrir almenning. Ég hef ferðast nokkuð til útlanda til að safna efniviði í þessa bók. Fór til Kaupmannahafnar og Oxford. Þar er gaman að koma í bóka- söfn og gott að vinna . En þó hafði það að koma til Banda- ríkjanna einna mest áhrif á mig. Það var mikið stökk fyrir mig, líkt og tilurð Bandaríkj- anna var mikið stökk í sögu heimsins. Á hinum fornu menn- ingarhöfuðbólum Evrópu verð- ur maður var við vissa stöðnun, sem kemur til af því á hve gömlum og rótgrónum grunni allt þar er reist. En því er ekki að heilsa í Bandaríkjunum, þar er allt í rífandi þróun og frumbyggjakrafturinn ennþá ríkjandi. Bandaríkjamenn eru svo opnir og áframgengir og einnig á sviði menntunar búa þeir að baráttunni við að nema nýtt land, því allt hangir þetta saman,“ segir séra Sigurður. Að lokum spyr ég hann spurningar, sem alltaf er freist- andi að spyrja þann sem hefur lifað svo langa ævi: „Myndir þú vilja byrja ævina upp á nýtt, gæfist þess kostur? „Að mínum dómi eru árin milli fimmtugs og sjötugs þau bestu í ævi manns, haldi hann heilsu," segir hann. „Þá hefur maður öðlast lífsreynslu og dómgreind og hleypur ekki til í fljótfærni. Væri maður ungur í dag en hefði þessa lífsreynslu, væri vissulega gaman að lifa upp á nýtt.“ Es.: Vafalaust verða margir til að senda sr. Sigurði Pálssyni hlýjar kveðjur á áttræðisaf- mæli hans. Blaðamanni er kunnugt um þá ósk sr. Sigurðar að safnaðarheimili Selfoss- kirkju fái að njóta þess. Viðtal: Hildur Helga Sigurðardóttir Hver gaf hverjum hvað? Fáein orð í tilefni af afmæli dr. Sigurðar Pálssonar vígslubiskups Forðum daga stríddu rómversk- ir biskupar við íslenzka höfðingja um staðina gömlu og mikinn auð í löndum og lausafé. Sumir þeirra hlutu af því viðurnefni. Aðrir urðu helgir menn. En nú fyrir skemmstu reis upp íslenzkur „soðgreifi", þ.e.a.s. einn þeirra manna, sem fást við að setja saman og sjóða andlegan graut fyrir þjóðina, — e.t.v. „plattþýzk- astur" Islendinga, sem nú eru á dögum, á mælt mál, — og tók sér fyrir hendur rétt einu sinni að gefa páfanum í Róm Skálholt í tilefni af afmæli biskups íslands, — þann stað, sem gefinn var íslenzkri kristni í öndverðu. Lík- lega er það þó allt í gríni af hans hálfu. Vandséð er, hvort hann verður af því helgur maður, enda eru páfar taldir til erlendra á íslandi. Þessi tíðindi leiddu hugann að því, hvaðan þær gjafir væru, sem íslenzk kristni hefði beztar hlotið. Raunar er það kristnum manni engin ráðgáta. I hornsteini Skál- holtskirkju eru geymd svofelld orð postulans Páls: „Annan grundvöll getur enginn lagt en þann, sem lagður er, sem er Jesús Kristur. “ Og á kórgafl sömu kirkju gerði íslenzk kona mynd Krists kon- ungs, — þess eina kóngs, sem átt hefur Skálholt. svo sögur hermi, — þess eina kóngs, sem íslend- ingar gátu nokkru sinni lotið af einlægni. Það var sem sé hann, sem skapaði Skálholt forðum og nam það síðan, reisti þar höll sína, náðarhöll handa fólki sínu á íslandi. Og samur er hann og í gær og kristni hans ein og söm og óskipt, því að ekki verður Kristi skipt í sundur. Páfar voru aftur á móti margir og misjafnir og efam- ál, að nokkur þeirra hafi verið kaþólskari en Lúter. Enda eru sumir rómverskir menn, sem tald- ir eru hafa réttan háls fyrir flibba, hneppta að aftan, orðnir lútersk- ari en flestir lúterskir á íslandi. Þótt einhverjum öfundar- mönnum kunni að þykja illt, hefur hinn mikli gjafari alls góðs sæmt þá tvo menn biskupsnafni, sem einna bezt hafa fram gengið í því að hefja Skálholt til vegs á ný. Og þar er postulleg röð órofin í augum annarra en þeirra, sem taka meira mark á páfum en Kristi. Vígslubiskupinn, dr. Sigurð Pálsson, verð ég að biðja um að virða mér til vorkunnar, þótt mér sé tamara að nefna hann síra Sigurð. Ég býst við, að það sé af því, að hann verður öðrum mönnum fremur löngum bundinn hinni helgustu þjónustu í huga mínum. Engan mann hef ég þekkt, sem elskaði messuna og þjónust- una við altarið framar en hann. Af góðgift Heilags anda er lofgjörðin til hins krossfesta og upprisna, sem enn stígur niður til manna í holdi og blóði, honum gróin í hjarta. Guð gerði augu hans svo skyggn, að hann sá í hverja fátækt og niðurlæging stefndi í íslenzkri kirkju. Fáum mönnum var meiri andagift veitt í samræðum. Orð hans tendruðu margsinnis bruna í sinni ungra guðfræðinga, presta, söngmeistara og annars kirkju- fólks. Mörg snjallyrði hans urðu fleyg, og fas hans allt ber keim kristinnar hámenningar frá liðn- um öldum. Eldmóðurinn og eljan voru og eru með ólíkindum. Það var mikil Guðs gjöf að vera lærisveinn og samverkamaður þessara tveggja þjóna Guðs, dr. Sigurbjarnar og dr. Sigurðar, þótt stundum yrði skólinn harður. Um þessar mundir er íslenzkum söfnuðum fengin í hendur ný messubók og handbók. Þar eru endurheimt mörg þau verðmæti, sem virtust vera fallin í fyrnsku. Og á næsta leiti er ný bók um messuna og sögu hennar eftir síra Sigurð, sem nú er áttræður. Af hjarta skal gleðjast með honum, því að hann hefur fengið að skera upp mikinn ávöxt erfiðis síns. Drottinn blessi starf hans allt, hann sjálfan og frú Stefaníu, fjölskyldu þeirra alla og söfnuð- ina, sem þau þjónuðu svo lengi. Þau voru trú köllun sinni og Drottni sínum. Þökk sé þeim fyrir allt gott, sem af því leiddi. Guðm. Óli Ólafsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.