Morgunblaðið - 24.04.1983, Blaðsíða 6
50
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 24. APRÍL 1983
Deyðing meybarna
feerist sífellt
í vöxt í Kína
eftir Kristján Guðlaugsson, fréttaritara Morgunblaðsins í Kína
Samkvæmt kínverskri hjátrú skín ein stjarna á himinhvolfinu fyrir
hvert mannsbarn sem býr á jörðinni. Og stjörnuhrap táknar dauða ein-
hvers í hugum hjátrúarfullra. Um þessar mundir deyja mörg stúlkubörn í
Kína fyrir hendi foreldra sinna og hindurvitni eiga sinn þátt í þessari
óhugnanlegu staðreynd. Fyrir skemmstu kastaði bóndi nokkur í Shenxi-
fylki tveggja ára dóttur sinni ofan í brunn fjölskyldunnar. Honum hafði
verið spáð syni ef hann eignaðist annað barn. Slíkir atburðir eiga sér æ
oftar stað í afskekktari héruðum Kína. Orsakir slíkra óhappaverka eru
tvíþættar. Annars vegar er óleyfilegt að eignast fleiri en eitt barn að
viðlagðri refsingu. Hins vegar er sonur af ýmsum orsökum eftirsóknar-
verðari en dóttir. Hér takast á arfleifð hinnar fornu menningar Kínaveldis
og nútíma stjórnskipan kínversks kommúnisma. Stjórnvöld standa
frammi fyrir alvarlegu vandamáli, úrlausn þessi er hins vegar ekkert
áhlaupaverk.
Sonardyggð og ættfylgni
Kínversk menning á sér lengri
og samfelldari sögu en menning
annarra þjóða. Löngu fyrir daga
heimspekingsins Konfúsíusar var
kínverskt þjóðfélag fellt í strang-
ar skorður. Konfúsíus dró saman
siðareglur sínar á grundvelli þessa
skipulags. Samkvæmt siðakenn-
ingum hans var öllum fundinn
staður í kerfinu og sérhverjum
einstaklingi gert að hlíta boðum
og bönnum þess. Markmið þessa
kerfis var þjóðskipulag sem hvíldi
á stólpum innra jafnvægis, friðar
og reglu. Keisarinn hafði umboð
himinsins til að stjórna, en var
jafnframt skyldugur gagnvart
þegnum sínum. Þegnunum bar að
hlýða keisaranum eins og föður.
Fjölskyldan var eins konar eftir-
mynd ríkisins og jafnframt kjarni
þess. Höfuð fjölskyldunnar var
elsti karlmaðurinn og hlutverk
sona hans var að viðhalda ætt-
leggnum og sýna sonardyggð.
Dæturnar voru gefnar öðrum fjöl-
skyldum, en þar af leiðir að þær
tilheyrðu aldrei fjölskyldu sinni í
kenningakerfi Konfúsíusar og
nutu lítillar virðingar þegar frá
fæðingu. Dóttir hafði einkum tví-
þætt gildi fyrir foreldra sína.
Hana mátti gefa manni af annarri
ætt og auka þannig upphefð fjöl-
skyldunnar með tengdum. Ef
nauðirnar rak mátti selja hana
eins og hverja aðra söluvöru og
afla fjölskyldunni tekna á þann
hátt. Oft voru stúlkubörn seld í
hóruhús eða sem ungbrúðir. Hið
síðarnefnda fól í sér ánauðarvinnu
á heimili hinnar nýju fjölskyldu.
Verðið var 50 kíló af maísmjöli.
Elsti sonurinn var arftaki föður
síns og á honum hvíldi sú skylda
að eignast son, sem gæti viðhaldið
ættleggnum. Þannig lifði minning
áanna í framrás aldanna og viðh-
aldi ættarinnar. Sá sem eignaðist
ekki son, rauf þar með ættlegginn
og vanvirti föðurarfleifð sína og
þurrkaði út minningu forfeðr-
anna. Þessi forfeðradýrkun er inn-
tak konfúsískra kenninga, en af
henni leiðir óskin um að eignast
fremur son en dóttur. Þótt siða-
reglum Konfúsíusar hafi verið
skipað á óæðri bekk í Kína nútím-
ans eru tök þeirra á sveitaalmúg-
anum engu linari en fyrr.
Áhyggjulaust ævikvöld
Siðareglur Konfúsíusar fólu
einnig í sér efnahagslega forsjá
aldraðra. Þess vegna gegna þær
ennþá mikilvægu hlutverki í Kína.
Sonardyggðin fólst meðal annars í
umsjá foreldranna, eftir að þeir
voru orðnir óvinnufærir. Þetta
rennir enn frekar stoðum undir
ósk Kínverja að eignast son. Fyrr
á tímum þegar illa áraði, hlaut
sonur ævinlega betri umönnun en
dóttir. Hann var trygging fyrir
óhyggjulausu ævikvöldi. Dóttirin
var einvörðungu tímabundin
tekjulind. Þetta hefur lítið breyst,
þrátt fyrir sósíölsku byltinguna
1949. Þeir sem njóta ellilífeyris
frá ríki eða sveit eiga engan son.
Og til sveita eru einungis 110 þús-
und ellilífeyrisþegar. Hlutfalls-
talan er að vísu nokkru hærri í
stórborgunum, en hafa verður í
huga, að 80% Kínverja (tæplega
800 milljónir) búa til sveita. Þann-
ig byggir kínverskt þjóðfélag enn-
þá á hinu aldagamla ellilífeyris-
kerfi konfúsískra siðareglna og
þegar breyting verður á því, munu
afleiðingarnar verða ófyrirsjáan-
legar. Kommúnistaflokkur Kína
hefur hafnað kenningakerfi Kon-
fúsíusar og á dögum Menningar-
byltingarinnar svokölluðu
(1966—1977) var farin krossferð
gegn siðareglum hans. Slíkar
krossferðir munu ekki lánast fyrr
en kínverska ríkið getur tryggt
öldruðum lífeyri í miklu ríkari
mæli en nú er.
Eitt brýnasta vandamál Kín-
verja er hin uggvænlega aukning
íbúafjöldans. Boðorðið um eitt
barn í hverri fjölskyldu á rætur
sínar að rekja til þess vanda. En
vandinn sem rís af þessu boðorði
er síst minni. Sérstaklega hefur
þetta í för með sér hrapallegar af-
leiðingar fyrir kínversku kven-
þjóðina.
Milli tveggja elda
Kínversk yfirvöld standa
frammi fyrir tröllauknu verkefni.
Þótt hingað til hafi tekist að
brauðfæða þessa fjölmennustu
þjóð veraldar, eru því takmörk
sett hversu margir geta búið í
Kína. Vandamálin sem skapast
hafa af mannfjölgun eru fyrst og
fremst þau, að sérhver nýjung í
landbúnaðarframleiðslunni hefur
horfið í þá botnlausu hít sem við-
koman leiðir af sér.
Kínverjum er nauðugur einn
kostur að stöðva fólksfjölgunina
og hinar harkalegu aðgerðir
stjórnvalda munu um síðir leiða
til bættra lífskjara fyrir þjóðina.
En breytingin er ekki sársauka-
laus, sérstaklega fyrir kvenþjóð-
ina. Oftar en ekki er konunni
kennt um ef meybarn fæðist og
afleiðingarnar eru svívirðing og
jafnvel misþyrmingar af hálfu
tengdafjölskyldunnar. f sumum
tilfellum hefur slíkt leitt til þess
að konan hefur fyrirfarið sér, en í
öðrum að meybarnið hefur verið
deytt. Orsakirnar fyrir slíkri
grimmúð eru af tvennum toga.
Annars vegar trúarlegar, með því
að ættleggurinn er rofinn og van-
virða bíður þess sem ekki fæðir af
sér son. Hins vegar efnahagslegar,
því sá sem ekki eignast son getur
búist við ömurlegum ellidögum.
Kínversk stjórnvöld hafa brugðist
hart við og upplýsingastreymi í
fjölmiðlum um þessi mál er mikið.
En það gagnar lítt meðal þjóðar
þar sem hindurvitni eiga sér
sterkar rætur og 23,6% (236 millj-
ónir manna) eru ólæsir og óskrif-
andi. Stjórnvöld hafa sent fólk til
sveitahéraðanna í því skyni að
Aldraðir hafa sjaldnast lífeyri. Margir vinna við íssölu eða ámóta störf.
Sá sem landið skal erfa. Kínverjar vilja helzt eignast son.
'mfm
»»•
*i2ír»ii jl i«
Ólæsi er mikið vandamál í Kína. Hér má sjá „götubókasafn" í Guilin f Suður-Kína.
Móðir með eina dóttur á geimöld. Kramtiðarsýn á kínversku áróðursvegg-
blaði.
veita upplýsingar og lofa sveitaal-
þýðunni ellilífeyri í sonarstað og
sums staðar hefur verið gripið til
þess ráðs að verðlauna þær fjöl-
skyldur sem eignast meybarn.
Þessar fjölskyldur fá helmingi
stærri skammt af hrísgrjónum en
hinar sem eignast son. Hvort slík-
ar aðferðir eru heppilegar skal
látið ósagt, en eðli og umfang
vandans sést kannski best af slík-
um örþrifaráðum sem efnahags-
legri mismunun.
En ef ekki verður reist rönd við
meybarnsmorðum mun það hafa í
för með sér stóraukið hlutfall
milli karlmanna og kvenmanna,
en karlmenn eru þegar miklu
fleiri, eða um 30 milljónir. Kína er
milli tveggja elda, annars vegar
blasir við versnandi lífsafkoma ef
fólksfjölgunin verður ekki stöðv-
uð. Hins vegar gífurlegur kostn-
aður og efnahagsvandi ef hún
verður stöðvuð. Hið síðarnefnda
er þó tímabundið og stendur að-
eins yfir meðan breytingin fer
fram, því þá verður meirihluti
þjóðarinnar ellilífeyrisþegar sem
ekki geta stundað framleiðnistörf.
En þegar breytingin er yfirstaðin
og fólksfjölgunin orðin minni,
munu Kínverjar væntanlega njóta
ávaxtanna af þeirri velferð sem
iðnbylting og tækninýjungar hafa
þegar fært hinum vestræna heimi.