Morgunblaðið - 30.12.1983, Blaðsíða 27

Morgunblaðið - 30.12.1983, Blaðsíða 27
MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 30. DESEMBER 1983 enda vildi hún ekki leggja á sitt ráð gegn vilja föður síns. Snemma þótti Stefanía bera af um dugnað og röskleika. Hún hafði einnig liprar, iðnar hendur, og þegar svo áraði í lífi hennar, að hún þurfti að leita sér og dætrum sínum lífsviðurværis með starfi utan stokks, þá varð, eins og oft gerðist, saumaskapur fyrir valinu. Fram að árslokum 1941 starfrækti frú Elísabet Foss „Lífstykkjabúð- ina“ í Hafnarstræti 11. í sambandi við búðina var rekin saumastofa, og þar starfaði Stefanía árum saman og minntist hún jafnan frú Foss með hlýhug. Eftir nokkurra ára hlé setti Stefanía á stofn eigið fyrirtæki, „Lífstykkjasöluna" við Frakkastíg 7, og starfrækti hana af atorku og myndarskap um margra ára skeið, eða þar til krafta tók að þverra. Þar, eins og hjá frú Foss, voru m.a. lífstykki saumuð eftir ein- staklingsþörfum. Þjónusta af þessu tagi var þá orðin fágæt ef ekki einstök hér í borginni. Töldu margir mikla eftirsjá að henni. í störfum sínum eignaðist Stefanía fjölda vina bæði meðal sam- starfsmanna og viðskiptavina. Það var þó ekki á þeim vettvangi sem við kynntumst mannkostum Stef- aníu bezt, heldur á vettvangi heimilis- og fjölskyldulífs. Að vísu hafði kjarnafjölskyldan leyst stórfjölskylduna af hólmi, er hér var komið sögu, en allt um það höguðu atvikin því svo, að um ára- tuga skeið bjó Stefanía eins og væri hún í stórfjölskyldu. Var hún þá í ástríku nábýli eða sambýli við Maríu dóttur sína og Hallgrím Dalberg tengdason sinn og börn þeirra, og það var sem ættmóðirin í stórfjölskyldunni sem Stefanía reis hvað hæst. í samræmi við innsta eðli sitt rækti hún fjöl- skyldu sína með prýði, ekki ein- ungis þá nánustu, heldur allan frændgarðinn, ef svo bar við. Inn- an fjölskyldunnar skyldu menn ráða ráðum sínum, þar skyldi var- izt og búizt til sóknar, þar skyldi gert að benjum, yrði einhver sár á vígvelli hins daglega lífs. Þar féllu hvatningarorð og eggjunar-. Þannig hélt Stefanía af miklu örlæti höfðLngleg gestaboð á heimili sínu, þar sem veizlumenn voru jafnan frændlið, jafnt ná- komið sem fjarskylt. Slíkar sam- verustundir voru henni einkar kærar og stuðluðu að samgangi fjölskyldna á milli, sem ella hefði trauðla orðið. Að sama skapi var Stefanía ævinlega kærkomin og sjálfsagður gestur á merkisstund- um frændfólks síns. Fátt féll Stefaníu verr en smá- sálarskapur og hálfvelgjuháttur. Svo ríkur þáttur var veglyndi í fari hennar, að manni verður ósjálfrátt hugsað til Auðar djúp- úðgu, þá er hún hafði brotið skip sitt og kom á fund Helga bróður síns. Hafði hann boðið henni til sín með helming liðs síns, en hún svarað reiðulega, að hún vissi ekki, að hann væri slíkt lítilmenni og hélt til Bjarnar bróður síns, sem tók við henni með öllu liðinu. Einkum í þröngum hópi var Stefanía hrókur alls fagnaðar. Henni var gefin kímniblandin frásagnargáfa, sem að okkar viti er dæmafá. Frásagnarmáti henn- ar var dramatískur og minnti á riddarasögur og ævintýri, málið hreint og tært. Með hæfilegri stíg- andi og þögnum reis frásögnin, þar til hápunkti var náð. Þarínig gæddi hún jafnvel hversdagslega atburði lífi og spennu. Þótt Stefanía hafi náð háum aldri, var hún heilsugrönn síðari áratugina og mátti þola langar og strangar sjúkrahúslegur, en henni var gefið þrek og skap til þess að standast þungar raunir. Þegar staldrað er við að leiðarlokum, má merkja enn skýrar en áður hin einstæðu og gagntæku áhrif, sem hún hafði á samferðafólkið, og í minninguna sezt keimur af forn- um landssiðum, fornum dyggðum — veröld sem var. Elskusemi og ræktarsemi Stef- aníu kvíslaðist um okkar fjöl- skyldu, þegar er til hennar var stofnað, og átti sér naumast nokk- ur takmörk. Fyrir það stöndum við í ævarandi þakkarskuld við „Stebbu frænku", eins og hún var einatt kölluð. Stefanía Erlendsóttir var trúuð kona og vissi, að ekki er allur veruleiki af sama heimi. Þótt hún hafi nú fellt segl sín, er ekki að óttast, að hún fái ekki hæga land- töku. Blessuð sé minning Stefaníu Ólafíu Erlendsdóttur. Signý Sen, Jón Júlíusson. Nú er hún Stefanía, hún Stebba frænka, eins og við börnin, frænd- ur hennar og frænkur, vorum vön að kalla hana, farin frá okkur. Hún kvaddi okkur í svartasta skammdeginu, þegar jólin, sú há- tíð, er menn koma saman til þess að gleðja aðra, eins og hún gerði svo ríkulega, voru í þann mund að ganga í garð. Nú er hún horfin í aldanna skaut, í faðm eilífðarinn- ar, eins og árið gerir innan skamms í samræmi við lögmálið um framrás tímans. í æskuheimi undirritaðs var hún sjálf sem lögmál, stöðugt og óbreytanlegt, eins konar góður máttur, sem maður vissi af. Hún var einn þeirra manna, sem láta sér meira annt um aðra en sjálfa sig, og við börnin fundum, að við myndum alltaf geta leitað til hennar ef á bjátaði og að hún yrði þá óspör á alla þá hjálp og hlýju, er hún mætti veita. En það sem einkenndi hana öðru fremur • var ekki eingöngu óvenjulegt örlæti og megnasta fyrirlitning á hvers konar kot- ungsskap. Hún var líka sérstak- lega stórbrotinn persónuleiki. Hún hefði þolað samanburð við helstu kvenskörunga Sturlunga- aldar hvað varðar stolt, skap og tilfinningahita. Allir, sem kynnt- ust henni, hljóta að hafa fundið skaphita hennar, sem samfara var einstakri hjartahlýju. Skapgerð hennar var stórbrotin, en jafn- framt sérstaklega næm og fínofin og bar hún skyn á öll blæbrigði mannlegra samskipta. Jafnvel á efri árum sínum tók hún virkan þátt í mannlífinu í kringum sig með þeim skilningi á mannlegri náttúru, og þeirri fórnfýsi og höfðingsskap, sem einkenndu hana. Við minnumst Stebbu frænku með trega og söknuði, ekki vegna þess að hún hafi orðið að hverfa frá óloknu lífsstarfi — vegna þess að hún átti að baki mikið og gott lífsstarf — heldur vegna þess að með henni er horfin af sjónarsvið- inu einstök og litrík persóna, sem yljaði upp kaldan hversdagsleika mannlífsins með að því er virtist endalausum hæfileika sínum til þess að elska, hjálpa og miðla öðr- um af hjartahlýju sinni og þeim gæðum, er hún átti yfir að ráða. Við söknum hennar sárt — vegna þess sem hún var. Erlendur Jónsson Án efa munu aðrir minnast starfa Stefaníu Erlendsdóttur og ætta þeirra, sem stóðu að henni, en eins stórs þáttar í lífi hennar vil ég minnast og þakka. Stefanía og systkini voru fædd og uppalin á Breiðabólsstöðum á Álftanesi. Þegar þau voru að alast upp var Álftanes meiri sveit en nú og líf þar tengt landbúnaði og sjó- sókn. . Faðir þeirra, Erlendur hreppstjóri Björnsson, var stór- bóndi en um leið formaður á opnum skipum sem sóttur var sjór á frá vörum á Álftanesi og í Leiru. Störf voru margháttuð á slíkum útvegsbændaheimilum og fyrir hinu stóra Breiðabólsstaðaheimili varð húsmóðirin, María Sveins- dóttir, oft að standa ein í fjarveru bóndans og þá að stjórna stórum barnahópi til margháttaðra starfa. I slíkum tilfellum verður húsmóðurinni oft mikil stoð að dætrum. í barnahópi þeirra Maríu og Erlends voru þær Oddný (síðar Sen) og Stefanía. Oddný fór ung til náms og starfa hérlendis og erlendis, svo Stefanía verður meiri hjálparhella móður sinnar. Þessa varð ég mjög var vorið 1932 er ég dvaldi á Breiðabóls- stöðum í 4 vikur og las undir stúd- entspróf með syni Erlends, Gutt- ormi, síðar hæstaréttarlögmanni. Þá var Srefanía gift og búsett í Reykjavík en dvaldi oft langdvöl- um að vor- og sumarlagi hjá for- eldrum sínum og veitti móður sinni aðstoð. Þegar ég kynntist Stefaníu átti hún heimili með eig- inmanni sínum, Geir, við Njarð- argötu og dætrum þeirra þremur. Þetta mun hafa verið um 1929 að við Guttormur bróðir hennar tókum þann hátt að lesa saman hvor hjá öðrum og mér finnst nú eftir á oftar hjá honum, heima hjá Stefaníu, því að þó eigi sé langt frá Reykjavík út á Álftanes, var bílaeign og samgöngum ekki svo háttað að þeir sem framhalds- skóla sóttu í Reykjavík þaðan gætu farið daglega milli heimilis og skóla, svo að fá varð inni í leiguherbergi eða hjá fjölskyldu- vini. 27 Meðan Jón Vestdal, síðar efna- verkfræðingur, stundaði nám í MR (lauk stúdentsprófi 1928) og Guttormur, sem hóf nám í MR 1926, voru þeir bræður báðir til heimilis hjá systur sinni, Stefaníu. Húsaskjól var ekki aðeins veitt þessum skólasveinum heldur einn- ig félögum þeirra, bæði þeim sem lásu með þeim og komu í heim- sókn til að slá í slag, tefla eða bara masa. Frá 1929 — 32 var Guttorm- ur, sem lauk stúdentsprófi 1932, einn í fóstri hjá systur sinni, en naut athvarfs áfram hjá henni, er hann nam lögfræði, en þá var ég fluttur frá Reykjavík. Þetta athvarf, sem við félagar þeirra bræðra Stefaníu áttum inn- an heimilis hennar, var hlýlegt og ljúft. Hvort sem komið var seint eða snemma, var viðmótið hin sama glaðværa ljúfmennska — og margs bitans og sopans var neytt af sísvöngum námssveinum. Slík- ar konur, ekki aðeins veitular á húsnæði, mat og drykk, heldur umburðarlyndar við ágenga gesti, sem áttu til að sitja lengi, halda vöku fyrir heimilisfólki, láta hátt í tali og söng og jafnvel takast tök- um, eiga stóran þátt í góðum endurminningum frá skólaárum og mega sannarlega teljast mót- endur hrifnæmra sála og líkama á gelgjuskeiði. Eg veit að fleiri en ég hugsa hlýtt til Stefaníu og þakka henni ljúft viðmót á vistlegu heimili hennar. Þau hjón hafa vart búið við mikil efni og það á fyrstu árum heimskreppu en aldrei heyrðust þau barma sér eða kvarta. Varð ég þess var, að Stefanía hafði nokk- urt umstang af lántökum og yfir- færslum fjár til Jóns bróður síns, sem stundaði dýrt nám í Þýska- landi, en í öllum þessum önnum, umstangi og ónæði var Stefaná glöð, svo að enginn gat í hennar nærveru verið hryggur eða fúll til lengdar. Ég leyfi mér fyrir hönd þessa stóra námssveinahóps sem naut svo mikils góðs frá Stefaníu og heimilis hennar að votta við andlát hennar þessa umsögn, sem léttvægt þakklæti fyrir allt það sem hún veitti hverjum og einum. Dætrum Stefaníu Erlendsdótt- ur, eiginmönnum þeirra og niðjum skal að lokum tjáð samhryggð við fráfall mætrar konu. Þorsteinn Einarsson Minning: Bjarni S. Jónsson bifreiðastjóri Fæddur 28. mars 1913 Dáinn 21. desember 1983 Vetrarsólstöður eru það tím- anna tákn sem okkur Islendingum verður ætíð hugstætt. Þá er veldi myrkursins mest og dagsbirtan aldrei styttri. En nú breytir jörðin afstöðu sinni í hinni eilífu hring- rás. Sólin hækkar á lofti, skamm- degisskuggarnir styttast og kon- ungur ljóssins tekur völdin. Það var óvenju gott veður síðustu skammdegisdagana fyrir jólin, logn og heiðskírt, lítið frost og sumarfæri á götum borgarinnar. Þess vegna hefur verið óvenju bjart og milt yfir stystu dögum ársins og létt yfir jólaannríkinu, sem þá var efst á baugi, hvort sem litast var um utanhúss eða innan. Rétt eftir miðnætti á miðvikudag í síðustu viku var Bjarni sendur í ökuferð í gegnum stöðina. Hann lauk þeirri ferð með farþegana, en það mun hafa orðið hans síðasta ökuferð, því seinna um nóttina fannst hann látinn í bifreið sinni. Þannig lauk ævi þessa hljóðláta og fyrirferðarlitla samferðamanns, sem í nær fjörutíu ár samfleytt hafði starfað sem leigubifreiða- stjóri á BSR. Engum sem til þekkti gat dulist, að hann gekk ekki heill til skógar, en hann var einn af þeim mönnum sem ekki bera erfiðleika sína á torg, heldur byrgði hann þá innra með sér, en lét hörkuna, þrautseigjuna og æðruleysið bera sig uppi. Bjarni verður bæði mér og öðr- um sem lengi störfuðum með hon- um hugstæður samferðamaður og kemur þar fleira en eitt til. Síst skyldi því gleymt hvað hann hafði fastmótaðar skoðanir og lét sig ekki í orðahnippingum, þó fast væri deilt. Hann var einn af þeim mönnum sem ráðast aldrei á garð- inn þar sem hann er lægstur. Þeir sem minna máttu sín áttu öruggt athvarf í skjóli hans. Lífsmáti Bjarna var mótaður eftir þeim ei- lífu sannindum sem felast í þess- um Ijóðlínum Davíðs Stefánsson- ar: „Enginn er gegn né góður, sem glepur sinn minnsta bróður." Ef hann taldi sig órétti beittan, gat hann verið harðskeyttur og óvæginn í málflutningi, en aldrei ódrengilegur. Undirferli, baknag og ódrengskap þoldi hann ekki og kvað fast að orði þegar hann dæmdi slíka eiginleika. Eg tel mér það til ávinnings þegar hann deildi á mig í ýmsum efnum og það er skylda hvers hugsandi manns að hlusta eftir gagnrýni og taka hana til greina og ekki síst þegar hún er töluð af munni þess manns, sem með sanni hafði til- einkað sér sígilda gamla máls- háttinn „Sá er vinur, sem til vamms segir“. Ég man sérstaklega eftir einum fundi, sem haldinn var innan samtaka okkar á BSR. Þá mætti Bjarni eins og oftar. En það leyndi sér ekki þegar hann gekk í salinn, að hann vissi hvað hann viidi. Svipurinn og fasið sögðu sína sögu. Að fundi loknum, þegar allt hafði skipast að hans skapi, var handtakið hlýtt og þétt, þegar hann kvaddi mig og aðra með hamingjuósk um velheppnaðan fund. Bjarni var mjög vanafastur, t.d. sat hann alltaf í sama sæti á stöð- inni þegar hann beið eftir ökuferð, en þegar hann kom inn ætlaðist hann ekki til að staðið væri upp fyrir sér, en það var orðið að vana að flestir gerðu það þegar þannig stóð á. Oft sat hann fálátur í sæti sínu og það leyndi sér ekki síðustu árin að þrekið var að bila. Bjarni var góður skákmaður og tefldi stundum á stöðinni sjálfum sér og öðrum til ánægju, annars held ég að frístundir hans frá starfinu hafi verið fáar. Á ævinni safnaði hann aldrei veraldarauði og mun hafa látið stærsta hlutann til annarra af því sem til skiptanna kom. Við leigubifreiðastjórar erum sjálfráðir hvernig við högum okkar vinnutíma. Bjarni hafði það að venju að byrja seint að degin- um, en keyra fram eftir nóttu. Þessi vinnutími er betri að því leyti, að þá er umferðin minni, taxtinn hærri og oft meira að gera. Þegar Bjarni var upp á sitt besta var hann karlmenni að burðum, þéttvaxinn, hraustlegur og svo handsterkur að af bar og kunnugir sögðu, að hann mundi seint eða aldrei sleppa því taki sem hann hefði einu sinni náð ef til þess kæmi að hann þyrfti á því að halda. Bjarni bjó yfir fyndni og léttum húmor, sem hann sjaldan lét í ljósi, en léti hann þessa hæfi- leika njóta sín gat hann fært það skoplega í skemmtilegan búning. Smá atvik og orðatiltektir geta verið efniviður í góðlátlegt grín hjá þeim, sem kunna með það að fara. Fyrir tuttugu árum giftist Bjarni konu frá Ventspils í Lett- landi, Anitu að nafni. Anita kom hingað frá Þýskalandi 1949. En til Þýskalands flúði hún frá Lett- landi, áður en Rússarnir hertóku Eystrasaltslöndin. Anita er mikil myndarkona, talar ágæta íslensku og bjó manni sínum fallegt heim- ili, þar sem Bjarni átti hvíld og frið frá annríki líðandi stundar. Þau lifðu í ástríku hjónabandi og var sambúð þeirra hin besta. An- ita segir að Bjarni hafi verið mjög góður heimilisfaðir og sér frábær eiginmaður. Áður hafði Bjarni verið í sambúð og átt með þeirri konu fjögur börn. Þau eru í ald- ursröð: Sigurjón, bifvélavirki, vinnur hjá Bifreiðaeftirliti ríkis- ins, giftur Gyðu Halldórsdóttur. Þau eiga heima í Asparfelli 4. Þórður, verslunarmaður, giftur Önnu Jónsdóttur. Býr í næstu íbúð við Anitu í Þórufelli 18. Guðmund- ur, verslunarmaður, giftur Mar- gréti Matthíasdóttur. þau búa á Marbakkabraut 36, Kópavogi. Hafdís, gift Ihonny de Santos, búsett á Ítalíu. Barnabörnin eru orðin níu að tölu. í mörg ár bjuggu þau Bjárni og Anita á Hlíðarenda við Reykja- nesbraut, þar höfðu þau húsnæði hjá knattspyrnufélaginu Val, en sáu jafnframt um félagsheimilið. Á þeim árum varð Bjarni sextugur og í tilefni dagsins bauð hann okkur starfsbræðrum á BSR ásamt vinum og vandamönnum í stórveislu, þar sem borð voru hlaðin gómsætum veitingum. Það leyndi sér ekki að Bjarni naut þess að bjóða gesti velkomna og þakka fyrir sig að veislu lokinni. Þarna sá ég nýja hlið á Bjarna. Mynd- arskapurinn og gestrisnin réðu ríkjum. Svipurinn hlýr og viðmót- ið vermdi. Áður hafði ég komist í kynni við reisn og myndarskap þeirra hjóna. Þá bjuggu þau vestur í bæ. Ég var að fara heim að kvöldlagi, hættur vinnu. Þá var ég kallaður upp og beðinn að koma heim til þeirra, sem ég gerði og sá ekki eftir. Þar beið mín og annarra hlaðið veislu- borð, sem gaman var að njóta. Þá fann ég vel að ég naut vináttu Bjarna, þó hann flíkaði þvi ekki í daglegri umgengni. Leiðir skilur, margar minningar streyma fram úr fylgsnum hugans, þó ekki verði þær skráðar á blað. Ég tel mig standa í þakkarskuld við látinn fé- laga, sem hvorki brást mér né öðr- um þegar á reyndi. Ég flyt kveðju og þakkir frá bifreiðastjórunum á BSR fyrir gott samstarf á liðnum árum. Ég bið algóðan Guð að veita eig- inkonu hans og börnum huggun og þrek í þungri raun. Megi birtan og kærleikinn frá fæðingarhátíð frelsarans og geislar frá skini hækkandi sólar signa leið hans inn á þá eilífðarbraut sem kallað hefur hann frá jarðnesku lífi til æðri starfa. Hafi hann þökk fyrir langa samfylgd. Jakob Þorsteinsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.