Morgunblaðið - 19.04.1984, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 19.04.1984, Blaðsíða 23
71' MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGlÍR 19. APRÍL 1984 Á ferðalagi eftir SÉRA SIGURÐ EINARSSON „Ef inni er þröngt tak hnakk þinn og hest og hleyptu á burt undir loftsins þök. Hýstu aldrei þinn harm, þaö er best að heiman og út ef þú berst í vök.“ Einar Benediktsson Klukkan er 6 árdegis. Jeg stend á torginu fyrir framan járnbrautarstöðina. Hún er æru- verðug og sótug eins og járn- brautarstöð á að vera. Og full af úrillu og geðvondu fólki, tauga- æstu, órólegu ferðafólki, sem er ekki búið að jafna sig eftir þá geðraun, að vera rifið upp kl. 5Vi. Jeg er í yndislegu skapi. Munur- inn á mjer og þessum mönnum liggur í, að þeir eru allir að fara tii einhvers ákveðins staðar, sem þeir þurfa að hafa náð fyrir ákveðinn tíma. Það er vitfirring. Alt það, sem þeim finst óþægi- legt í ferðalögum, er mjer unað- ur. Jeg er ekki að fara neitt sjerstakt að því leyti, að mjer er alveg sama hvar jeg verð á morg- un um þetta leyti, liggur ekkert á. Menn sætta sig við lestina, tollskoðunina, vegabrjefsóþæg- indin, þvættinginn, hávaðann, tafirnar, koffortaburðinn, af því að það er böl, er ekki verður kom- ist hjá, ef þeir eiga að ná ákvörð- unarstað sínum. — Jeg nýt þessa alls, en ákvörðunarstaðir mínir hafa einatt orðið mjer til von- brigða. En það er sjálfum mjer að kenna. Jeg hefi trúað ferða- mannabókunum, reitt mig á Bennett og Cook og mannkyns- söguna sem mjer var kend. Jeg er löngu hættur öllu slíku. Klukkan er sex og jeg er að leggja á stað í ferðalag, sem verður eins langt og teygt verður úr síðasta skild- ing mínum. Jeg er einsamall. Það kemur enginn og segir við mig „góða ferð", og „manstu nú hvort þú hefir tannbursta með“, og „þú verður að skrifa fljótt". Enginn hefir hjálpað mjer til að láta niður í ferðatöskuna. Eigi að síð- ur er alt í röð og reglu, og jeg kominn á stöðina fullum hálf- tíma áður en lestin fer. Jeg hefi 15 mínútur til þess að yfirvega hvers jeg skuli neyta og 10 mín- útur til þess að neyta þess. Og í þessar 15 mínútur er heilinn í mjer fullur af ilm og angan og göfugu bragði. Jeg afræð að fá mjer ofurlítið stykki af hvítu, mjúku brauði, bita af kaldri gæsasteik og glas af daufu víni. Og nú er jeg fær í allan sjó, þangað til „Mitrópa" tekur að sjá fyrir líkamlegri vellíðan minni. Jeg fer niður á stjettina, þar sem lestin bíður stynjandi í tengslum. En það er of snemt að fara inn. Jeg geng um á gljáandi asfaltinu og nýt þess að vera til, teygi í vitund minni hvert augna- blik eins og lopa. Jeg er ný- rakaður og jeg finn snertinguna af tárhreinum nærfötum um all- an líkaman eins og svala blessun. Svo fer jeg að leita mjer að sæti. Það má ekki vera í enda vagns, ekki yfir möndli, ekki of framar- lega í lestinni. Það á að vera gluggasæti og horfa til þeirra áttar, sem ekið er í, borð undir glugganum og eitthvað til að styðja fótum á. Slík sæti má kaupa sér með sjerstökum far- miðum. En það er að svifta sig þeirri ánægju að finna þau sjálf- ur, og geri jeg það því aldrei. Þá er að koma sjer fyrir, láta pípuna á borðið, tóbakið, pípuhreinsar- ann, eldspýturnar, hylki með 5 vindlum og eina öskju af vindl- ingum, þrjú til fjögur stór morg- unblöð, láta ferðatöskuna upp í netið, helst þannig að hún falli ekki í manns eigið höfuð, ef hún skyldi detta; hengja frakkann sinn á snaga, tæma alt verðmæti úr vösum hans, svo því verði ekki stolið meðan verið er að borða, setja upp svarta alpahúfu og þunna þráðarvetlinga á hendurn- ar. Það er vegna þess, að á mess- inghúnunum í lestinni er lag af gömlum, þvölum svita, sóti og spanskgrænu. Þetta er mikið og vandasamt verk, og nú sest jeg niður til þess að njóta stundvísi minnar og eigin öryggis. Alt er í lagi, vegabrjef, farmiði, farang- ur. Og nautnin verður innilegri við það að sjá asann og gaura- ganginn, heyra ópin og þvaðrið í hinum. Nú er dyrunum lokað og lestin tekur þjösnalegan hnykk. Feitur kaupsýslumaður kemur æðandi með skjalatösku, sem hann veifar í ákafa yfir höfði sjer. Hann verður eftir. Yndis- legt! Mátulegt handa slóðum og rúmlötum mönnum! — Og svo á stað! Húrra! Það urgar í teinun- um. Loftið fyllist af suðu, verður höfugt af lykt og vörmu stáli, áburðarolíu og eim. Það ymur í eirþráðunum meðfram brautinni og símastaurarnir þjóta fram hjá með hásu hvissi. Hraðatil- finning seytlar upp í gegn um fæturna, smeygir sjer upp eftir skrokknum, fer með kuldakitli upp í hársrætur. Jeg lít snöggv- ast út, jörðin æðir fram hjá, hraðast hjá lestinni, hægar eftir því sem lengra dregur frá. Ver- öldin er orðin að skoppara- kringlu, sem snýst um miðdepil langt, langt í burtu og þeytir lestinni á rönd sjer. Húskofi kemur þjótandi í sjón- mál og fleygist fram hjá. Maður stendur við vegarslá. Eftir augnablik er hann ekki lengur til. — Ágætt! Jeg þarf þá ekki að eyða framtíðinni í áhyggjum um velferð hans. Ný hús, nýir menn, ný örlög glampa fram hjá eins og stjörnuhröp. Jeg fer að lesa blöð- in, fyrst stjórnmálin, þá atvinnu- lífið, þá leikhús og bókmentir. Og tíminn líður í yndislegri vímu og vitundin þenst út, nær „vítt of veröld hverja". — Stundarkorn er jeg í París og þjarka við Briand um herskattagreiðslur. Og röksemdir mínar fljúga í. gegnum hausinn á honum eins og glóandi teinar, — þyrla honum í óvit, og Þjóðverjar losna við herskattinn. Stundarkorn segi jeg Hermann Kesten frá því, hvernig æskulýð nútímans sje varið, hinni rótlausu kynslóð, sem jeg elska, og hann rífur handritið að Ein Ausschweifend- er Mensch í tætlur og lofar upp á æru og trú að snerta aldrei á penna framar. Ef til vill hefi jeg sofið. — Nú er hringt til miðdegisverð- Siguröur Einarsson ar. Jeg fer inn í borðsalinn, stór- an vagn, með breiðum, fáguðum rúðum. Mjer er alveg sama hvað jeg borða, jer er fóstraður í sveit á lslandi og matsölustöðum fyrir fátæklinga í Reykjavík. En jeg kann að velja mjer drykk eftir stað og stund. Það er mikil list. Jeg hefi sjeð fólk gráta af gremju af því, að það fjekk ekki „Raml- ösa vatten" suður í Rínardal. Jeg hefi sjeð menn drekka danskt Tuborgöl suður í Múnchen án þess að blygðast sín. Jeg geri aldrei þess háttar axarsköft. Sumt fólk draslar með sjer allri ættjörð sinni hvar sem það fer, hverjum vana þjóðar sinnar og óvana. — Svo kemur kaffi, lit- sterkt og anganþrungið, og vind- ill, sem jeg hefi geymt mjer til þessarar hátíðlegu stundar. Hann er ekki úr tóbaki. Hann er ofurlítill gulbrúnn líkamningur af ljósbláum ilmi, sem læðist eft- ir nefinu upp í heilann, skriður eftir hverri fellingu hans, bregð- ur á leik í bugðunum og hristist út um líkamann, eins og ósýni- legt balsam. Og það verður kvöld. Kyrð, sem jeg verð að skynja með aug- unum, hnígur yfir merkur og velli. Lestin askveður inn í myrkva komandi nætur. Jeg fer að leita uppi svefnvagninn og finn rekkju mína, ofurlítinn prjónastokk. — Með því að gera mig stinnan og teinrjettan eins og sívalning, get jeg snúið mjer við í henni. — I rekkjunni fyrir ofan mig liggur maður og dæsir og púar, eins og hann væri að slá harðvelli. Annað hvort hefir hann borðað yfir sig eða hefir slæma samvisku. En það kemur mjer ekkert við. Jeg ligg grafkyrr í prjónastokknum með lokuðum augum og þýt í gegnum rúmið með 100 kílómetra hraða á klukkustund. Vitundin verður djúp og kögruð með fylkingum hljóðra, myrkra drauma eins og stöðuvatn í skógarrjóðri. Jeg sje brú, sem tengir saman tvo skógi- klædda hólma, staurabrú yfir grænan sefgróinn ál og tvær ljósklæddar stúlkur, sem halla sjer út yfir riðið. Það er sunnu- dagur í Sordavala! í fjarska skína hvítar byggingar og gyltur laukmyndaður turn. Alt í einu brýst ískrið í teinunum upp á yfirborð vitundarinnar, — jeg er á ferð. — Á morgun vakna jeg á stað, sem jeg hefi aldrei litið augum, mörg hundruð kílómetra í burtu. Og myrkrið þjettist aftur um vitund mína, þjettist utan um lestina, sem þýtur áfram gnötr- andi af hraða, — eins og mitt eigið líf. 10. nóv. 1929 birtisl þessi grein eft- it séra Sigurð Kinarsson. Verið velkomin. ópavogsbúár athugið! Viö bjóöum alla almenna hársnyrtingu svo sem: Permanent, klippingu, lagningu, hárþvott, litun, blástur, strípur, skol, djúpnæringu o.s.frv. Opið fra kl. 9—18 á virkum dögum og kl. 9—12 á laugardögum. Pantanir teknar í síma 40369. HÁRGREIÐSLUSTOFAN ÞINGHÓLSBRAUT 19. KRisunn SIGGEIRSSOn HF. LAUGAVEG113, REYKJAVÍK, SÍMI 25870 Orðsending til hönnuða og innflytjenda tækja og búnaðar holræsa- og frárennsliskerfa Dagana 3. og 4. maí nk. veröur haldin aö Hótel Esju ráðstefna um frárennslismál á vegum Sambands íslenzkra sveitarfélaga í samvinnu viö Hollustuvernd ríkisins og Samtök tæknimanna sveitarfélaga. í tengslum viö ráöstefnuna verður efnt til kynningar á búnaöi og tækjum í sambandi viö holræsa- og frárennslislagnir, s.s. dælum, hreinsistööum o.fl. Þeir aöilar, sem hug heföu á aö taka þátt í kynningunni, hafi samband viö skrifstofu Sambands ísl. sveitarfélaga fyrir 28. þ.m. Samband íslenzkra sveitarfélaga.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.