Morgunblaðið - 19.04.1984, Blaðsíða 11
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 19. APRÍL 1984 59-
Frú Laufev Einarsdóttir í stofu sinni.
gat nú samt verið. Allir hinir sem
í þessum bíl voru, voru einnig af
þýzku bergi brotnir. Á eftir þess-
um bíl var öðrum ekið og í honum
voru vopnaðir menn, sem beindu
byssustingjum sínum að fremri
bílnum, þar sem fangarnir sátu.
Var bíllinn alveg opinn og auðséð,
að skjóta átti, ef mennirnir gerðu
tilraun til þess að flýja.
Þarna hitti ég unga stúlku, 18
ára, sem ég þekkti vel og spurði
hana, hvað hér væri á seyði. Sagði
hún, að faðir sinn væri meðal
þeirra, er ekið hefði verið á brott.
Varð ég þá hissa, því ég vissi ekki
annað en hún og foreldrar hennar
væru slóvensk. Sagði hún mér þá,
að móðir hennar væri slóvensk, en
faðirinn þýzkur, en fæddur í Slóv-
akíu. Kunni stúlkan ekki orð í
þýzku. Nú varð ég hrædd, því mér
hafði ekki tekizt að koma auga á
alla í bílnum og spurði stúlkuna,
hvort hún hefði séð minn mann í
bílnum. Kvað hún nei við því og
sagði, að í bílnum hefðu einungis
verið menn af þýzkum uppruna.
Sagðist hún vera þess fullviss, að
nú yrðu þeir drepnir, en ekki vildi
ég trúa því þá.
Spurði ég nú fangavörðinn hvað
yrði um þessa menn, en hann
sagði þá, að komið hefði fyrirskip-
un frá skæruliðum um að afhenda
menn þessa án yfirheyrslu og ekk-
ert látið uppi um hvað gert yrði
við þá.
Hræðileg nótt
Fór ég þá til skrifstofu forseta
hæstaréttar og sagði hann mér að
hann og hans menn í skrifstofunni
sætu nú valdalausir og hefðu þeir
fengið fyrirskipun um að skipta
sér ekkert af því sem nú gerðist og
ekki gat hann gefið neinar upplýs-
ingar, hvorki um það, hvað gert
yrði við fangana, sem fluttir voru
á brott, né heldur hvort ný fyrir-
skipun kæmi ef til vill um að af-
henda hina fangana einnig án
yfirheyrslu.
Nú var ekkert að gera annað en
bíða af þessa hræðilegu nótt í
óvissu til næsta dags 1. sept., en
þá hafði verið ákveðið að fangarn-
ir yrðu yfirheyrðir.
Þegar ég kom til fangelsisins kl.
8% um morguninn var mér tjáð af
fangaverðinum, sem var mjög
hryggur, að allar konur og menn
hefðu verið flutt burt þá um nótt-
ina og ekkert verið látið uppi um
afdrif fólksins, en það vissi hann,
að engir voru yfirheyrðir. Fór ég
nú enn einu sinni til forseta
hæstaréttar en þar sátu allir
niðurslegnir og valdalausir, gátu
ekkert gert og þorðu ekkert að
segja.
Fór ég nú rakleitt til herskála
þess, þar sem skæruliðar höfðu
aðalbækistöð sína og tókst að fá
viðtal við einn þeirra, sem bjó í
Ruzomberok og sem ég þekkti vel.
Vonaði ég, að fá einhverjar fregn-
ir af manni mínum svo og öðrum,
þar eð konur þeirra ýmist höfðu
ekki kjark í sér til þess að fara
þangað, eða komust ekki að
heiman frá börnum sínum. Kall-
aði þessi liðsforingi mig á eintal
og sagði mér, að hann vissi ekki
með vissu, hver yrðu afdrif þessa
fólks, en taldi, að farið hefði verið
með það til annars bæjar þar sem
það yrði yfirheyrt, þar eð skæru-
liðar óttuðust gagnsókn Þjóðverja.
Spurði ég hann þá, hver eiginlega
hefði völdin og gæfi allar þessar
fyrirskipanir (ég vissi vel að þetta
var undir yfirstjórn Rússa en
þorði ekki að segja það við hann),
en þá sagði hann, að nú réðu
skæruliðar og bæði hann og aðrir
yrðu að hlýða blint. Sagði hann að
innan skamms kæmi vonandi
tékkóslóvakiska hersveitin og yf-
irtæki alla stjórn og myndi þá aft-
ur komast á regla, en þangað til
það gerðist, væri lífið bara eitt
einasta happdrætti.
Varð mér þá að orði, að þá gæti
verið of seint að bjarga öllu því
saklausa fólki, sem nú væri fang-
elsað og brytjað niður fyrir enga
sök og ætti þess ekki kost að verja
hendur sínar.
Bað hann mig þess lengstra
orða að láta enga aðra manneskju
heyra slíkt. Ég yrði að læra að aga
tunguna ef^ir aðstæðum, og ef illa
færi fyrir mér, gæti hann ekki
hjálpað. Hann yrði að sjá um sig
og sína og reyna að halda sinni
stöðu. Ráðlagði hann mér að
spyrja einskis framar um mann
minn og sagðist ráðleggja mér
þetta sem vinur. Hann þekkti
okkur hjón vel og hann og maður
minn voru skólabræður.
3. september tók hinn reglulegi
her við völdum, en það var of seint
fyrir þá, sem fangaðir voru meðan
á ógnaröldinni stóð. Kom síðar,
eða eftir 3 mán., í ljós, að allt fólk-
ið, um 200 manns, hafði verið láta
grafa sér grafir sjálft (4 fjölda-
grafir) og síðan stillt upp og skotið
niður í grafirnar.
Það sem gerzt hafði var, að
fangarnir höfðu verið fluttir til
Podsucha. Þar voru þeir, menn og
konur, látnir grafa 4 grafir. Síðan
færðir úr öllu, nema undirfötum,
konur líka og stillt upp i kringum
grafirnar með andlit að holunni og
skotnir í hnakkann og látnir falla
í gröfina. Síðan var kalki hellt yf-
ir, til þess að varna því, að rotnun-
arþefur kæmi upp um ódæðið.
Þetta varð hins vegar til þess, að
föt og tennur héldust óskemmd.
Þegar svo stríðinu lauk, átti að
kenna Þjóðverjum og Slóvökum,
sem með þeim voru í hernaðar-
bandalagi, um þetta, en það var nú
bara ekki hægt.
Upp um grafirnar komst 15.12.
’44. Það var skæruliði, sem kom
upp um grafirnar. Hann hafði
gengið í lið með skæruliðum, af
því hann var sannfærður um að
það væri það eina rétta og hann
var einlægur Tékki og and-nasisti
og hélt hann, að „bræðurnir í
austri" myndu aldrei fremja slík
ódæðisverk sem nasistar. En þeg-
ar hann sá, hvað gert var við
landa hans þarna í Podsucha, flýði
hann frá skæruliðum og var í fel-
um næstu mánuðina, en sagði svo
frá þessu um miðjan desember
1944.
Lélegir bandamenn
Nú voru fengnir sérfræðingar
til þess að grafa upp líkin og urðu
aðstandendur að lána myndir af
ástvinum sínum svo og koma
sjálfir til þess að hjálpa til við að
þekkja líkin. Tennur og föt voru
óskemmd (þ.e.a.s. fólkið var bara í
undirfötum). Það reyndist auðvelt
að þekkja nær alla. Ég þekkti und-
ir eins minn mann á tönnum og
undirfötum, en þessari sjón
gleymi ég aldrei né þessum degi.
Voru svo líkin grafin 17.12. ’44 í
kirkjugarðinum í Ruzomberok. Og
þá þýddi ekki að vona lengur, að
ástvinirnir væru á lífi. Fór nú
mörgum að finnast „bræðurnir"
heldur lélegir bandamenn, fyrst
þeir fóru alveg eins að og erki-
óvinurinn, nasistar, og var ekki að
furða, þótt margir yrðu ráðvilltir.
Nú, þegar ekki var eftir neinu
RUNTAL OFNARNIR FRÁ ONA TRYGGJA
BESTA VARMANÝTNI.
OFNASMÐJA NORÐURLANDS
FUNAHÖFÐA 17 - v/ÁRTÚNSHÖFÐA
SÍMI 82477 - 82980 - 110 REYKJAVÍK
\