Morgunblaðið - 12.08.1984, Qupperneq 2
58
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 12. ÁGÚST 1984
RICHARD
BURTON
Mikill listamaður
en
dálítið villtur
Richard Burton, leikarinn sem varð frægur ekki eingöngu
sem frábær Shakespere-túlkandi og kvikmyndaleikari held-
ur einnig fyrir litskrúðugt einkalíf, lést fyrir skömmu úr
______heilablóðfalli, aðeins 58 ára gamall.__
Hann er þriðji breski stórleikarinn sem deyr á nokkrum
vikum, fyrst Dame Flora Robson, þá James Mason og nú
Richard Burton.
Richard Burton var ekki einungis þekktur sem gódur leikari heldur einnig
fyrir mjög litskrúðugt einkalíf sem fjölmiðlar veltu sér upp úr í áratugi.
Stoltur af
uppruna sínum
Richard Jenkins, eins og hann
hét upprunalega, var fæddur í
kolanámubænum Pontrhydfen í
Wales hinn 10. nóvember 1925, og
var hann tólfti í röðinni af þrettán
systkinum. Móðir hans lést er
hann var tveggja ára og ólst hann
að mestu upp hjá aldraðri frænku
sinni.
Þegar leikhæfileikar Richards
fóru að gera vart við sig tók kenn-
ari nokkur, Philip Burton, hann
upp á arma sér og kenndi honum
m.a. að tala ensku án hins sterka
welska hreims. Er leikferill hans
hófst fyrir alvöru breytti hann
eftirnafni sínu í Burton eftir nafni
kennarans.
Þrátt fyrir frægðina, var Rich-
ard alltaf stoltur af uppruna sín-
um og gleymdi ekki hvaðan hann
var. Hann heimsótti Pontrhydfen
alltaf reglulega þar sem margir af
hans nánustu ættingjum búa enn
þann dag í dag og einn þorpsbúinn
sagði: „Rolls Roycinn renndi allt í
einu í hlað. Það varð ekki uppi
fótur og fit því hann var bara
kominn heim til sín. Hann var
alltaf einn af okkur."
Burton fékk styrk til náms við
Oxford-háskóla og gegndi síðan
um tíma herþjónustu. Það má
segja að er herþjónustu lauk hafi
leikferill hans byrjað fyrir alvöru.
Richard Burton isamt föður sínum
í Pontrhydfen.
Talinn frábær
Shakespere-leikari
Burton lék fyrst opinberlega í
Liverpool árið 1943 sem Glan í
leikriti Emelyn Williams, The
Druid’s Rest. Leikritið var einnig
sýnt í London um nokkurra mán-
aða skeið, en að því búnu hélt
Burton til náms í Oxford. Bæði á
skólaárum og að því skeiði loknu
hélt hann sig við sviðsverkin, en
árið 1948 leikur hann í sinni
fyrstu kvikmynd „The Last Days
of Dolwen". Næstu árin leikur
hann í verkum Christopher Fry
svo sem Richard í „The Lady’s not
for Burning" og það er einmitt það
leikverk sem kallar Burton fyrst
fram á sviðið í Bandaríkjunum, en
fyrrnefnt leikrit var sýnt í New
York. Þegar sýningum var lokið
tók Burton þátt í öðru leikverki til
viðbótar á sama stað. Hann snýr
síðan á ný til London og tekur þátt
í ýmsum sýningum, hefur á hendi
aðalhlutverkið í Montserrat við
Lyric Hammersmith og leikur síð-
an hjá Old Vic 1953 og 1954.
Næstu árin verður Richard Burt-
on alkunnur fyrir magnaða túlkun
á ýmsum þekktustu hlutverkum
leikbókmenntanna. Nægir þar að
nefna Othello og Iago og á Edin-
borgarhátíðinni kemur Burton
fram sem Hamlet, þar sem hann
vann stóran sigur og telja ýmsir
Burton vera meðal frábærustu
Shakespere-leikara er uppi hafa
verið. Nokkru síðar fær hann hlut-
verk skálksins Philip Faulcon-
bridge í King John, en það hlut-
verk var álitið hæfa Richard Burt-
on sérlega vel.
En Hollywood freistaði. Og
þangað lá leiðin hjá Richard Burt-
on, sem margir telja að hafi orðið
upphafið að endalokunum. Hann
leikur í stórmyndinni Cleopötru,
fer þar með hlutverk Antonfusar
og mótleikarinn er Elísabet
Taylor. Hann einbeitir sér að
kvikmyndaleik á næstu árum fer
með hlutverk eins og Arthur kon-
ung, Camelot og síðast en ekki síst
Hamlet 1964 en sú mynd var
framleidd af hinum þekkta John
Gielgud.
Richard Burton var sex sinnum
útnefndur til Óskarsverðlauna, en
vann aldrei. Það væri að æra
óstöðugan að fara að rekja allar
þær myndir sem Richard Burton
lék í um dagana enda tæplega all-
ar þess virði að hafa um þær mörg
orð og sumar þeirra taldar heldur
misheppnaðar eins og Dr. Faust.
Þó skyldi ekki gleyma að nefna
kvikmyndina „Hver er hræddur
við Virginiu Wolf“ eftir Edward
Albee, en leikur þeirra Burtons og
Elísabetar Taylor í þeirri mynd
hefur mjög verið rómaður. Á síð-
ari árum hefur bæði dregið úr afli
og auðnu hjá Burton, leikarinn
þótti vera farinn að dala og vin-
sældirnar að dvína. Þó hélt hann
áfram að leika og kom fram í sjón-
varpsþáttum og leiknum fram-
haldsþáttum, svo sem um Wagner,
og árið 1977 má minnast þess að
hann fluutti 26 þætti í BBC um
breska einvalda frá fyrri tfð. Er
hann lést var hann að vinna að
kvikmynd eftir sögu Orwells, 1984.
Mótleikari hans þar var John
Hurt.
Heimspressan gaf Burton ætfð
mikið pláss í slúðurdálkum sínum
og fæstir eflaust sem hafa ekki
einhverja hugmynd um einkalíf
þessa leikara, og ekki síst um
stormasamt samband hans og
Elísabetar Taylor. Sumir hafa
fleygt því fram að einkalífið hafi
skyggt á feril hans sem leikar.
Árið 1949 gekk Burton í það
heilaga með Sybil nokkurri Willi-
ams og áttu þau saman tvær dæt-
ur. Entist það hjónaband f 14 ár,
eða þangað til 1963. Þá gerist sá
frægi viðburður að Elfsabet Tayl-
or og Richard Burton leika saman
í „Cleopötru" og það verður ást við
fyrstu sýn. Þar hefst upphafið á
stormasömu sambandi þeirra er
entist í meira en áratug. Blöð um
allan heim veltu sér upp úr einka-
lífi þeirra, skartgripunum sem
hann gaf henni og orðum sem
þeim fór á milli í gegnum fjöl-
miðla, en bæði þóttu þau með af-
brigðum skapstór. Þau gifta sig
1964 og skilja síðan tíu árum
seinna. Ári seinna taka þau sig
svo til og ganga í það heilaga á
nýjan leik, þá í afríska ríkinu
Botswana en hjónabandið varði í
stuttan tíma og endaði með skiln-
aði árið 1976.
Richard lét þó ekki þarna við
sitja og sama ár og hann skilur við
Elísabetu gengur hann að eiga
fyrirsætuna Suzy Hunt. Varði það
hjónaband í sex ár. Fimmta og
síðasta eiginkona Richards Burton
var fyrrum aðstoðarkvikmynda-
framleiðandi, Susan Hay, og var
hún hjá eiginmanni sínum er
hann lést.
Eins og margir vita átti Richard
við drykkjuvandamál að strfða og
gerði hann oft misheppnaðar til-
raunir til að drífa sig upp úr þeirri
eymd. Hann viðurkenndi þó fús-
lega að drykkja væri vandamál
hjá honum og einhverntímann lét
hann þau orð falla að drykkjan
væri verri en krabbamein. I júní
sl. lét Burton þau orð falla að
drykkjudagar hans væru á enda
og þetta væri síðasta hjónaband
hans. Það næsta yrði gröfin.
Róbert Arnfinnsson
leikari:
Góður
listamaður
Svo lengi sem ég man eftir hef
ég dáðst að Richard Burton sem
góðum listamanni. Það sem mér er
minnisstæðast í svipinn er þegar
þau léku saman fyrrverandi hjón-
in hann og Elisabet Taylor í „Hver
er hræddur við Virginiu Wolf“.
Skömmu áður en ég sá þau leika
var ég búinn að leika þetta hlut-
verk á móti Helgu Valtýsdóttur.
Kannski hefur þetta gripið mig
þessvegna. Annars er leikur hans í
flestu sem ég hef séð hann góður,
hitt er undantekning, og öllum
geta verið mislagðar hendur. Það
kastar ekki rýrð á listamann sem
slíkan. Því miður hef ég aldrei átt
þess kost að sjá hann á leiksviði.
Sir John Gielgud:
Fæddur
leikari
„Richard Burton war fæddur
leikari en dálítuð villtur og valdi
kannski ekki rétt þegar hann kast-
aði frá sér leikhúsferlinum fyrir
kvikmyndirnar. Hann var alvar-
legur, heillandi og með mikla
hæfileika.
Lord Olivier:
Góður
leikari
Lord Olivier lék með Burton í
mörgum myndum og hann sagði í
viðtali við „The Times" nýlega:
„Burton var mjög góður leikari og
skjótur dauðdagi hans er mikill
missir fyrir kvikmyndaheiminn,
leikhúsheiminn og almenning. Ég
hlakkaði til að fara að vinna með
honum á nýjan leik.“ Þeir áttu að
vinna að nýrri mynd í Berlín
„Wild Geese Two“ þar sem Lord
Olivier átti að leika Rudolph Hess
og Burton tilbúna persónu er átti
að eiga hlutdeild í að bjarga Hess
frá fangelsi.
— Gr.G