Morgunblaðið - 14.11.1990, Síða 38
38
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 14. NÓVEMBER 1990
Minninff:
* *
Olafur Asgeirsson
Fæddur 29. nóvember 1910
Dáinn 2. nóvember 1990
Mest er yndi á okkar landi
yfir víðar sveitir ríða,
upp frá strandar eyðisandi,
inn til fríðra dalahlíða;
finna vildarvin að kveldi,
vaka um stund á gamanfundi;
fá svo hvíld hjá árdagseldi,
undurþæga í værum biundi.
(Gestur.)
Ólafur Ásgeirsson var borinn og
bamfæddur í gamla Vesturbænum
í Reykjavík og átti heimili á Ránar-
götu 28 alla sína tíð að heita mátti.
Á þeim slóðum reistu margir skip-
stjórar og skipasmiðir sér hús laust
eftir síðustu aldamót, en einnig
nokkrir kaupmenn svo sem faðir
Ólafs, Ásgeir Gunnlaugsson, kunn-
ur borgari á sínni tíð. Átthaga-
tryggð er vesturbæingum í blóð
borin og í sumum þessara húsa býr
nú þriðji eða jafnvel fjórði ættliður.
í slíku umhverfí, þar sem fólk þekk-
ist frá barnæsku, ríkir sérstakt
andrúmsloft og þegar foreldrar
mínir fluttust þaðan fyrir nokkrum
árum höfðu þau á orði að þau sökn-
uðu fyrst og fremst alls þess góða
fólks sem þar var nágrannar þeirra
um áratuga skeið.
Meðal nágrannanna hafði Ólafur
Ásgeirsson þá algera sérstöðu.
Hann átti sameiginlegt áhugamál
með föður mínum þar sem var
hestamennskan og vinátta þeirra
leiddi síðar til þess að Ólafur varð
heimagangur á heimili foreldra
minna á Stýrimannastíg 3. Þeir
komu upp hesthúsi fyrir sig og
nokkra vini sína í bragga frá
stríðsárunum á landi þar sem nú
er Granaskjól. Þeir áttu jafnan góða
hesta og þar voru m.a. verðlauna-
gæðingar á húsi. Oftast var þá rið-
ið vestur á Seltjarnames, út í Suð-
urnes, en einnig var farið upp að
Hesthálsi og í lengri ferðir. Þeir
Ólafur og faðir minn riíjuðu gjarnan
upp ýmis atvik úr þessum ferðum.
Ólafur var gæddur góðum frásagn-
arhæfíleikum og þegar þeim báðum
tókst upp var unun að hlýða á sam-
ræður þeirra. Þá sóttumst við bræð-
urnir eftir að vera einhvers staðar
nærri. Það leyndi sér heldur ekki
þegar Óli Ásgeirs var kominn þá
hljómaði hressilegur hlátur hans um
húsið. Iðulega leit hann inn á milli
kl. 5 og 7 á daginn á leið heim úr
vinnu sinni í Héðni hf. þar sem
hann gegndi ábyrgðarstöðu lengst
af starfsævi sinnar. Han naut þar
vinsælda og virðingar, enda framúr-
skarandi traustur maður.
Það atvikaðist svo að Ólafur
kvongaðist ekki þó svo að hann
ætti margra kosta völ og Jiefði yndi
af samvistum við fagrar konur.
Þess í stað lét hann fjölskyldu sína
njóta umhyggju sinnar og tók ást-
fóstri við systrabörn sín, sem fyrir
sitt leyti sýndu honum mikla rækt-
arsemi. Við bræðurnir nutum einnig
góðvildar hans. Þegar ég var um
fermingu og gagntekinn áhuga á
hestamennsku tók Ólafur mig undir
vemdarvæng sinn ásamt Páli Her-
steinssyni frænda sínum. Við riðum
út saman allmarga vetur og einnig
fór ég með honum fáeinar langferð-
ir á hestum að sumarlagi. Fjörutíu
ára aldursmunur reyndist okkur
ekki nein hindrun í samskiptum í
þessum ferðum því Ólafur kom allt-
af fram við okkur stráklingana sem
jafningja sína. Það gat hinsvegar
ekki farið hjá því að við litum mjög
upp til þessa lærimeistara okkar.
Hann bjó yfír miklum þrótti og reisn
í fasi og framgöngu sem hlaut að
vekja á honum traust og virðingu
hvar sem hann fór.
Við ríðum í náttstað í rökkri
síðsumars, í kyrrðinni bergmálar
taktfastur hófasláttur frá nálægum
hamravegg. í minningunni blandast
hófadyninum glaðvær hlátur ferða-
félagans sem nú hefur kvatt.
Ég votta aðstandendum Ólafs
hluttekningu og flyt þeim jafnframt
kveðju bræðra minna og foreldra
sem eru þakklát fyrir að hafa átt
órofa vináttu þessa góða drengs.
Einar S. Arnalds
Ólafur Ásgeirsson er látinn eftir
erfiða sjúkdómslegu. Hið óumflýj-
anlega hefur gerst en samt er erf-
itt að sætta sig við það. Þótt hann
hafí verið jarðsunginn í kyrrþey að
eigin ósk Iangar mig til að kveðja
kæran frænda minn og vin fáeinum
orðum.
Ólafur var sonur hjónanna Ing-
unnar Ólafsdóttur frá Myrarhúsum
á Seltjamamesi og Ásgeirs Guðjóns
Gunnlaugssonar kaupmanns í
Reykjavík. Ólafur var þriðji í röð
fímm systkina. Elst er Anna, gift
Ingólfí Árnasyni. Þau eiga tvö börn,
Ásgeir og Ingunni Önnu. Næstelst-
ur systkinanna var Gunnlaugur,
kvæntur Valgerði Andrésdóttur, en
Gunnlaugur lést árið 1975. Yngri
en Ólafur voru Ásgeir Ingi, sem
lést fáum sólarhringum eftir fæð-
ingu og Margrét, gift Hersteini
Pálssyni. Þau eiga tvö börn, Ingu
og Pál.
Ingunn og Ásgeir reistu húsið á
Ránargötu 28 í Reykjavík þar sem
Ólafur fæddist og átti heima mikinn
hluta ævi sinnar. Hann var því
Vesturbæingur í húð og hár. Á
bernskuárum hans snerist lífið í
Vesturbænum um físk og aftur fisk
og strákar dmkku í sig sögur af
sjónum og sjómennsku. Gunnlaug-
ur, afí Ólafs, var sjómaður og með
honum fór hann á skak og svart-
fugl. Það var því ekki furða þótt
hugurinn stefndi til sjómennsku.
Eftir skólaskyldu ákvað Ólafur
samt að ganga aðra braut og innrit-
aðist í kvöldskóla Verslunarskóla
íslands, tók inntökupróf í skólann
og var þar um hríð. Honum fannst
námið þó ekki við sitt hæfí og þeg-
ar hann sá auglýsingu um sjóvinnu-
námskeið á vegum Fiskifélags ís-
lands sneri hann við blaðinu og
sótti það í staðinn. Með skírteini
upp á vasann réðst hann sem dekk-
maður á varðskipið Óðin. Þar eyddi
hann ungdómsámm sínum. Nokkru
síðar skall kreppan á og þegar Ólaf-
ur sá fram á að erfítt yrði að fá
yfírmannsstöðu í náinni framtíð
ákvað hann að fara í land og hefja
nám í verslunarfræðum á ný, þótt
hann kveddi sjómennskuna með
söknuði;
Á þeim árum voru engar öld-
ungadeildir við framhaldsskólana
og fór Ólafur því í einkakennslu í
tungumálum, bókfærslu, reikningi
og öðrum verslunarfögum. Eftir
tveggja ára nám fór hann með tog-
ara til Bretlands og innritaðist í
Verslunarskóla þar, bæði dag- og
kvöldkennslu til þess að flýta nám-
inu. Að námi loknu réðst hann til
Rafmagnsveitu Reykjavíkur og
vann þar í sjö ár. Þó hafði hann
alltaf löngun til þess að starfa í
„einkageiranum" eins og það er
nefnt nú á dögum. Þegar hann sá
auglýsingu um starf í iðnfyrirtæki
sótti hann um og fékk. Reyndist
þar vera um vélsmiðjuna Heðin hf.
að ræða. Fyrstu tvö árin hjá Héðni
vann hann sem gjaldkeri. Þá var
Héðinn til húsa í Aðalstræti 6. Árið
1944 flutti fyrirtækið að Seljavegi
2, sem var nýtt hús. Hinn dugandi
forstjóri fyrirtækisins, Sveinn Guð-
mundsson, ákvað að hefja innflutn-
ing á efni og vélum fyrir fyrirtækið
og aðra, en áður hafði Heðinn keypt
í gegnum heildsala eftir þörfum.
Ólafur var settur í það starf að
útvega viðskiptasambönd, aðallega
í Bandaríkjunum og Bretlandi
vegna stríðsins. Eitt stærsta verk-
efni sem Vélsmiðjan Heðinn tók að
sér á næstu árum var að byggja
síldarverksmiðjumar á Siglufírði og
Skagasatrönd. Þurfti að hafa hrað-
an á því að verksmiðjurnar urðu
að vera tilbúnar fyrir næstu síldar-
vertíð. Mjög var erfítt með alla
flutninga á þessum árum en Ólafi
var falið að fara til Bretlands til
þess að flýta fyrir afgreiðslu og
flutningi á vörum og efni. Það er
til marks um mikilvægi þessa máls
að þáverandi atvinnumálaráðherra,
Áki Jakobsson, gaf honum i farar-
nesti bréf sem opnaði honum allar
dyr hériendis og í Bretlandi. Þegar
hann sótti um vegabréfsárituní
breska sendiráðinu og sýndi bréfið
frá ráðherranum var honum boðin
flugferð daginn eftir með sprengju-
flugvél, sem hann þáði. Flogið var
til Prestvíkur í Skotlandi og þar
báru Bretar hann á höndum sér.
Það tók tvo mánuði að afla efnis í
verksmiðjurnar en það tókst og þær
komust upp á réttum tíma.
Ólafur sá um erlendar bréfa-
skriftir fyrir Vélsmiðjuna Héðin
næstu 16 árin en varð þá aðalgjald-
keri fyrirtækisins. Alls vann hann
í 43 ár hjá Héðni hf. og varla hefur
nokkurt fyrirtæki fengið áreiðan-
legri starfsmann því að heiðarleiki,
samviskusemi og trúmennska voru
hans aðalsmerki alla tíð.
Ólafur var ávallt mikill útivistar-
maður og ágætur íþróttamaður. Á
yngri árum var hann mikið á skíðum
og skautum og var góður sundmað-
ur. Mest yndi hafði hann samt af
hestamennsku.
Það var einmitt vegna hesta-
mennskunnar sem við Óli frændi
kynntumst svo vel. Fyrstu minning-
ar mínar af honum eru tengdar því
þegar hann kom ásamt vinum eða
kunningjum í heimsókn til systur
sinnar og mágs í Hlíðunum. Ásamt
Sigurði Arnalds og fleiri vinum var
hann með hesthús í Skjólunum og
þá lá leiðin oft inn að Elliðaám og
Geithálsi á útreiðartúrum. Þótt
hestamenn væru ekki beinlínis óal-
geng sjón í Hlíðunum á 6. áratugn-
um var það samt rnikill viðburður
fyrir krakkana í götunni þegar
hestamenn áðu þar. Einatt hljóm-
uðu orðin „Óli frændi er kominn,
Óli frændi er kominn!" af allra vör-
um þegar hann kom, eins og hann
væri frændi þeirra allra. Þá fengum
við að halda í taumana og gæta
hrossanna meðan hestamennimir
fengu sér kaffísopa og kannske eitt-
hvað út í. Stundum fékk maður líka
að fara á bak og þær stundir líða
aldrei úr minni.
Þegar ég var þrettán ára, hafði
verið tvö sumur í sveit á Steindórs-
stöðum í Reykholtsdal og fengið
þar ódrepandi hestabakteríu, kom
Óli frændi með mér í Borgarfjörðinn
til þess að skoða þriggja vetra fola
sem ég hafði frétt að væri falur.
Mig langaði til að nota fýrstu sum-
arhýruna mína til þess að kaupa
hann. Má segja að við Óli höfum
verið óaðskiljanlegir næstu árin því
að hann tamdi fyrir mig folann en
ég fékk að ríða hans hestum á
meðan. Þá vorum við með hestana
í húsum Fáks, fyrst í Laugardalnum
og síðar við Elliðaárnar. Oft voru
með okkur i útreiðartúrum Einar
og Andrés Arnalds, synir Sigurðar
Amalds hestamanns og góðvinar
Ólafs úr Vesturbænum. Þetta var
skemmtilegur tími því Óli var
manna kátastur og hópurinn
lífsglaður. Fjömtíu ára aldursmun-
ur skipti engu máli. Ég minnist
þess hvernig Óli átti það til að drífa
mig á hestbak á sunnudagsmorgn-
um eftir löng laugardagskvöld á
unglingsárunum. Ég gat sjaldnast
staðist það þegar ég heyrði hlátur-
inn hans frammi í stofu þar sem
hann sat á spjalli við foreldra mína
og beið þess að ég dratthalaðist úr
bælinu.
Ólafur var ókvæntur og bamlaus
og þess nutum við systrabörn hans
því honum var eins annt um okkur
og værum við hans eigin börn. Mér
fínnst stundum að hann hafi verið
hinn fullkomni frændi, fyrirmynd
allra frænda. Þrátt fyrir náin og
mikil samskipti okkar minnist ég
þess ekki að hann hafi skammað
mig nema einu sinni. Þá var hann
að koma í heimsókn til foreldra
minna á bíl og stöðvaði hann þar
sem ég var að leik með öðrum böm-
um neðar við götuna þar sem ég
bjó. Ég hljóp út á götuna til þess
að fagna frænda mínum og varð
næstum því fyrir aðvífandi bíl. Þá
skammaði hann mig og lái honum
hver sem vill.
Hann var mikill dýravinur og
átti m.a. dúfur í kofa þegar hann
var strákur í Vesturbænum. Áhugi
hans á dýrum birtist ekki síst í
hestamennsku hans. Hann átti ekki
marga hesta um ævina því hann
tók. ástfóstri við hestana sína og
þeiiqentust vel hjá honum. Ég held
að ÓIi hefði ekki haft á móti því
að ég nefndi nokkra þeirra á nafn
um leið og hann sjálfan, úr því að
ég er að setja þessar línur á blað.
Þegar ég man fyrst eftir átti hann
tvo hesta, Brúnka og Prinsinn.
Þessir hestar voru eins ólíkir og
hestar geta verið. Brúnki var frem-
ur smávaxinn en samanrekinn, ekki
fríður, ljónviijugur en þó taumlétt-
ur, einstaklega þýður töltari. Hann
hélt viljanum og dugnaðinum þar
til hann fór skyndilega úr hrossa-
sótt 26 vetra gamall. Prinsinn var
glæsilegur hestur, stór og sterkur,
leirljós, hnarreistur, fríður, í meðal-
lagi viljugur og mannelskur með
afbrigðum. Þegar ég fór tvítugur
til náms í Skotlandi hafði ég ekki
lengur efni á að eiga hross. Þá lét
ég Ólaf fá hestinn minn, Spotta,
því að þar vissi ég hann í góðum
höndum. Nokkur eigingirni lá þarna
einnig að baki því að með þessu
móti tryggði ég mér aðgang að
hesti til útreiða í fríum. Spotti var
síðasti hestur Óla. Han heltist og
var lógað fyrir u.þ.b. áratug þegar
útséð var um að hann næði sér
aftur en þá hafði hann átt náðuga
daga í hagagöngu í nokkur ár og
var kominn við aldur.
Eftir að Ólafur hætti hesta-
mennsku tók hann að stunda
gönguferðir. Þar átti m.a. þátt
snaggaralegur náungi, Sámur að
nafni, sem gekk annars undir nafn-
inu Sammi. Hann var af kyni
minkaveiðihunda og var fyrst til
heimilis hjá Ásgeiri systursyni Ólafs
en síðan á Ránargötu 28. Óli tók
ástfóstri við Samma og saman fóru
þeir í langar gönguferðir. Sá var
hængur á dvöl Samma á Ránargötu
28 að þá voru hundar ekki leyfðir
í Reykjavík. Sammi beit það hins
vegar í sig að gamlar konur og lög-
regluþjónar væru ,til þess að gelta
að og jafnvel að narta í hælana á.
Þetta uppátæki aflaði honum ekki
vinsælda hjá sumum og eftir kvart-
anir var reynt að koma honum fyr-
ir í sveit. Þar neitaði hann að nær-
ast af heimþrá og ýlfraði daga og
nætur. Auk þess báru hinir hund-
arnir á bænum litla virðingu fyrir
svona borgarhundi, var jafnvel sagt
að þeir pissuðu á hann, og enduðu
leikar þannig að hann fékk að koma
aftur heim. Þar lifði hann svo til
hárrar elli á mælikvarða hunda.
Eins og fyrr segir bjó Ólafur
mikinn hluta ævi sinnar á Ránar-
götu 28. Hann hafði flutt að heim-
an þegar hann var ungur maður,
eins og gengur. En þegar faðir
hans veiktist af þeim sjúkdómi, er
síðar dró hann til dauða, fluttist
hann heim aftur til þess að styðja
móður sina á þeim erfíðu tímum
sem framundan voru og bjó þar
ávallt síðan, síðast með Önnu systur
sinni og Ingólfí manni hennar.
Megi hann hvíla í friði, minning-
in lifír.
Páll Hersteinsson
Ólafur Ásgeirsson eða Óli frændi
einsog við kölluðum hann jafnan
var jarðsunginn í gær, þriðjudaginn
14. nóvember.
Margar ánægjulegar minningar
koma upp í hugann er við hugsum
til baka til þeirra stunda sem við
með honum áttum. Þá tíð sem við
þekktum Óla bjó hann á Ránargöt-
unni ásamt ömmu okkar og afa en
þar höfum við verið heimagangar
í gegnum árin. Þegar við vorum
smápollar var það fastur liður hjá
okkur bræðrum að fara í sunnu-
dagsbíltúrinn með Óla út fyrir bæ-
inn að viðra Samma, fjölskyldu-
hundinn.
Óli hafði frá mörgu að segja og
voru þær ófáar sögurnar sem við
fengumað heyra frá hans yngri
árum þegar hann var að mennta
sig og vará sjónum en einnig frá
stríðsárunum. Sömuleiðis má nefna
eftirminnilega viðskiptaferð hans
rétt eftir stríðið en þá ferðaðist
hann með sprengjuflugvél breska
flughersins til Skotlands en í Bret-
landi dvaldist hann síðan um nokk-
urtskeið.
Óli var góður frændi og vinur.
Hann var ætíð boðinn og búinn að
aðstoða okkur bræðurna og var
gott að leita til hans.
Við þökkum Óla að endingu fyrir
þær stundir sem við höfum átt með
honum og biðjum Guð að geyma
hann, gamlan góðan vin.
Árni Ólafur Ásgeirsson
Ingólfur Ásgeirsson
t
Faðir okkar, tengdafaðir og afi,
GUNNAR GUÐMUNDSSON,
Heiðarholti 2,
Keflavik,
er látinn.
Ástráður Gunnarsson, Guðrún Aðalsteinsdóttir,
Hólmkell Gunnarsson, Guðbjörg Friðriksdóttir
og barnabörn.
t
Faðir okkar,
SNORRI HILDIMAR JÓNSSON,
sem lést i Sjúkrahúsi Bolungarvíkur 9. nóvember, verður jarðsung-
inn frá Hólskirkju, Bolungarvík, laugardaginn 17. nóvembér
kl. 14.00.
Þeim, sem vilja minnast hins látna, er bent á Krabbameinsfélagið.
Börn hins látna.
t
Elskuleg eiginkona min og móðir,
KRISTÍN S. JÓHANNESDÓTTIR,
verður jarðsungin frá Fossvogskirkju fimmtudaginn 15. nóvember
kl. 13.30.
Björn Benediktsson,
Agnar Björnsson.