Dagblaðið Vísir - DV - 23.02.1987, Blaðsíða 14
14
MÁNUDAGUR 23. FEBRÚAR 1987.
Frjálst.óháÖ dagblaö
Útgáfufélag: FRJÁLS FJÖLMIÐLUN HF.
Stjórnarformaður og útgáfustjóri: SVEINN R. EYJÓLFSSON
Framkvœmdastjóri og útgáfustjóri: HÖRÐUR EINARSSON
Ritstjórar: JÓNAS KRISTJANSSON og ELLERT B. SCHRAM
Aðstoðarritstjórar: HAUKUR HELGASON og ELlAS SNÆLAND JÓNSSON
Fréttastjóri: JÓNAS HARALDSSON
Auglýsingastjórar: PALL STEFÁNSSON og INGÓLFUR P. STEINSSON
Ritstjórn, skrifstofur, auglýsingar, smáauglýsingar, blaðaafgreiðsla, áskrift,
ÞVERHOLTI 11, SlMI 27022
Setning, umbrot, mynda- og plötugerð: HILMIR HF., ÞVERHOLTI 11
Prentun: ARVAKUR HF. - Áskriftarverð á mánuði 500 kr.
Verð I lausasölu virka daga 50 kr. - Helgarblað 60 kr.
Pínd í belti
Ný umferðarlög eru á leið gegnum þingið. Verði þau
samþykkt, munu sektarákvæði koma til framkvæmda,
noti fólk ekki bílbelti. I frumvarpinu segir, að hver sá,
sem situr í framsæti bifreiðar, sem búin er öryggisbelti,
skuli nota það. Fólki verður síðan refsað, brjóti það
gegn þessu. Þyngd refsinga verður ákveðin í reglugerð.
Lög um notkun bílbelta voru samþykkt í maí 1981.
Þá var ákveðið, að ekki skyldi refsa fyrir brot gegn
þeim, fyrr en heildarendurskoðun umferðarlaga hefði
farið fram.
Nú er komið að því. Meirihluti þingsins virðist stað-
ráðinn í, að refsing skuli taka gildi.
Talsmenn bílbelta telja, að almenn notkun bílbelta
geti forðað sumum frá slysum. Þeir benda á refsingar í
öðrum löndum. í skoðanakönnun fyrir nokkrum árum
reyndist meirihluti fylgjandi því, að notkun bílbelta
skyldi sett í lög. Þó eru miklu færri, sem enn nota bíl-
belti í reynd, kannski um fjórðungur. Talsmenn
frumvarpsins nú segja, að svona geti þetta ekki gengið.
En málið er ekki svona einfalt.
Vissulega er notkun bílbelta nokkuð umdeild. I sum-
um slysatilvikum getur verið verra að nota belti en
ekki. Mjög margir telja gengið á rétt sinn, verði settar
refsingar. Þetta er minnihluti, en hann hefur mikið til
síns máls. Ætla verður fullorðnu fólki að geta ákveðið
sjálft, hvort það bindur sig í belti eða ekki. Það er tals-
verður hópur,sem segir, að þetta sé eitt af því, sem fólk
eigi að ákveða sjálft. Löggjafinn eigi ekki að pína fólk
í belti. Menn eigi að njóta frjálsræðis í eigin bifreið.
Vissulega eiga talsmenn bílbeltanna í engu að draga
úr málflutningi sínum. En almenningur á að meta áróð-
ur þeirra. Samþykki flestir, að formælendur bílbelta
hafi á réttu að standa, er rökrétt, að sá hópur bindi sig
í belti. Stóri bróðir, ríkið, á ekki að úrskurða um þetta.
Margt er óhollt, sem menn gera. Ýmsar gagnlegar
kenningar eru uppi um, hvernig fólk eigi að varðveita
heilsuna. I fyrri tíð nefndu andstæðingar refsinga fyrir
að nota ekki bílbelti, að feitt kjöt þætti hættulegt. Ætti
næst að banna fólki að eta feitt kjöt? Vafalaust eru lík-
amsæfingar hollar í morgunsárið. En ætti Stóri bróðir
að gera þær að skyldu? Hér hefur verið fylgt fram hálf-
velgjulegu bjórbanni, af því að sumum finnst landinn
ekki hafa gott af bjór. Hvar stöðvar Stóri bróðir?
Telja má, að hugmyndin um refsingu, séu beltin ekki
notuð, sé í ætt við aðrar slíkar þess efnis að löggjafinn
eigi að segja fólki, hvernig það á að sitja og standa.
Þessa þróun verður að stöðva. Þvert á móti þarf að
efla frjálsræði einstaklinganna í þeim tilvikum, þegar
þeir skaða ekki aðra með gerðum sínum eða aðgerða-
leysi.
Þess vegna eiga þingmenn í neðri deild að breyta
frumvarpinu á þann veg, að ekki verði sektað í bílbelta-
málinu, en fræðsla verði aukin. Þeir þurfa að breyta
fleiru í frumvarpinu.
Ekki nær neinni átt að setja ákvæði um, að ökuhraði
í þéttbýli skuli ekki vera meiri en 50 kílómetrar á
klukkustund. Þetta yrði alveg fráleitt á götum eins og
Miklubraut og Kringlumýrarbraut, svo að dæmi séu
nefnd. Þessi hámarkshraði yrði jafnan brotinn af flest-
um. Menn gerðust þá nokkuð sjálfkrafa lögbrjótar, og
virðing fyrir öðrum umferðarlögum drabbaðist niður,
svo og fyrir öðrum lögum.
Þingmenn neðri deildar verða að manna sig upp.
Haukur Helgason.
:
„Ég held að Páll hafi rétt fyrir sér um það, að gildi vísinda og lista er ekki komið undir eftirspurn eftir þeim
á frjálsum markaði."
Hver á að bera
kostnaðinn af heim-
spekiprófessornum?
Það hefur komið mörgum á óvart,
að í fyrsta hefti hins nýja Tímarits
Háskóla íslands skuli hafa birst
rammpólitísk grein, ádeila á frjáls-
hyggju eftir dr. Pál Skúlason
heimspekiprófessor. Eðlilegra hefði
verið, segja sumir, að birta slíka rit-
smíð í Tímariti Máls og menningar
eða Rétti. Þau rit eru ekki gefin út
af opinberri stofnun, heldur samtök-
um sósíalista. Sjálfúr hef ég þó
ekkert við þetta að athuga, ef rit-
stjórar hins nýja tímarits leyfa
öðrum og ólíkum sjónarmiðum að
komast að í framtíðinni. En hér ætla
ég að leyfa mér að gagnrýna lítillega
málflutning prófessorsins, en hann
mótast satt að segja af miklu meiri
þröngsýni og vanþekkingu en ég
hafði búist við af mínum gamla
kennara og núverandi samstarfs-
manni, sem skrifað hefúr margt
skynsamlegt.
Sjónarmið Páls
Páll telur, að þau fræði, sem heim-
spekideildarmenn stimdi, eigi mjög
í vök að verjast um þessar mundir.
Þau fáist við verðmæti, sem mölur
og ryð fái ekki grandað, og án þeirra
séum við ekki með sjálfúm okkur,
eins og hann orðar það. Hins vegar
tíðkist nú að leggja á þau peninga-
legan mælikvarða, sem eigi alls ekki
við. „Helstu talsmenn þessa hérlend-
is á síðustu árum hafa verið ákafir
markaðshyggjumenn," segir Páll,
„sem virðast margir hverjir líta svo
á að öll mannleg samskipti séu við-
skipti, að lífið sé business og ekkert
annað. Markaðshyggjumenn hafa
jafnvel gengið lengra en róttækustu
marxistar þvi að þeir virðast vilja
fella stjómmála- og menningarkerfin
inn í munstur efnahagslífsins."
Páll telur þetta til marks um mikla
skammsýni. „Hin hagnýtu fræði lúta
að því sem er gefið í beinni en
skammvinnri skynjun og þau gera
kleift að framkvæma aðgerðir sem
bera skjótan árangur. Þessi fræði
em í eðli sínu skammsýn." Páll
gengur lengra: Þetta er ekki aðeins
skammsýni að sögn hans, heldur
beinlínis heimska. Og hann telur
framtíðarverkefni heimspekideildar-
manna vera að beijast gegn hinu
hagfræðilega eða peningalega sjón-
armiði. (Mér verður þá á að spyrja:
En eiga þeir þá ekki lengur að reyna
að Ieita nýrrar þekkingar og skerpa
skilning okkar á manni og heimi,
eins og heimspekideildarmennimir
Sigurður Nordal og Ágúst H.
Bjamason reyndu til dæmis á sínum
tíma?)
Sjónarmið hagfræðinnar
Við hverja á Páll Skúlason? Ég
veit ekki til þess, að neinn íslenskur
frjálshyggjumaður eða „markaðs-
hyggjumaður" hafi talið öll mannleg
samskipti viðskipti (þótt viðskipta-
sjónarmiðið sé vissulega nytsamlegt
Eymd félagshyggjunnar
Kjallariim
Dr. Hannes
Hólmsteinn
Gissurarson
lektor
til vísindalegrar skýringar og sjálf-
sagt að reyna á þanþol þess). Enginn
heilvita maður heldur því til dæmis
fram, að tengsl móður við bam eða
Islendings við sögu sína, menningu
og samlanda séu viðskiptatengsl í
sömu merkingu og tengsl kaupanda
og seljanda. Hitt blasir við, hvað
Páll er í rauninni að gera. Hann er
að neita því, að leggja megi peninga-
legan mælikvarða á störf sín og
annarra þeirra, sem fást við húman-
ískar greinar í Háskóla Islands.
Hann er að neita því, að þeir þurfi
að réttlæta störf sín fyrir öðrum, þar
sem réttlæting þeirra sé fólgin í þeim
sjálfum.
Sjónarmið hagfræðinnar er annað.
Samkvæmt því kostar það fé að
hugsa um heimspeki. Ef Páll leggur
þetta fé fram úr eigin vasa, þá er
okkur enginn vandi á höndum. En
ef hann sækir það til annarra, þá
verður hann að fá samþykki þeirra
við því, og það merkir, að hann verð-
ur að réttlæta það fyrir þeim. Væri
Háskólinn einkafyrirtæki, eins og
bandarískir háskólar em margir,
þyrfti Páll að réttlæta launagreiðsl-
ur til sín fyrir stjómendum hans.
En þar sem Háskóli íslands er kost-
aður af opinbem fé, mega skattgreið-
endur hiklaust bera fram og ræða
spuminguna: Vinnur Páll Skúlason
fyrir laununum sínum? Hefði þeim
peningum, sem varið er til að kosta
heimspekilega hugsun hans, verið
betur varið í eitthvað annað? Þótt
það kunni að kosta einhverjar óvin-
sældir í hópi starfsbræðra minna
uppi í Háskóla, finnst mér hvorki
skammsýni né heimska, eins og Páll
telur, að spyrja þessarar spumingar
og reyna að leita skynsamlegra
svara við henni.
Ósamræmanleg sjónarmið?
Sleppum því, hversu óskýr mál-
flutningur Páls er og átakið laust
(þrátt fyrir stóryrðin um heimsku
og skammsýni okkar frjálshyggju-
manna). Hyggjum heldur að hinu,
hvort sjónarmið Páls og sjónarmið
hagfræðinnar séu beinlínis ósam-
rýmanleg, eins og hann fullyrðir í
grein sinni. Ég held, að Páll hafi
rétt fyrir sér um það, að gildi vísinda
og lista er ekki komið undir eftir-
spum eftir þeim á frjálsum markaði.
Meistaraverk er meistaraverk, hvort
sem neytendur em tilbúnir til að
kaupa það eða ekki. En Páll hefur
rangt fyrir sér um það, að þetta sjón-
armið rekist á hitt, að menn eigi að
fá að ráðstafa fjármunum sínum
sjálfir, svo að þeir þurfi til dæmis
ekki að kosta heimspekilega hugsun
Páls Skúlasonar fremur en þeir kæra
sig um. Ég tek sjálfur undir bæði
þessi sjónarmið, en reyni ekki að
neita öðm þeirra eins og Páll gerir.
Flestir Islendingar em raunar
sammála um, að ríkið skuli styðja
húmanískar greinar. En þá er spum-
ingin sú, hvort slíkur stuðningur
felist fortakslaust í styrkjum til
þeirra einstaklinga, sem tala í nafni
slíkra greina. Getur ekki verið, að
besti stuðningur ríkisins við þær sé
fólginn í að láta þær afskiptalausar
og leyfa þeim að vaxa samkvæmt
eigin lögmálum? Og er hæfileikinn
til að útvega sér stöður og styrki
nauðsynlega hinn sami og hæfileik-
inn til nýsköpunar, fræðslu og
frjálsrar þekkingarleitar? Ef Páll
prófessor Skúlason er þeirrar skoð-
unar, að eini mælikvarðinn á
stuðning ríkisins við húmanískar
greinar sé fólginn í upphæð fjárveit-
inga til sín og annarra hugvísinda-
manna, þá sýnist mér hann einmitt
sekur um það, sem hann sakar and-
stæðinga sína um: að leggja pen-
ingalegan mælikvarða á alla hluti.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson.
„Er hæfileikinn til að útvega sér stöður
og styrki nauðsynlega hinn sami og hæfi
leikinn til nýsköpunar, fræðslu og
frjálsrar þekkingarleitar?“