Dagur - 17.09.1988, Blaðsíða 9
17. september 1988 - DAGUR - 9
sögubrot
Glannalegur kveðskapur
síra Jóns Þorlákssonar
„Ef lesendur hefði séð mann,
meðallagi að hæð og grannvax-
inn, nokkuð Iotinn í herðum,
með gult, slegið hár, breiðleit-
an og brúnamikinn en þó lítið
höfuðið, snareygðan og harð-
eygan sem í tinnu sæi, bólu-
grafinn mjög, með mikið
skeggstæði, söðulnefjaðan og
hafið mjög framanvert, meðal-
Iagi munnfríðan, útlimanettan
og skjótan á fæti, málhreifinn
og kvikan, svo líkaminn allur
væri jafnan sem á iði - þá hefði
þeir séð þjóðskáld íslendinga,
Jón prest Þorláksson á þroska-
árum sínum.“
Ofangreinda mannlýsingu er
að finna í ágripi Jóns skjalavarð-
ar Sigurðssonar af ævisögu síra
Jóns Þorlákssonar á Bægisá og
er hér tekin úr ritinu Jón Þorláks-
son - Dánarminning, Reykjavík
1919. Við ætlum að grípa nokkur
sögubrot úr ævi skáldsins, en Jón
Þorláksson var fádæma litríkur
maður og ekki hægt að gera lífs-
hlaupi hans tæmandi skil í stutt-
um þætti.
Tengsl Jóns við upplýsinga-
stefnuna í bókmenntum, stór-
virkar þýðingar á borð við Para-
dísarmissi Miltons og Messías
Klopstocks, verða látin sitja á
hakanum hér, en gamansöm
sögubrot úr lífi þessa einstæða
klerks verða rifjuð upp. Glettin
kvæði og ábyrgðarlaus ýta
alvöruþrungnum kveðskap og
sálmagerð til hliðar í þessu sögu-
broti og víst er af nógu að taka.
Síra Jón missir hempuna
Jón Þorláksson var fæddur í Sel-
árdal í Amarfjarðardölum 13.
desember 1744. Faðir hans var
Þorlákur Guðmundsson, sem
fyrst var kapellán í Selárdal hjá
föður sínum en síðan prestur þar
í um 10 ár, þangað til hann var
dæmdur af prestskap 1749.
Lítið er vitað með vissu um
æsku Jóns, en hann byrjaði
snemma að setja saman stökur.
Jón gekk í Skálholtsskóla og
þótti gáfaður, vel að sér í grísku,
latínu og guðfræði. Það fylgir
sögunni að hann hafi fengið góð-
an vitnisburð fyrir siðferði.
Að lokinni skólagöngu varð
Jón skrifari hjá Magnúsi amt-
manni Gíslasyni og flutti með
honum frá Leirá að Bessastöðum
árið 1766. Þá andaðist Magnús og
fór Jón þá til Ólafs Stephánsson-
ar amtmanns og var hjá honum
þar til Gísli Jónsson, prestur í
Saurbæjarþingum í Dalasýslu,
réði hann sem kapellán og var
hann vígður þangað 1768.
Skömmu síðar andaðist Gísli og
fékk Jón þá brauðið.
Á þessum tíma bjó í Fagradal
gildur bóndi er Brynjólfur
Bjarnason hét. Jórunn hét ein af
dætrum hans og til hennar felldi
Jón mikla ást og vildi eiga hana.
Brynjólfur var því andsnúinn og
þótti honum prestur óefnilegur til
búskapar. Litlu síðar ól Jórunn
sveinbarn og afleiðingar þess
urðu þær að síra Jón varð að
sleppa kjóli og kalli.
Eftir þetta var dálítið flakk á
Jóni uns hann fékk uppreisn æru
vorið 1772 og var honum veittur
Staður í Grunnavík. Skömmu
eftir að hann tók við embætti þar
ól Jórunn Brynjólfsdóttir bam að
nýju og var þá endir bundinn á
prestskap Jóns, enda kenndi hún
honum barnið.
„Hvort er ég orðinn
faðir?“
Ekki hefur blásið byrlega fyrir
prestinum unga á fyrstu starfsár-
um hans, en hann var þrátt fyrir
allt gamansamur og viðbrögð
hans við mótlætinu næsta ótrúleg
á stundum. Einhverju sinni kvað
Jón eftir að hann frétti að honum
væri fætt launbarn:
Alténd segja eitthvað nýtt
ýtar lyndisglaðir:
Hvað er í fréttum, hvað er títt,
hvort er ég orðinn faðir?
Holdið mitt í hægum sess
hopaði sér til vansa,
nú er eg kominn á náðir prests,
nýtt er mér að dansa.
Lukkutjón þá að fer ört,
ekki er hægt að flýja;
betur hefði guð minn gjört
að gelda mig en vígja.
Vísurnar eru fleiri í sama dúr
og koma sjálfsagt mörgum
manninum í opna skjöldu, sér-
staklega þar sem það var prestur
sem kvað þær. Síra Jón gerir nap-
urt grín að sjálfum sér. Hann veit
af breyskleika sínum og reynir
ekki að breiða yfir mistökin með
iðrunarfullum ljóðum og afsök-
unarbeiðnum. Og hann gat bitið
frá sér ef því var að skipta og má
vísa til sálmabókardeilunnar sem
margir þekkja og samskipta Jóns
og Magnúsar Stephensens.
Hjónabandsraunir
síra Jóns
Sama ár og Jón neyddist til að
láta af prestskap í Grunnavík
fékk Ólafur Ólafsson (Olavius)
leyfi konungs til að setja prent-
smiðju í Hrappsey og var hún
flutt til íslands 1773. Eitt af því
sem fyrst var þar prentað voru
útleggingar Jóns Þorlákssonar á
kvæðum Túllíns og öðrum
dönskum smákvæðum. Jón starf-
aði þá við prentsmiðjuna og las
prófarkir.
Meðan Jón var í Hrappsey
varð hann ástfanginn af Margréti
dóttur Boga bónda Benedikts-
sonar og fékk hennar. Þau fóru
að búa í Galtardal og „gekk
búskapur þeirra mæðulega og
samfarir ekki síður.“ (bls. 14).
„Andstreymi það, sem sífelt
þreytti hann á þessum árum, hef-
ir mikið bugað glaðlyndi hans, og
gjört hugarfar hans alvarlegra, en
þó ekki svo, að hann yrði hug-
sjúkur, hversu sem gekk, og mun
hann hafa litið til þess, að hann var
gamansamur og ræðinn, þegar
hann kallaði sig í gamni Galtar-
dalskrumma." (bls. 15).
Fyrir tilstuðlan Árna prests
Þórarinssonar fékk Jón Þorláks-
son uppreisn æru með konungs-
bréfi, dagsettu 11. ágúst 1786,
með því skilyrði að hann mætti
ekki vera prestur í Skálholtsum-
dæmi. Árið 1788 andaðist prest-
urinn að Bægisá í Eyjafjarðar-
sýslu, Árni Tómasson, og fékk
síra Jón brauðið.
Margrét vildi ekki fara norður
og var settur skilnaðardómur í
málið. Niðurstaða fékkst engin,
en Margrét bjó fyrir vestan í
Galtardal þar til hún andaðist
veturinn 1808. Ástæðan fyrir því
að Jón fékk ekki eiginkonu sína
til þess að koma norður að Bægisá
mun vera sú að hún vildi ekki
yfirgefa hlunnindin við Breiða-
fjörð fyrir harðindin í Öxnadaln-
um.
Bæsár-Skalli
Jóni kynntist fljótlega mætum
mönnum fyrir norðan, sem urðu
vinir hans og hjálparhellur. Má
þar nefna Stefán amtmann Þórar-
insson, Magnús prófast Erlends-
son og Einar Hjaltesteð á Akur-
eyri. Af kvæðum má sjá að þeir
hafa styrkt hann á allan hátt þótt
ekki hafi hann kvartað, hversu
bágt sem hann átti.
Síra Jón var þekkt skáld á
þessum árum og helstu fræði-
menn og skáld dáðust mjög að
snilli hans. Hann var afkasta-
mikill þýðandi eftir að hann tók
við Bægisá og árið 1805 lauk
hann við Paradísarmissi Miltons.
í kringum sextugsaldurinn tók
hugur hans að þyngjast og heils-
an að bila. Hann varð að taka sér
kapellán 1803 og má geta þess að
það var Hallgrímur Þorsteinsson,
faðir Jónasar Hallgrímssonar.
Glettnin vék þó aldrei langt frá
Jóni. Hann gerði sem fyrr grín að
sjálfum sér og kallaði sig Bæsár-
Skalla, auk þess sem hann kallaði
fúna líkamshluta sína ýmsunt
ónefnunt. Síra Jón andaðist 21.
október 1819 á 75. aldursári. Þá
hafði Danakonungur nýlega
ánafnað honum 40 dala styrk á
ári hverju, auk þess sem félag í
Englandi sendi honurn fé, en
ekki fékk hann notið þessa heið-
urs og fjármuna nerna í nokkra
mánuði.
Glannalegur kveðskapur
Að lokum skulum við skemmta
okkur yfir nokkrum vísum síra
Jóns. Fyrst er hér vísa sem gæti
bent til þess að Jón hafi verið
kraftaskáld, þótt ekki hafi það
orð farið af klerknum. Það var
einu sinnu um vetur að síra Jón
var staddur á Akureyri, eftir að
hann var orðinn gamall og haltur,
og sá hann þar að einhver var að
henda gaman að helti hans og
hermdi eftir honum í göngulagi.
Varð honum þá skapbrátt og
kvað:
Pú, sem mæddum manni geð
meðir án saka og raka,
annað eins hefir áður skeð
og þú rækir niður hnéð
á kaldan klaka.
Maðurinn fór fram í Eyjafjörð
um kvöldið, en skrikaði fótur fyr-
ir neðan Kjarna og féll, svo að af
gekk leggjarhöfuðið og lá hann í
því hálfan vetur.
Karl nokkur sagði að gaman
væri að reka fingurinn í ginu þá á
loftinu er honum sýndist vindur
úr standa. Þá kvað síra Jón:
Fingurinn í golugat
gaman er að sperra,
þar við mundi frís og frat,
Fomljóts arfa þverra.
Hönd mín stirð við þukl og þauf,
þarf ei slíkt að reyna,
því að varla rétt á rauf
ratað get eg neina.
Um Ragnheiði Gísladóttur,
sem var á Leirá, móðursystur
Gísla hreppstjóra á Kröggólfs-
stöðum, kvað síra Jón:
Ein er stúlkan yndisleg
öðrum vífum fegri,
hana vildi eiga eg,
efhún væri megri.
Segjum við þá skilið við
glannalegan kveðskap síra Jóns
Þorlákssonar. SS
(Heimild: Jón Þorláksson - Dánarminning,
Reykjavík 1919)