Dagur - 25.11.1992, Blaðsíða 4

Dagur - 25.11.1992, Blaðsíða 4
4 - DAGUR - Miðvikudagur 25. nóvember 1992 ÚTGEFANDI: DAGSPRENT HF. SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31, PÓSTHÓLF 58, AKUREYRI, SÍMI: 96-24222 ÁSKRIFT KR. 1200 Á MÁNUÐI LAUSASÖLUVERÐ KR. 110 GRUNNVERÐ DÁLKSENTIMNETRA 765 KR. RITSTJÓRI: BRAGIV. BERGMANN (ÁBM.) FRÉTTASTJÓRI: KRISTJÁN KRISTJÁNSSON BLAÐAMENN: GEIR A. GUÐSTEINSSON, HALLDÓR ARINBJARNARSON (íþróttir), INGIBJÖRG MAGNÚSDÓTTIR (Húsavík vs. 96-41585), JÓHANN ÓLAFUR HALLDÓRSSON, ÓLI G. JÓHANNSSON, ÓSKAR ÞÓR HALLDÓRSSON, SIGRÍÐUR ÞORGRÍMSDÓTTIR (Sauðárkróki vs. 95-35960, fax 95-36130), STEFÁN SÆMUNDSSON, ÞÓRÐUR INGIMARSSON LJÓSMYNDARI: ROBYN ANNE REDMAN PRÓFARKALESTUR: SVAVAR OTTESEN ÚTLITSHÖNNUN: RÍKARÐUR B. JÓNASSON AUGLÝSINGASTJÓRI: FRÍMANN FRÍMANNSSON DREIFINGARSTJÓRI: HAFDÍS FREYJA RÖGNVALDSDÓTTIR, HEIMASÍMI 25165 FRAMKVÆMDASTJÓRI: HÖRÐUR BLÖNDAL PRENTVINNSLA: DAGSPRENT HF. SÍMFAX: 96-27639 Að vinna gegn eigin orðum Einn þeirra fimm meginþátta, sem efnahagspakki ríkis- stjórnarinnar byggist á er álagning 14% virðisaukaskatts á nokkra liði er undanþegnir hafa verið slíkum skatti. í fyrsta lagi má þar nefna fólksflutninga og hótelgistingu frá 1. september 1993. Þá útgáfu blaða og tímarita frá 1. júlí 1993 og á húshitun og afnotagjald ljósvakamiðla frá 1. janúar 1993. Álagning virðisaukaskatts á alla þessa liði mun valda erfiðleikum og óhagræði, sem á þessari stundu er óvíst til hvers muni leiða. Ferðaþjónustan hefur verið einn helsti vaxtarbroddur- inn í atvinnulífi landsmanna. Stjórnmálamenn hafa gælt við hana öðru fremur þegar þeir hafa séð sig knúna til að ræða um nýsköpun í atvinnulífinu. ísland er dýrt ferða- mannaland, sem nú á í vaxandi samkeppni við ódýrari ferðamarkaði - einkum í löndum hinnar nýfrjálsu Austur- Evrópu. Að undanförnu hafa þær spurningar gerst áleitn- ar hvort verðlag ferðaþjónustu hér á landi sé þegar orðið of hátt. Hvort leita verði leiða til að lækka einstaka þjón- ustuliði og koma á þann hátt til móts við kröfur erlendra gesta okkar. Með hinum nýja skatti, 14% virðisaukaskatti á fólksflutninga og hótelgistingu eru stjórnmálamenn að vinna gegn slíkum hugmyndum og þeir eru einnig að vinna gegn eigin orðum er þeir viðhafa á tillidögum. Auknar opinberar álögur á útgáfu bóka, blaða og tíma- rita munu einnig skapa vanda. Margvísleg útgáfu- starfsemi hefur barist í bökkum á undanförnum árum og má því ekki við aukinni skattheimtu. Útgáfustarfseminni er þó ætlað mikilvægt hlutverk í samfélagi voru. Henni er ætlað að varðveita og efla þann menningararf, sem íslenskar bókmenntir og íslensk tunga eru. Á dögum sífellt vaxandi áhrifa erlendra fjölmiðla verður að gæta vel að þeirri vörn sem tungumálið er hvað menningu okk- ar snertir. Slíkt verður ekki gert á annan hátt en standa vörð um útgáfu ritaðs máls á íslenskri tungu. Á góðum stundum vitna stjórnmálamennirnir til íslenskrar menningar og tala um nauðsyn þess að varðveita hana. Á öðrum stundum ráðast þeir að henni með skattlagningu, sem hún á í erfiðleikum með að bera. Á þann hátt eru þeir einnig að vinna gegn eigin orðum. Stjómmálamönnum er tamt að tala um jafnrétti og jafna aðstöðu þegnanna. í fallegum ræðum láta þeir í ljósi skoðanir um að allir eigi að búa við sambærileg kjör - hvar á landinu sem þeir búa. Með álagningu 14% virðis- aukaskatts á húshitunarkostnað er hins vegar verið að framkvæma meiri ójöfnuð á milli fólks eftir búsetu en áður hefur orðið í einu stökki. Eins og fram kemur í frétt í Degi í dag þá hækkar húshitunarkostnaður á Akureyri um 11,8% vegna virðisaukaskattsins á meðan þau útgjöld hækka aðeins um rúm 5% á Reykjavíkursvæðinu. Fleiri dæmi um hrópandi ójöfnuð af þessu tagi er að finna í útreikningum um á hvern hátt þessi skattur leggst á landsmenn. Að meirihluta kemur hann verr við þá sem á landsbyggðinni búa þótt finna megi þar undantekningar. Virðisaukaskatturinn á hitun húsa er sérstaklega köld kveðja til Akureyringa og annarra er búa við hæst verð á heitu vatni eða kynda með raforku. Tæpast verður annað séð en grípa verði til hliðarráðstafana og jafna þennan kostnað á meðal landsmanna. í þessu dæmi - ekki síður en í hinum sem að framan eru tilgreind - gætir mikils ósamræmis á milli orða og gerða núverandi stjórnarherra. Þeir virðast leika þá list með ágætum að vinna gegn eigin orðum. ÞI Sameining sveitarfélaga: Nýjasta heilagsandahoppið Sameining sveitarfélaga er ekkert nýtt mál. Frá því að ný sveitar- stjórnarlög tóku gildi fyrir sex árum hefur sveitarfélögum fækk- að um 12% og það hefur gerst með sameiningu. Þá voru sveitar- félög í landinu alls 223 en eru nú 197. Þessi þróun er enn í gangi á grundvelli núverandi laga og að óbreyttu mun sveitarfélögum halda áfram að fækka. Mest hef- ur fækkunin orðið á Vestfjörð- um, en þar eru nú 24 sveitarfélög og hefur fækkað um átta. A Suðurlandi hefur fækkað um 5 sveitarfélög, fjögur á Norður- landi eystra og Austurlandi hvoru um sig, þrjú á Norðurlandi vestra og tvö á Vesturlandi. Eng- in fækkun hefur hins vegar orðið í Reykjaneskjördæmi. Sameining sveitarfélaga er því engin ný uppfinning, í þeim efn- um er löngu búið að finna upp hjólið. Nýleg lög um verka- skiptingu og tekjustofna Tilfærsla verkefna frá ríki til sveitarfélaga og tekjustofnar með, er heldur engin ný bóla. Fyrir tæpum þremur árum tóku gildi ný lög um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og einnig ný lög um tekjustofna sveitarfélaga. Undirbúningur hafði staðið í nokur ár í samráði við Samband íslenskra sveitarfé- laga. Sérstök verkaskiptinga- nefnd skilaði af sér álitsgerð 1980, önnur nefnd skilaði skýrslu 1983 og tvær nefndir skiluðu skýrslu 1987, þar sem voru beinar tillögur um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og úttekt á fjármálalegum áhrifum breyting- anna. í framhaldi af starfi síðast- nefndu nefndanna voru áður- nefnd lög sett og eru þau í megin- atriðum byggð á tillögunum frá 1987. Verkefnatilflutningur og breyt- ing á tekjustofnum sveitarfélaga er því ekki heldur nein ný upp- finning, þvert á móti er nýlega búið að framkvæma slíka breyt- ingu og menn eiga eftir að meta árangurinn af henni. Fámenni sveitarfélaga ekki hindrun fyrir nýjum verkefnum í skýrslu nefndar félagsmálaráð- herra frá 1987, sem fjallaði um breytingar á verkefnum sveitar- félaga, er bent á að sveitarfélög hafi mikla reynslu af samvinnu og þar segir orðrétt: „Sú samvinna hefur yfirleitt gengið vel þrátt fyrir mismunandi íbúafjölda og fámenni margra sveitarfélaga. Ekki verður því séð að fámenni sveitarfélaga sé sá Þrándur í Götu, að það komi í veg fyrir framkvæmd tillagna nefndarinnar." Kristinn H. Gunnarsson. „Það vantar allan rökstuðn- ing fyrir þeirri trúboðsher- ferð sem nú stendur yfir um sameiningu sveitarfélaga og í skýrslu sveitarfélaganefndar er vikið til hliðar ýmsum niðurstöðum sem samtök sveitarfélaga höfðu áður komist að og það nýlega. Eg tek því með varúð við þessu nýjasta heilagsanda- hoppi félagsmálaráðherra og tel nauðsynlegt að rökræða forsendur að tillögugerð nefndarinnar og beina um- ræðunni inn á annað spor.“ Helstu baráttumálin í höfn og fámenn sveitarfélög geta veitt þá þjónustu sem krafíst er Þá segir í skýrslu stjórnar Sam- bands íslenskra sveitarfélaga til XIV. landsþings sem haldið var í september 1990 eða fyrir tveimur árum: „Um áramótin 1989-1990 voru gerðar víðtækar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitar- félaga til verulegs hagræðis í stjórnkerfinu. í kjölfar þeirra breytinga öðluðust gildi ný lög um tekjustofna sveitarfélaga með ákvæðum um Jöfnunarsjóð sveit- arfélaga, sem að flestra dómi get- ur skipt sköpum um að gera minni sveitarfélögunum fjárhags- lega kleift að sjá íbúum sínum fyrir þeirri þjónustu, er samfé- lagshættir nútíma þjóðfélags krefjast. Með þeim árangri, sem náðst hefur í þessum efnum, hafa helstu baráttumál sambandsins fyrir hönd sveitarfélaga landsins komist í höfn.“ Það er hvorki meira né minna, breytingarnar gera sveitarfé- lögunum kleift að veita þá þjón- ustu sem krafist er í dag og öll helstu baráttumál sveitarfélaga hafa komist í höfn, og sveitarfé- lögin geta leyst úr verkefnum sín- um með samvinnu. Rökin vantar Með þessa forsögu málsins í huga er að mínu mati eðlilegt að efast um gildi þeirra fullyrðinga, sem nú er slegið fram, að stórfelld sameining sveitarfélaga strax sé lífsspursmál fyrir landsbyggðina og forsenda frekari verkefnatil- færslu. Það vantar allan rökstuðning fyrir þeirri trúboðsherferð sem nú stendur yfir um sameiningu sveitarfélaga og í skýrslu sveitar- félaganefndar er vikið til hliðar ýmsum niðurstöðum sem samtök sveitarfélaga höfðu áður komist að og það nýlega. Ég tek því með varúð við þessu nýjasta heilagsandahoppi félags- málaráðherrans og tel nauðsyn- íegt að rökræða forsendur að til- lögugerð nefndarinnar og beina umræðunni inn á annað spor. Þar þarf fyrst að gera upp reynsluna af síðustu breytingum og fjalla um efnið út frá því sjónarhorni að leita að leiðum sem styrkja samfellda byggð um landið. Fyrsta skrefið er að endurskoða alla stjórnsýsluna, bæði ríkis og sveitarfélaga, markmið hennar og leiðir. í þeirri umræðu er sam- eining sveitarfélaga ekkert tabú, en sameiningin verður að vera afleiðing öflugrar byggðastefnu en getur ekki verið bjargráð landsbyggðarinnar ein og sér. Hvað ber að gera? Fyrsta skrefið til skaplegrar umræðu er að leggja til hliðar öll áform um lögþvingun og í þess stað að virða rétt fbúa hvers sveitarfélags til að ráða sinni framtíð. Til þess að ná því fram verður að slá af þau áform að keyra málið í gegn sveitarfélaga- megin frá á tveimur mánuðum. Sá hraðakstur gerir ekkert annað en að spilla fyrir málinu. Sveitar- félögin og íbúar þeirra þurfa meiri tíma til umræðu um málið en gefinn er og það er alveg út í hött að ætla sér að hafa lokið öll- um sameiningarferlinum fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar, til þess er málið of viðamikið. Síðast en ekki síst þarf að endur- skoða skýrslu sveitarfélaganefnd- arinnar og tillögur hennar frá grunni, en umfjöllun um það er efni í aðra grein. Kristinn H. Gunnarsson. Höfundur er alþingismaður fyrir Alþýðu- bandalagið í Vestfjarðakjördæmi. „0ddasteftia“ haldin um næstu helgi - ráðstefna á vegum samtaka áhugamanna um endurreisn Odda á Rangárvöllum Oddafélagið, samtök áhuga- manna um endurreisn Odda á Rangárvöllum, var stofnað fullveldisdaginn 1. desember 1990. Fyrsta ráðstefnan á veg- um félagsins, Oddastefna, verður haldin laugardaginn 28. nóvember nk. í Gunnarsholti, í boði Landgræðslu ríkisins. Friðjón Guðröðarson, sýslu- maður Rangæinga, setur ráð- stefnuna kl. 11.00 árdegis. Aðrir sem flytja ávörp og erindi á Oddastefnu eru: Sveinn Runólfs- son, landgræðslustjóri; sr. Jónas Gíslason, vígslubiskup; Frey- steinn Sigurðsson, jarðfræðingur; Þór Jakobsson, veðurfræðingur; Valgeir Sigurðsson, fræðimaður; Hreinn Haraldsson, jarðfræðing- ur; Helgi Þorláksson, sagnfræð- ingur; Þórður Tómasson, safn- vörður og Páll Imsland, jarð- fræðingur. Áætlað er að Odda- stefnu ljúki um kl. 17.00. „Ráðstefnan er ætluð almenn- ingi og fræðimönnum með áhuga á sameiginlegum verkefnum fræðigreina,“ segir m.a. í frétt frá Oddafélaginu. Þátttaka tilkynnist í Gunnarsholt í síma 98-75088 eða til Þórs Jakobssonar, for- manns Oddafélagsins, í síma 91- 31487 eða 91-600600.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.