Dagur - 03.04.1993, Blaðsíða 15

Dagur - 03.04.1993, Blaðsíða 15
Laugardagur 3. apríl 1993 - DAGUR - 15 Unglingaleikklúbburinn Saga á Akureyri: Tekur þátt í samnorrænu leiklistarverkeM í sumar - frumsýning á Akureyri í júlí - æfmgaferð til Danmerkur um páskana Félagar í Leikklúbbnum Sögu bregða á leik fyrir framan Dynheima sl. mið- vikudag. Um páskana munu 13 ung- menni, félagar í Leikklúbbn- um Sögu á Akureyri, dveljast í Humlebek á Sjálandi viö æfingar á samnorrænu leik- verkefni. Verkefnið nefnist FENRIS og er unnið af áhuga- leikfólki frá Danmörku, Nor- egi, Svíþjóð, Finnlandi og Færeyjum auk þess sem Leik- klúbburinn Saga frá Akureyri og leikklúbbur frá Síberíu taka þátt í því. Aformað er að sýn- ingar FENRIS-hópsins verði í júlí og hefjist með frumsýn- ingu á Akureyri 9. júlí en síðan verði ein sýning í Reykjavík áður en haldið verður utan og sýnt í heimabæjum þeirra leiklistarklúbba á Norður- löndunum er taka þátt í verk- efninu. Hinir norrænu þátttak- endur munu dvelja hér á landi um tveggja vikna skeið. Jafn- framt æfingafcrð til Danmerk- ur nú um páskana eru félagar í Leikklúbbnum Sögu að hefja fjáröflun til þessa verkefnis en það verður meðal annars gert með því að leita eftir fjárstuðn- ingi á meðal fyrirtækja auk þess sem Sögumeðlimir hyggj- ast selja styrktarmönnum kflómetra af þeirri lögnu leið sem er fyrir höndum. Ætlunin er að gefa þeim er vilja styrkja leikklúbbinn til þessa verkefnis kost á að kaupa tvo, fímm eða tíu kflómetra á sanngjörnu verði. FENRIS er sameiginlegt nor- rænt verkefni sjö unglingaleik- hópa og er þetta í þriðja sinn sem efnt er til þess en það fór fyrst af stað árið 1985 en nafnið er sótt í norræna goðafræði. Samvinnan við það verkefni gaf svo góða raun að ákveðið var halda áfram á þessari braut. Næstu þrjú árin fóru í undirbúning og sumarið 1989 heimsóttu um 100 ungir áhugaleikarar sex Norðurlönd með stóra leiklistarsýningu. Sem fyrr segir er FENRIS þrjú nú í undirbúningi og taka rúmlega eitt hundrað ungir leiklistar- áhugamenn frá öllum Norður- löndunum þátt í verkefninu. Leikklúbburinn Saga hefur tekið þátt í öllum þremur FENRIS- verkefnunum. Pað verkefni sem FENRIS- hóparnir vinna að um þessar mundir byggist að miklum hluta á sjálfstæðum undirbúningi hvers hóps um sig en síðan verða atrið- in tengd saman með tónlist en sérstakur hópur tónlistarmanna mun annast flutning tónlistar. Enginn eiginlegur texti verður í verkinu - hcldur nota leikarar látbragðsformið og spuna auk þess sem tónlistin skipar veiga- mikið hlutverk í uppfærslunni. Thema sýningarinnar er spurn- ingin hvað verði um Móður Jörð í framtíðinni og með því ætla áhugaleikhóparnir að fjalla um umhverfismál. Með æfingabúð- unum í Humlebek nú um pásk- ana er ætlunin að samhæfa og æfa þá vinnu sem hver leikhópur hef- ur verið að þróa. Er þetta í fyrsta sinn sem FENRIS-leikhópar hitt- ast til æfinga fyrir eiginlegar sýn- ingar. í byrjun júlímánaðar koma leikhóparnir saman á Akureyri og eftir lokaæfingar verður verk- ið frumsýnt þar, að öllum líkind- um 9. júlí. Að loknum sýningum á íslandi heldur allur hópurinn til Noregs þar sem verkið verður ;sýnt í Nittedal, fyrir utan Osló, en þaðan kemur einn unglinga- áhugaleikhópurinn. Síðan verður haldið til Sala í Svíþjóð en ferð- inni lýkur með sýningu í Humle- bek í Danmörku. Leikklúbburinn Saga var stofn- aður 1976 eftir leiklistarnámskeið sem haldið var á vegum Æsku- lýðsráðs Akureyrar. Klúbburinn hefur starfað af fullum krafti síð- an og eru félagar í honum á aldr- inum 13 til 31 árs. f>ess má þó geta að til að taka þátt í FENRIS er ætlast til að ungmennin séu orðin 16 ára. Leikklúbburinn hefur aðsetur í Dynheimum á Akureyri og hefur að jafnaði ver- ið sett upp eitt verk á ári. Þá hafa einnig verið haldin leiklistarnám- skeið á hverju ári. Leikfélag Akureyrar hefur yfirleitt útvegað leikklúbbnum leikstjóra og hefur Sigurjón Heimir Albertsson, leikari hjá leikfélaginu, annast leikstjórn hjá Sögu í vetur. Þau Sólveig Tryggvadóttir og Páll Tómas Finnsson, meðlimir í Leikklúbbnum Sögu, sögðu mik- inn kraft í krökkunum er störf- uðu með klúbbnum og mikla ánægju ríkja með undirbúning að þessu verkefni. Fjárhagsdæmið væri erfitt og því nauðsynlegt að afla fjár til þess. Nú væri sérstakt fjáröflunarátak að fara af stað þar sem meðal annars verði lögð áhersla á að afla styrktarmeðlima með því að selja ákveðna kíló- metra á þeirri leið sem leikhópur- inn verður að leggja að baki í sumar. Aðspurð sögðu þau að ekki væri enn búið að reikna vegalengdina út en hún væri meðal annars hringurinn í kring- um ísland. Akstur frá Esbjerg í Danmörku, þaðan sem farið væri frá borði Norrænu, til Oslóar- svæðisins í Noregi, þaðan til Sví- þjóðar og síðan aftur til Dan- merkur. Þau kváðust vonast til góðra undirtekta við kílómetra- sölunni. Að lokinni æfingaferð- inni til Humlebek nú um páskana mun hópurinn frá Akureyri vinna áfram að verkefninu hér heima þar til í byrjun júlí að allir hóp- arnir hittast hér og leggja loka- hönd á undirbúning fyrir frum- sýninguna, sem er fyrirhuguð 9. júlí eins og að framan greinir. ÞI Minning tGuðrún Jóhannesdóttir Fædd 21. september 1904 - Dáin 23. mars 1993 Elskuleg vinkona mín, Guðrún Jóhannesdóttir, lést að morgni 23. mars síðastliðinn. Útför hennar fer fram frá Glerárkirkju á Akureyri í dag. Verður það fyrsta jarðarför er fram fer frá kirkjunni síðan lokið var við frá- gang kirkjuskipsins. Hún hafði fylgst með byggingu hennar af miklum áhuga frá upphafi og sótti oft guðsþjónustur meðan þær fóru fram í hliðarálmu kirkj- unnar. Árið 1981 var dóttursonur hennar, Pálmi Matthíasson, kos- inn prestur í hinu nýstofnaða Glerárprestakalli og fluttum við þá til Akureyrar ásamt dóttur okkar, Hönnu Maríu. Guðrún var fædd í Litla-Laug- ardal í Tálknafirði þar sem hún ólst upp í stórum og samheldnum systkinahópi. Af þessum stóra hópi eru nú á lífi, Þorbjörg, Páll og Guðjón, búsett á Patreksfirði og Friðrika búsett í Reykjavík. Guðrún var ung stúlka, er hún réð sig í vist til föðursystur sinnar, Gíslínu Friðriksdóttur og Stefáns Jónassonar, útgerðar- manns á Akureyri. Guðrún var „betri stofustúlka" eins og það hét þá og sinnti almennum heim- ilisstörfum auk þess sem hún var flink í höndunum og gat saumað og prjónað á húsmóðurina og börnin á heimilinu eftir óskum. Það var ekki laust við að sumar frúrnar öfunduðu Gíslínu af stúlkunni, þegar lítið var af til- búnum fatnaði á boðstólum. Heimili Gíslínu og Stefáns var mannmargt, myndar- og rausnar- heimili. Á heimilinu voru ungir sjómenn af skipum húsbóndans og kom það í hlut Guðrúnar að bera mat á borð fyrir þá. Þarna var meðal annarra ungur maður, Pálmi Friðriksson, sviphlýr með glettið blik í augum. Ekki leið á löngu áður en hann var farinn að renna hýru auga til þessarar fal- legu, ungu stúlku. Það var tekið eftir henni eins og reyndar hinum systrum hennar fyrir það hve lag- legar þær voru og báru sig vel. Þetta sá Pálmi líka og gengu þau Guðrún í hjónaband nokkru síð- ar og stofnuðu sitt heimili á Akureyri. Heimili þeirra var í Gránufélagsgötu 5 og var móðir Pálma, Anna Guðmundsdóttir, í heimili með þeim. Þau voru elskuleg hjón og fal- leg og það var sem allir hlutir yrðu fegurri \ návist þeirra. Þann- ig var persóna þeirra beggja og framkoma. Guðrún hafði hlýja og nota- lega framkomu og hafði alveg sérstakt jafnaðargeð. Henni lét vel að annast um sjúka og var oft fengin til aðstoðar á heimili þar sem veikindi voru. Hefðu að- stæður verið aðrar, þegar hún var ung, sagði hún mér að sig hefði langað að læra hjúkrun. Það varð nú ekki en hennar nánustu fengu notið umhyggju hennar í ríkum mæli. Þau Guðrún og Pálmi eignuð- ust fjögur börn. Elst er tengda- móðir mín, Jóhanna María, gift Matthíasi Einarssyni og eru þeirra synir Pálmi, Stefán Einar og Gunnar Rúnar. Andrea var næstelst, gift Bjarna Jónssyni, hún lést úr krabbameini langt fyr- ir aldur fram og eru dætur hennar Guðrún og Rósa. Næst er Guð- björg, gift Gunnari M. Guð- mundssyni og þeirra börn eru Hörður, Bragi og Anna Guðrún. Yngstur er Jóhannes, kvæntur Jóhönnu Árnadóttur og dætur þeirra eru Magný, Guðrún og Auður. Langömmubörnin eru líka orðin mörg og sakna þess að fá ekki lengur að hlaupa í fangið á langömmu og finna hlýjuna hennar. Það var alltaf notalegt að koma til Guðrúnar í eldhúsið og þiggja veitingar. Þar var aldrei kaffisop- inn einn, heldur fylgdu með aðr- ar „trakteringar". Hún hafði metnað í því að bera vel á borð fyrir heimilisfólk og gesti. Stund- um þegar ég rakst óvænt inn var búið að leggja á borð og þá fann hún á sér að mín væri von. Þetta átti ekki bara við um gestakomur, hún þurfti engin orð til að vita hvernig sínu fólki leið. Hún heyrði hljóminn í röddinni eða blikið í augunum og það var henni nóg. Oft sagði hún mér frá draumum sínum og höfðum við oft gaman af að reyna að ráða úr þeim í sameiningu. Hún var ber- dreymin og fátt kom henni á óvart í lífinu. Þannig hafði hún kvatt sína nánustu og gengið frá sínum mál- um áður en kallið kom. Nú síðast er ég var hjá henni fyrir nokkrum vikum, þá spurði hún um hagi okkar, sem fyrr. Einnig varð henni tíðrætt um Glerárkirkju og það hvort kirkjuskipið, sem vígt var fyrir jólin væri ekki fallegt. Hún fagnaði þessum áfanga, því það átti aldrei vel við hana, að vita af verki, sem ekki væri lokið. Enda þótt Guðrúnu auðnaðist ekki að sjá kirkjuna fullgerða, þá fylgjum við henni þar í dag síð- ustu sporin og biðjum góðan Guð að blessa minningu hennar. Unnur Ólafsdóttir. Athugasemd ritstjóra Greinin hér að ofan, átti að birt- ast í blaðinu í gær, ásamt öðrum minningargreinum um Guðrúnu Jóhannesdóttur. Vegna mistaka við vinnslu blaðsins fórst birting þessar einu greinar hins vegar fyrir. Um leið og við biðjum hlut- aðeigandi velvirðingar á mis- tökunum, gerum við undantekn- ingu frá þeirri reglu, að birta ekki minningargreinar í helgarblaði Dags. Ritstj. Móðir okkar, tengdamóðir og amma, ESTER MARTEINSDÓTTIR, áður til heimilis Fögruvöllum, Glerárhverfi, verður jarðsungin frá Akureyrarkirkju mánudaginn 5. apríl kl. 13.30. Einar Gunnlaugsson, Kristín Gunnlaugsdóttir, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.