Þjóðviljinn - 16.12.1988, Page 24

Þjóðviljinn - 16.12.1988, Page 24
Kominn í bland við tröllin Ólafur Jóhann Ólafsson. Markaðstorg guðanna. Vaka Helgafell 1988. í þessari fyrstu skáldsögu sinni greinir Ólafur Jóhann Ólafsson frá ungum íslendingi, Friðriki Jónssyni, sem segir sínar farir ekki sléttar. Hann nam guðfræði heima á Fróni, hélt til framhalds- náms í heimspeki í Boston, lauk doktorsprófi, kvæntist þarlendri, fór að kenna. En tengdafaðir hans er forríkur skratti í tengslum við japanskt stórfyrirtæki og hann freistar Friðriks til að ráða sig þangað og hann hnusar af valdi auðsins og lætur sér vel líka. Samt gengur hann ekki heill til þessa leiks, ísland feðra hans togar í hann hve mjög sem hann reynir að hrista þann trega af sér. Og svo er ilmur auðvaldsins í raun fnykur eins og menn hafa löngum vitað: Friðrik situr á laumulegri skrifstofu ásamt sín- um, Tékkanum Berkovich, og fæst við fyrirtækjanjósnir fyrir Japani, sem lúta m.a. að því með hvaða hætti megi gleypa banda- rísk fyrirtæki. Friðrik gerir sína uppreisn, hann svíkur sína herra, leikur tveim skjöldum - en sá fá- kæni mörlandi skal ekki komast upp með það og ósigur blasir við áður en lýkur. Það er margt athyglisvert við þetta nútímaævintýri um íslend- inginn sem EKKI vann sér frægð og frama sem „víkingur andans um sali og hirðir“ (ein háðsglósa bókarinnar er sú, að fólkið heima heldur náttúrlega að hann hafi sigrað heiminn). Ekki þar fyrir: ýmsa missmíð má sjá á þessari fyrstu skáldsögu Ólafs, sem hlaut fyrir tveim árum góðar viðtökur þegar hann sendi frá sér smá- sögur. Þótt sagan sé af skynsemi og rökvísi saman sett, er ýmsu áfátt bæði um fléttuna sjálfa og forsendur fyrir því sem persónur gera. Til dæmis eru fyrirtækja- njósnirnar eins og full afstrakt fyrir lesandann, sem ekki fær að ÁRNI BERGMANN þukla á því hvernig slík iðja fer fram. Það virðist og nokkuð mis- ræmi í því að stundum er Friðrik sendur um álfuna þvera til að hvíslast á við annan njósnara - en stundum rignir yfir hann stór- hættulegum upplýsingum í sím- skeytaformi. Þá er lesandinn ekki alltaf sáttur við það vægi sem stórt og smátt fá í sögunni. Að vísu er reynt að setja undir þann leka í upphafi sögunnar með því að vísa til duttlunga minnisins, sem bregða upp „skuggamyndum og hálfdregnum línum“ af ýmsum stórviðburðum en sýna smámun- ina „svo ljósa að ég freistaði þess að snerta þá“. En engu að síður andmælir lesandinn því til dæmis., að það skuli alls ekkert liggja á þegar sagt er frá fyrstu heimsókn Friðriks til tengdaföður hans, sem leggur fyrir hann snörur hinna japönsku freistinga en síð- an stokkið yfir eftirmála hennar á rúmri blaðsíðu: hvernig Friðrik ákveður fjórum árum síðar að falla fyrir freistingunni, hvernig kona hans brást við og hvernig þau síðan taka stefnu hvort í sfna áttina. Ennfremur þetta: Ólafur Jó- hann Ólafsson vandar sig vel um málfar og hann stílar skynsam- lega. Um leið vill lesandinn kvarta um vissa stífni í rithætti og settleg bóklegheit, sem kannski eiga sér að hluta skýringu í löngum fjarvistum höfundar. Þau torvelda höfundinum að koma höndum yfir „allt það blinda æði“ sem leikur lausum hala í vitund hnípins landa vors í vanda í Amr- íkunni. Það sem nú er sagt kemur ekki í veg fyrir það að höfundinum tak- ist um margt vel í því að sýna hnignun og fall Friðriks Jóns- sonar. Heimspekinám hans og annað menningarstúss er ekki mikill þáttur í sögunni - en kemur þó við hana á sannfærandi hátt þegar tveir freistarar. tengda- pabbi og Indverjinnm málglaði (sem virðist hafa á lykla að öllum fyrirtækjum í vasanum) fegra sína græðgi, „þvo“ sína peninga með tilvísunum í skáldskap og Iistir. Það er og ágætlega rakið hvernig Friðrik svíkur vin sinn - fyrst í smáu - og þar með eru boðuð stærri svik, ekki síst við sjálfan sig. Og prýðilega skýrt birtist niðurlæging Friðriks í tveim mælskum atburðum. Bæði þegar hann barnar konu sína eins og í misgripum eftir að hann hafði neitað sér um skyndikonu á bar (vegna þess að hann þorði ekki að grípa til hennar fyrir vökulum augum fyrirtækisins) og þegar hið ljúfa líf uppana koðnar niður í leiðsögn fyrir háttsetta Japani á fáránlegar brjóstasýningar. Að leiðarlokum segir Friðrik : „Ég veit ekki hvort til er neitt sem ég get trúað á“. Það er einmitt rækilega undirbúið af höfundar hálfu, að Friðrik er ekki maður til að standa í uppgjöri og uppreisn - hann er sá sem afneitar vandan- um í lengstu lög eins og alki, hann slær öllu á frest og hann á sér ekkert til að styðjast við sem andsvari gegn því siðferði sem heimtað er af þjónum fyrirtækis- ins mikla. Því ástin, vináttan, list- in óarðbæra og svo land feðra hans, ekki má gleyma því - allt er týnt og tröllum gefið: sá sem rétt- ir fjandanum litla fingurinn.... Árni Bergmann Maður hangir í þessum djöfuls djöfli Eyvindur P. Eiríksson Eyvindur P. Eiríksson: Múkkinn, skáldsaga. Iðunn 1988. Það eru til margar sjómanna- bækur eins og menn vita. Sjó- slysasaga í tuttugu bindum, við- talsbækur við aflakónga fleiri en taldar verði. En það er furðulega sjaldgæft að sískrifandi fiski- mannaþjóð sjái skáldsögu sem sækir efnivið sinn til sjómennsku. Skáldsögulesarinn hefur lengst af fylgst með bóndanum, þorps- kónginum eða þá unga mannin- um (gjarna gengur hann með skáldskapargrillur) sem er að leita að sjálfum sér í annarlegri borg. Af þessum sökum fær fyrsta skáldsaga Eyvindar P.Eiríks- sonar strax sérstöðu: lesarinn hefur fátt til samanburðar. Hann er staddur á togara sem er gerður út frá litlu plássi á næstsíðustu kynslóð tæknibúnaðar. Sagan er einföld í sniðum: við kynnumst lífinu um borð, mest af sam- tölum, þar sem reynt er sem ræki- legast að fylgja „natúralisrna": strigakjaftur, klám, gálgahúmor fléttast inn í það hvunndagslega og endalausa strit sem þjóðar- búskapurinn reyndar hvílir á. Það gerist ekki margt annað í lífi skipverj a-þaðerkomiðí land og drukkið (og þær uppákomur eru langt frá þeim tilburðum til brennivínsdýrkunar sem stund- um eru reyndar) - einn skipverja er að byrja ástarævintýri - síðan ferst hann í illviðri og það er hald- ið áfram að segja sögur og klæm- ast og loks er eins og ekkert hafi gerst. Eða hvað? Er lífið svona grimmt? Já sjómennskan er ekk- ert grín, stendur þar. Kannski við getum fundið einhverja lyftingu í andstæðu togaralífsins sem alltaf er verið að skjóta inn öðru hvoru - í lýriskum lýsingum á hafinu og múkkanum og skipinu sem verð- ur lifandi vera á sínu gösli um sjóinn með mannabein í magan- um? Það getur verið. Múkkinn ber sterk einkenni kollektífskáldsögunnar - sögu sem stefnir meir af því að lýsa lífi hóps en einstaklinga. Við getum reynt að festa hugann við það, hvað hver sjómaður hefur til mál- anna að leggja - þarna er klám- kjafturinn, þarna einn Færeying- urinn, þarna er komminn, og hér er hann Maggi - en sú iðja er kannski ekki sérlega brýn. Radd- ir sjómannanna eru eins og til- brigði við stef sem er eitthvað á þessa leið: háskinn og þrældóm- urinn er hrakinn á brott með hálf- kæringi, einsemdin með klámi, pólitískur vanmáttur með þvf að lýsa frati á þetta djöfuls pakk í landi (og um leið kommadjöful- inn á vaktinni sem er með ein- hverjar ótímabærar meiningar). Sjálfsmatið hoppar á milli sjálfs- hafningar og glannalegrar sjálfs- fyrirlitningar: maður heldur kjafti og reddar landinu og hvert kemst maður svo sem: „maður hefur verið í þessum djöfuls djöfli síðan maður var strákur, eigjn- lega“. Kannski er þessi niður- staða hér einna nærtækust: „Skást var að leiða allt hjá sér, vonast ekki eftir neinu, verða litlu feginn, þrauka þanagð til maður sneri upp tánum“. Þetta hljómar allt sannferðug- lega, sá sem.er alinn upp í sjávar- plássi kannast við ótalmargt í tali og tóntegund þessa verks : svona var það, segir hann, eins þótt hann hafi ekki verið á sjó sjálfur. Og lesarinn gerir meira en taka lýsinguna góða og gilda, hún ger- ist oftar en ekki áleitin við hann með sínum salta þrótti. Ekki þar fyrir: ýmsa galla hefur bókin. Sagan verður kyrrstæð um of. Þegar á líður finnst lesandanum að skeytin sem ganga á milli manna séu hætt að bæta við heild- armyndina, skili honum ekki áfram. Hann efast ekki um að dagarnir eru hver öðrum líkir um borð, það er satt, en þeirri ein- hæfni má ekki slá inn í textann. Ástin (sem kemur yfir hann Magga mjög skyndilega eins og í draumi hins kvenmannslausa) verður ekki að þeim tíðindum sem skyldi, hún eins og hangir á milli Ævintýrsins sem hún á að vera og grófleikans og finni sér ekki stað. Þema fuglsins er held- ur ekki nógu fjölbreytilegt í út- færslu. Aftur á móti tekst höfundi einatt vel upp í stíl þegar hann gjörir skipið lifandi, einskonar tvíkynja tröll sem hefur séð fífil sinn fegri: „Verst var þó aðgerðaleysið, liggjandi við bryggju, bundinn í báða enda, geta sig ekki hreyft. Vita að þótt vélarnar væru spenntar til hins ýtrasta yrði ekki hægt að rífa sig burt, slíta vírana eða brjóta pollana, búandi við þann illa grun djúpt niðri í djúp- um vélarrúmsins eins og beinverk í kilinum, að við lok einmitt þessa túrs yrðu böndin varanleg og ekki leyst aftur, og hann fengi að grotna niður og liggja undir skemmdarverkum óprúttinna með brotna glugga og tættar hurðir, flagnandi málningu, ryðgaðar blokkir og trosnaða víra... Það var þessi grunur sem alltaf síaðist inn með skítugu hafnarskólpinu í hvert sinn sem bundið var við bryggju í ein- hverju plássinu og byrjað að landa“... Eyvindur Eiríksson hefur með verki sínu gert tvennt í senn: sannað að hann hefur þau tök á efnivið sem bjóða hann velkom- inn í flokk sagnasmiða. Um leið hefur hann gert fróðlega tilraun - með kollektífsögu, með söguefni af vettvangi sem fyrir skemmstu var sameign margra en er nú flestum lokaður heimur. Og vel á minnst : mikið væri gaman að komast að því hvað þeim finnst um slíka sögu sem í þeim heimi hafa lifað og lifa enn. Árni Bergmann 24 SÍÐA - NÝTT HELGARBLAÐ Föstudagur 16. desember 1988

x

Þjóðviljinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.