Þjóðviljinn - 28.07.1989, Blaðsíða 6

Þjóðviljinn - 28.07.1989, Blaðsíða 6
Loðdýrarœkt Gæti enn orðið stóriðnaður „Mennirnir vissu í rauninni ekkert um það sem þeir voru að fara út í. Það er ævinlega allt á sömu bókina lært hjá okkur hér á íslandi: það á að gleypa heiminn í einum bita og allir ætla að verða feitir og ríkir,“ sagði lífsreyndur feldskeri í Reykjavík þegar blaðamaður ræddi við hann um framtíðarhorfur í loðdýrabúskap landans. Flestir þeir sem biaðamaður spurði um loðdýraræktina, mark- aðshorfur og þekkingu manna á því sem þeir væru að fást við sögðu einum munni: ég var búinn að vara þá við, en þeir vildu ekki hlusta og hafa aldrei viljað hlusta! Hverjir vildu ekki hlusta? Eigendur búanna: Fjármála- menn í Reykjavík, bændur út um land, starfsmenn hagsmunasam- taka, ráðunautar. Loðskinna- markaðurinn er tískumarkaður. Þess vegna sveiflast hann upp og ofan, stundum er mikil eftirspurn eftir hvers konar skinnavöru, en svo kemur lægð. Þannig hefur það verið undanfarin hundrað ár og verður væntanlega í framtíð- inni. fslendingar eru ekki nógu stór og stöðug efnahagsheild til að takast á við þessar sveiflur. Það geta Danir kannski og Finnar - en ekki við. Draumur um stóriðju Milli styrjaldanna fyrr á öld- inni var stunduð nokkur loðdýra- rækt hér á landi. Eins og síðar varð raunin var fótunum kippt undan atvinnugreininni þegar verðhrun varð á mörkuðum og 1950 var loðdýraræktun einfald- lega bönnuð með lögum hér- lendis. Minkarækt hófst svo aftur hér eftir lagabreytingu um 1970 og gekk brösuglega - ekki fyrr en um 1980 að menn streymdu í atvinnugreinina til að bjarga sér undan hefðbundna búskapnum. „íslenskir bændur hafa aldrei kunnað almennilega til verka. Það er allt annað að hlaupa á eftir Iambfé eða mjólka kýr en að rækta loðdýr,“ sagði kokhraustur feldskeri í samtali við Þjóðvilja- mann. „Og þeir sóttu dýrin til Noregs. Norðmenn hafa aldrei náð tökum á þessu. Þeir eru með úrkynjaðan stofn. Það átti vita- skuld að tala við Kanadamenn, þeir eru manna best að sér í rækt- un loðdýra og meðhöndlun skinna." Engin stefna Margan bóndann og fjárafla- manninn dreymdi þegar í stað um mikinn gróða af loðdýrum enda er hér dýr vara á ferðinni. Einn minkapels hjá feldskera í Reykjavík kostar kringum 400 þúsund krónur. í hvern minka- pels þarf skinn af um það bil 50 minkum. í refapels fara um 14 skinn. Mönnum hefur því virst augljóst að allir þessir peningar sem hver flík kostaði myndu skila sér til framleiðenda - á endanum. Og að auki reiknuðu menn það fljótlega út að loðdýrarækt (refir og minkar) væri sérlega hagkvæm hér á landi vegna þess að hér væri fóðurkostnaður lægri en annars staðar (fiskúrgangur). Og menn þóttust sjá að nú væri hægt að búa til gjaldeyristekjur úr nánast engu. í vor sem leið unnu nokkrir nemendur í Samvinnuskólanum skýrslu um loðdýrarækt á íslandi. Þar segir meðal annars:„Upphaf- lega hafði verið áætlað að reka tilraunabú í nokkur ár til þess að fá reynslu og þróa atvinnu- greinina, sérstaklega hvað varðar refarækt. Ekki hafði verið mörk- uð stefna varðandi staðsetningu loðdýrabúa og fóðurstöðva. Fljótlega upp úr 1980 þóttust menn sjá að loðdýraræktin gæti orðið mjög arðvænleg og varð það til þess að margir beittu sér fyrir útbreiðslu hennar. Það á jafnt við um bændur, bænda- samtök, ráðamenn og aðra hagsmunaaðila, þó svo að í dag segi margir að bændum hafi verið att út í óvissuna. Þeir munu þó heldur ekki hafa verið lattir til þessa. Ekki var mótuð stefna varð- andi leyfisveitingar til loðdýra- ræktar og varð það til þess að allir fengu leyfi, sem um sóttu, burt séð frá hvað lá til grundvallar. Þetta leiddi til þess að loðdýrabú- um fjölgaði hratt og þau dreifðust stjórnlaust út um allt land og hið sama má segja um fóðurstöðv- arnar... Eftir að loðdýraræktin var far- in af stað og dreifing orðin mikil voru gerðar ýmsar skýrslur og út- tektir á greininni. Misvel var vandað til þeirra og niðurstöð- urnar urðu jafnvel til þess að auka erfiðleika loðdýrabúa, sem í raun höfðu góðar rekstrarfors- endur, m.a. út frá staðsetningu til fóðuröflunar. Þetta kom m.a. til vegna þess að höfundar skýrslna kynntu sér ekki nægilega vel stað- hætti og aðrar aðstæður viðkom- andi búa. Loks vilja loðdýraræktarmenn meina að vantað hafi heildar- stefnumörkun varðandi fram- leiðslu- og útflutningsgreinar í landinu, fyrst og fremst í gengis- og verðlagsmálum. Þetta er talin ein stærsta ástæða þess að loð- dýraræktin hefur gengið illa. Lítið um leiðbeiningar Eitt af vandamálunum sem upp komu í byrjun var að margir bændur, sem fóru af stað í loð- dýrarækt, vissu nánast ekkert hvað þeir voru að fara út í. f upphafi var fræðslustarf ekki nægilega vel uppbyggt. Allt of margir bændur létu undir höfuð leggjast að afla sér þeirrar þekk- ingar sem þó var boðið upp á. Þannig vissu sumir ekkert um það, þegar þeir fengu leyfi, hve- nær t.d. dýrin ættu að parast og meira að segja vissu sumir ekki hve oft á ári dýrin myndu gjóta! Margir loðdýraræktarmenn eru sammála um að í byrjun hafi fræðslumálum ekki verið gefinn nægilegur gaumur...“ segir m.a. í skýrslu fjögurra samvinnuskóla- nemenda frá í vor. Eitt stórbúa í landsfjórðungi Margir viðmælenda Þjóðvilj- ans tóku fram að vissulega væri auðvelt að vera vitur eftir á - en bentu jafnframt á að eðlilegt hefði verið að setja á stofn eitt stórt loðdýrabú í hverjum lands- fjórðungi. Þannig bú hefðu getað skapað mörgum vinnu og verið í eigu bænda, fyrirtækja og ann- arra á svæðinu sem hagsmuna hefðu að gæta. Ein bjartsýnisrödd í öllu því svartagallsrausi um loðskepnur sem blaðamanni var boðið upp á í vikunni, fór þó ekki svo að ekki fyndist ein bjartsýn raust. Hún tilheyrði Kristjáni Óskarssyni, framkvæmdastjóra Hagfelds hf. fyrirtækis loðdýra- bænda sem selur skinn gegnum Saga-mink, danska loðskinnafyr- irtækið. „Ég er ekki jafnsvartsýnn og allir aðrir virðast vera,“ sagði Kristján. „Ég hef orðið var við batamerki á loðskinnamarkaðn- um síðan í vetur. Ég spái því að refurinn sé nú þegar á uppleið, en minkurinn verður í lægð næsta árið eða svo. Menn voru farnir að offramleiða refaskinn, en nú hef- ur verið dregið verulega úr. Dan- irnir fjölguðu of mikið hjá sér - en eru nú farnir að kippa að sér hendinni aftur. En þótt markað- urinn taki við sér aftur, þá þarf fleira að koma til eigi að bjarga þessari búgrein. Það hefur til dæmis gleymst í þessari umræðu hvers vegna þessi búskapur var í upphafi talinn hagkvæmur. Hér er fóður til dæmis dýrt þótt hrá- efniskostnaður sé lágur. Væri fóðurkostnaður minni gætum við frekar staðið af okkur dýfur á markaðnum." -GG 6 SIÐA - NÝTT HELGARBLAÐ Föstudagur 28. júlí 1989

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.