Þjóðviljinn - 12.04.1990, Blaðsíða 15
fram vegum. Hinar fyrstu myndir
Hermesar voru „hermarnir“,
ferkantaðar steinsúlur með
mannshöfði og útskornum fallusi
á miðri súlu. Slíkar súlur notuðu
Grikkir til þess að merkja landa-
mæri. í rauninni var Hermes
leiðbeinandi manna, er síðar þró-
aðist upp í það að verða leiðarljós
sálarinnar er stóð á mörkum
tveggja heima. Áherslan á fallus-
artáknið ítrekaði jafnframt hlut-
verk hans sem frjósemisguð er
stýrði viðkomu manna og dýra.
Hermes var jafnframt verndari
mælskulistar og tónlistar, honum
var þökkuð uppgötvun eldsins og
hann var sendiboði guðanna. Og
hann tengdist ástargyðjunni Ven-
us því hann gat með henni Kúpíð,
sem er ástarengillinn. Eitt megin-
einkenni Merkúrs eru vængjuðu
skórnir, sem gerðu honum kleift
að vera sendiboði guðanna.
Ficino, virtasti heimspekingur-
inn í Flórens á dögum Botticelli,
þýddi m.a. hið forna handrit
Corpus Hermeticum, sem eignað
var Hermesi hinum þrímagnaða
(Hermes Trismegistus). Þar
kemur fram að hinum þrímagn-
aða Hermesi (eða Merkúr) er
eignaður sá eiginleiki að kenna
mönnum réttu leiðina til þess að
ná til Guðs. Það taldi Ficino að
hvorki yrði gert með ímyndun né
tilfinningu, heldur aðeins með
þekkingu. Á endurreisnartíman-
um var Merkúr/Hermes því
tengdur við handritshöfundinn
Hermes Trismengistus sem visk-
uboðberi.
Eining and-
stæðra afla
Þá er komið að því að fjalla um
samband Merkúrs og Venusar í
myndinni, sem ekki liggur í
augum uppi. í ritgerð sinni, „An
Alchemical Interpretation of the
Marriage Between Mercury and
Venus“, sem hér hefur mikið ver-
ið stuðst við, bendir Barbara Gal-
lati á, að Hermes Trismengistus
hafi verið álitinn einn af frum-
kvöðlum gullgerðarlistar, sem
var formóðir efnafræðinnar. En
gullgerðarlistin snérist ekki bara
um það að búa til gull.
Gullgerðarlistin var eins konar
heimspeki eða dulspeki, sem
gekk út á það að hreinsa andann
með sameiningu andstæðra eðlis-
þátta, til dæmis sálar og líkama.
Á máli gullgerðarlistarinnar er til
dæmis samhverfa sólar og mána
hliðstæða brúðkaups Venusar og
Merkúrs. Samhverfa eða hjóna-
band tveggja andhverfra þátta
leiddi á máli gullgerðarlistarinnar
til hins tvíkynja hermafródíts. í
grískri goðafræði er Hermafró-
dítus einmitt sonur Merkúrs/
Hermesar og Venusar/Afródítu.
Ef samlíkingunni við sól og
mána er haldið áfram, þá er sólin
(sem er karlkyns í flestum tung-
umálum) kennd við hinn virkari
aðila í sambandinu, þar sem sólin
var t.d. talin orsaka vaxandi eða
minnkandi tungl, og tunglið þig-
gja ljós sitt frá sólu. Hinn síend-
urtekni hringur vaxandi og
minnkandi mána var einnig
tengdur fæðingu, dauða og
endurfæðingu eða upprisu, sem
einnig mátti iesa út úr sólar-
hringnum og árstíðahringnum.
Sú endurnýjun sem þarna á sér
stað í efnisheiminum átti sér and-
lega hliðstæðu samkvæmt gull-
gerðarlistinni, og það eru einmitt
þessar hliðstæður sem settar eru
fram í mynd Botticellis, Prima-
vera.
Ástarævintýri
Zefírs
Á hægri helming myndarinnar
sjáum við myndræna framsetn-
ingu á goðsögunni um Zefír, sem
var persónugervingur vestan-
vindarins og vorboðans í trúar-
brögðum við Miðjarðarhafið.
Zefír varð heltekinn af ástar-
bríma gagnvart árstíðagyðjunni
Chloris samkvæmt goðsögninni,
og lét sig ekki fyrr en hann hafði
tekið hana með valdi. Við það
umbreyttist Chloris yfir í blóma-
gyðjuna Flóru, og það er sú saga
sem hægri helmingur myndarinn-
ar segir. Á sama hátt og Zefír er
kveikjan að þessari líkamlegu
umbreytingu Chloris yfir í Flóru á
hægri væng myndarinnar, þá er
Merkúr sá sem umbreytir hinni
holdlegu ást yfir í andlega ást á
vinstri helming myndarinnar.
Merkúr sem vegvísirinn er vísar
leiðina yfir landamærin á milli
tveggja heima, Merkúr sem visk-
ubrunnur og sá sem vísar leiðina
til Guðs umbreytir hinni holdlegu
ást yfir í andlega ást: eins og
Chloris umbreytist í Flóru fyrir
tilverknað Zefírs og hinnar hold-
legu ástar, þá umbreytist hin
holdlega ást í heilaga ást á vinstra
helming myndarinnar fyrir til-
verknað Merkúrs. Og á sama hátt
og Venus er hliðstæða Maríu
Guðsmóður, þá er Merkúr viss
hliðstæða við Krist. Merkúr held-
ur á tákni sínu, snáknum sem vef-
ur sig um staf eða kross, og hann
snertir með því skýin sem loka
sýn okkar til Guðs. Carl Gustav
Jung hefur bent á hliðstæðuna á
milli hins krossfesta Krists og
snáksins á krossinum sem tákns
Merkúrs.
Kúpíðinn yfir höfði Venusar
(sem samkvæmt goðsögunni var
skilgetið afkvæmi Venusar og
Merkúrs) hefur logandi ör á
streng, og beinir henni að gyðj-
unni í miðið. Gyðjurnar þrjár,
eða skógardísirnar, eiga uppruna
sinn í goðsögninni um dóm París-
ar: samkvæmt henni táknuðu
gyðjurnar Fegurð, Einlífi og
Freistingu, og átti sú er stendur
fyrir einlífið að vera í miðju. í
málverki Botticellis er það gyðj-
an í miðjunni sem er brúðurin
Semiramide Appiani og Merkúr
sem er brúðguminn, Lorenzo di
Pierfrancesco de'Medici. Brúð-
urin berar öxl sína þannig að örin
hæfi hana í hjartastað, og að-
dáunarfull augu hennar beinast
að brúðgumanum Merkúr/Kristi/
Lorenzo, sem snýr baki í dísirnar
þar sem hann er upptekinn við að
greiða þokuna frá hinu beina
sambandi við Guð, sem jafn-
framt er æðsta form ástar. Á
sama hátt og sú vorkoma sem
Venus boðar þýðir ummyndun
náttúrunnar, þannig tekur sú ást-
arhvöt sem maðurinn á sameigin-
lega með dýrunum (tímgunar-
hvötin) umbreytingu og verður
að hinni heilögu ást sem felst í
stöðugri íhugun og sambandi við
almættið.
Rétt er að taka það fram í lok-
in, að tákngildi í mynd Botticellis
eru hér langt í frá öll talin eða
fullráðin. Nánast öll fyrirbæri
sem koma fyrir í myndinni eiga
sér ákveðna merkingarlega for-
sendu. Það á ekki síst við um
blómgróðurinn, fatnaðinn á per-
sónunum og mynstrinu í klæðun-
um. f botngróðri skógarins eru
yfir fjörutíu nafngreindar blóm-
tegundir, sem höfðu ákveðna
táknræna merkingu á endur-
reisnartímanum, sem Botticelli
notar til þess að undirstrika boð-
skap myndarinnar. Til dæmis er
jarðarberjablómið sem Chloris
ber í munni sér tákn freistingar-
innar. Appelsínulundurinn sem
brúðkaupið gerist í var tákn
Medici-ættarinnar og brúðar-
laufið á bak við Venus var tákn
ástleitni. Og lárviðartrén tvö,
sem sveigjast inn í myndina frá
hægri, gætu verið nafnlíking við
gefanda og þiggjanda myndar-
innar sem báðir voru kenndir við
lárvið: Lorenzo.
Kjarni málsins er þó sá, að hér
sjáum við sögulegt brúðkaup í
Flórens frá lokum 15. aldar
njörvað inn í heimsmynd nýplat-
ónistanna sem höfðu sett sér það
meginmarkmið að aðlaga heiðna
gríska heimspeki að kristinni lífs-
skoðun. f verki sínu er Botticelli
ekki að túlka manninn sem boð-
bera sögunnar eins og fyrirrenn-
arar hans í myndlist frumendur-
reisnarinnar höfðu gert. Fjar-
víddin eða hin raunsanna eftirlík-
ing ytri veruleika voru ekki við-
fangsefni hans, heldur hugmynd-
in sem liggur á bak við hinn ytri
veruleika, hugmyndin um hinn
mannlega Venus (Venus-
Humanitas) sem frummynd og
fyrirmynd þeirrar fullkomnunar
sem ein var eftirsóknarverð.
Botticelli hafði snúið frá þeirri af-
stöðu húmanistanna sem í mynd-
máli gáfu rými og fjarvídd
táknræna merkingu sem leiksvið
og sögulegan vettvang Mannsins
sem geranda í sögunni. Botticelli
dró hinn ytri veruleika í efa, hann
leit ekki á manninn sem slíkan
sem aflvaka eða geranda í sög-
unni eins og Mantenga og Piero
della Francesca höfðu gert, held-
úr var það hugmyndin handan
hins ytri veruleika sem var við-
fangsefni hans. Botticelli endaði
líf sitt í sálar- og trúarkreppu sem
lýst hefur verið sem forboða
þeirrar trúarkreppu sem siða-
skiptavakningin orsakaði í hinum
kristna heimi. í rauninni var ný-
platónisminn heimspeki trúar-
kreppunnar og listaverkin sem
hann gat af sér hjá mönnum eins
og Botticelli og Michelangelo
bera mörg einkenni hennar.
ólg
Greinin er að mestu unninn upp
úr bókinni Botticelli's Primavera,
a Botanical Interpretation In-
cluding Astrology, Alchemy and
the Medici eftir Mirella Levi
d'Ancona, Barbara Gallati, John
J. Petrizzo og Cheryl Wacher.
Einnig er stuðst við grundvallar -
rit Carlo Giulto Aargan: Storia
delPArtae Italiana.
Fimmtudagur 12. apríl 1990 NÝTT HELGARBLAÐ — SÍÐA 15